153. löggjafarþing — 121. fundur
 8. júní 2023.
tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, 2. umræða.
stjfrv., 939. mál (geymsla og nýting fósturvísa og kynfrumna). — Þskj. 1469, nál. m. brtt. 1977.

[20:05]
Frsm. velfn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Hér mæli ég fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, nr. 55/1996, um geymslu og nýtingu fósturvísa og kynfrumna. Þetta er nefndarálit frá hv. velferðarnefnd.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um tæknifrjóvgun þannig að í stað skyldu til að eyða kynfrumum eða fósturvísum ef annar þeirra sem stendur að tæknifrjóvgun andast eða hjúskap eða sambúð er slitið verði einstaklingum gert heimilt að veita vottað og skriflegt samþykki fyrir notkun kynfrumna og fósturvísa til tæknifrjóvgunar á eftirlifandi maka eða fyrrverandi maka þrátt fyrir skilnað eða sambúðarslit. Gerð er krafa um að sá sem vilji nýta kynfrumur eða fósturvísa á þennan hátt sé einhleypur þegar að tæknifrjóvgun kemur og geti notað kynfrumurnar eða fósturvísi í eigin líkama. Þá eru samhliða framangreindum breytingum lagðar til breytingar á barnalögum um að þeir einstaklingar sem standa saman að ákvörðun, þ.e. leghafi sem óskar eftir tæknifrjóvgun og fyrrverandi maki sem samþykkt hefur notkun leghafans á kynfrumum eða fósturvísi eftir andlát, skilnað eða sambúðarslit, verði foreldrar barns sem þannig er getið.

Þetta var um efni málsins en nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund gesti og henni bárust umsagnir. Gerð er grein fyrir gestakomum og umsögnum í nefndaráliti sem liggur frammi.

Í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar um málið vill nefndin árétta sérstaklega að við meðferð málsins í nefndinni var rætt um ýmis álitaefni sem tengjast breytingum á lögum um tæknifrjóvgun og tengdum breytingum á barnalögum, m.a. um réttarstöðu barna. Í umsögnum sem nefndinni bárust er að finna ábendingar um að ekki sé þörf á að setja það sem skilyrði að einstaklingar sem vilji nýta fósturvísa í kjölfar skilnaðar, sambúðarslita eða andláts annars aðilans séu einhleypir. Bent var á að tímabært væri að afnema nafnleynd kynfrumugjafa og að leggja þurfi sérstakt mat á áhrif frumvarpsins á börn. Jafnframt var fjallað um skráningu á foreldrastöðu og breytingar á skráningu á foreldrastöðu.

Þá vill nefndin geta þess að fyrr á þessum þingvetri var lagt fram frumvarp á þskj. 8 sem hv. þm. Hildur Sverrisdóttir lagði fram. Í því frumvarpi er gengið lengra en í frumvarpinu sem hér er til umfjöllunar. Þar er m.a. lagt til að gjöf fósturvísa verði heimiluð og að sambúð eða hjúskapur verði ekki lengur skilyrði fyrir því að einstaklingar geti staðið saman að tæknifrjóvgun í þeim tilgangi að búa til barn. Nefndin tekur fram að vanda þurfi til verka við breytingar á lögum um tæknifrjóvgun sem og við samsvarandi breytingar á barnalögum. Skoða þarf ákvörðunarrétt einstaklinga sem leitast eftir tæknifrjóvgun í samhengi við réttarstöðu barns sem verður til við þær aðstæður.

Í 4. kafla í greinargerð með frumvarpinu er að finna upptalningu á þeim ákvæðum stjórnarskrár, laga og alþjóðasamninga sem vernda hagsmuni barna. Í 6. kafla er svo að finna mat á áhrifum frumvarpsins á þau sem geyma kynfrumur, pör sem geyma fósturvísa, fyrirtæki sem annast tæknifrjóvgunarferli og áhrifum á Þjóðskrá Íslands. Nefndin telur ástæðu til að brýna fyrir heilbrigðisráðuneyti að við breytingar á lögum um tæknifrjóvgun og barnalögum þurfi að leggja fyrir sjálfstætt mat á áhrifum breytinganna á réttindi og stöðu barna sem verða til með þessum hætti en skv. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem lögfestur var með lögum nr. 19/2013, ber að hafa bestu hagsmuni barns að leiðarljósi þegar stjórnvöld gera ráðstafanir sem varða börn. Í því felst m.a. að leggja mat á áhrif frumvarpa á réttindi og hagsmuni barna með hliðsjón af ákvæðum laga og alþjóðasamninga sem gilda um þau réttindi.

Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að fyrirhuguð sé heildarendurskoðun barnalaga og laga um tæknifrjóvgun þar sem m.a. eigi að skoða nafnleynd kynfrumugjafa. Þar mun því gefast tækifæri til að kanna ábendingar sem fram komu í umsögnum um málið. Nefndin leggur áherslu á að við þá heildarendurskoðun verði sérstaklega litið til barnasáttmálans um rétt barns til að njóta foreldra og til að þekkja uppruna sinn.

Þá að breytingartillögum nefndarinnar. Nefndin leggur til breytingar á frumvarpinu sem rétt er að gera grein fyrir. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að samkvæmt ákvæðum barnalaga geti barn einungis átt tvo foreldra. Með hliðsjón af því þyki rök standa til þess að gerð sé krafa um að sá sem gengur með barn sé einhleypur þegar tæknifrjóvgun eigi sér stað, þ.e. sá sem gengur með barn og er í þeirri stöðu sem gerð er grein fyrir í frumvarpinu, þ.e. að annar aðili sem stendur að tæknifrjóvguninni sé látinn eða skilnaður hafi orðið. Jafnvel þó að lögin gætu mælt fyrir um foreldrastöðu án þess að gera kröfu um að leghafi sé einhleypur sé hætt við að sú staða geti skapað árekstra mismunandi væntinga og hagsmuna og með því skapað togstreitu og álag fyrir barnið. Þá segir einnig í greinargerðinni að nýr maki þess sem undirgengist hefur tæknifrjóvgun í samræmi við skilyrði tillagna frumvarpsins geti eftir atvikum farið með forsjá barnsins eða stjúpættleitt barn.

Í umsögnum sem bárust nefndinni eru gerðar athugasemdir við þann áskilnað að einstaklingur þurfi að vera einhleypur ætli hann sér að nýta fósturvísa eða kynfrumur í kjölfar skilnaðar, sambúðarslita eða andláts annars aðilans. Í minnisblaði ráðuneytisins sem barst nefndinni kemur fram að ráðuneytið leggist ekki gegn slíkri breytingu sem gerð yrði í framhaldi af þessari ábendingu, svo framarlega sem það yrði áréttað og skýrt í barnalögum hverjir eigi að teljast foreldrar barnsins. Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum telur nefndin rétt að leggja til breytingartillögu þess efnis að áskilnaður um að einstaklingur sé einhleypur falli brott, enda komi skýrt fram í barnalögum hverjir eigi að teljast foreldrar barnsins, það er annars vegar sá sem gengst undir tæknifrjóvgun og hins vegar sá sem samþykkt hefur að tæknifrjóvgun fari fram á eftirlifandi maka eða fyrrverandi maka. Þá eru lagðar til minni háttar eða lagatæknilegar breytingar sem þarfnast ekki sérstakrar umfjöllunar. Vísast að öðru leyti til ítarlegri umfjöllunar um breytingartillögur í nefndarálitinu.

Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir. Undir nefndarálitið rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Ásmundur Friðriksson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Guðrún Hafsteinsdóttir, Halldóra Mogensen, Jódís Skúladóttir, Oddný G. Harðardóttir og Óli Björn Kárason.

Ég vil þakka nefndinni fyrir gott samstarf við vinnslu málsins og að lokum, virðulegi forseti, vil ég ítreka að við breytingu á lögum um tæknifrjóvgun og samsvarandi breytingar á barnalögum þarf að vanda til verka. Ég álít einmitt að þetta frumvarp sé vandað og vel ígrundað sem og þær breytingartillögur sem nefndin leggur til.



[20:15]
Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna og hv. velferðarnefnd fyrir að vinna þetta mikilvæga mál. Eins og hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni lá líka fyrir nefndinni frumvarp um sama efni frá hv. þm. Hildi Sverrisdóttur. Þegar ég skoða vefinn þá get ég ekki séð að það hafi verið tekið fyrir sérstaklega á fundi. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort það frumvarp hafi fengið umfjöllun í nefndinni samhliða vinnu þess stjórnarfrumvarps sem hér er verið að afgreiða.



