154. löggjafarþing — 10. fundur
 28. september 2023.
stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025, fyrri umræða.
stjtill., 234. mál. — Þskj. 237.

[14:25]
háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli nú í annað sinn fyrir tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025. Tillaga þessi felur í sér stefnu og aðgerðaáætlun á sviði háskóla- og vísindastarfs, í nýsköpun og hugverkaiðnaði, í fjarskiptum, upplýsingatækni og netöryggi. Við flutning þessara málaflokka til háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins skapaðist grundvöllur og tækifæri fyrir markvissa stefnumótun og stjórnsýslu á þessum sviðum með aukinn vöxt, verðmætasköpun og velsæld að leiðarljósi.

Saga atvinnu og efnahagslífs á lýðveldistímanum hefur einkennst af uppgangi og samdrætti á víxl í helstu atvinnugreinum þjóðarinnar. Einsleitni í atvinnuháttum hefur aukið áhrif slíkra breytinga á afkomu þjóðarbúsins. Til framtíðar skiptir það mjög miklu máli fyrir afkomu þjóðarinnar að auka fjölbreytni í efnahagslegum stoðum þjóðarbúsins. Þannig varð til sú sýn mín að lykillinn að bættum lífsgæðum þjóðarinnar og auknum tækifærum í atvinnulífi felist í hinni ótakmörkuðu auðlind, hugvitinu, sem verði grunnurinn að stærstu útflutningsgreinum þjóðarinnar.

Virðulegur forseti. Í fyrstu er í tillögunni fjallað um aðgerðir sem styðja við markmið í háskóla- og vísindastarfi. Íslenskir háskólanemar eiga skilið betra háskólanám og samfélagið á skilið að hér séu háskólar á heimsmælikvarða. Þangað eigum við að stefna. Hin Norðurlöndin hafa öll átt skóla á meðal 100 bestu háskóla í heimi og við eigum frábæra kennara og hæfileikaríka og metnaðargjarna nemendur sem hafa staðið sig vel í erlendum háskólum, komandi úr íslenskum háskólum, en kerfið hefur leitt til ákveðinnar sóunar og hvorki veitt skólunum þann stuðning né búið til hvata sem er forsenda framúrskarandi árangurs. Margt er framúrskarandi gott í íslenskum háskólum en við getum gert betur og í síðustu viku kynnti ég kerfisbreytingu sem ætlunin er að fara í við úthlutun fjármagns til háskólanna. Farnar verða nýjar árangurstengdar leiðir til að hvetja skólana til dáða og eitt af því sem ætlunin er að gera, sem mig langar að nefna sérstaklega í þessari ræðu í dag, því ég næ aldrei að fara yfir alla þingsályktunartillöguna, er að ýta undir enn meira fjarnám og nútímalegri kennsluaðferðir.

Enginn maður stígur tvisvar í sömu ána því áin er aldrei sú sama og maðurinn er aldrei sá sami. Einhvern veginn svona er þekkt tilvitnun í heimspekinginn Herakleitos en með þessum orðum lýsti hann því að um árfarveginn rennur alltaf nýtt vatn og að hver einstaklingur breytist jafnt og þétt með tímanum. Í síðustu viku þá gaukaði móðuramma mín að mér blaðaúrklippu frá árinu 1984. Hún hefur geymt hana í nærri 40 ár vegna þess að í blaðinu var umfjöllun um dóttur hennar sem hún missti, móður mína Kristínu Steinarsdóttur kennara. Umfjöllunin var um það að nokkrir kennarar ætluðu sér að fara um landið til að gefa landsbyggðarfólki kost á að kynnast tölvum og tölvunotkun. Orðrétt sagði í greininni frá 1984:

„Aðstöðumunur milli landsbyggðarmanna og þeirra sem búa í þéttbýlinu við Faxaflóa er afar mikill hvað varðar tækifæri til tölvunáms. Tölvuskólarnir eru nær allir í Reykjavík og landsbyggðarmenn verða að leggja í tímafrekt og kostnaðarsamt ferðalag þangað, til þess að tileinka sér hina nýju tækni.“

Jafnframt kom fram að ætlunin væri að bjóða fötluðu fólki ókeypis aðgang að þessum tölvunámskeiðum. Vatn úr mörgum án hefur runnið til sjávar frá því að elsku mamma lagði land undir fót og ýmislegt hefur breyst á nærri 40 árum en samt er það svo, líkt og Herakleitos hélt fram, að í allri breytingu er einhver stöðugleiki og í þessu tilviki er stöðugleikinn því miður sá að enn er ólíðandi aðstöðumunur milli þeirra sem búa úti á landi og þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Enn hefur fólk sem býr úti á landi ekki sömu tækifæri til náms og höfuðborgarbúar. Í hvert einasta sinn sem ég er með skrifstofu utan höfuðborgarsvæðisins kemur til mín fólk sem langar að læra, tileinka sér nýja þekkingu og hæfni, styrkja sig og efla en búa á sama tíma í sinni heimabyggð. Alls staðar er spurt: Af hverju bjóða háskólarnir ekki upp á enn meira fjarnám? Blessunarlega hefur fjarnám aukist stórlega undanfarin ár. Sumir háskólar eins og Háskólinn á Bifröst og Háskólinn á Akureyri hafa eflt fjarnám verulega og enn fleiri skólar eru að sækja fram, m.a. í gegnum samstarf háskólanna, og má þar t.d. nefna átak þeirra til að efla íslenskukennslu með fjarnámi og auka leikskólakennaranám í gegnum fjarnám. Í október verður aftur úthlutað fjármagni til samstarfs háskólanna og það er von mín að skólarnir sýni frumkvæði og metnað og sendi inn umsóknir sem opna skólana enn betur fyrir fólki alls staðar að úr samfélaginu, m.a. í gegnum aukið fjarnám.

