153. löggjafarþing — 116. fundur
 5. júní 2023.
fordæming ólöglegs brottnáms úkraínskra barna, síðari umræða.
þáltill. utanrmn., 1122. mál. — Þskj. 1866.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[15:54]

[15:49]
Bjarni Jónsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Brottnám úkraínskra barna er stríðsglæpur. Innrásin í Úkraínu tekur á sig margar hræðilegar myndir. Ein þeirra er brottnám barna, sem eru slitin frá fjölskyldu og ættingjum og tekin frá því samfélagi sem þau hafa alist upp í og færð á framandi slóðir í hendur nýrra fósturforeldra og alin upp í öðru þjóðerni, öðrum gildum. Þau missa öll tengsl við fólkið sitt, menningu, uppruna og þjóðerni. Alþingi Íslendinga fordæmir í dag harðlega ólöglegt og kerfisbundið brottnám úkraínskra barna á hernumdum svæðum rússneska hersins í Úkraínu og flutning þeirra, jafnt innan þeirra svæða og til Rússlands og Belarúss.



[15:50]
Logi Einarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Þingflokkur Samfylkingarinnar, eins og aðrir þingflokkar, styður þessa tillögu heils hugar. Það er auðvitað ánægjulegt að íslenska þingið taki ákveðið frumkvæði í máli af þessu tagi. Birtingarmyndir stríðs eru margar óhuggulegar. Þessi er svívirðileg og það er mikilvægt að stjórnvöld fylgi þessari ályktun eftir og hvetji önnur bandalagsríki okkar til að fylgja í kjölfarið.



[15:50]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Þingflokkur Pírata styður þessa tillögu. Það er mjög mikilvægt að við fordæmum þessa stríðsglæpi sem eru þáttur í verknaði þjóðarmorðs, gríðarlega alvarlegt. Þetta er hluti af þjóðernishreinsunum. Þetta er með þeim verstu glæpum sem til eru. Það er rétt hjá Alþingi Íslendinga að fordæma þá og ég er stolt af því að við séum að gera það hér og nú.



[15:51]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég vil, eins og aðrir hv. þingmenn hér, taka eindregið undir þessa tillögu og það gerir þingflokkur Viðreisnar að sjálfsögðu allur. Það skiptir máli að svona yfirlýsingar séu afdráttarlausar og það sé samhugur og eindrægni á bak við svona yfirlýsingu. Það er algerlega þannig af hálfu Viðreisnar.

Ég vil einnig þakka hv. þingmanni og formanni utanríkismálanefndar fyrir hans frumkvæði líka, að tala skýrt þegar kemur að Úkraínu og segja að við ætlum ekki að hætta að styðja Úkraínu í hvaða málum sem er til að verja okkar lýðræði og frelsi í álfunni. Og að sjálfsögðu þarf að tala skýrt þegar kemur að þessari grófu misbeitingu Rússa á öllu því sem viðkemur stríði, ekki síst gagnvart börnum. Ég vil þakka hv. þingmanni og formanni nefndarinnar fyrir hans störf þegar kemur að yfirlýsingum sem tengjast Úkraínu.



[15:52]
Gísli Rafn Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Rétt eins og aðrir sem hingað hafa komið upp þá fagna ég því að við séum fyrst þjóðþinga til að fordæma þessa stríðsglæpi. Mig langaði að ítreka nokkuð sem ég sagði hér í umræðu um þetta mál fyrir helgi. Það er áskorun til hæstv. utanríkisráðherra um að skoða hvort við getum ekki á einhvern hátt stutt við sálgæslu þeirra barna sem koma aftur til Úkraínu frá Rússlandi.



[15:53]
utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (um atkvæðagreiðslu):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég vildi bara nota tækifærið og koma hingað upp til að þakka hv. utanríkismálanefnd fyrir vinnunna og þinginu fyrir að eiga frumkvæði að því að taka upp málið. Það er gríðarlega mikill sómi að því að við hér séum fyrst þjóðþinga til þess að að álykta með þessum hætti. Allt skiptir máli sem við gerum, bæði núna, fyrir málefnið sjálft og fyrir fólkið sem er að berjast fyrir sínu frelsi og friði, en líka almennt upp á það að gera það sem er rétt og skiptir máli fyrir framtíðina og þá skrásetningu á þeim tímum sem við lifum, að við séum að bregðast við með þeim hætti sem hér er gert.



Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Till.  samþ. með 55 shlj. atkv. og sögðu

  já:  AIJ,  ArnG,  ÁBG,  ÁsmD,  ÁsF,  ÁLÞ,  BGuðm,  BergÓ,  BÁ,  BirgÞ,  BjG,  BjarnJ,  BHar,  DME,  FRF,  GRÓ,  GE,  GÞÞ,  GuðmG,  GIK,  GHaf,  GFH,  HHH,  HSK,  HallM,  IngS,  IÓI,  JSkúl,  JFF,  JPJ,  JónG,  LA,  LRS,  LínS,  LE,  NTF,  OH,  OPJ,  ÓBK,  SGuðm,  SDG,  SIJ,  SigurjÞ,  SVS,  SÞÁ,  SSv,  TBE,  TAT,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞorbG,  ÞKG,  ÞórdG,  ÞSÆ,  ÞSv.
8 þm. (ÁslS,  BjarnB,  HKF,  HVH,  JFM,  KJak,  KFrost,  ÞórP) fjarstaddir.