154. löggjafarþing — 17. fundur
 18. október 2023.
félagafrelsi á vinnumarkaði, 1. umræða.
frv. ÓBK o.fl., 313. mál. — Þskj. 317.

[17:36]
Flm. (Óli Björn Kárason) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um félagafrelsi á vinnumarkaði, mál 313 á þskj. 317. Ásamt þeim sem hér stendur þá eru meðflutningsmenn allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins að undanskildum ráðherra og hæstv. forseta. Málið var áður flutt á síðasta löggjafarþingi en hlaut ekki brautargengi og er nú endurflutt lítillega breytt.

74. gr. stjórnarskrárinnar tryggir öllum félagafrelsi. Við eigum öll rétt til að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talið stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um það leyfi. Skýrt er tekið fram í þessari grein stjórnarskrárinnar að engan megi skylda til aðildar að félagi en þó megi með lögum kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmætu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra. Þrátt fyrir þessi skýru ákvæði 74. gr. stjórnarskrárinnar er félagafrelsi því miður ekki virt á íslenskum vinnumarkaði. Almenn löggjöf takmarkar rétt manna til að velja sér félag eða standa utan félags og þar er gengið lengra heldur en í nágrannalöndum.

Þegar mannréttindakafli stjórnarskrárinnar var lögfestur á árinu 1995 var mikilvægt nýmæli samþykkti í 2. mgr. 74. gr. Þar er kveðið á um rétt manna til að standa utan félags. Litlar eða engar breytingar hafa hins vegar orðið á vinnulöggjöfinni frá þessum tíma til að tryggja að þetta ákvæði nái fram að ganga og úrskurðir dómstóla virðast ekki hafa tekið mið af þessum breytingum. Vinnumarkaðslöggjöfin er í mínum huga barn síns tíma og í mörgu úrelt. Hún þrengir að félagafrelsi. Því er illa hægt að halda því fram að launafólk hafi raunverulegt frelsi til að ákveða hvort það standi utan stéttarfélags eða ekki. Þrátt fyrir að launamanni sé heimilt, samkvæmt orðanna hljóðan, að standa utan stéttarfélags hefur lagaumgjörðin með öðrum hætti í raun orðið til þess að valfrelsið er að nafninu til en ekki á borði. Dæmi um þetta eru lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna þar sem kveðið er á um skyldu ófélagsbundinna starfsmanna til greiðslu iðgjalds stéttarfélags sem hann ætti, eins og þar segir, að tilheyra. Það er rétt í þessu sambandi að benda á að á almennum vinnumarkaði gildir ekki þessi greiðsluskylda. Það er ljóst í mínum huga og flutningsmanna að það verður að breyta lögum þannig að launafólk utan stéttarfélaga sé ekki þvingað til að greiða iðgjald til félags sem það á enga aðild að líkt og gerist á opinberum vinnumarkaði, eins og ég sagði áðan.

Markmið frumvarpsins er að tryggja rétt launamanna til að velja sér stéttarfélag og leggja bann við forgangsréttarákvæðum í kjarasamningum, vernda rétt launamanna til að standa utan verkfalla stéttarfélaga sem þeir tilheyra ekki og afnema og koma í veg fyrir greiðsluskyldu ófélagsbundinna launamanna sem þar sem þess er krafist í lögum. Þar er ég aftur að vitna til opinberra starfsmanna.

Í raun má segja að 1. og 2. gr. frumvarpsins súmmeri þetta ágætlega upp þar sem segir að menn skuli hafa rétt til að stofna og ganga í þau stéttarfélög sem þeir kjósa og eru einungis háðir reglum hlutaðeiganda félags um inngöngu í það. Óheimilt er að draga félagsgjöld eða önnur gjöld af launum starfsmanns eða skrá hann eða félagsmann í stéttarfélag nema með skýru og ótvíræðu samþykki hans. Nái þetta frumvarp fram að ganga er óheimilt að skylda mann til að ganga í tiltekið stéttarfélag. Þá er vinnuveitanda óheimilt að synja umsækjanda um laust starf eða segja launamanni upp starfi á grundvelli félagsaðildar hans. Sama gildir um stöðuhækkun, stöðubreytingu, endurmenntun, símenntun, starfsþjálfun og námsleyfi. Þá verður jafnframt óheimilt að byggja ákvörðun um uppsögn, vinnuaðstæður eða önnur starfskjör launamanns á félagsaðild hans. Vinnuveitanda verður óheimilt að mismuna starfsmönnum sínum vegna félagsaðildar í tengslum við laun og önnur kjör enda sinni þeir sömu eða jafn verðmætum störfum.