En enginn maður stígur tvisvar í sömu ána því áin er aldrei sú sama og maðurinn er aldrei sá sami. Ekki síst vegna þess verður allt skólakerfið að stíga inn í nútímann, horfast í augu við að áin er ekki sú sama og þegar Háskóli Íslands tók til starfa 1911 til að mennta presta, lækna, lögfræðinga, og horfast í augu við að nemendur eru núna með allt aðrar kröfur, væntingar, drauma og þrár. Við verðum að mæta nýjum veruleika, nálgast nemendur á þeirra heimavelli alveg eins og mamma mín heitin lagði sig fram um að gera fyrir svo margt löngu.

Virðulegi forseti. Mig langar að nefna nokkra aðra þætti í þingsályktunartillögunni sem ég get ómögulega farið yfir í einni ræðu en við höfum stigið risastórt skref í eflingu umhverfis nýsköpunar á liðnum árum. Við erum nú í 20. sæti meðal þjóða í að vera besta nýsköpunarland í heimi. Við viljum gera betur og það eru nokkrir þættir sem valda því að við erum ekki hærri á þeim lista. Ég vona líka að markmið allra stjórnmálamanna sé að hagræða í ríkisrekstri og veita á sama tíma betri þjónustu, koma í veg fyrir sóun, nýta fjármunina sem best og að við þorum að ráðast í kerfisbreytingar þar sem þess er augljóslega þörf. Bæði á það við um háskólana og nýsköpunina. Við viljum að styrkir og fjárfestingar ríkisins í nýsköpunarumhverfinu séu á þeim sviðum þar sem markaðsbrestur er til staðar. Við viljum að það sé yfirsýn og gagnsæi og að umsýslukostnaði sé haldið í lágmarki. Umhverfi rannsókna og þróunar hefur styrkst verulega á síðustu árum og í síðasta ári fóru rúmlega 8 milljarðar kr. í gegnum stuðningskerfi opinberra samkeppnissjóða og mun fleiri milljarðar ef fleiri sjóðir eru teknir með í myndina. Stuðningskerfið verður að vera gott svo nýjar hugmyndir og frumkvöðlastarf verði að veruleika og skapi bæði ný störf og verðmæti fyrir íslenskt samfélag.

Í dag eru 55 sjóðir á sviði rannsókna, þróunar og nýsköpunar og a.m.k. 40 þeirra eru með sérstakar stjórnir. Samtals teljast því vera 136 stjórnarmenn í þeim 40 sjóðum sem upplýsingar fundust um. Þetta er partur af þeirri vinnu sem hér er nefnd í tillögu til þingsályktunar, það þarf að fara í yfirferð á þessu sjóðaumhverfi öllu saman, gera betur, nýta fjármuni betur og hafa það ekki síst aðgengilegra og einfaldara að sækja um fyrir þau litlu fyrirtæki og fólk sem er oft eitt að byrja með hugmyndina sína. Aðgengi að þessum sjóðum er mjög misgott. Um helmingur sjóðanna er í umsýslu Rannís þar sem má nálgast upplýsingar um starfsemi þeirra, aðrir sjóðir eru með eigin heimasíðu eða með undirsíðu hjá ráðuneytum eða í einhverjum tilvikum bara í fréttatilkynningum ráðuneyta. Umsóknarkerfin eru líka mjög mörg og mismunandi og margir klukkutímar og dagar sem fara í það hjá litlum fyrirtækjum og frumkvöðlum. Þetta er allt frá umsóknum á pappírsformi yfir í rafræn umsóknarform. Af þeim rúmu 8 milljörðum sem fara til úthlutunar má gera ráð fyrir því að a.m.k. 5–10% af fjárframlögunum fari í umsýslukostnað og því má áætla að a.m.k. 800 millj. kr. fari í umsýslukostnað sem er ómældur kostnaður fyrir atvinnulífið og gjarnan frumkvöðla sem verja líka vinnu í ráðgjöf við umsóknir sem eru oft á tíðum torskildar og flóknar. Á þessu er tekið í þessari þingsályktunartillögu og er í forgangi hjá mínu ráðuneyti að vinna að nú.

En það eru fleiri vandamál sem við stöndum frammi fyrir og hægt er að fara hér yfir, m.a. við innleiðingu stafrænna lausna og nýsköpunar í okkar eigin kerfi og þá langar mig að nefna heilbrigðiskerfið sérstaklega. Í greiningu ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey kemur fram að starfsfólki Landspítalans muni fjölga um 36% og rekstrarkostnaður aukast um 90% ef þróunin áfram verður óbreytt til ársins 2040. Kostnaðurinn væri þá t.d. að fara, ef við tökum árið 2019 þegar þessi greining var gerð, úr 78 milljörðum í 148 milljarða. Aukinn kostnaður stafar auðvitað líka af lýðfræðilegum breytingum þar sem íbúum landsins fjölgar og þeir lifa lengur en fyrri kynslóðir en á hinn bóginn sýnir í sömu greiningu að ef brugðist verður við með nýjum ferlum, stafrænum lausnum, nýsköpun og tækni þá mun aukin þjónusta ekki leiða til nema 3% fjölgunar starfsfólks og 30% hækkunar á heildarkostnaði til ársins 2040. Þar horfum við fram á gjörbreytta mynd.

Við eigum framúrskarandi fyrirtæki á heilbrigðissviði, framúrskarandi nýsköpunarfyrirtæki og rannsókna- og vísindafólk sem hefur komið með lausnir á heimsmælikvarða og eru nýttar um allan heim. Hér þurfum við að horfa í eigin barm og átta okkur á því hvernig við getum nýtt þessar lausnir til að bjóða fólki hér betri þjónustu, nýtt fjármunina betur og ekki síst nýtt þessa ofboðslega góðu tækni og lausnir sem bjóðast annars staðar og eru íslenskar. Hér er mikið verk fyrir höndum og það er því eitt af áherslumálum í þingsályktunartillögunni að innleiða nýsköpun í heilbrigðiskerfið. Við höfum byrjað þar með innleiðingu á stuðningi Fléttunnar sem hefur nú þegar skilað sér í þeim mikilvæga árangri að heilbrigðisstofnanir eru farnir að versla við íslensk hugvitsfyrirtæki.