[20:16]
Frsm. velfn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur andsvarið. Eins og kemur fram í nefndaráliti horfði nefndin til þess frumvarps og fjallað var um það á sumum þeirra funda sem nefndin hélt um málið. Meðal annars voru þeir sérfræðingar sem komu frá Háskóla Íslands, dómsmálaráðuneytinu og heilbrigðisráðuneytinu beðnir sérstaklega að gera grein fyrir mismuninum á þessum tveimur frumvörpum og farið var yfir muninn á tillögunum sem þar eru lagðar fram og tillögunum sem lagðar eru fram í þessu frumvarpi. Þar kom jafnframt fram hvaða breytingar eða undirbúningsvinna þyrfti að fara fram varðandi þær tillögur sem ganga lengra í frumvarpinu sem lagt var fram sem mál nr. 8 síðastliðið haust.



[20:17]
Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir þetta svar. Í ljósi þess að við þingmenn fáum ekki oft afgreidd frumvörp hér í þessum sal, og jafnvel enn síður þingmenn í stjórnarliðinu, tel ég mjög mikilvægt að þegar svona gott frumvarp er lagt fram, eins og frumvarp hv. þm. Hildar Sverrisdóttur er, fái það umfjöllun samhliða. Ég veit að það er umræða um það hvernig við eigum að vinna með þessi mál inn í framtíðina og ég þakka hv. þingmanni því fyrir svarið og ítreka mikilvægi þess að svona frumvörp fái áheyrn og umfjöllun samhliða ef sambærilegt mál liggur fyrir eins og er í þessu tilfelli.



[20:18]
Bryndís Haraldsdóttir (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég vil bara endurtaka þakkir til hv. velferðarnefndar og til hæstv. ráðherra fyrir að leggja þetta mikilvæga mál fram. Ég var hér í eldhúsræðu í gær að tala um barnsfæðingar og mikilvægi þeirra og talaði um að við þyrftum að gera þjóðarátak í barnsfæðingum. Það er auðvitað þannig að það er ekki sjálfsagður hlutur að geta eignast barn og margir þurfa aðstoð við það. Hana eigum við að sjálfsögðu að veita og það er auðvitað þannig að við viljum alls ekki að lögin séu að hefta fólk. Þau eiga frekar að aðstoða fólk sem er í þeirri stöðu að geta ekki eignast barn nema með aðstoð. Þess vegna held ég að það sé ofboðslega mikilvægt að, eigum við að segja, nútímavæða þessi lög, horfa til breytts samfélagsmynsturs og fjölskyldumynsturs.

Mig langar að þakka nefndinni sérstaklega fyrir þessa breytingu sem hér er lögð til sem ég veit að hv. þm. Hildur Sverrisdóttir vakti sérstaklega athygli á, að það væri vond krafa sem upphaflega frumvarpið gerði, að þær konur sem myndu vilja nýta sér kynfrumur og fósturvísa í þeim tilvikum sem frumvarpið kveður á um yrðu að vera einhleypar. Í kjölfarið var mjög mikilvægt að því hafi verið breytt. Þannig að ég fagna því að það sé búið að fella niður þetta skilyrði og að konur megi þá nýta sameiginlega fósturvísa. Það er nefnilega ekki ríkisins að passa upp á að ákveða fyrir fólk hvernig þessir hlutir eigi að vera. Þannig að ég ítreka bara þakkir mínar. Ég held að þetta sé mikilvægt. Eins og hv. framsögumaður nefndi hér áðan, Líneik Anna Sævarsdóttir, gekk frumvarp hv. þm. Hildar Sverrisdóttur lengra þannig að ég lít svo á að hér séu stigin ákveðin skref en við þurfum jafnvel að stíga enn fleiri.



[20:20]
Jódís Skúladóttir (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að fagna því að þetta mál sé komið út úr nefnd og að við séum að stefna í rétta átt og betri átt í þessum málaflokki. Ég er svo einlæglega þakklát fyrir hvert einasta skref sem við sem samfélag stígum í átt að meira réttlæti og skilningi gagnvart einhverju sem á að vera svo almennt. Mér finnst sérstaklega mikilvægt að við setjum ekki fólk sem glímir við ófrjósemi, barnleysi og þarf að leita sérfræðiaðstoðar alltaf undir smásjána.

Þegar við setjum þetta upp á þennan einfalda hátt, hver sem er, hvar sem er, hvenær sem er og hvernig sem er, getur farið og búið til barn eftir gömlu aðferðinni, og á því höfum við ekki eftirlit af því að í hjarta okkar finnst okkur það ekki koma nokkrum manni við hvernig börnin verða til, en þegar einstaklingar, sökum einhvers konar heilsubrests, eitthvað verður til þess að fólk getur ekki eignast börn, hinsegin fólk t.d., það geta verið ýmsar ástæður, þá finnst okkur sérstök ástæða — við viljum safna persónuupplýsingum. Við viljum fá undirrituð leyfi. Við viljum láta skrá sérstaklega í hinum ýmsu stofnunum. Við viljum fara rosalega langa leið. Ég skil að það er verið að hugsa um hag barnsins en hagur barna sem búin eru til með glasafrjóvgun er ekki dýrmætari en hagur annarra barna. Þetta þekkjum við úr samfélaginu okkar.

