154. löggjafarþing — 15. fundur
 16. október 2023.

Málshefjandi var .

sérstök umræða.

Þolmörk ferðaþjónustunnar.

[15:46]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Árið 2012 komu tæplega 650.000 ferðamenn til Íslands. Sex árum seinna voru ferðamenn orðnir rúmlega 2,3 milljónir talsins þegar flestir komu til Íslands. Það þýðir að um 44.000 ferðamenn eru hér á landinu að meðaltali á hverjum degi. Það eru 5.000 fleiri ferðamenn en allir íbúar Kópavogsbæjar sem er næststærsta sveitarfélag landsins. Í Kópavogi eru fjórar heilsugæslustöðvar, í Hamraborg, Urðarhvarfi, Hagasmára og í Salahverfi. Það ætti að gefa okkur hugmynd um hvaða álag er vegna ferðamanna á heilbrigðiskerfið.

Samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að á þessum áratug verði fjöldi ferðamanna á einu ári kominn upp í 3,5 milljónir. Það er því eðlilegt að spyrja, miðað við hvernig álagið var orðið fyrir Covid og hvernig horfurnar eru á komandi árum, hver þolmörk Íslands séu vegna ferðamanna. Hér er viðkvæm náttúra sem þolir illa átroðning. Hvernig ætlar ráðherra að verja náttúru landsins fyrir átroðningi og utanvegaakstri? Hvaða skilaboð fær hæstv. ráðherra frá umhverfisráðherra um þolmörk náttúrunnar? Eru til skilgreind þolmörk fyrir alla ferðamannastaði og hvað leggur ráðherra til til að ekki verði farið fram úr þeim viðmiðum?

Álagið vegna ferðamanna birtist okkur á mörgum stöðum í samfélaginu, ekki bara náttúrunni og heilbrigðiskerfinu. Álagið sést í samgöngum, löggæslu, hjá björgunarsveitum, í húsnæðiskerfinu og í áskorunum gagnvart skuldbindingum Íslands vegna loftslagsmála. Það ætti að vera tiltölulega auðvelt að bregðast t.d. við álagi á lögreglu. Það þarf einfaldlega fleira fólk. Fjármögnun ætti að vera tiltölulega auðveld líka þar sem skýr tengsl eru milli umfangs ferðaþjónustu og arðsemi hennar fyrir samfélagið. En við erum einhvern veginn í svona græðgisævintýri hérna á Íslandi. Síðasta ævintýri endaði með allsherjarhruni bankakerfisins og því ættum við að hafa lært að stíga varlega til jarðar. En miðað við hvernig málin eru að þróast í laxeldinu virðist enn og aftur að við séum orðin einhver fórnarlömb gróðavonar sem keyrir langt yfir öll þolmörk. Því er tímabært, ef ekki bara með síðustu tækifærum, að koma í veg fyrir neikvæðar afleiðingar af fjölda ferðamanna.

Markmið fyrirtækja í ferðaþjónustu sem og markmið stjórnvalda er að fá verðmætari ferðamenn í staðinn fyrir að fá fleiri. Þrátt fyrir þau markmið er gert ráð fyrir 3,5 milljónum á komandi árum. Og einfalda spurningin er því: Mun náttúran þola þann fjölda og mun samfélagið þola þann fjölda?

Ég efast ekki um að við getum byggt upp ferðamannaiðnað sem getur tekið við álíka fjölda og gert er ráð fyrir en það þarf þá að gerast áður en skaðinn er skeður. Því þarf að spyrja stjórnvöld: Hvað á að gera? Því að þótt það sé tvímælalaust efnahagslegur ávinningur fyrir Ísland að vera með góðan ferðamannaiðnað þá verðum við líka að gæta að gullegginu. Ég er því að vonast eftir því að ráðherra ferðamála geti málað fyrir okkur mynd af framtíðinni. Hvernig mun sjálfbær ferðaþjónusta líta út og hvernig munum við koma í veg fyrir að álagið valdi skaða þannig að við náum einhvers konar sjálfbærni? Hvernig á t.d. að stuðla að betri dreifingu ferðamanna? Þarf annan alþjóðaflugvöll, t.d. í öðrum landshluta heldur en hér á suðvesturhorninu, kannski við Húsavík? Ef einstaka ferðamannastaðir ná þolmörkum, hvernig á að koma í veg fyrir það álag án þess að skerða almannaréttinn og aðgengi heimamanna að eigin bakgarði?

Ferðamannaiðnaðurinn er augljóslega næsta gullgrafaraæði hérna á Íslandi. Getum við með góðri samvisku opnað bara dyrnar án þess að við tökum fyrst til heima hjá okkur þannig að við getum tekið vel á móti fólki? Spurningin er enn mikilvægari af því að ég býst við því að við viljum virða ferðafrelsið. Við erum því ekki að fara að telja inn í landið. Með það í huga, hvernig lítur framtíðin í ferðaþjónustu út í sátt við náttúruna og samfélagið miðað við stefnu stjórnvalda? Stjórnarsáttmálinn segir nefnilega, með leyfi forseta:

„Áfram verður unnið að uppbyggingu innviða í takt við fjölgun ferðamanna.“

En það ætti að vera augljóst að uppbygging innviða er þó nokkuð á eftir fjölgun ferðamanna og tilheyrandi álag sem sú fjölgun er að valda er sýnilegt. Tökum sem dæmi markmið stjórnvalda um hlutfall vistvænna bíla hjá bílaleigunum. Á þessu ári eiga bílaleigurnar að vera með helming af bílaflotanum sem vistvænan. Það kom fram í fjárlaganefnd að framsetningin væri villandi og ónákvæm — þetta kemur fram hjá ráðuneytinu, þ.e. hvað vistvænn bíll þýðir — og Samtök fyrirtækja í ferðaþjónustu segja að það sé ekki séns að ná þessu viðmiði.