Virðulegur forseti. Gervigreindin er auðvitað líka farin að hafa áhrif á allt okkar líf. Það á ekki síst við um nám og kennslu á ýmsum skólastigum, Íslenska er annað tungumálið sem innleitt var hjá ChatGPT og það var mikilvægt skref fyrir okkur til að nýta okkur gervigreindina en sýnir einnig hversu tæknivædd við erum sem þjóð. Gervigreindin verður mikilvægur þáttur og er orðin það í rannsóknum, þróun og nýsköpun og iðnaði og öllu menntakerfinu. Hröð tækniþróun og viðvarandi krafa samfélagsins um nýtingu stafrænna lausna til að skapa tækifæri geta aukið lífsgæði en veldur því að viðfangsefnið býr líka til óþrjótandi uppsprettu nýrra áskorana.

Sérstaða Íslands sem eyju fjarri öðrum löndum gerir ríka kröfu til fjölda og áreiðanleika fjarskiptasæstrengja. Netárásir hafa aldrei verið fleiri og veikasti hlekkurinn er fólginn í andvaraleysi, vanþekkingu og mannlegum mistökum. Þess vegna höfum við sett á netöryggisaðgerðaáætlun, þá fyrstu á Íslandi, þar sem hægt er að fylgjast með rafrænt hvernig fram vindur sem er mikilvægt til þess að við verjum okkur betur.

Í þingsályktunartillögunni er kynntur fjöldi aðgerða sem styðja við markmið í fjarskiptum og upplýsingatækni og netöryggi til að bregðast við þessum framtíðaráskorunum. Þar má Ísland ekki dragast aftur úr og þar megum við ekki sofna á verðinum. Ísland má ekki dragast aftur úr í gagnaflutningi til landsins því við viljum vera eftirsóknarverður áfangastaður nýsköpunar og tæknifyrirtækja áfram. Ísland verður að vera samkeppnishæft að öllu leyti og íbúar á landsbyggðinni þurfa að hafa sama aðgengi og íbúar á stór-höfuðborgarsvæðinu. Í nútímasamfélagi er það einfaldlega forsenda þess að koma á jafnrétti óháð búsetu að tryggja að bæði störf og nám geti í auknum mæli verið óháð staðsetningu.

Margt annað er hér í þingsályktunartillögunni sem ég myndi vilja nefna. Við vorum að fá nýjar tölur um hvar við stöndum þegar við berum okkur saman í nýsköpun í heiminum og þar stöndum við í stað í 20. sæti núna á milli ára. Það sem er áhugavert er að það sem dregur okkur einna mest niður er bæði erlend fjárfesting sem og hvað við útskrifum fáa úr STEM-greinunum svokölluðu, raungreinum, vísinda- og tæknigreinum. Þar erum við í 84. sæti meðal þjóða. Þá er tekið á jafnréttismálum bæði er varða háskólana okkar þar sem staða drengja er ekki nógu góð. Það er tekið á nýsköpunarmálum þar sem staða kvenna er ekki nógu góð og það er tekið á jafnréttismálum líka varðandi fjarskiptamálin og netöryggi, stafvæðingu og hvernig það snertir jöfn tækifæri.

En, virðulegi forseti, með þá framtíðarsýn að leiðarljósi sem kemur fram í þingsályktunartillögu þessari tel ég forsenda vaxtar felast í breyttum áherslum í menntakerfinu, vísindum, nýsköpun, iðnaði og upplýsingatækni, gervigreind, öflugum fjarskiptum og netöryggi. Verði tillagan sem ég mæli hér fyrir samþykkt sem þingsályktun heiti ég því að hrinda í framkvæmd þessum stefnumótandi aðgerðum til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi og hlakka til að fá þingið með mér þar í lið. Þar getum við leyst úr læðingi þá krafta sem myndast við samþættingu hugmynda og hreyfiafls í þessum málaflokkum, til fjölgunar nýrra starfa og tækifæra sem auka vöxt og verðmætasköpun íslensks samfélags og styðja við velsældarmarkmið stjórnvalda.

Virðulegur forseti. Ég hef lagt til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar. Aftur á móti eru sjónarmið um það að við séum hér að tala um útflutningsgrein atvinnulífs og nýsköpunar og að tillagan eigi því betur heima hjá atvinnuveganefnd. En auðvitað á hún í rauninni líka heima í umhverfis- og samgöngunefnd þar sem hér er m.a. fjallað um fjarskipti og netöryggi. En ég vil fá að heyra sjónarmið þingmanna um þetta.



[14:40]
Elva Dögg Sigurðardóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari umræðu um nýsköpun enda er stefnumörkun í þessum efnum mjög mikilvæg. Ég hef skoðað samfélagslega nýsköpun mikið undanfarið og þá sérstaklega í Danmörku. Þar er til að mynda háskólanám á meistarastigi sem lýtur sérstaklega að þessum málaflokki. Þar er einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum sem hafa nýsköpunarhugmyndir tengdar félagslegum ábata sérstaklega gert hátt undir höfði. Þar er vitað að það er mjög varasamt að hafa samfélagslega nýsköpun ekki í forgrunni þegar nýsköpun er rædd á annað borð. Því spyr ég hvers vegna ekki sé lögð meiri áhersla á samfélagslegar nýsköpunarlausnir í þessari þingsályktunatillögu. Það þarf að koma inn meiri stuðningi við samfélagslegar áskoranir og þá nýsköpun sem lýtur ekki bara að tækniframförum heldur framförum í hugmyndum sem tengjast því aðstoða okkur, bæta samfélagið okkar, að takast á við þær félagslegu áskoranir sem við erum alltaf að glíma við, hvort sem um er að ræða atvinnusköpun, jaðarsetta hópa, ungt fólk, eldra fólk og þeirra áskoranir eða samþættingu á mörgum samfélagsáskorunum.

