154. löggjafarþing — 20. fundur
 25. október 2023. ættliðaskipti bújarða
erfðafjárskattur, 1. umræða.
frv. BirgÞ o.fl., 45. mál. — Þskj. 45.

[18:24]
Flm. (Birgir Þórarinsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um erfðafjárskatt, nr. 14/2004, ættliðaskipti bújarða. Flutningsmenn eru Birgir Þórarinsson, Ásmundur Friðriksson, Jón Gunnarsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Óli Björn Kárason og Vilhjálmur Árnason.

Frumvarpið hljóðar svo:

„1. gr.

Við 1. mgr. 1. gr. laganna bætist: og 18. gr. a.

2. gr.

Á eftir 18. gr. laganna kemur ný grein, 18. gr. a, svohljóðandi:

Erfðafjárskattur leggst ekki á jarðir sem notaðar eru undir landbúnaðarrekstur líkt og slíkur rekstur er skilgreindur í 4. mgr. 3. gr. búnaðarlaga, nr. 70/1998, séu eftirfarandi skilyrði uppfyllt:

1. Landbúnaðarrekstur var á jörðinni þegar arfleiðandi lést eða þegar sýslumaður áritaði erfðafjárskýrslu þegar um er að ræða fyrirframgreiðslu arfs.

2. Arftaki erfði landið skv. 2. gr. erfðalaga, nr. 8/1962.

3. Arftaki haldi áfram landbúnaðarrekstri í 10 ár frá dagsetningu arftöku.

Leggi arftaki landbúnaðarrekstur af áður en 10 ár eru liðin frá arftöku er arftaka skylt að greiða fullan erfðafjárskatt af eigninni. Þá skal skattstofn erfðafjárskatts miðast við fasteignamatsverð jarðarinnar á því tímamarki er búskapur lagðist af.

3. gr.

Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2024.“

Ég vík þá að greinargerðinni með frumvarpinu, frú forseti.

Talsverð umræða hefur verið um vanda við kynslóðaskipti í búskap. Núverandi samningar við bændur bera með sér að sá vandi hefur verið að nokkru verið viðurkenndur, með úrræðum til að styðja við nýliða. Allt eins mætti horfa til kynslóðarinnar sem er að láta af búskap og láta úrræðin vinna með markmiðum samninga bænda og ríkis. Eldri kynslóðir hafa yfirleitt lakan lífeyrisrétt. Lengi framan af voru reglur með þeim hætti að bændur gátu ekki safnað sér lífeyrisréttindum í samræmi við umsvif síns búskapar. Á margan hátt er fullt eins mikilvægt og vænlegt til árangurs að horfa til þess að auðvelda kynslóðaskiptin með úrræðum fyrir þann sem lætur af búskap.

Í frumvarpi þessu eru bújarðir sem erfast skv. 2. gr. erfðalaga, nr. 8/1962, undanþegnar erfðafjárskatti, að því skilyrði uppfylltu að erfinginn eða erfingjar haldi áfram búskap á jörðinni í 10 ár. Að mati frumvarpshöfunda yrði með samþykkt þessa frumvarps stigið mikilvægt skref í átt að ásættanlegri nýliðun í landbúnaði. Það er grundvöllur nýliðunar að ungum bændum sé gert mögulegt að eignast jörð eldri kynslóða án þess að stofna til þungrar skuldabyrði. Algengt er að það sé vilji eiganda bújarðar að henni sé ráðstafað innan fjölskyldunnar og jafnvel til tiltekins ættingja sem hyggst halda áfram búskap á jörðinni. Verðmæti bújarða hafa oft og tíðum aukist verulega á liðnum árum og áratugum og getur því reynst erfitt fyrir næstu kynslóðir að taka við rekstri búsins ef á þeim hvílir há erfðafjárskattskvöð. Sé næstu kynslóðum gert of erfitt fyrir aukast jafnframt líkurnar á því að bújarðir verði seldar, en í mörgum tilvikum má ætla að hinn nýi eigandi hyggist nýta jörðina til annars en landbúnaðarreksturs.

Sambærilegt fyrirkomulag og hér er lagt til þekkist víðs vegar erlendis, hvort sem er í Evrópu eða öðrum heimsálfum. Í Finnlandi er bújörð til að mynda metin á 40% af markaðsverði við álagningu erfðafjárskatts og í Ungverjalandi er hlutfallið 25%. Í Bretlandi og Póllandi eru svo bújarðir að öllu undanþegnar erfðafjárskatti að vissum skilyrðum uppfylltum. Þá eru ótalin þau lönd sem hafa afnumið erfðafjárskatt með öllu og má þar nefna Svíþjóð og Noreg sem nærtækustu dæmin.