Það er því hvorki meira né minna en náttúra Íslands sem er hérna undir og nú er aðgerða þörf, ekki seinna. Við viljum ekki þurfa að þrífa upp eftir hrun eða slysasleppingu í ferðaþjónustunni. Við viljum koma í veg fyrir skaðann, ekki satt?



[15:51]
menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að setja á dagskrá Alþingis sérstaka umræðu um þolmörk ferðaþjónustu. Ég tel fulla þörf á því að við ræðum þolmörk ferðaþjónustu hér á Alþingi enda er ferðaþjónustan ein af stærstu atvinnugreinunum á Íslandi og mikilvægur drifkraftur hagvaxtar. Kannanir benda til þess að áhugi á Íslandi sem áfangastað sé mikill á erlendum mörkuðum og að ferðamönnum sem koma hingað til lands muni fjölga á næstu árum. Því er mikilvægt að gæta að því að ferðaþjónustan sé arðsöm og samkeppnishæf og sé sérstaklega í sátt við náttúruna og samfélagið sitt.

Hv. þingmaður beindi fjórum spurningum til mín og mun ég veita svör við þeim. Í fyrsta lagi, varðandi hver þolmörk hinna mismunandi grunninnviða vegna ferðaþjónustu eru og hversu mikið álag er vegna ferðamanna miðað við þolmörk á heilbrigðiskerfið, lögreglu, björgunarsveitir, vegi og loftslagsmarkmið Íslands, vil ég byrja á að nefna að nú stendur yfir viðamikil vinna við aðgerðaáætlun í ferðaþjónustu til ársins 2030. Aðgerðaáætlunin byggist á grundvelli uppfærðrar stefnu í ferðaþjónustu sem segir að ferðaþjónusta á Íslandi skuli vera leiðandi í sjálfbærri þróun á grunni efnahags, umhverfis og samfélagslegs jafnvægis. Í maí síðastliðnum skipaði ég sjö starfshópa og fól þeim að vinna að tillögum að aðgerðum sem eiga að ná utan um sjálfbærni og orkuskipti, samkeppnishæfni og verðmætasköpun, rannsóknir og nýsköpun, uppbyggingu áfangastaða, hæfni og gæði, heilsu-, veitinga- og hvataferðaþjónustu og menningartengda ferðaþjónustu. Starfshóparnir eru skipaðir öflugu fólki sem hefur víðtæka þekkingu og reynslu hvert á sínu sviði og hef ég miklar væntingar til að niðurstaða vinnunnar verði sjálfbærri ferðaþjónustu á Íslandi til framdráttar.

Þolmörk grunninnviða vegna ferðaþjónustu hafa snertifleti við viðfangsefni margra hópanna sem ég greindi frá hér áðan og eru til umfjöllunar og meðferðar þar. Þess ber að nefna að árið 2017 var ráðist í umfangsmikið þróunarverkefni sem ber heitið Jafnvægisás ferðamála. Markmið jafnvægisássins var að leggja mat á álag á innviði, efnahag, umhverfi og samfélag með tilliti til fjölda ferðamanna á Íslandi. Niðurstöður verkefnisins komu út árið 2019 og gáfu góða vísbendingu um stöðumynd af þolmörkum og áhrifum ferðaþjónustu á þeim tíma. Jafnvægisás ferðamála og notkun hans er einmitt til umfjöllunar í vinnu við aðgerðaáætlun ferðaþjónustunnar sem stendur nú yfir.

Virðulegur forseti. Varðandi spurningu hv. þingmanns um hvernig hægt sé að stuðla að betri dreifingu ferðamanna vil ég undirstrika að í yfirstandandi vinnu er lögð áhersla á aðgerðir sem miðuðu að því að dreifa ferðamönnum víðar um landið og yfir allt árið. Að því sögðu hefur nú verið gripið til ýmissa aðgerða til að stuðla að betri dreifingu ferðamanna og ætla ég að nefna þrjá þætti:

Í fyrsta lagi markmið þeirra opinberu sjóða sem veita fjármagn í uppbyggingu ferðamannastaða að stuðla að betri dreifingu ferðamanna um landið. Samanlagt hafa Framkvæmdasjóður ferðamannastaða og landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum varið um 1,5 milljörðum á ári undanfarin ár í uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum og gert það að verkum að áfangastaðir ferðamanna á Íslandi eru almennt vel í stakk búnir til að taka á móti fjölda ferðamanna.

Í öðru lagi heyrir flugþróunarsjóður undir mitt ráðuneyti en hann hefur það að markmiði að styðja við uppbyggingu nýrra flugleiða til Íslands þannig að koma megi á reglulegu millilandaflugi um alþjóðaflugvellina Akureyri og Egilsstaði og með því stuðla að dreifingu ferðamanna um allt landið.

Í þriðja lagi er ráðuneytið með samning við Íslandsstofu um markaðssetningu og kynningu á Íslandi sem áfangastað gagnvart erlendum mörkuðum. Markaðssetning Íslandsstofu er í samræmi við framtíðarsýn til ársins 2030 og stuðlar að betri dreifingu ferðamanna um landið allt árið.

Mig langar að leggja áherslu á það í þessu innleggi mínu að það er gríðarlega mikilvægt að við metum það nákvæmlega hver þolmörkin eru og sú vinna sem er núna í gangi í ráðuneytinu er mjög metnaðarfull og gengur einmitt út á þetta. Ég mun ekki geta svarað því hér og nú, af því að þessari vinnu er ekki lokið og er í raun og veru grasrótarfagvinna sem mun skila tillögum til mín sem ráðherra, en meginmarkmiðið er sjálfbær ferðaþjónusta og að hún sé sjálfbær gagnvart umhverfi og samfélaginu.