Mig langar að vísa sérstaklega til þess þegar við innleiddum hér nýja löggjöf um persónuvernd. Þá fórum við öll af stað og vönduðum okkur gríðarlega mikið og fórum að mörgu leyti offari í þeirri vinnu. En það sem svo gerðist þegar tíminn leið var að við fórum að sjá að við öfluðum meiri persónuupplýsinga, viðkvæmra persónuupplýsinga, t.d. um fatlað fólk, fólk af erlendum uppruna, fólk í viðkvæmri stöðu, fólk í félagslegum vanda. Þetta er hættan, alltaf þegar við erum komin með einhvers konar jaðarsetta hópa, þegar við erum farin að setja upp einhvers konar eftirlit og einhverjar skyldur, þá hættir okkur til að ganga lengra gagnvart ákveðnum hópum. Mig langaði að koma hérna upp og vekja athygli á þessu.

Ég á sjálf þrjú börn sem getin eru með glasafrjóvgun, fjögur börn í heildina. Ég hef þurft í gegnum þau ferli að svara mjög einkennilegum spurningum, bæði í því ferli og á fæðingardeildinni. Ég hef þurft að mæta með einhverja pappíra um það að konan mín samþykki meðferð á mér. Hvar er ákvörðunarréttur yfir eigin líkama þar, þegar löggjafinn festir það í orðanna hljóðan að einhver gefi aðgang að mínum líkama? Ég veit að hugurinn á bak við er góður en það snýst samt um það að við séum ekki með okkar löggjöf, með okkar regluverki, sem við setjum af góðum hug, að mismuna fólki, jaðarsetja hópa, fylgjast betur með einum einstaklingi en öðrum, setja þyngri kröfur fjárhagslega, andlega, líkamlega á einn einstakling umfram annan af því það er ekki samfélag sem við viljum búa í.

Þess vegna kem ég hér upp, til að brýna okkur í því að við allt það sem við gerum, eins og t.d. þetta mál, sem var aðkallandi, sem er mikilvægt og sem velferðarnefnd lagði sig fram um að vinna vel og er hér komið til afgreiðslu inn í þingsal, þá megum við aldrei gleyma því að við þurfum að vera með jafnréttis- og sanngirnisgleraugun þannig að með því að auka réttindi eða vera víðsýnni eða opna umræðuna þá séum við ekki á sama tíma að jaðarsetja ákveðið fólk.



[20:26]
Gísli Rafn Ólafsson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Mig langar að byrja á því að þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa komið hér upp og rætt þetta mál og bent á góða hluti, stundum frá eigin reynslu. Það er mikilvægt í svona starfi að við hlustum á þá sem þurfa að ganga í gegnum þau lög sem við erum að setja.

Mig langar líka að þakka hv. velferðarnefnd fyrir góða vinnu við þetta frumvarp og það að laga suma af þeim vanköntum sem eru á því eins og t.d. að vera að skipta sér af hjúskaparformi þeirra sem nýta sér þessar kynfrumur og fósturvísa. Það kemur okkur ekkert við svo lengi sem allir eru sammála. Ég hefði viljað sjá þetta ganga aðeins lengra, líka þegar kemur að hjúskaparstöðu þeirra sem geta gefið samþykki. Þar er talað um fyrrverandi maka. Það er ekkert einfaldlega þannig hjá öllum að það séu makar sem eru að gefa kynfrumurnar. Við eigum heldur ekki að vera að skipta okkur af því ef tveir einstaklingar ákveða að búa til fósturvísa og ákveða að það megi nota þetta eftir skilnað eða sambúðarslit eða lát annars aðilans. Þá á það hreinlega að vera leyft. Ég hefði viljað sjá okkur ganga enn lengra en þetta er skrefið sem við munum stíga þennan veturinn.

Ég vona að við höldum áfram að skoða þessi mál, höldum áfram að hlusta þegar okkur er bent á hvað sé asnalegt í lögunum eins og þau eru, að við hlustum á sögurnar frá fólkinu sem lendir á vegg þegar kemur að því að fara í gegnum þau lög sem við erum að samþykkja hér og nýtum okkur það til að gera löggjöfina enn betri.