Hvernig ætlum við að mæta félagslegum þörfum í gegnum nýsköpun, í gegnum fjölbreyttari leiðir en áður hafa verið farnar, ekki bara í tengslum við hugvit sem stærstu útflutningsgrein þjóðarinnar heldur hér heima, okkar samfélagslegu þarfir og hröðu breytingar? Hvernig styður þessi þingsályktunartillaga við það að þekking og hugmyndir af samfélagslegum toga fái meira vægi? Til að kjarna mál mitt þá spyr ég einfaldlega: Af hverju er ekki meira fjallað um samfélagslega nýsköpun í þessari ályktun? Hefur það einfaldlega gleymst eða er það meðvituð ákvörðun og er þá hugsanlega einhvers meira að vænta í þessum efnum?



[14:42]
háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir og býð hana velkomna á þing. Þetta er mjög mikilvægur punktur og ég held að við eigum alltaf að tala um nýsköpunina þannig að hún sé að nýtast samfélaginu öllu og það gerum við gegnumgangandi með því hvernig við ræðum um að nýta nýsköpun inni í kerfunum okkar, eins og ég talaði um heilbrigðiskerfið. Það á líka við um félagslega kerfið, það á við í menntakerfinu, hvernig við styðjum við fólk með ólíkan bakgrunn og tryggjum að nýsköpunin styðji við fólk með fjölbreyttan bakgrunn og fatlað fólk t.d.

Það er auðvitað tekið á nokkrum þáttum í þingsályktunartillögunni, þ.e. loftslagsmálum og heilbrigðisþjónustu sérstaklega. En þetta voru góðar ábendingar hjá hv. þingmanni og eitthvað sem nefndin þarf að ræða frekar. Það er ýtt undir að nýsköpun ýti undir jöfn tækifæri og að umhverfið verði sem skilvirkast. Það er líka þannig að hugmyndir koma frá einstaklingunum sjálfum og það er fjöldi nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi sem eru einmitt að fást við þessa félagslegu þætti, þessar samfélagslegu áskoranir, hvort sem það eru félagslegu þættirnir sem hv. þingmaður nefndi eða samfélagsáskoranir sem blasa við okkur, með öldrun þjóðarinnar og í loftslagsmálum, bara til að taka tvær stórar áskoranir sem við okkur blasa. Einnig að búa til almennt gott stuðningsumhverfi nýsköpunar svo að allar þessar hugmyndir blómstri og að við í kerfunum okkar, hjá stjórnvöldum og stjórnkerfinu, nýtum þær. Það er held ég að lykillinn að því að við ýtum undir þessa félagslegu nýsköpun, eins og hv. þingmaður orðaði það.



[14:44]
Elva Dögg Sigurðardóttir (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég samt sem áður sakna samfélagslegu áskorananna í þingsályktunartillögunni og spyr einfaldlega aftur hvers vegna þessi samfélagslegu orð eru ekki notuð og eins hvort ráðherra telji að það sé líklegt eða hvort farið verði af stað í háskólanum með einhver plön um að setja af stað slíka menntun eins og ég nefndi að er í Danmörku.



[14:45]
háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka bara hv. þingmanni fyrir. Varðandi það þá er það kannski ekki verkefni háskólaráðherra að setja beint á dagskrá hvað háskólar eigi að kenna, í umhverfi sjálfstæðra háskóla, en það er mikilvægt að búa til hvata fyrir háskólana til að ýta undir og kenna ákveðnar greinar. Það höfum við gert með samstarfi háskólanna þar sem þeir byrja með nýjungar og nýjar leiðir og þetta væri einmitt eitthvað sem myndi uppfylla þær kröfur sem þar koma fram, að bjóða upp á nýjar leiðir sem styðja við nýsköpun og aðra þætti. Þannig að þetta er eitthvað sem algerlega ætti að taka til umræðu og ég bara fagna því að hv. þingmaður komi með þessar athugasemdir hér og sé ekkert því í vegi að háskólarnir fari ekki að huga betur að þessu enda erum við í fyrsta skipti að fjármagna háskólanám með hvata til að tengja sig betur við nýsköpun og tengja sig við samfélagslegar áskoranir sem hefur ekki verið áður og þar eru félagslegar áskoranir auðvitað inni.



[14:46]
Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hæstv. háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fyrir þá vinnu sem lögð hefur verið í þessa þingsályktunartillögu. Ég hefði gjarnan viljað sjá hana gilda lengur en bara til 2025, sérstaklega þar sem hún kom fram í vor og er ekki mikið óbreytt, ef ég man rétt, og ég hefði viljað að hún horfði sex mánuðum eða 12 mánuðum lengra. En það er margt í þessari tillögu sem er af hinu góða og ég held að það sýni sig, sérstaklega í greinargerðinni, að það er verið að leggja margt undir vegna þess að það er margt sem þarf að gera, sérstaklega vegna þess að við lifum á tímum sem eru ört að breytast. Það gerir að verkum að við þurfum að horfa á bæði menntakerfið, innviði okkar og atvinnulífið og það er mikilvægt að við sem þing séum að vinna saman að því að styðja við þessar breytingar.