Frú forseti. Nái frumvarpið fram að ganga er Alþingi að tryggja að íslenskt launafólk búi við sömu réttindi og launafólk í þeim löndum sem við berum okkur gjarnan saman við. Frumvarpið er nú ekki róttækara en það. Sem sagt, það er verið að tryggja íslensku launafólki sömu réttindi og launafólk hefur í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, svo dæmi sé nefnt. Þrátt fyrir að félagafrelsið njóti í raun ríkari verndar samkvæmt íslensku stjórnarskránni en gengur og gerist í mörgum öðrum löndum þá hefur almenn löggjöf gert það að verkum að réttur manna til að velja sér félag eða standa utan félags er mun takmarkaðri en í öðrum löndum. Stjórnarskráin tryggir eða á að tryggja þessi réttindi í orði en laga- og dómaframkvæmd hefur orðið önnur og kemur í veg fyrir að þessi réttindi séu á borði. Ólíkt öðrum vestrænum ríkjum hefur vinnumarkaðslöggjöfin hér á landi, eins og ég sagði áðan, ekki tekið fullnægjandi breytingum til að tryggja þetta félagafrelsi á íslenskum vinnumarkaði. Ég ítreka það að allir helstu lagabálkar vinnumarkaðslöggjafarinnar urðu að lögum áður en mannréttindakafli stjórnarskrárinnar var lögfestur hér árið 1995. Síðan hafa litlar breytingar orðið á þessum 27 árum eða svo og túlkun dómstóla virðist hafa verið óbreytt þrátt fyrir þau nýmæli sem tekin voru upp í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar 1995. Það er þess vegna sem ég hef haldið því fram að gildandi vinnumarkaðslöggjöf gangi gegn þeim stjórnarskrárvörðu réttindum sem öllum Íslendingum eiga að vera tryggð, ekki síst íslensku launafólki á vinnumarkaði.

Á Íslandi er nokkuð sem kallast forgangsréttarákvæði í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Slík ákvæði ganga enn og aftur gegn félagafrelsi launafólks, enda má leggja þau að jöfnu við skylduaðild að stéttarfélagi þar sem fólk er í raun útilokað frá tilteknum störfum gangi það ekki í viðkomandi stéttarfélag sem hefur forgang samkvæmt kjarasamningum sem eru varðir með lögum. Nánast öll vestræn ríki sem mér er kunnugt um hafa bannað slíkt ákvæði, einmitt með vísan til félagafrelsis. Vandinn við forgangsréttarákvæði er sá að þegar kemur að því að ráða starfsmann skal sá sem er félagi í stéttarfélagi njóta forgangs. Þegar þær aðstæður kunna að skapast að segja þurfi upp starfsmanni eða starfsmönnum þá skal fyrst segja upp þeim sem er ófélagsbundinn en síðan þeim sem er félagi í verkalýðsfélagi. Þetta þýðir auðvitað í raun og það hljóta allir að sjá að til að verja rétt sinn er launamanni nauðugur sá kostur að ganga í verkalýðsfélag bara til að verja starfið, vegna þess að vinnuveitanda, launagreiðandanum, er ekki heimilt að beita mati við það og fara eftir hæfni og dugnaði starfsmanns þegar kemur að hugsanlegri uppsögn. Réttarstaða þess sem ákveður af ýmsum ástæðum að standa utan stéttarfélags, m.a. vegna þess að hann kann að vera ósáttur við það hvernig stéttarfélagið vinnur, kann að vera ósáttur við þá pólitík sem rekin er innan stéttarfélagsins, kann að vera sannfærður um að stefna forystu viðkomandi stéttarfélags gangi gegn hagsmunum hans, er þannig að honum er engu að síður sá kostur einn nauðugur, til að verja starf sitt og standa jafnfætis öðrum, að ganga til liðs við félagið.

Takmarkanir á rétti borgaranna til að velja sér stéttarfélag eru ekki þess eðlis að almannahagsmunir eða réttindi annarra krefjist þess að skylda einstaklinga eða banna þeim að ganga í tiltekið stéttarfélag. Það er því nauðsynlegt að mati okkar flutningsmanna að tryggja launamönnum frelsi til að velja sér það stéttarfélag sem þeir treysta til að gæta hagsmuna sinna og vilja veita fjárhagslegan stuðning með greiðslu iðgjalds eða félagsgjalds. Svo er auðvitað óhjákvæmilegt að horfa til hins pólitíska eðlis stéttarfélaga sem birtist m.a. í kröfugerðum þeirra til stjórnvalda sem fela oft í sér kröfur um lagabreytingar eða pólitíska stefnumótun. Það kann að vera á rökum reist og vera eðlilegar kröfur en réttur einstaklingsins til að standa utan stéttarfélags er að þessu leyti samofinn skoðana- og tjáningarfrelsinu sem varið er í 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem við Íslendingar höfum skuldbundið okkur til að fara eftir.