[15:57]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Þetta er þörf og góð umræða. Ef við ætlum að ástunda sjálfbæra ferðaþjónustu hér á landi þá þarf hún auðvitað að vera sjálfbær efnahagslega fyrir samfélagið og fyrir náttúru landsins. Ég held að það sé svolítið langt frá því að hún sé það þó að vissulega sé það markmiðið að hún verði það. Bara svona svo að við setjum fjöldann og hlutföllin í samhengi þá koma hingað til lands, eins og fram hefur komið, líklega 2,3 milljónir ferðamanna á þessu ári, þ.e. sex sinnum fleiri en landsmenn eru. Í Noregi væri sambærilegur fjöldi ferðamanna 33 milljónir en þangað komu árið 2019 u.þ.b. sex milljón manns sem er aðeins meira en fjöldi íbúa þar í landi. Noregur er eins og Ísland tiltölulega ríkt land en Norðmenn kunna líka á áætlanagerð og skipulag og hugsa yfirleitt áður en þeir ákveða eitthvað. Það sem við höfum látið gerast hér er að það hefur byggst upp vissulega mjög blómlegur og góður atvinnuvegur sem getur veitt vinnu um allt land, ekki bara á suðvesturhorninu, og það er mjög mikilvægt að hlúa að honum en við höfum hins vegar algerlega forsómað að fjalla um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga, hvernig gjaldtökunni skuli vera háttað, hvað af þeim tekjum sem þarf að leggja á eigi að renna beint til sveitarfélaga. Á gistináttagjald t.d. að renna beint til sveitarfélaga? Hvernig á að útfæra það? Hvernig ætlum við að gjaldsetja skemmtiferðaskipin og leyfa hafnarsjóðunum að stýra því kannski betur? Allt þetta höfum við ekki enn komist að niðurstöðu um, tíu árum eftir að náttúrupassinn, blessuð sé minning hans, var mest í umræðunni hér á hinu háa Alþingi. Við verðum að fara að taka utan um þennan efnahagslega þátt þannig að bæði ríki og sveitarfélög hafi þær tekjur af ferðaþjónustunni að hægt sé að byggja upp sterka innviði.



[15:59]
Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu. Hún er þörf. Í þessari umræðu er m.a. spurt hvernig sé hægt að stuðla að betri dreifingu ferðamanna um landið og ég hyggst þá fyrst og fremst einbeita mér að þeirri spurningu. Í því samhengi vil ég minnast á tvennt sem gæti stuðlað að betri dreifingu erlendra ferðamanna um allt landið; annars vegar að styrkja nýjar gáttir inn í landið, þ.e. er um alþjóðaflugvellina Akureyri og Egilsstaði. Það hafa verið stigin skref til að styrkja báða flugvellina og þær framkvæmdir munu halda áfram á næstu árum. Þá munu skapast möguleikar sem stuðla að betri dreifingu erlendra ferðamanna um allt landið og yfir allt árið.

Hins vegar langar mig að minnast á mikilvægi þess að byggja upp stofnvegina um hálendi landsins. Í þessu samhengi tel ég rétt að horfa fyrst til þess að byggja upp nýjan Kjalveg sem gæti nýst í 7–8 mánuði á ári. Kjalvegur gæti breytt miklu í tengslum við dreifingu erlendra ferðamanna betur um landið og sérstaklega á svæði sem ber ekki marga ferðamenn í dag. Hér ber að hafa í huga að mjög stór hluti þeirra erlendu ferðamanna sem sækja Ísland heim koma við hjá Geysi og Gullfossi. Ég held að ég muni rétt að í könnunum Ferðamálastofu komi fram að 70–80% ferðamanna komi þar við. Nýr Kjalvegur, sem ég tel að hægt væri að fjármagna með einkaframkvæmd, gæti bætt og skapað forsendur og stuðlað að betri dreifingu erlendra ferðamanna um Vestfirði, Norðurland og Austurland. Við þekkjum að ferðamenn á bílaleigubílum vilja keyra hringleiðir. Með nýjum Kjalvegi verða til nýjar hringleiðir sem ættu að styrkja ferðaþjónustuna í landinu og einstök landsvæði. Það er mikill þjóðhagslegur ábati fólginn í því að nýta betur þær fjárfestingar vítt og breitt um landið sem nú þegar eru til staðar og eru vannýttar. Allt Ísland, allt árið.



[16:01]
Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir þessa þörfu umræðu. Hér er um að ræða stærstu búgrein okkar Íslendinga um þessar mundir. Þetta hefur allt gerst með ótrúlegum hraða og með óþægilega litlum fyrirvara. Við byggðum okkar innviði upp miðað við fólksfjölda í landinu og allt í einu tífaldast hann og hann er á hraðri uppleið, tel ég. Ég tel að á næstu fimm árum, það var nú mat nokkurra sérfræðinga, þá gætu tvöfaldast þessar 2,3 milljónir, sem að vísu innibera ekki skemmtiferðaskipafarþega, einhverra hluta vegna.

Þetta er afar þörf umræða vegna þess að við erum hér í rauninni komin í hlutverk skemmtigarðsrekenda, ég hef notað þessa líkingu áður, og í slíkum rekstri er öryggið í fyrirrúmi. Hvert slys sem verður, hver einbreið brú eða einbreiður vegur eykur hættu á slysum. Hver stígur niður að okkar góðu fossum, eins og Gullfossi t.d., þar er heilmikið verk óunnið við að hafa hlutina örugga. Við erum með of margar sögur af höfuðkúpubrotum og fótbrotum, sérstaklega þeirra sem ferðast hér á efri árum með skemmtiferðaskipunum og svona. Þetta eru vondar fréttir sem berast stjórnlaust út í gegnum myndsíma og samfélagsmiðla. Hvernig dreifum við fólki betur um landið? Það er afar mikil áskorun. Sú áskorun kostar peninga. Í ljósi þess að við höfum fengið núna ótrúlega miklar tekjur, eftir Covid sérstaklega, sennilega meiri en nokkurn óraði fyrir, þá verðum við að fjárfesta í þessum þáttum strax. Markaðssetning kostar peninga. Það þarf að markaðssetja staði utan hinna fjölförnustu með kostnaðarsömum hætti, með aðstoð Íslandsstofu og fleiri, en við skulum byrja á því að fækka slysagildrunum og við þurfum að gefa í þá sjóði sem heita uppbygging ferðamannastaða, 1,5 milljarður þarf að sirka fimmfaldast að lágmarki á næstu misserum til að við komum okkur út úr bráðri orðsporshættu.



