153. löggjafarþing — 118. fundur
 7. júní 2023.
um fundarstjórn.

undanþága vegna tollfrjáls innflutnings frá Úkraínu.

[12:01]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Þetta snertir einmitt stjórn þingsins og eins og fólk veit erum við á lokametrunum. Ég rek augun í það að þrátt fyrir eindregna skoðun hæstv. forsætisráðherra, eindregna skoðun hæstv. utanríkisráðherra, og ég veit að fleiri ráðherrar þessara tveggja flokka bera sama hug til undanþágu fyrir vörur frá Úkraínu, þá er þetta mál hvergi á dagskrá þingsins. Það kemur mér mjög á óvart eftir eindregna stefnu, sýn og orð forystufólks flokkanna. Við vitum það alveg sem erum hér að það er einn flokkur fyrst og fremst og eitthvert brot innan úr Sjálfstæðisflokknum sem er að stoppa þetta mál. Framsóknarflokkurinn vill ekki að þetta mál njóti framgangs eða forgangs hér. Herkvaðning, að mínu mati hagsmunaaflanna, hefur náð hingað til að stoppa þetta mál sem er mjög táknrænt. Það er ekki margt sem við Íslendingar getum gert til þess að styðja Úkraínu. Við höfum gert það vel fram að þessu og við eigum að sjá sóma okkar í því að halda áfram í þann tíma sem stríðið í Úkraínu varir að framlengja þessa undanþágu. Það er ofvaxið mínum skilningi af hverju þetta mál er ekki komið og af hverju hugsanlega er verið að stoppa þetta af hálfu formanns efnahags- og viðskiptanefndar og Framsóknarflokksins. (Forseti hringir.) Ég er ekki bara reið, ég er mjög leið yfir því að sjá ekki þetta mál á dagskrá flokkanna þegar það er alveg skýr vilji, að mínu mati meiri hluta þingsins, (Forseti hringir.) til að framlengja þessa undanþágu.



[12:03]
Hanna Katrín Friðriksson (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Ég kem hingað upp af sömu ástæðu og fyrri þingmaður til að ræða það sem virðist vera að íslensk stjórnvöld ætli að setja sig í sérflokk þegar kemur að aðstoð við Úkraínu og það ekkert sérlega eftirsóknarverðan sérflokk, eina vestræna ríkið sem ekki virðist ætla að framlengja táknræna en þó mikilvæga aðstoð við Úkraínu sem, svo ég vitni í vinsælt orðalag frá flestum ráðherrum ríkisstjórnarinnar, er að berjast fyrir okkar gildum við afturhaldsöfl Pútíns. Þetta er mikilvægt mál. Þetta er búið að velkjast um í stjórnkerfinu í einhverjar vikur. Undanþágan er runninn út, undanþága til að flytja inn tollfrjálst alifuglakjöt. En það truflar. Við getum ekki veitt þá aðstoð. Ég neita að trúa því að Alþingi Íslendinga ætli að vera svona smátt. (Forseti hringir.) Ég neita að trúa því.



[12:04]
Guðbrandur Einarsson (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég verð nú að koma hingað upp í pontu og taka undir orð samherja minna í Viðreisn um þetta mál sem er í raun og veru mjög dapurlegt í mínum huga að skuli ekki koma hér fram. Stríðinu í Úkraínu er ekkert lokið. Stríðið stendur enn yfir. Fólk er enn þá að deyja. Fólk er enn að deyja og við sögðum hér einróma í þessum sal á sínum tíma að við ætluðum að standa með Úkraínu þar til yfir lyki. Öll sem eitt tókum við undir það að standa með fólkinu í Úkraínu, öll sem eitt. Ég hef verið að spyrjast fyrir um þetta mál inni í efnahags- og viðskiptanefnd en ekki fengið þau svör sem ég hef viljað. Sem betur fer er fundur í efnahags- og viðskiptanefnd á morgun og ég mun halda áfram að spyrja um málið, því að það er algerlega ótækt ef við ætlum að láta þetta (Forseti hringir.) falla á milli skips og bryggju. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[12:06]
Sigmar Guðmundsson (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég segi það sama og hér hefur verið sagt: Hversu smá ætlum við að vera? Þegar íslenskir ráðamenn, hæstv. forsætisráðherra, hæstv. utanríkisráðherra, taka í höndina á Selenskí og baða sig í faðmlögum Selenskís þá er verið að ræða þetta, stuðning við úkraínsku þjóðina. Þetta er smátt framlag af okkar hálfu en mjög táknrænt og ég trúi því ekki að menn ætli að láta hér staðar numið, að það sé fjárhagslegur þrýstingur sérhagsmuna sem ráði því hvort við höldum áfram að styðja þjóð í stríði sem stendur vörð um okkar gildi. Það sama er að gerast og gerðist þegar við vorum að beita Rússa refsiaðgerðum hér fyrir einhverjum árum síðan. Það kom þrýstingur frá útgerðinni: Við erum að tapa peningum á þessu, við verðum að hætta. Þá stóð pólitíkin að mestu leyti í lappirnar og við hljótum að geta ætlast til þess hér og nú að það sama gerist. Við hljótum að ætla að styðja við úkraínsku þjóðina með þeim hætti sem við getum þangað til yfir lýkur og stríðinu lýkur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)