Við Píratar viljum byggja upp sjálfbært samfélag sem getur tekist á við sjálfvirknivæðinguna og fjórðu iðnbyltinguna. Við teljum að til þess að geta tekist á við þessar miklu breytingar sem eru fram undan þurfum við, þvert á alla flokka, að vinna saman að því að skapa nýsköpunarlandið Ísland þar sem tækifærin eru að finna hjá fólki úti um allt land. En til að það verði að raunveruleika þá þarf öfluga, sjálfbæra og græna innviðauppbyggingu í öllum sveitarfélögum landsins til að koma til móts við áskoranir framtíðarinnar. Það er nefnilega, eins og hæstv. ráðherra benti á, mikilvægt að við séum með háhraðatengingar hvar sem er á landinu þannig að það skipti ekki máli hvort þú situr í Kópavogi eða á Kópaskeri þegar kemur að því að hafa möguleika á atvinnu. Við þurfum að skapa fleiri tækifæri fyrir framtíðarkynslóðir og sjálfbærni landsins með nýsköpun. Þessi nýsköpun þarf að eiga sér stað í opinberri starfsemi. Þessi nýsköpun þarf að eiga sér stað með samstarfi við atvinnulífið og með því að gera Ísland að þekkingarmiðstöð fyrir framtíðarsamfélagið. Saman þurfum við sem erum hér inni að koma í veg fyrir langtímaatvinnuleysi með því að bjóða upp á nýjar leiðir, efla nýsköpun og fjölga undirstöðum íslensks iðnaðar. Sjálfvirknivæðingin sem er á næstu grösum gerir það að verkum að mörg þeirra starfa sem við störfum við í dag verða ekki til staðar eftir fimm til tíu ár þegar börnin okkar fara út á vinnumarkaðinn. Sem þjóð þurfum við að leggja mikla áherslu á nýsköpun sem lykilinn að því að takast á við þennan síbreytilegan heim. Við þurfum að byggja upp aðstöðu til nýsköpunar um allt land í náinni samvinnu við sveitarfélög og frumkvöðla. Við þurfum einnig að einfalda stofnun, skipulag og fjármögnun nýsköpunarfyrirtækja og það þarf að huga að nýsköpun á mun breiðari grunni en hingað til. Þar tek ég undir orð þingmanns hér á undan í fyrirspurn. Það þarf m.a. að setja skýra stefnu um samfélagslega nýsköpun og græna nýsköpun.

Við þurfum líka að stórauka styrki til nýsköpunar með sérstaka áherslu á þessa grænu sprota og samfélagslegu nýsköpunina því þeir hafa minni aðgang að fjármagni frá fjárfestum, a.m.k. í upphafsskrefunum. Á sama tíma þurfum við líka að vinna í, eins og hæstv. ráðherra sagði, að fá hingað til lands mun meira erlent fjármagn til nýsköpunar. Þar þurfum við, og ég hvet hæstv. ráðherra að leggja í þá vinnu, að átta okkur á því hverjar hindranirnar eru. Hvað er það sem veldur því að fjárfestar koma ekki hingað? Þurfum við einfaldlega að fá fleiri til að koma og heimsækja landið? Það er oftast auðvelt. Eða er ástæðan t.d. sú sem var á tímum gjaldeyrishaftanna að það voru aukaskref hér sem gerðu það að verkum að fullt af fjárfestum vildu ekki koma af því að það var einfaldlega of flókið? Þetta þurfum við allt að skoða.

Eins og bent er á þá þurfa áherslur nýsköpunar að ná inn í menntakerfið og allan opinberan rekstur til að ná hagræði með nýrri tækni og þekkingu. Mig langar líka að nefna það að við Píratar höfum lagt til að við stöndum saman hér á Alþingi að því að Ísland skapi sér forystu með því að stofna hér alþjóðlegt þekkingar- og nýsköpunarsetur á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Það er gullið tækifæri sem við Íslendingar höfum til að byggja á okkar reynslu og þekkingu, miðla því hvernig við höfum gert þetta, t.d. að nýta gufu til að búa til rafmagn og til að hita hús og við höfum verið að fara með þá þekkingu víða um heiminn. Þetta gætum við nýtt okkur sem grunn í það að setja slíkt setur upp.

Mig langar að ljúka þessari ræðu minni með því að segja að við lestur þessarar þingsályktunartillögu og greinargerðarinnar sem hér fylgir með sést að grundvallarstefið í þessari tillögu gengur út á atvinnu, nýsköpun og iðnað framtíðarinnar. Já, það er talað um háskólana og já, það er talað um fjarskiptin, en grunnurinn er þekkingarsamfélagið og sú nýsköpun og sú nýja stoð sem hugvitið er. Eins og segir í þingsályktunartillögunni, með leyfi forseta:

„Hugvitið, hin ótakmarkaða auðlind, verði grunnurinn að stærstu útflutningsgreinum þjóðarinnar. Sjónum verði beint að sjálfbærri þróun atvinnulífs og samfélags með þekkingu og hugvit að leiðarljósi í stað þess að byggja á takmörkuðum auðlindum sem hafa í gegnum tíðina valdið sveiflukenndu efnahagsástandi.“

Þetta er greinileg vísun í það að hér er verið að fjalla um atvinnu- og útflutningsgreinar og því teldi ég að þetta frumvarp ætti að fara í atvinnuveganefnd sem hefur með nýsköpun og atvinnulífið að ræða. Það er eflaust hægt að færa alls konar rök fyrir því að senda það annað, jafnvel fara út í einhverjar langlokur um að þetta ætti að heima kannski í velferðarnefnd, ég veit það ekki, af því að hér er heilbrigðistækni nefnd. Ég hvet hv. þingheim um að senda þetta til atvinnuveganefndar sem mun taka þetta góða mál fyrir og vinna vel í því þannig að við getum staðið öll saman að góðri þingsályktunartillögu um þekkingarsamfélagið.



[14:55]
Dagbjört Hákonardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fyrir yfirferð sína í þessu ágæta máli. Við getum auðvitað öll fallist á mikilvægi þess að efla hugvit á Íslandi og ég ætla að fullyrða að það ríki þverpólitísk sátt um það. Það er og verður rétt forgangsröðun að leggja áherslu á að það verði burðarliðurinn í íslenskum útflutningi til framtíðar, þ.e. hugvitið, og ég ætla ekki að setja út á það efnislega. Þunginn í tillögunni felst hins vegar í að háskólasamfélagið fái tilhlýðilega athygli og alúð, hér verði rannsóknarhlutverk háskóla aukið og metnaður og hugvit virkjað í því skyni að efla þekkingu og skapa ný tækifæri fyrir vísindafólkið okkar, sem er vel.