[16:04]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka málshefjanda og ráðherra. Til að bregðast við þeim áskorunum sem hröð fjölgun ferðamanna hefur í för með sér þarf að skoða betur leiðir til virkrar álagsstýringar á ferðamannastöðum til að vernda náttúruna. Við þurfum að bæta flæði um svæði, öryggi og upplifun gesta. Við þekkjum það að uppbygging innviða á ferðamannastöðum getur breytt ásýnd svæðis og í vissum tilfellum orðið svo umfangsmikil að hún dregur úr aðdráttarafli staðarins. Rannsóknir hafa líka sýnt að á háannatíma fer fjöldi ferðamanna gjarnan langt yfir íbúafjölda, ekki síst í fámennari samfélögum. Þar spila m.a. inn stórauknar komur skemmtiferðaskipa en það er jú sannarlega bara einn ferðamátinn. Þetta m.a. hefur haft gríðarleg áhrif á ýmsa grunnþjónustu, allt frá heilbrigðisþjónustu og húsnæði til verslana og veitingastaða og til viðbótar er mun meira álag á löggæslu og björgunarsveitir. Þá er ótalið álag á þjóðvegi landsins og svo innviðina í orku- og veitumálum og skólpmálum eins og við höfum því miður reynslu af, t.d. í Mývatnssveit.

Það er sannarlega hægt að reikna út þolmörk ferðamannastaða en hafa þarf í huga að þau geta tekið breytingum yfir tíma og það er mikilvægt að ákveða á hverjum tíma hversu nálægt þolmörkum við getum gengið. Á vissum stöðum er bæði nauðsynlegt og jafnvel æskilegt að stýra álagi ferðamanna til að stuðla að umhverfislegri sjálfbærni staðarins og til að upplifun gesta sé jákvæð, um leið og leitast er við að tryggja öryggi þeirra. Það er morgunljóst að margir helstu áfangastaðir hér á landi munu ekki geta með góðu móti annað helstu álagstoppum án þess að náttúran beri skaða af og upplifun gesta breytist til verri vegar frá því sem verið hefur.

Við höfum heyrt af nokkrum stöðum sem eru komnir að þolmörkum og rætt hefur verið um í sumar og þá verðum við að bregðast við. Það er ýmislegt hægt að gera og hefur verið bent á í þeim skýrslum sem unnar hafa verið undanfarin misseri. Ein leið er að nýta þjónustu sem nú þegar er til staðar þegar eftirspurn er umfram framboð en þar mætti sjá fyrir sér kerfi þar sem bóka þarf komu á ferðamannastað fyrir fram, hvort sem greitt er fyrir heimsóknina eða ekki. Við þekkjum það að við þurfum að bóka borð á veitingastöðum, hér þurfum við að bóka gistipláss í sumum fjallaskálum, í þjóðgörðum erlendis þarf að bóka tjaldstæði fyrir fram o.s.frv. Bláa lónið er gott dæmi hér á Íslandi sem tók upp bókunarkerfi og tímamörk með breytilegri verðlagningu með góðum árangri. (Forseti hringir.) Það er alveg ljóst í mínum huga að það er brýn nauðsyn að bregðast við mjög víða, ekki síst vegna aukins álags á innviði og náttúru.



[16:06]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka málshefjanda kærlega fyrir þessa umræðu. Ég tel að hún sé brýn og brýnt einmitt að ræða þetta í samhengi við þolmörk. Mikil fjölgun ferðamanna á hvern íbúa hefur verið allt frá árinu 2013, með hléi vitaskuld í heimsfaraldrinum. Það er staðreynd að innviðir þjóðfélagsins geta illa staðist mikinn og slíkan vaxtarhraða til lengri tíma. Þessar mikilvægu atvinnugreinar þarf þess vegna að hugsa og skipuleggja, og skipuleggja í samhengi við annað, því ferðaþjónustan hefur stærðar sinnar vegna mikil áhrif á innviði. Hún er, eins og við þekkjum, stór hluti þenslunnar, hún er að baki hagvextinum og á verðbólgutímum þarf að hugsa þetta og það þarf að þora að tala um þetta.

Á fyrsta ársfjórðungi 2023 fjölgaði landsmönnum um rúm 3.000. Reyndar er staðan sú að fólksfjölgun í ár er sú mesta frá 1734 og stærsti áhrifavaldurinn þar er vöxtur ferðaþjónustunnar; fólk sem starfar í ferðaþjónustunni beint og síðan fólk sem starfar í tengdum greinum eins og í byggingariðnaðinum og fleiri tengdum greinum. Álagspunktarnir eru því víða og þess vegna er nauðsynlegt að heyra skýrari stefnu, skýrari tón um æskilegan vöxt.

Markmiðið á að vera vaxtarhraði sem gefur mestan ávinning fyrir þjóðarbúið að teknu tilliti til jákvæðra þátta sem sannarlega eru til staðar sem og neikvæðra áhrifa, því að eitt er umfang og velta en annað er verðmætasköpun. Ég er ekki viss um að svarið geti bara verið að fá fleiri ferðamenn. Við þurfum að ræða heildarmyndina, samspil greinarinnar við náttúru en ekki síður við innviði, álag á vegi, álag á lögreglu, álag á heilbrigðiskerfið og síðan þá staðreynd að ferðaþjónustan er láglaunagrein og allt skiptir þetta máli.

Það er tómt mál að ætla að tala um húsnæðisuppbyggingu nema því fylgi stefna um æskilegan vöxt ferðaþjónustunnar. Markmiðið um 35.000 íbúðir á næsta áratug (Forseti hringir.) þarf ekki bara að skoða í samhengi núna við áhrif vaxtahækkana heldur jafnframt við það hver stefnan er um vöxt þessarar greinar.