Samkvæmt frumvarpinu er afnám erfðafjárskattsins háð sérstökum skilyrðum eins og ég nefndi áður. Í fyrsta lagi verður jörðin sem um ræðir hverju sinni að hafa verið bújörð á þeim tíma sem arftaka átti sér stað, en ekki er gerð krafa um lágmarkstíma sem landbúnaðarrekstur þarf að hafa staðið yfir. Í öðru lagi eru það einungis arftakar samkvæmt 2. gr. erfðalaga sem falla undir frumvarpið, þ.e. niðjar og maki arfleiðanda. Markmið frumvarpsins er að auðvelda ættliðaskipti bújarða og gera bændum kleift að halda rekstri bújarðar innan fjölskyldunnar og því er ekki lagt til að aðrir arftakar en þeir sem að framan greinir geti notið góðs af undanþágunni. Í þriðja lagi er gerð sú krafa að arftaki haldi áfram búskap í 10 ár eftir að arftaka átti sér stað. Leggist búskapur af innan þeirra tímamarka skal arftaki greiða erfðafjárskatt samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga um erfðafjárskatt. Miðast þá skattstofn við fasteignamatsverð jarðarinnar á því tímamarki er búskapur lagðist af.

Ekki er gerð krafa um að landbúnaðarrekstur arftaka eigi að vera sams konar eða að sama umfangi og landbúnaðarrekstur arfleiðanda var, heldur er einungis skylt að halda búskap áfram í einhverri mynd svo að ákvæði frumvarps þessa eigi við.

Frú forseti, Mikilvægi innlendrar landbúnaðarframleiðslu er óumdeilt og lýtur ekki síst að matvælaöryggi þjóðarinnar. Innan fárra ára eða árið 2030 þarf að auka matvælaframleiðslu um 40% til að mæta aukinni fólksfjölgun. Nýliðun í landbúnaði er langt frá því að vera nægileg til að standa undir þeirri aukningu. Því er nauðsynlegt að færa í lög hvata fyrir einstaklinga til að stofna til landbúnaðarreksturs eða viðhalda honum, m.a. í gegnum húsnæðisstuðningskerfi og skattalöggjöfina. Þess má geta að fyrir tveimur árum kom út skýrsla um fæðuöryggi á Íslandi. Skýrslan var gefin út af Landbúnaðarháskóla Íslands og unnin fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Skýrsla þessi er vel unnin og hefði mátt fá meiri athygli að mínum dómi. Eftir efnahagshrunið 2008 vöknuðu spurningar um fæðuöryggi þjóðarinnar og í ályktun sem samþykkt var á búnaðarþingi árið 2009 segir m.a.:

„Það liggur fyrir að þegar efnahagsörðugleikar dynja yfir hugsa einstakar þjóðir fyrst og fremst um að tryggja sínum eigin þegnum mat. […] Ekki er alltaf hægt að treysta því að unnt sé að flytja inn matvæli eða aðföng til matvælaframleiðslu.“

Það getur verið mismunandi milli þjóða hvernig best er að tryggja fæðuöryggi þeirra á óvissutímum. Mikilvægt er að eiga kost á að auka innlenda framleiðslu eftir þörf. Veiki hlekkurinn í fæðuöryggi Íslendinga er hversu háð við erum innfluttum matvælum og aðföngum til innlendrar matvælaframleiðslu. Þó að núverandi staða sé góð er óvíst um framvinduna og ef upp kæmu fordæmalausar aðstæður sem á einhvern hátt hindruðu innflutning og greið viðskipti milli landa. Ísland er í þeirri stöðu að geta framleitt fæðu langt fram yfir það sem þarf til að hafa fullt fæðusjálfstæði en er engu að síður meðal þeirra landa sem flytja inn hvað hæst hlutfall af sinni fæðu. Ísland hefur auðlindirnar til að standa vel að vígi í framleiðslu búfjárafurða, með grasbítum og grænmetisrækt og með nýtingu innlendra orkugjafa. Við gætum bætt í framleiðslu á korni, bæði fyrir búfé og til manneldis, og ríkisstjórnin hefur lagt sérstaka áherslu á að auka kornrækt í landinu. Þegar allt gengur eins og í sögu er auðvelt að gleyma öllum varúðarráðstöfunum og af tímum heimsfaraldursins Covid-19 er ýmislegt hægt að læra.

Allar greinar fæðuframleiðslu á Íslandi eiga það sammerkt að þær byggja á þekkingu sem er til staðar í landinu. Mannauðurinn í landbúnaði er það sem skiptir höfuðmáli. Án hans verður enginn landbúnaður og verður engin matvælaframleiðsla á Íslandi. En ef nýliðun í landbúnaði er ekki nægileg til að mæta aukinni fólksfjölgun í landinu erum við komin á hættulega braut. Það er skylda stjórnvalda að sjá til þess að eðlileg nýliðun eigi sér stað í landbúnaði og þetta frumvarp gengur út á það að færa í lög hvata fyrir einstaklinga til að stofna til eða viðhalda landbúnaðarrekstri og það er hagur okkar allra, frú forseti.

Að lokum vil ég segja að ég vona að þetta frumvarp nái fram að ganga og ég vil nota tækifærið og minna á það að á morgun eru ungir bændur með baráttufund í Salnum í Kópavogi sem hefst klukkan eitt. Þar á einmitt að ræða mikilvægi nýliðunar í landbúnaði og hvernig stjórnvöld geta komið þar að liði og þetta frumvarp er liður í því. Svo vil ég geta þess einnig að ég hef mælt hér fyrir þingsályktunartillögu um ættliðaskipti í landbúnaði þannig að það eru tvö þingmál sem ég hef mælt fyrir sem lúta að nýliðun í landbúnaði.

Að þessu sögðu, frú forseti, vil ég vísa málinu til hv. efnahags- og viðskiptanefndar.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og viðskn.