Ég ætla ekki að rekja það frekar sem fram kemur í tillögunni heldur nota tækifærið til að vekja máls á því sem er ekki að finna í henni, sem er sívinsæll liður hér í ræðustóli Alþingis. Í aðgerðum tillögunnar er nefnilega ekki einu orði minnst á hugvísindi og sama vægi hafa félagsvísindin og þá er ég ekki að telja með þær athugasemdir sem bárust við meðferð málsins á 153. löggjafarþingi. Hér er mikil áhersla lögð á STEAM-greinar umfram annað, sem er ensk skammstöfun fyrir vísinda-, tækni- og verkfræðigreinar, auk lista og stærðfræði. Þetta eru mjög mikilvægar greinar en það er ástæða til að taka undir þær athugasemdir sem m.a. bárust frá Landssambandi íslenskra stúdenta í maí í fyrra um að þessi áhersla stjórnvalda beri þess merki að hún grundvallist á þörfum atvinnulífsins umfram kannski gæði námsins eða hag nemenda.

Atvinnulífið á nefnilega ekki að hafa forræði á þeirri þekkingarsköpun sem á að eiga sér stað innan háskólanna. Ef háskólanám og rannsóknarstarfsemi innan þeirra þjónar fyrst og fremst þeim tilgangi að snúa hjólum atvinnulífsins og á forsendum þess þá getur það ekki síst haft áhrif á sjálfstæði háskólanna. Það er eiginlega bara alveg hægt að fullyrða að það muni á endanum hafa áhrif, vegna þess að þá verða þeir jú háðir fjárveitingum fjársterkra aðila á markaði sem hafa mjög mikla hagsmuni af því að háskólar hér á landi útskrifi aðila sem munu m.a. hafa það hlutverk að hafa eftirlit með starfsemi þeirra í framtíðinni. Þetta er auðvitað nærtækt í næstum öllum fræðigreinum og ég nefni hérna félagsvísindagreinar á borð við lögfræði, hagfræði og viðskiptafræði í tengslum við opinbert markaðseftirlit sem við vorum að ræða hér áðan í sérstakri umræðu um Samkeppniseftirlitið. Þetta er auðvitað ekkert síður viðeigandi í raungreinum. Viljum við t.d. að sjávarútvegurinn sjái alfarið um að fjármagna rannsóknir og stöðugildi í háskólunum í tengdum greinum? Það er alveg hægt að halda áfram á þessum nótum.

Það er auðvitað alls ekki yfirlýstur tilgangur tillögunnar hér en við sjáum ekkert ávarpað sérstaklega um fyrirsjáanlega hagsmunaárekstra sem geta skapast að öðru leyti en því að rétt er komið inn á mikilvægi fræðilegs frelsis vísindamanna svo hægt sé að rækja samfélagslegt hlutverk háskóla með virkri þátttöku í samfélagsumræðu, m.a. til að sporna við upplýsingaóreiðu og falsfréttum. Þetta eitt og sér getur ekki verið eina áhyggjuefnið sem við veltum upp í tillögunni vegna þess að mér finnst það ábyrgðarhluti þegar jafn viðamikilli tillögu er komið á framfæri við þingheim að það sé ekki a.m.k. hugað að þessum áhættuþáttum, vegna þess að aftur þá kemur þetta bara sterklega inn á þá umræðu sem við höfum átt hér í dag um litla samfélagið okkar, um mikilvægi þess að veggir séu byggðir þegar það á við og það er bara mjög málefnalegt að gera í fákeppnissamfélagi.

Þá komum við nefnilega að kjarna málsins því að þegar við vorum að tala um upplýsingaóreiðu og falsfréttir sem eru ávarpaðar sérstaklega í tillögunni — mér finnst það einmitt kjarni málsins því að gagnrýnin hugsun er ekki afkvæmi STEAM-greina. Það eru ekki STEAM-greinarnar sem halda uppi kyndli gagnrýninnar hugsunar í þeirri miklu vegferð sem tæknibyltingin, fjórða iðnbyltingin, er að fara að valda hérna. Hún er afkvæmi hugvísindanna. Það eru hugvísindagreinar sem hvetja til hennar, hvetja til greiningarhugsunar og færni til að leysa vandamál og færni af þessu tagi er nauðsynleg til að greina og takast á við þessar flóknu áskoranir. Það er bara kjarninn í nýsköpun.

Ég vil líka nefna sagnfræði, heimspeki, bókmenntir, mannfræði og tungumál, og við þurfum siðfræðina þegar við tökum ákvarðanir um áhrif nýrrar tækni eða hugmyndasamfélagið, ekki síst þegar við innleiðum gervigreind í opinberri þjónustu, sem er nota bene bara tímaspursmál hvenær gerist.

Mig langar líka að nefna kynjafræði, félagsfræði og félagsráðgjöf. Þetta eru allt greinar sem eru kenndar í aðeins minni og oft og tíðum mun ljótari kennslustofum í opinberu háskólunum okkar heldur en í stórum sölum nýrra háskóla. Þetta eru greinar sem hafa ekki gífurlega sterkar tengingar við atvinnulífið. Við sjáum ekki auglýst eftir þessu fólki á síðum atvinnuauglýsinga og þetta eru ekki þau sem skora hæst í tekjublöðunum en háskólasamfélagið okkar er einskis virði án þeirra. Ég ætla bara að fullyrða það.

Ég ætla ekki að tala niður STEAM-greinar, ég er alls ekki að því, bara alls ekki. Þær lifa bara alls ekkert áhugaverðu lífi einar og sér. Þær bjóða ekki upp á djúpan skilning á mannlegri hegðun, viðhorfum og menningarlegu samhengi sem skiptir sköpum til að búa til vörur, þjónustu eða tækni sem á að gagnast okkar samfélagi. Nýstárlegar lausnir krefjast samvinnu þvert á ólíkar greinar. Það er rétt, það er reynt að koma inn á það, en hug- og félagsvísindi fela í sér sjónarmið sem bæta ofan á tæknilega sérfræðiþekkingu. Það verður að ávarpa það.