Þegar þetta frumvarp kom fyrst fram á liðnum þingvetri var það gagnrýnt m.a. út frá því að það myndi veikja verkalýðshreyfinguna og því var jafnvel haldið fram að því væri stefnt til höfuðs verkalýðshreyfingunni. Ég hafna öllum slíkum staðhæfingum vegna þess að ég er sannfærður um að þvert á móti séum við að styrkja verkalýðshreyfinguna vegna þess að verkalýðsfélög munu hafa alveg sérstaka hagsmuni af því að sannfæra launafólk um að hagsmunum þess sé best borgið með því að ganga til liðs við viðkomandi stéttarfélög. Þau muni leggja sig í líma við að gæta hagsmuna viðkomandi. Forysta verkalýðshreyfingarinnar mun skynja það að íslenskt launafólk fær meiri áhuga á réttindum sínum og kjörum og meiri áhuga á starfsemi verkalýðshreyfingarinnar en nú er og hættir að vera jafn afskiptalaust og mér hefur stundum virst vera og birtist m.a. í lélegri þátttöku þegar kemur að því að velja sér forystu. Viðkomandi launafólk mun taka sjálfstæða ákvörðun um að tilheyra félaginu og þegar það gerir það þá er ég viss um að það mun líta svo á að því beri líka skylda til þess að taka þátt í að velja forystu og móta stefnu og störf viðkomandi félags.

Ég ætla líka að minna á að Evrópunefnd um félagsleg réttindi hefur ítrekað bent á að forgangsréttarákvæði eins og þau eru viðhöfð hér á landi gangi gegn mannréttindasáttmála Evrópu.

Frú forseti. Ég lít þannig á að íslenska ríkinu, íslenska löggjafanum, beri svo rík skylda til að gæta að mannréttindum borgaranna að ekki verði hjá því komist að grípa til aðgerða þegar löggjöf gengur gegn þeim réttindum sem þeim eru tryggð samkvæmt stjórnarskrá, grípa til aðgerða með lagabreytingum eins og hér er lagt til. Þrátt fyrir að bæði jákvætt og neikvætt félagafrelsi sé kirfilega tryggt í stjórnarskránni, eins og ég hef vikið hér að margoft, hefur vinnumarkaðslöggjöfin ekki endurspeglað það frelsi. Markmið þessa frumvarps og okkar sem að því stöndum er að tryggja íslensku launafólki vernd, tryggja því frelsi, standa vörð um félagafrelsi íslensks launafólks.

Ég vil að lokum líka taka fram að hér er lagt til að lögin taki til allra stéttarfélaga og vinnuveitenda á íslenskum vinnumarkaði, almennum og hinum opinbera. Á hinn bóginn kann að vera nauðsynlegt að ráðast í sérstaka lagasetningu og ég hygg að ég gæti jafnvel tekið sterkar til orðs og sagt: Það er nauðsynlegt að ráðast í sérstaka lagasetningu á þeim sviðum þar sem félagafrelsi er heldur ekki tryggt. Þetta á t.d. við um skylduaðild að lífeyrissjóðum, þ.e. þegar íslenskt launafólk er svipt þeim rétti að velja sér lífeyrissjóð sem ég held að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir íslenskt launafólk. Eitt er að skylda menn að taka þátt í samtryggingarkerfi lífeyrissjóða og ég stend vörð um þá skyldu, en það er annað að skylda viðkomandi að greiða í ákveðinn lífeyrissjóð og svipta hann frelsinu til að velja sér lífeyrissjóð sem uppfyllir ákveðnar lagalegar skyldur.

Það má líka benda á skylduaðild að Lögmannafélagi Íslands, sem a.m.k. einhverjir þingmenn hér þekkja vegna menntunar sinnar og starfa. Ég vitnaði hér í upphafi til þess að í 74. gr. stjórnarskrárinnar sé sagt að það megi þó skylda menn til aðildar að ákveðnu félagi ef almannahagsmunir krefjast en þau rök eiga ekki við þegar kemur að skylduaðild að Lögmannafélagi Íslands, a.m.k. hef ég þrátt fyrir töluverða leit ekki rekist á nein slík rök. Það skal tekið fram að þetta frumvarp nær ekki til þeirra laga en það kann að vera skynsamlegt, annaðhvort í framtíðinni eða jafnvel í vinnu þeirrar nefndar sem fær þetta mál til umfjöllunar, að skoða skylduaðild að Lögmannafélagi Íslands sérstaklega. Skylduaðild að lífeyrissjóðum er stærra mál og umfangsmeira og ég hef alltaf verið einn þeirra sem hafa hvatt til þess að menn fari af mikilli varúð þegar kemur að lífeyrissjóðunum sem ég lít á sem fjöregg okkar Íslendinga og til fyrirmyndar í flestu.