[16:09]
Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég vil fyrst þakka málshefjanda fyrir að opna þessa ágætu umræðu. Mig langar að einblína á eina af spurningum málshefjanda sem snýr að því hvernig hægt sé að stuðla að betri dreifingu ferðamanna. Það hefur verið komið inn á það í nokkrum ræðum hér á undan en það blasir við af þeim skilaboðum sem berast frá stjórnvöldum nú um stundir, bæði í gegnum fjármálaáætlun og gildandi samgönguáætlun, að það er mismikil áhersla sem á þetta er lögð.

Ég vil í þessu samhengi nefna eitt dæmi, eitt mál, sem er tenging Suðurlands og Vesturlands um Uxahryggi sem er framkvæmd sem komst á rekspöl í byrjun aldarinnar á grundvelli þess að þar væri um ferðamannaleið að ræða sem tengdi saman Suðurland og Vesturland, Suðurland þá strax augljóslega með töluvert mikinn þunga er varðar ferðamenn. En þarna var augljós tenging frá Þingvöllum yfir á Vesturlandið, annaðhvort Húsafell eða niður í Lundarreykjadal og í Borgarfjörð, en það er eins og áhuginn á því að tengja þessi svæði saman hafi horfið.

Nú finnum við okkur í þeirri stöðu að það er sérstakur rökstuðningur fyrir því að Vesturland fái hartnær ekkert framkvæmdafé til stofnvegaframkvæmda næstu fimm árin að umferðarþunginn sé bara svo mikill á Suðurlandi. Við verðum að horfa á þetta heildstætt og eitt af því sem við þurfum að gera til að auðvelda dreifingu ferðamanna er auðvitað það að tengja betur saman svæðin eins og í þessu tilfelli Suðurland og Vesturland með góðri tengingu um Uxahryggi. Verkið er hálfnað en það þarf að klára það. Í augnablikinu er ekkert sem bendir til þess að það sé á stefnuskrá ríkisstjórnarflokkanna.



[16:11]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra fyrir að eiga þessa sérstöku umræðu með okkur um þolmörk ferðaþjónustunnar. Þetta er mikilvæg umræða sem ég tel að við eigum að taka, þótt fyrr hefði verið.

Mig langar að benda á í upphafi ræðu minnar að ég tel að ferðaþjónustan eins og hún er núna sé ekki efnahagslega sjálfbær þar sem hún hefur gríðarlega stór áhrif á framboð á íbúðarhúsnæði. Hún hefur það með því að taka mikið húsnæði undir ferðamennina sjálfa, með því taka mikið húsnæði undir aðflutta sem vinna í ferðaþjónustu en hún hefur líka áhrif á framboð á framleiðslutækjum til húsnæðisuppbyggingar sem eru í mjög miklum mæli upptekin í hótelbyggingum og fara þar af leiðandi ekki í að byggja upp það íbúðarhúsnæði sem við svo sárlega þurfum á að halda.

Ég saknaði þess að heyra ráðherra einnig svara til um þolmörk heilbrigðiskerfisins gagnvart ferðaþjónustunni. Við vitum það t.d. að í ár hafa 6% allra þeirra sem koma á bráðamóttökuna verið ferðamenn. Þá er ótalið álagið á heilsugæslur og spítala annars staðar á landinu að ónefndu álaginu á lögregluna og björgunarsveitirnar. Ég vil benda ráðherra á að við þurfum ekki að bíða eftir að sjö starfshópar ljúki sinni vinnu til að styrkja þá innviði okkar. Ég vil spyrja hvað stendur til að gera í þeim efnum, ekki seinna en strax, því að við sjáum ekki merki um það í fjárlagafrumvarpinu að nóg sé verið að gera til að bregðast við þessu gríðarlega álagi á innviði okkar vegna einmitt þessa atvinnugeira.

Að lokum langar mig að taka undir með hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur varðandi tekjuskiptinguna milli ríkis og sveitarfélaga. Mér finnst mjög mikilvægt að við tökum þetta til skoðunar, hvort t.d. hluti af virðisaukaskatti verði eftir í heimabyggð, eða þeim sem verður til af ferðaþjónustunni, þeim sem verður til af gistinóttum sem eru seldar þarna og hvort það megi ekki skoða að hækka virðisaukaskattinn á gistinóttum til að slaka mögulega líka aðeins á spennunni í hagkerfinu og lækka verðbólguna sem við eigum víst öll að vera að vinna gegn saman.



[16:14]
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að málefni ferðaþjónustunnar séu tekin upp og rædd hér í þingsal reglulega, enda er ferðaþjónustan ein stærsta atvinnugrein landsins og mikilvægur liður í hagvexti landsins. Ferðaþjónustan ein og sér skapar fjölda starfa hér á landi en um 36.000 manns vinna í einkennandi greinum ferðaþjónustunnar. Hlutverk stjórnvalda er að skapa umgjörð og aðstæður fyrir ferðaþjónustuna til að vaxa og dafna á sama tíma og náttúruvernd og samlyndi við íbúa landsins sé tryggt. Í því samhengi tel ég að það séu afar góð tækifæri fólgin í því að efla hlutverk markaðsstofanna í hverjum landshluta fyrir sig.

Í heimsfaraldri fóru stjórnvöld í uppbyggingu á innviðum í kringum vinsæla áfangastaði. Við sjáum nú hversu miklu máli það skipti, enda hefur Ísland orðið gríðarlega vinsælt eftir að losnaði um ferðatakmarkanir og íbúar heimsins fóru aftur á stjá. Tekjur á öðrum ársfjórðungi 2023 námu 160 milljörðum kr. samanborið við 113 milljarða á öðrum ársfjórðungi 2022. Alls eru tekjur af erlendum ferðamönnum á 12 mánaða tímabili 544 milljarðar. Þessar tekjur eru svo sannarlega mikilvægar fyrir okkur sem þjóð og það skiptir máli að við stöndum vel að málum sem snúa að ferðaþjónustunni. Því fagna ég því að hæstv. ferðamálaráðherra sé með í bígerð aðgerðaáætlun í ferðaþjónustu til ársins 2030. Byggist hún á grundvelli uppfærðrar stefnu í ferðaþjónustu sem segir að ferðaþjónusta eigi að vera leiðandi í sjálfbærri þróun á víðtækum grunni. Hagaðilar hafa komið að borðinu við þessa vinnu og víðtækt samráð átt sér stað. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir slíka nálgun á verkefninu því að við eigum að hafa samráð og öflugt samtal við þá sem starfa í greininni þegar við setjum stefnur og áætlanir því að þar liggur þekkingin á því hvað þarf til og hvar við þurfum að gera betur. Framtíðin er björt í ferðaþjónustugeiranum hér á landi og við þurfum bæði að styðja vel við og vera vakandi fyrir því hvar þarfirnar liggja.