Ég get heldur ekki komið hingað upp og talað á þessum nótum án þess að benda á þá augljósu staðreynd að ef við ætlum að standa við gefin loforð um að tryggja tilvistarrétt íslensku tungunnar og tryggja henni lífdaga í heimi gervigreindar með vélnámi og ekki síst máltækni sem við erum á heimsmælikvarða í, við höfum séð stórkostlega hluti að fara af stað með Greyni og Emblu t.d., þá er ekki nóg að gefa út metnaðarfullar stefnur þvert á ráðuneyti og innan ríkisstjórnar, það þarf að sjá til þess að þær öðlist raunverulegt líf í verkum Alþingis og framkvæmdarvaldsins og birtist í fjárhagslegri forgangsröðun þar.

Úti um allan heim — þetta er ekki bara fagurgali í mér, ég er að endurspegla hér í dag þá forgangsröðun sem hefur verið fremsti oddi innan stefnumótunar Evrópusambandsins þar sem lögð er rík áhersla á samþættingu hug- og félagsvísinda við aðrar vísindagreinar. Ég má til með að vísa bara léttilega til athugasemda Reykjavíkurakademíunnar frá því í maí í fyrra við tillöguna á síðasta þingári en án þess að rekja það eitthvað frekar þá vil ég bara enn og aftur segja að við þurfum að lesa þetta allt saman til þess að auka samkeppnishæfni íslenskra vísindamanna í harðri alþjóðlegri samkeppni um fjármagn úr samkeppnissjóðum. Þá skiptir máli að við séum að tikka í þessi box þar sem þverfaglegt samstarf er lykillinn að velgengni og ég veit háskólamálaráðherra hefur hugsað um þetta. Það er gífurleg áhersla lögð á samvinnu innan háskólastiganna og ég fagna því. Ég vil bara svo gjarnan að við tölum um hlutina eins og þeir eru og nefnum þá að áherslan eigi að vera á hug- og félagsvísindi, rétt eins og þingmaður Viðreisnar kom inn á áðan, sem ég fagna sérstaklega. Það eru einmitt samfélagslegar áskoranir sem bara tölulegar tæknigreinar hafa kannski ekki endilega bestu svörin við. Ég er ekki að segja að fólkið þar inni sem nemur verkfræði og stærðfræði hafi ekki áhuga á samfélagslegum umbótamálum en við þurfum bara að lyfta sérfræðingunum upp til vegs og virðingar eins og þeir eiga skilið.

Virðulegi forseti. Það þarf einhver að halda kyndli hug- og félagsvísindi á lofti. Ég ætla að taka það að mér í dag. Ég gæti líka talað lengi um mikilvægi þess að hlúa að kjörum námsmanna til að styrkja háskólastigið en það verður bara að fá að bíða betri tíma. Þegar við eflum þekkingarsamfélag má ekki skilja neinar greinar eftir. Fámennir tímar í ljótum kennslustofum verða vonandi hluti af veislunni vegna þess að þeir aðilar sem þar sitja hafa mjög mikið fram að færa og eftir því sem ég fæ best séð er heldur betur nóg til á borðum. Um heimili málsins innan nefnda þá vil ég bara segja að mér finnst mjög eðlilegt að allsherjar- og menntamálanefnd þingsins fái að taka málið áfram í fangið þó að snertiflöturinn sé víðtækur. Ég hef mikinn áhuga á þessu máli og þarna er auðvitað margt jákvætt en við skulum leyfa öllum að vera með.



[15:04]
háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar ábendingar. Það er auðvitað þannig með þessa þingsályktunartillögu að hvert og eitt atriði gæti verið sérstök umræða á þinginu. Hér er farið yfir mjög stórt svið og mjög mörg atriði og eðli málsins samkvæmt komumst við aldrei yfir allt. Hér er auðvitað ekki verið að skilja neinar greinar eftir. Það er engan veginn ætlunin eða línan í þessari tillögu heldur einmitt lögð áhersla á þverfaglega nálgun og það á jafnt við um félags- og hugvísindin og aðrar greinar. Félagsvísindin eru gríðarlega mikilvæg til að takast á við stafræna þróun, ekki síst gervigreind svo að dæmi sé tekið. Það er aftur á móti þannig varðandi þær greinar sem eru teknar hér sérstaklega fram í einum kafla, sem hv. þingmaður er upptekinn af að sé einhvern veginn til þess að svara einungis þörfum atvinnulífsins, að við höfum verið að tala um hvernig við getum fjölgað nemendum í þessum greinum í mörg ár af því að við erum mjög aftarlega þegar kemur að samanburði við önnur lönd. Okkur vantar verulega sérfræðinga á þessu sviði svo að fyrirtæki ákveði að vera hér á Íslandi og það er hagsmunamál fyrir Ísland. Háskólarnir hafa auðvitað reynt þetta en það hefur ekki tekist. Hlutfallið hefur verið um 19% frá 2001, í 22 ár hefur hlutfallið í þessum greinum algjörlega staðið í stað. Við erum að setja okkur markmið og átta okkur á því hvernig við getum fjölgað í þessum greinum en það veikir ekki aðrar greinar eða segir að þessar greinar séu mikilvægari heldur snýst þetta um það hvernig við getum stutt þessa grein þar sem við höfum dregist aftur úr. Við erum í 84. sæti meðal þjóða, þetta dregur úr samkeppnishæfni Íslands alþjóðlega. Þetta dregur okkur niður þegar við erum að bera okkur saman við önnur lönd, hvort hér geti komið upp ný tækifæri og fjölbreytt störf, og þá vantar okkur fólk á þessum sviðum. Það er hagsmunamál fyrir alla Íslendinga og samfélagið allt, ekki einstök fyrirtæki, og þess vegna er það sérstaklega sett hér á dagskrá en minnkar ekki vægi annarra greina sem allar munu blómstra í nýju fjármögnunarmódeli.