Frú forseti. Ég vonast auðvitað til þess að þingheimur sé tilbúinn til að slást í lið með okkur þingmönnum Sjálfstæðisflokksins til að tryggja íslensku launafólki sömu réttindi og launafólk nýtur í öðrum löndum. Svo einfalt er þetta. Þetta er ekki róttækara en það að tryggja íslensku launafólki sömu réttindi og launafólki hefur í öðrum löndum sem við berum okkur svo gjarnan saman við.

Að lokinni þessari umræðu, frú forseti, óska ég eftir að frumvarpið gangi til hv. velferðarnefndar.



[17:57]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég fékk þá samlíkingu í hausinn þegar ég var að hlusta á hv. þingmann lýsa þessu frumvarpi að mikið væri nú gott að hafa ríkisstjórnarfrelsi. Segjum sem svo að ég hefði kosið Vinstri græna en þau fara síðan í stjórn með Sjálfstæðisflokknum og ég sé bara ósammála því og vilji ekkert þessa ríkisstjórn og ætla bara að segja mig frá því oki í rauninni sem sú ríkisstjórn setur á mig og ég vilji færa atkvæði mitt eitthvert annað. Smá samlíking í því einhvern veginn, þó að viðkomandi kjósandi sé ekki sammála forystunni hefur hann samt ekkert úrræði annað en að hlíta þeim lögum sem ríkisstjórnin kemur í gegn, þeirri skattheimtu og þess háttar sem er sett hér. Mér finnst það ekkert rosalega ólíkt þessu því að dæmin sem við höfum um það þegar félagafrelsið er á þann hátt að fólk geti staðið utan þessa sameiginlega apparats sem er að deila og semja um kaup og kjör sýna að í þeim löndum hefur réttindum hrakað eins og t.d. í Bandaríkjunum. (Gripið fram í.) Ég skil mjög vel hvaðan hv. þingmaður kemur með þessa tillögu en hættan er samt til staðar. Það er ítrekað skotist fram hjá lögum um alls konar skilyrði varðandi ráðningar og þess háttar sem getur leitt til þess að þrátt fyrir það sé ólöglegt þá ráði vinnuveitandi einungis einhverja sem eru í einu verkalýðsfélagi frekar en öðru og það eru bara atriði þarna sem eru varhugaverð. Ég væri alveg til í að skoða þetta í stærra samhengi, eða ekkert endilega stærra, en samhengið í öllu þessu, (Forseti hringir.) því að rétturinn til þess að vinna saman er tvímælalaust mjög mikilvægur og þegar einhver (Forseti hringir.) ákveður að standa fyrir utan þann rétt þá grefur það undan rétti allra og frelsið endar einmitt þar sem það skaðar aðra.

(Forseti (ÁLÞ): Forseti vill áminna þingmenn um að virða tímamörk sem eru tvær mínútur í andsvörum.)



[17:59]
Forseti (Ásthildur Lóa Þórsdóttir):

[17:59]
Flm. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að játa að ég bara veit ekki alveg hvernig ég á að svara fyrri hluta þessa andsvars hjá hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni. Við höfum oft átt orðastað og ég hef nú yfirleitt reynt að krafla mig út úr hlutunum en ég segi bara: Ja, ef það væri skylduaðild að Vinstri grænum þá hef ég ákveðna samúð með hv. þingmanni, að hann væri óánægður. En það er auðvitað ekki þannig. Við búum hér, hv. þingmaður, í lýðræðissamfélagi, sem betur fer, og fólk gengur á kjörstað og kýs frjálsri kosningu og velur sér lista, lista hv. þingmanns eða ég vona að það verði fleiri sem velja þann lista sem ég stend fyrir, Sjálfstæðisflokkinn o.s.frv. Síðan er það nú bara þannig að niðurstaða kosninga hefur því miður leitt til þess að hér hefur aldrei komist á meirihlutastjórn heldur eru hér samsteypustjórnir. Það er auðvitað ófullkomleiki lýðræðisins.

En það kemur mér satt að segja dálítið á óvart að hv. þingmaður skuli ekki í raun taka undir meginmarkmið þessa frumvarps. Ég hélt einmitt að það væri hluti af þeirri hugmyndafræði sem Píratar berjast fyrir að einstaklingurinn ráði sér sem mestu sjálfur og að löggjafinn eða aðrir, hvort heldur það eru verkalýðsfélög eða vinnuveitendur eða aðrir, hafi sem minnst um það að segja. Þess vegna hefði ég haldið að hv. þingmaður ætti að leggjast á árarnar með okkur í Sjálfstæðisflokknum og tryggja íslensku launafólki sömu réttindi og (Forseti hringir.) gilda t.d. í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og að því ég best veit víðast hvar í Evrópu.