[16:16]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er vissulega nauðsynlegt að ræða þolmörk ferðaþjónustu út frá ýmsum þáttum; efnahagsleg þolmörk, þolmörk náttúrunnar og þolmörk gagnvart íbúum þegar ferðaþjónustan gleypir staði eins og veruleikinn blasir t.d. við í Barcelona. En okkur Íslendingum hættir stundum til að tala alltaf eins og aðstæður á öllum þessum 103.000 km² sem við búum á séu nákvæmlega eins, og sömu áskoranir um allt land. Staðreyndin er hins vegar sú að á síðustu 120 árum höfum við breyst úr strjálbýlu sveitasamfélagi, með nokkrum fábrotnum þorpum og stórum sveitum, yfir í borgríki þar sem 70% íbúanna búa á mjög afmörkuðu svæði á suðvesturhorninu þar sem við bjóðum líka upp á að 98% allra ferðamanna sem hingað koma fari um. Þetta hefur auðvitað leitt til mikillar og alvarlegrar ofbeitar á mjög afmörkuðum svæðum landsins en síðan eru líka aðrir staðir sem eru vannýttir og væri hægt að nota miklu betur. Einmitt á þeim stöðum sjáum við hvað þetta er að mörgu leyti ákjósanleg grein, fyrirtækin ótrúlega fjölbreytt að stærð og gerð, þau eru oft sjálfsprottin og oft bara fjölskyldufyrirtæki. Þegar maður ferðast um landið er magnað að sjá hvað greinin hefur breytt þorpum, sumum niðurníddum, yfir í perlur þar sem hægt er að njóta menningar, matar og sjá fallega uppgerð hús. Við þurfum að leita leiða til þess að stjórna vextinum og hindra að hann verði of mikill og við þurfum að leita leiða til að fara í hófsama gjaldtöku. En fyrsta skrefið er auðvitað að stórauka möguleika Akureyrar og Egilsstaða til að taka á móti farþegum beint með flugi og svo eigum við auðvitað að jafna eldsneytisverð á milli flugvalla eins og væntanlega er gert í flestum siðmenntuðum ríkjum.



[16:18]
Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir framtakið og hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Vörumerkið er verðmætasta eignin í rekstri margra fyrirtækja. Það er þannig samofið ímynd fyrirtækisins sem leggur ofurkapp á að varðveita vörumerkið og þar með ímyndina. Vel rekin fyrirtæki fórna ekki langtímahagsmunum sínum fyrir skammtímagróða með því að gjaldfella vörumerkið.

Varkárni í uppbyggingu ferðaþjónustu er ekki síst hagsmunamál fyrir atvinnugreinina. Ef við yfirfyllum landið laskast vörumerkið Ísland. Landið verður ekki eins eftirsóknarvert og verið hefur. Þá tapa allir. Ýmis lönd hafa leitast við að takmarka fjöldaferðamennsku og til að mynda brugðist við ofgnótt ferðamanna á vinsælum áningarstöðum. Kannski ættum við að huga að fyrirbyggjandi ráðstöfunum. Hagsmunir þjóðarinnar og ferðaþjónustunnar fara nefnilega saman til framtíðar, ekki bara til skamms tíma.

Í dag fengum við fregnir af því að Kerið í Grímsnesi hefði skipt um eigendur en Kerið hefur verið í eigu Kerfélagsins í yfir tvo áratugi. Uppbygging og fyrirkomulag í kringum Kerið er frábært dæmi um einkaframtak við sjálfbæra náttúruvernd þar sem aðgangi hefur verið stýrt og ágóðinn nýttur til uppbyggingar og náttúruverndar. Þetta hefur verið gert í góðri samvinnu við heimamenn og mættu fleiri taka sér það til fyrirmyndar.

Ekki er hægt að ræða um þolmörk vegna ferðaþjónustu án þess að ræða heildarmyndina. Við uppbyggingu atvinnugreinar á borð við ferðaþjónustu sem krefst mikils erlends vinnuafls þurfum við að taka allt með í reikninginn. Erlendu vinnuafli fylgir uppbygging á húsnæði, skólum fyrir börn sem fylgja og jafnvel viðbótarkennsla. Álag eykst á heilbrigðiskerfið, bæði frá vinnuaflinu og ferðamönnunum. Svona mætti áfram telja og málshefjandi á hrós skilið fyrir að vekja athygli á þessu, enda einblínum við allt of oft á afmarkaða þætti hverju sinni.



[16:20]
Tómas A. Tómasson (Flf):

Virðulegi forseti. Hv. alþingismenn. Takk fyrir þetta umræðuefni. Sá sem hér stendur er búinn að vera innviklaður í ferðaþjónustuna síðan 1967. Ég hef séð miklar framfarir og er stoltur, verulega stoltur. Þegar ég byrjaði í þessum bisness, afsakið slettuna, var á boðstólum íslenskur matur sem er út af fyrir sig ágætur en gjarnan var boðið upp á beljukjöt og folaldakjöt. Á árunum 1992–2002 var ég með Hótel Borg og var mjög metnaðarfullur með mat. Ég vil taka fram að íslensk matargerð hefur tekið þvílíkum framförum að það er aðdáunarvert. Flokkur fólksins fór á Austurland, frá Höfn í Hornafirði og alla leið til Akureyrar, og borðuðum við á nokkrum stöðum. Það var alveg til fyrirmyndar hvað þetta voru flottir staðir með góðan mat á heimsmælikvarða. Þegar ég byrjaði með Hótel Borg setti ég á matseðilinn eitthvað sem hét crème brûlée. Það vissi enginn hvað það var en nú ferðu varla á veitingastað öðruvísi en þar sé crème brûlée. Ég byrjaði með sushi og það vissi enginn hvað það var. Nú er sushi alls staðar. Því getum við Íslendingar verið stoltir af því sem við erum að gera í matreiðslunni.