[15:07]
Dagbjört Hákonardóttir (Sf) (andsvar):

Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir gott andsvar. Ég vil bara ítreka það sem ég sagði áðan. Við verðum að sjálfsögðu að draga atvinnulífið til ábyrgðar til að miðla þeirri þekkingu sem það er að búa til og það er alls ekkert athugavert við það að atvinnulífið komi með sterkum hætti inn í menntastofnanir okkar. Hins vegar megum við aldrei skapa þannig umhverfi að við séum því algerlega fjárhagslega háð í því að halda úti starfsemi. Mig langar að segja að þessi áhætta sé mest innan félagsvísindagreina vegna þess að hér erum við bara einfaldlega á þeim stað að þegar sérfræðingar eru t.d. kostaðir af stórum fyrirtækjum sem koma og kenna sín fræði þá verður til ákveðinn „bias“ og við megum huga að því, sérstaklega þegar þessi aðgerðaáætlun fer af stað, að faglegt sjálfstæði háskólanna sé algerlega tryggt hvernig sem við svo sem förum að því.

Varðandi það hvernig staða okkar er í alþjóðlegum samanburði innan háskólasamfélagsins þá gæti ég aftur talað lengi um það að það er auðvitað ákveðið markvisst svelti sem hefur átt sér stað. Ég ætla hins vegar ekki að gera það vegna þess að mig langar ekki til að drepa umræðunni á dreif. Mig langar til að tala um það sem við þurfum að huga að í nákvæmlega þessari aðgerðaáætlun. Ég vil bara gjarnan sjá það í verkum þessarar ríkisstjórnar að ef það er eitthvað til í því að hug- og félagsvísindagreinar eigi að fá að njóta góðs af þessari miklu þekkingarveislu þá sjáum við það raungerist með einhverjum hætti, í einhverju fýsísku formi. Annars bíð ég bara spennt og hlakka til að taka þetta mál til frekari meðferðar innan nefndarinnar, þ.e. í allsherjar- og menntamálanefnd.



[15:09]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma fram með þessa mikilvægu tillögu og fyrir þá umræðu sem hefur skapast. Ég ætla að segja að það væri hægt að halda hér langa ræðu og eins og hæstv. ráðherra kom inn á að væri í rauninni hægt að taka sérstakar umræður, eða langar umræður um hvern og einn punkt sem hér er undir. Mig langar bara nefna að það hefur í of langan tíma verið talað um hugverkaiðnaðinn sem svona einhverja hliðarbúgrein, sem einhverja framtíð, eitthvað huggulegt kósí, og mér finnst eins og við séum ekki alveg að átta okkur á að við erum að tala um raunverulega stoð í íslensku atvinnulífi. Í kringum Covid þá töluðum við um að útflutningsverðmæti hugverkageirans væri 20% af öllu útflutningsverðmæti Íslands, þannig að þetta er raunveruleg stoð.

Við höfum náð verulegum árangri í því hvað við erum að leggja til í rannsóknir og þróun. Við erum komin í 2,8% af vergri landsframleiðslu og langstærsti hlutinn af því, 72%, kemur frá einkageiranum, fyrirtækjunum sjálfum. En hið opinbera er líka mikilvægur þátttakandi í því að ýta undir frekari rannsóknir og þróun, ýta undir nýsköpun í samfélaginu og ég held að við höfum svo ofboðslega góða sögu að segja af þeim aðgerðum sem við höfum farið í kannski á síðustu tíu árum eða svo þar sem aðgerð eftir aðgerð hefur orðið þess valdandi að ýta undir og byggja frekar undir þessa stoð. Þar er af mörgu að taka og væri efni í sérstaka umræðu.

Mig langar að segja að við fengum þetta mál inn til okkar í allsherjar- og menntamálanefnd í fyrra. Það kom reyndar bara undir vorið þannig að við náðum ekki að ljúka því. Það komu umsagnir þannig að við náum aðeins að snerta á málinu í nefndinni. Mér finnst málið mjög áhugavert og myndi mjög gjarnan vilja taka það fyrir þar. Það er alveg ljóst að 1. kaflinn á klárlega heima í allsherjar- og menntamálanefnd, sem eru aðgerðir sem styðja markmið í háskóla- og vísindastarfi og allir liðirnir þar undir eru beintengdir því sem við erum að fjalla um í allsherjar- og menntamálanefnd.

Það er líka alveg rétt hjá hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni að allir punktarnir í 2. kaflanum hafa með atvinnumál að gera og gæti þar af leiðandi farið í atvinnuveganefnd. Svo er 3. kaflinn. Hann ætti eiginlega heima í umhverfis- og samgöngunefnd eða jafnvel í utanríkismálanefnd þegar kemur að netöryggi. Það er nú stundum svo að sviðið er vítt. Ég ætla að hrósa hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni fyrir raunveruleg rök fyrir því að þetta mál ætti mögulega heima í annarri nefnd en hér er lagt til af ráðherra, annað en kannski þessi umræða sem við vorum í fyrr í dag þar sem við vorum að takast á við einhvers konar rökleysu. Ég ætla sem sagt ekki að hafa neitt sérstaklega stórar skoðanir á því hvert málið fer. Mér finnst það geta átt heima í ýmsum nefndum. Ég mun ekki veigra mér við að taka það til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd en það er sagt að sú nefnd sé stór og víðfeðm og taki yfirleitt við flestum stjórnarmálum þannig að það má vel færa rök fyrir því að það geti átt heima annars staðar.

Að öðrum kosti, hvort sem við munum fjalla um þessa þingsályktunartillögu þar eða ekki, þá held ég að það sé alveg ljóst að við munum eiga fundi með hæstv. ráðherra um þá punkta í aðgerðaáætluninni sem lúta sérstaklega að okkar nefnd, að menntamálunum. Við höfum reyndar þegar hafið samtal við hæstv. ráðherra um það sem við höfum fengið kynningu á, breytingarnar á reiknilíkaninu fyrir fjármögnun háskólanna. Við höfum reyndar líka haft tækifæri til að heimsækja Háskóla Íslands og fá kynningu á starfseminni þar og okkur bíður spennandi vetur í hv. allsherjar- og menntamálanefnd að fjalla um menntamálin á öllum stigum menntunar.



Till. gengur til síðari umr.