[18:02]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég veit ekki af hverju hv. þingmaður las það endilega út úr orðum mínum. Ég sagði að ég væri alveg til í að skoða samverkandi kerfi í þessum lögum því að það þarf að gæta hagsmuna allra þarna og síðast en ekki síst þeirra sem hafa í rauninni minnst völd. Það er þegar allt kemur til alls stefna Pírata, að passa upp á að þeir sem eru valdaminni í öllum aðstæðum séu valdefldir gagnvart þeim sem eru valdameiri. Í þessum aðstæðum eru það yfirleitt atvinnurekendurnir sem eru með peninginn sem eru valdameiri þannig að þar tryggjum við ákveðinn rétt þeirra sem eru valdaminni til að geta náð fram sínu réttlæti þegar allt kemur til alls. Hvort þetta frumvarp nái því er ég ekki alveg viss um. Þó að ég skilji kannski markmiðið með því þá held ég að útfærslan sé tvímælalaust ekki hárnákvæm um að svo muni verða raunin. Ég skal alveg taka undir það, ég sé hvert markmiðið er, hver viljinn er, en ég held að þetta frumvarp muni ekki ná því markmiði af ýmsum ástæðum sem ég rakti hérna áðan, t.d. það hvernig það að standa fyrir utan getur grafið undan þessum samtakamætti sem býr til samstöðu þeirra valdaminni gagnvart þeim valdameiri. Það að hægt sé að velja á milli stéttarfélaga getur einmitt gefið þeim sem eru valdameiri tæki til þess að hafa áhrif á það hvernig þessi samtakamáttur virkar. Þannig að ég skil markmiðið en ég sé ekki að þetta frumvarp nái því og þó að það standi félagafrelsi í titlinum (Forseti hringir.) þá þýðir það ekkert endilega að það sé frelsi. Ég held að það sé frekar öfugt, að það sé í rauninni verið að valdefla frekar atvinnurekendur með þessu heldur en hina.



[18:04]
Flm. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég var orðinn dálítið ánægður með hv. þm. Björn Leví Gunnarsson í fyrri hluta svarsins en svo fór að halla aðeins undan vegna þess að mér fannst eins og hann væri að taka undir að það ætti að skoða þetta mál, hann væri fylgjandi svona markmiðunum en svo fór hann í einhvern veginn í gamlar skotgrafir sem menn fara stundum í. En allt í lagi. Ég ætla bara að benda hv. þingmanni á eitt varðandi það að valdefla þá sem standa lakar en aðrir. Nú er ekki lagaleg skylda á neinum launamanni á almennum vinnumarkaði að ganga í verkalýðsfélag. Það er ekki þannig. En það er þannig að í reykfylltum bakherbergjum þar sem atvinnurekendur setjast niður með verkalýðsforystunni er tekin ákvörðun um það í kjarasamningi að félagar í viðkomandi verkalýðsfélagi skuli hafa forgang um vinnu, þ.e. það er verið að ganga á rétt og skerða rétt þess sem hefur valið sér að standa utan félagsins og stendur þar af leiðandi höllum fæti. Ég er bara að biðja hv. þingmann að slást í lið með okkur og styrkja þetta fólk, (Gripið fram í.) þá sem af einhverjum ástæðum standa utan, t.d. vegna þess að þeir eru óánægðir með það verkalýðsfélag sem þeir ættu hugsanlega að tilheyra, þannig að það sé ekki hægt og atvinnurekendur geti ekki með samningum við verkalýðsfélag knúið í raun launafólk til að ganga í ákveðið verkalýðsfélag þvert sér að skapi. Það tel ég vera að valdefla fólk sem stendur kannski höllum fæti, hv. þingmaður.



[18:07]
Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég flutti langar ræður um þetta mál í fyrra og hef í sjálfu sér engu við þann málflutning að bæta. Ég ætla ekki að vera að skemmta skrattanum hér í dag en þetta er bara sama skaðræðisfrumvarpið og síðast; þingmál sem er til þess fallið að kippa fótunum undan sterkri verkalýðshreyfingu á Íslandi, grafa undan þáttum í vinnumarkaðslöggjöfinni sem hingað til hefur verið mjög breið sátt um og þáttum sem hafa lagt grunn að mikilli félagsaðild á Íslandi og þar með sterkri samningsstöðu launafólks gagnvart atvinnurekendum.