Mig langar til að ræða aðeins um Þingvelli. Ég er í Þingvallanefnd og kom í fyrsta skipti til Þingvalla 1955. Því þekki ég það svæði ágætlega og hef verið með annan fótinn þar allt mitt líf. Á góðum degi á Þingvöllum koma 5.000 manns. Þessu fólki er drifið í gegnum Almannagjá og því er sagt að fara á Hakið, horfa í kringum sig og dást að náttúrunni. Vissulega eru Þingvellir nánast fallegasta heildarsvæði sem ég man eftir. (Forseti hringir.) Já, takk fyrir mig. [Hlátur í þingsal.]

(Forseti (AIJ): Forseti þakkar þingmanninum fyrir að virða ræðutíma og bjölluslátt.)



[16:23]
Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og önnur hér byrja á því að þakka hv. málshefjanda fyrir þessa umræðu og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég held að það sé um margt tímanna tákn að við stöndum hér í þingsal og ræðum önnur atriði sem aukinn vöxtur í ferðaþjónustu hefur áhrif á heldur en beinlínis fjöreggið sjálft, sem er íslensk náttúra. Ég vil þó kannski fá að nota tækifærið og halda því til haga að við vitum öll að frá því að hin eiginlega bylgja ferðamanna til landsins byrjaði í kjölfar Eyjafjallajökulsgoss fyrir rúmlega tíu árum síðan hefur mjög margt áunnist í því að standa vörð um og vernda innviði og/eða byggja upp innviði á þeim svæðum sem ferðamenn sækja, eða búa til nýja segla. Þarna getum við nefnt dæmi eins og Bolafjall í Bolungarvík en jafnframt stórkostlega innviðauppbyggingu á undanförnum árum, og var mikið gefið í á síðasta kjörtímabili. Það er tímanna tákn að við séum ekki hér endilega að leggja mikla áherslu á það í þessum umræðum hversu mikil þörf eða vöntun er á fýsískum innviðum á hinum mismunandi svæðum, en við megum þó ekki slá slöku við þar og það er heldur engin stefna um það og heilmiklir fjármunir í boði til þess að standa enn betur að uppbyggingu á friðlýstu svæðunum.

Það sem mig langaði kannski að bera upp í þessari umræðu — ég tek undir það sem hæstv. ráðherra segir og kom fram í ræðu hennar áðan, að áfangastaðir eru almennt vel í stakk búnir til að taka á móti ferðamönnum. Í anda þess að skipuleggja auðlindanotkun, sem er jú mikilvægt vegna þess að við viljum ekki villta vestrið í þessu, langar mig að forvitnast um það og velta því upp hvort í þeirri vinnu sem ráðherra hefur sett í gang í ráðuneytinu sé lagt upp með að skoða möguleikann á því að setja einhvers konar ítölu, annaðhvort á einstaka svæðum, yfir einstakan tíma, tíma árs eða tíma dags. Er ítala eitthvað sem við sjáum fyrir okkur til að geta stemmt stigu við óheillaþróun í auknum ágangi á einstaka stöðum eða einstaka samfélögum?



[16:25]
Elva Dögg Sigurðardóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna sem hefur átt sér stað í þessum málum hér á undan. Það er stundum talað um ferðaþjónustuna eins og eitthvert vandræðabarn en ferðaþjónustan hefur fært okkur svo margt frábært. Sjáum bara alla veitingastaðina og afþreyinguna sem nú er í boði sem var ekki áður. Þessir staðir hefðu ekki rekstrargrundvöll ef ekki væri fyrir ferðaþjónustuna en það kallar á innviði hjá sveitarfélögum. Í því ljósi vil ég ræða hér sérstaklega gistináttaskattinn svokallaða. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er fjallað um gistináttaskattinn og þar er rætt um að sveitarfélögin ættu að njóta góðs af gjaldtökunni. Lengi hefur verið rætt um að þetta sé alltaf markmiðið, en svo gerist ekkert.

Af hverju skiptir máli að skatturinn renni til sveitarfélaga, herra forseti? Svona stórum atvinnuvegi fylgja alls konar verkefni, eins og fjölgun veitingastaða, sem þarfnast innviða, og fleiri hótel kalla á innviði. Ferðamannastaðir sveitarfélaganna þurfa styrkingu. Fólki sem vinnur við ferðaþjónustuna fjölgar líka. Því fylgir ýmiss konar þjónusta og aukin þjónusta kostar peninga, virðulegi forseti.

Skýrsla starfshóps um auknar tekjur sveitarfélaga af ferðamönnum, sem var unnin hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, fjallaði um að þótt vissulega væru sum sveitarfélög með mun fleiri gistinætur en önnur þýddi það ekki endilega öll þjónustan væri þar og því væri mikilvægt að gistináttagjaldinu væri skipt á sanngjarnan hátt. Í skýrslunni er nefnt að mögulega færu tveir þriðju gjaldsins til sveitarfélagsins en hinn hlutinn færi í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Mér þykir það ekki óskynsamlegt.

Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar kemur fram að nú eigi að taka upp aftur gistináttaskatt, sem er vel, en hvergi kemur fram að hann skuli renna inn í sveitarfélögin, þó að það standi í stjórnarsáttmála. Ég verð því að spyrja: Hvers vegna er það?