Eftir að mælt var fyrir málinu hér á síðasta löggjafarþingi bárust á annan tug umsagna frá stéttarfélögum og heildarsamtökum launafólks þar sem varað er eindregið við frumvarpinu og skyldi engan undra. En ef við lítum á björtu hliðarnar þá má kannski fagna því að í þessu frumvarpi birtist algerlega svart á hvítu hvar Sjálfstæðisflokkur nútímans stendur gagnvart verkalýðshreyfingunni á Íslandi og gagnvart ýmsum af grundvallarþáttum skipulags vinnumarkaðar hér á landi. Hér var einu sinni Sjálfstæðisflokkur sem sagði: Stétt með stétt. Hann skildi mikilvægi sterkrar verkalýðshreyfingar og skipulags vinnumarkaðar og leitaðist við með öllum ráðum að viðhalda sáttinni um þetta. Sá flokkur er ekki lengur til. Hann er minni í dag, bæði í hugsun og styrk, og einhvern veginn grunar mig að t.d. Ólafur Thors og Bjarni Benediktsson eldri myndu snúa sér við í gröfinni ef þeir sæju til hv. þm. Sjálfstæðisflokksins hér í dag. Við í Samfylkingunni stöndum með launafólki í landinu gegn frjálshyggjudellu Sjálfstæðisflokksins. Megi þetta frumvarp sofna svefninum langa í velferðarnefnd Alþingis. Góða nótt.



[18:09]
Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þessi ræða hv. þingmanns var stutt en líka efnisrýr. Hann kemur hingað upp og lýsir því yfir að hann sé andsnúinn þessu frumvarpi. Gott og vel. Ég skildi orð hans þannig að hann tali líka fyrir hönd Samfylkingarinnar.

Ég er að reyna að átta mig á hvort hv. þingmaður er að tala fyrir því að það verði aftur tekin upp skylduaðild að stéttarfélögum landsins. Ef það er markmiðið að stéttarfélögin hafi marga félagsmenn, annars geti þau ekki sinnt mikilvægu hlutverki sínu, er þá ekki hreinlega rétt að mati hv. þingmanns að skylduaðild verði aftur tekin upp og félagafrelsi stjórnarskrárinnar þannig kastað fyrir róða? Skil ég málflutning hv. þingmanns í þá veru? Er hv. þingmaður sammála því sem kemur fram í dómi Mannréttindadómstólsins í máli Sørensens og Rasmussens gegn Danmörku þar sem forgangsáhrif í stéttarfélagi er lagt að jöfnu við skylduaðild? Er hann sammála því að það eigi að fara eftir dómum Mannréttindadómstóls Evrópu þannig að Ísland standi við skuldbindingar sínar samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu eða er hann á móti því? Kýs hann að hunsa þá niðurstöðu? Telur hann það nægjanlegt til að vega að félagafrelsi alls fólks, þar með launafólks, að tilgangurinn helgi meðalið? Þetta væri fróðlegt að fá að vita, frú forseti.



[18:11]
Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hér gerir hann að umtalsefni dóminn í máli Sørensens og Rasmussens gegn Danmörku sem fór fyrir Mannréttindadómstól Evrópu árið 2006. Þar var deilt um það sem er kallað útilokunarákvæði, „closed shop agreement“, með leyfi forseta, og aðildarskyldu. Forgangsréttarákvæðin á Íslandi eru svolítið annars eðlis og bundin við að hæfir félagsmenn bjóðist. Ég hygg að farið sé ágætlega yfir þetta í umsögn Alþýðusambands Íslands um þetta frumvarp.

Hvað varðar neikvætt félagafrelsi yfirleitt og það fyrirkomulag sem er við lýði á Íslandi þá get ég svarað því að ég og við í Samfylkingunni höfum ekki áhuga á að kollvarpa því fyrirkomulagi sem nú er ríkjandi, t.d. með því að taka beinlínis upp aðildarskyldu. Greiðsluskyldan sem nú er við lýði á sér þokkalegar stoðir í íslenskri stjórnskipan. Það var sérstaklega komið inn á það þegar gerðar voru breytingar á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar árið 1995 að neikvætt félagafrelsi, sem þar var lögfest kirfilega, ætti ekki að raska þessu fyrirkomulagi. Meira hef ég ekki að segja um þetta í bili.



[18:13]
Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég skildi hann þannig að Samfylkingin kjósi að berjast ekki fyrir því að skylduaðild verði tekin upp að nýju. En þá hlýt ég að spyrja: Fyrst Mannréttindadómstóll Evrópu leggur að jöfnu skylduaðild og forgangsréttarákvæði og nefnir sérstaklega Danmörku og Ísland í því samhengi, og er þá augljóslega að vísa til forgangsréttarákvæðis á íslenskum vinnumarkaði, hvernig stendur á því að Samfylkingin er á móti þeirri breytingu sem hér er verið að leggja til? Hvernig getur Samfylkingin og hv. þingmaður annars vegar verið á móti því að taka aftur upp skylduaðild — það má í rauninni vera skiljanlegt að Samfylkingin vilji það í ljósi þess sem þau hafa fram að færa hvað varðar stéttarfélög — en lagst svo gegn því að greiða úr því óréttlæti sem launafólk sem kýs að standa utan stéttarfélaga býr við þegar forgangsréttarákvæðum er beitt? Ég fæ þetta ekki til að koma heim og saman, frú forseti.



[18:14]
Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er einfaldlega ekki rétt að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi með einhverjum hætti slegið því föstu að greiðsluskylda feli í sér brot gegn neikvæðu félagafrelsi í þeim skilningi sem við erum að tala um hér í dag. (TBE: Forgangsréttarákvæði.) Er forgangsréttarákvæðið í Sørensen og Rasmussen? (TBE: Já.) Ekki sams konar ákvæði og er við lýði á Íslandi, það er alveg á hreinu. Að sama skapi hefur Alþjóðavinnumálastofnunin lagt ríka áherslu á að forgangsréttarákvæði séu heimil og þau hafa verið mjög sterkt og mikilvægt tæki hér á Íslandi til þess að tryggja skipulagðan vinnumarkað, samloðun og mikla félagsaðild. Ég vara eindregið við því að kollvarpa þessum reglum sem hafa reynst vel, skilað okkur sterkri verkalýðshreyfingu, mikilli félagsaðild og þar með sterkri samningsstöðu gagnvart atvinnurekendum. Það er engin tilviljun, virðulegi forseti, hve kaupmáttur hefur aukist mikið hér á Íslandi og hvað við stöndum að mörgu leyti vel. Það er ekki síst vegna þess að vinnumarkaðslöggjöfin, þótt sífellt sé verið að finna henni hitt og þetta til ama, hefur staðist ágætlega tímans tönn. Það er ekkert í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands né í mannréttindasáttmála Evrópu og þeim alþjóðlegu réttarheimildum sem er vísað til þegar við tölum um mannréttindi sem ætti að raska þessu fyrirkomulagi.



[18:16]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér um frumvarp sem ég verð að segja að mér hugnast alls ekki. Þetta frumvarp er flutt af stórum hluta þingflokks Sjálfstæðisflokksins og má kannski segja að sé kunnuglegt úr þeim ranni. Ég tel að við ættum ekki að fara í neinar grafgötur með það að frumvarpinu er stefnt gegn kjarnanum í hinu íslenska vinnumarkaðslíkani. Íslenska vinnumarkaðslíkanið hefur þróast með löggjöf frá Alþingi, með kjarasamningum á vinnumarkaði og með úrskurðum dómstóla, sérstaklega Félagsdóms. Lykilatriði þess er að þeir kjarasamningar sem stéttarfélögin gera gilda fyrir allt launafólk og alla atvinnurekendur á því starfssvæði þar sem stéttarfélagið starfar. Það er óháð því hvort einstakir atvinnurekendur eða launamenn eru félagsbundnir. Þetta tryggir að allt launafólk njóti ábata af kjarasamningum og öllum eru tryggð lágmarksréttindi. Þetta vinnur til að mynda gegn félagslegum undirboðum, fyrirbæri sem er vaxandi ástæða til að hafa áhyggjur af í heimi hins hnattvædda kapítalisma. Mér finnst þetta eitt og sér vera ein rök gegn þessu máli.

Önnur mikilvæg stoð íslenska kerfisins er mikil aðkoma verkalýðsfélaganna varðandi það að halda utan um mikilvæg félags- og velferðarréttindi, svo sem hvers kyns menntunarsjóði, sjúkrasjóði og skráningu atvinnulausra. Verkalýðsfélögin reka einnig í samvinnu við atvinnurekendur hið almenna lífeyrissjóðakerfi, sem mörg samfélög sem horfa fram á síhækkandi meðalaldur horfa með öfundaraugum til. Ég hef áhyggjur af því að þessu fjöreggi þjóðarinnar og launafólks vilji flutningsmenn frumvarpsins fara að leika sér að og veikja. Það kerfi félagsaðildar að verkalýðsfélögum sem verið hefur við lýði hér á landi byggist á háu hlutfalli félagsbundinna og um það hefur verið víðtæk samfélagsleg sátt, sátt sem ég vona að við sem samfélag berum gæfu til að standa vörð um.