[16:27]
Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Af umræðunni að dæma er þunginn fullmikill víða hér á landi á ferðamannastöðum. Ef við setjum þetta aðeins í samhengi, ekki að ég sé að leggja til að við reynum að ná því marki að þéttleiki gesta verði sambærilegur á þeim stað sem ég ætla að nefna nú, þá koma á Louvre-safnið í Frakklandi 7,5 milljónir gesta á hverju ári, 30.000 manns á dag. Louvre-safnið er eiginlega alveg nákvæmlega jafn stórt og Smáralindin, örlítið minna. Hefur okkur ekki eitthvað mistekist líka hvað varðar stýringu á þessum vinsælustu svæðum okkar? Við sjáum bara svæði síðan í hina röndina, Vestfirðina og mörg svæði á Norðurlandi og Austurlandi, sem hafa gríðarmikið rými og mikið svigrúm til að bæta við sig miklum fjölda gesta án þess að þar reyni á svæðin. Það var nefnt hér áðan að það væru 5.000 manns að koma á Þingvelli á dag. Ég trúi ekki öðru en að okkur geti tekist að bæta stýringuna. Þó að það sé mikilvægt að koma ferðamönnum víðar um landið en nú er orðið þá held ég að við verðum líka að skoða hvort okkur séu ekki að einhverju marki mislagðar hendur á þessum vinsælustu svæðum landsins þar sem upplifun ferðamanna og heimamanna sömuleiðis er að þrýstingurinn sé orðinn mikill. Ef við setjum það í samhengi við þessa stóru ferðamannastaði erlendis þá ætti þetta að vera viðráðanlegt verkefni í öllu samhengi. Ég held að það sé nauðsynlegt í þeirri vinnu sem fer fram inni í ráðuneytinu hjá hæstv. ráðherra að þetta atriði sé skoðað.



[16:29]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég þakka kærlega fyrir umræðuna og allar ábendingarnar sem hafa komið hérna fram. Ég held að ráðherra fari vel nestaður inn í ráðuneytið aftur eftir þessa umræðu. Það eru nokkur atriði sem hafa komið fram, það er ekki búið að meta þessi þolmörk enn þá. Það er vissulega rétt eins og var talað um í umræðunni að það er dýnamískt. Það er hægt að fara í ákveðna uppbyggingu á hverjum ferðamannastað fyrir sig til að auka þolmörk, klósett voru vandamál hérna um tíma. Ef við rekjum okkur aðeins til baka þá hófst þetta í kringum 2012, 2013 þegar var farið í markaðsátak eftir hrunið, Inspired by Iceland, eða Innblásin af Íslandi, sem ég held að megi alveg segja að hafi heppnast gríðarlega vel. Kannski aðeins of vel þegar allt kom til alls af því að við vorum alls ekki undirbúin undir allan þann fjölda sem fannst þetta mjög aðlaðandi hugmynd og greip tækifærið og kom til Íslands. Við urðum mjög hissa á því hversu margir komu, ekki það að að sjálfsögðu er Ísland fallegt land o.s.frv. en þetta var mikill fjöldi. Aukaviðbrögð eru náttúrlega innkoma samfélagsmiðla, t.d. Instagram, og Bieber-áhrifin hérna þar sem hann tók mynd af sér í Fjaðrárgljúfrum og Jökulsárlóni og núna vilja allir fara þangað og taka mynd af sér á nákvæmlega sama stað, á stað sem má alls ekki fara á. Þannig að það eru áhugaverð atriði sem við höfum litla stjórn á. En markaðsátakið stjórnar að miklu leyti einmitt áhuga fólks á að koma hingað og það eru mörg atriði sem er hægt að grípa til. Það er hægt að stilla markaðsátaki í hóf og þar með væntingum og áhuga fólks sem leitar annað í staðinn, alla vega á meðan við höfum ekki bolmagnið til að taka á móti því. Nægt er í rauninni flæði ferðamanna (Forseti hringir.) efnahagslega séð, ávinningurinn af ferðaþjónustunni er mjög mikill eins og er og þá spyr maður bara: Hversu mörgum getum við tekið á móti?



[16:32]
menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir að hefja þessa umræðu. Hún er mjög gagnleg. Eins og kemur fram í máli hv. þingmanns er mjög mikilvægt að við höfum mjög góða mynd af þolmörkum greinarinnar og ég tek heils hugar undir það. Sú stefnumótun sem við erum að fara í núna er af svipuðum toga og við gerðum fyrir kvikmyndirnar, fyrir tónlistina, fyrir myndlistina og bara þær atvinnugreinar sem ég sem ráðherra hef borið ábyrgð á.

Ég bið þingheim um að vera svolítið þolinmóðan vegna þess að þetta er mjög stórt verkefni. Ég hef hins vegar fulla trú á því hvernig við erum að nálgast þetta. Við erum að skoða aðgangsstýringar og mér fannst mjög gott sem kom fram í máli hv. þm. Bergþórs Ólasonar um Louvre og hvernig þar koma 7,5 milljónir. Þessu er stýrt og það er það sem við erum að skoða líka, þessar aðgangsstýringar, huga að þeim í ákveðnum þrepum. Það sem mér finnst mjög mikilvægt líka þegar það er farið að reyna á þanþol til að mynda heilbrigðiskerfisins, þá þurfum við auðvitað að bregðast við. Við getum ekki misboðið fólki með of hröðum vexti. Ég fullvissa þingheim um að það er verið að huga að því.

Nokkrir þættir: Orðsporsáhættan. Orðspor Íslands er mjög gott. Við skorum á þeim mælikvarða sem mælir þetta um 82 stig. Apple, sem er eitt verðmætasta vörumerki veraldar, er í kringum 50. Fólkið sem rekur íslenska ferðaþjónustu er því sannarlega að gera frábæra hluti. Svona alveg í lokin þótti mér sérstaklega vænt um það þegar var verið að tala um íslenska matargerð. (Forseti hringir.) Hún hefur svo sannarlega þróast og ég tel að hún verði (Forseti hringir.) einn af hornsteinunum fyrir áframhaldandi gæði íslenskrar þjónustu og ferðaþjónustu.