Þetta frumvarp er lagt fram á tímum þar sem staða launafólks sem veikast stendur á atvinnumarkaði verður fyrir sífelldum árekstrum. Við höfum séð ríka tilhneigingu atvinnurekanda til að þrýsta starfsfólki sínu í stöðu verktaka, oft með gerviverktöku. Afleiðingin verður réttminna starfsfólk sem safnar sér minni réttindum og hefur minna félagslegt öryggisnet ef aðstæður breytast hratt. Með sívaxandi fjölda starfsfólks af erlendum uppruna með takmarkaða reynslu af íslenskum vinnumarkaði og veikara félagslegt bakland eykst enn hættan á misnotkun og kúgun.

Verkalýðsfélögin hafa í mínum huga ekki verið eins mikilvæg í langan tíma. Ég tel að nú ættu metnaðarfullir þingmenn að leita leiða til að styrkja kjör launafólks, koma í veg fyrir að það sé hægt að komast upp með að brjóta á því, koma í veg fyrir launaþjófnað og gera allt sem hægt er til að styrkja stöðu fólks á vinnumarkaði en ekki veikja hana. Nái þetta frumvarp hins vegar fram að ganga þá veikir það stöðu launafólks gagnvart atvinnurekendum. Þess vegna ætla ég að vona að frumvarpið fari bara inn í nefnd og komi ekki þaðan út aftur, en ef það kemur út get ég ekki stutt það og mun greiða atkvæði gegn því.



[18:21]
Flm. (Óli Björn Kárason) (S):

Frú forseti. Ég var búinn að lofa því að lengja ekki þessa umræðu en ætla aðeins að segja örfá orð. Ég ætla að byrja á því að þakka þeim þingmönnum sem hafa tekið hér til máls. Það kemur mér ekkert á óvart að við erum ekki alveg samferða í málinu, þó það nú væri, og gerir það málið bara skemmtilegra í mínum huga. Mér finnst málefnaleg umræða hér hafa verið einkennandi þó að ég taki ekki undir þau mótrök sem hafa verið sett fram.

Hér komu til tals þær breytingar sem voru gerðar á 74. gr. stjórnarskrárinnar sem tóku gildi 1995. Það er rétt sem bent var á, að Alþýðusamband Íslands taldi að ákvæðinu væri beint gegn starfsemi stéttarfélaga í landinu. Til að koma til móts við það virðist stjórnarskrárnefnd hafa litið til athugasemda við gerð álits nefndarinnar við frumvarpið, en þar kemur fram að nefndin líti svo á að með frumvarpinu sé í engu verið að hrófla við núverandi réttarstöðu á vinnumarkaði að því er varðar forgangsréttarákvæði, greiðslu félagsgjalda eða önnur réttindaákvæði. Það var alveg kórrétt sem kom fram í máli hv. þm. Jóhanns Páls Jóhannssonar hér áðan.

En þrátt fyrir framangreind ummæli í nefndaráliti stjórnarskrárnefndar, eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, verður við túlkun á 74. gr. stjórnarskrárinnar að líta til túlkunar Mannréttindadómstóls Evrópu á 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, enda hefur sáttmálinn verið lögfestur með lögum á Íslandi. Jafnvel þótt þau lög njóti ekki stöðu stjórnskipunarlaga ber að túlka stjórnarskrána með hliðsjón af þeim mannréttindasáttmálum sem Ísland á aðild að, svo lengi sem þeir eru ekki ósamrýmanlegir ákvæðum stjórnarskrárinnar. Það er óhætt að fullyrða að 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu er í fullu samræmi við 74. gr. stjórnarskrárinnar. Þegar menn horfa til þess þá verður ekki hjá því komist að halda því fram að Ísland verði, eða við hér, að gera þær breytingar sem lagt er til í frumvarpinu og tryggja raunverulegt félagafrelsi, m.a. með því að banna forgangsréttarákvæði í kjarasamningum.

Að öðru leyti, ólíkt vinkonu minni hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur, vonast ég auðvitað til þess að hv. velferðarnefnd taki til við efnislega umfjöllun um málið og afgreiði það. Ef meiri hluti nefndarinnar leggur til að málið skuli fellt eiga menn að hafa burði til þess að afgreiða málið þannig út úr nefndinni. Ég mun hins vegar ekki hætta að berjast fyrir raunverulegu félagafrelsi fyrir íslenskt launafólk þó að mér takist það ekki í þetta skipti. Það hefur verið þannig, og það er reynsla okkar Sjálfstæðismanna, að oft hefur það tekið langan tíma og margar tilraunir að hola steininn og hrinda frelsismálum hér í gegn en á endanum höfum við yfirleitt haft árangur. Þannig njótum við t.d. meira fjölmiðlafrelsis hér á Íslandi og erum ekki undir einokun Ríkisútvarpsins, þótt margir hér í þingsal vildu að sá tími væri enn.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til velfn.