154. löggjafarþing — 21. fundur
 26. október 2023.
brottfall laga um heiðurslaun listamanna, 1. umræða.
frv. VilÁ, 50. mál. — Þskj. 50.

[11:13]
Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegi forseti. Hér ætla ég að mæla fyrir frumvarpi mínu til laga um brottfall laga um heiðurslaun listamanna, nr. 66/2012.

Lög nr. 66/2012 fólu í sér að árlega voru 25 listamönnum veitt heiðurslaun í fjárlögum og námu þau sömu upphæð og starfslaun listamanna á hverjum tíma. Eftir sjötugt námu þau hins vegar 80% af starfslaunum til samræmis við eftirlaunarétt annarra stétta. Með frumvarpinu er lagt til að lög um heiðurslaun listamanna, nr. 66/2012, verði felld brott. Þó verði tekið tillit til réttinda þeirra sem hafa nú þegar hlotið heiðurslaun á grundvelli laganna. Því er talið rétt að þeim sem nú þegar hafa á einhverjum tímapunkti hlotið heiðurslaun samkvæmt ákvæðum laganna verði greidd heiðurslaun til æviloka og mun Alþingi ekki hrófla við þeim hópi listamanna. Þó getur enginn listamaður sem ekki hefur áður hlotið heiðurslaun haft réttmætar væntingar um að hljóta heiðurslaun samkvæmt lögum um heiðurslaun listamanna, enda er það undir Alþingi komið hverju sinni hverjir hljóta heiðurslaun.

Heiðurslaun listamanna eru í eðli sínu frábrugðin starfslaunum listamanna samkvæmt lögum um listamannalaun, nr. 57/2009 og er mikilvægt að hafa þennan skýra mun á að hér er aðeins fjallað um brottfall heiðurslauna listamanna en ekki starfslauna listamanna enda sitthvort markmið og algerlega sitthvor virknin í þessum tvennu lögum.

Í lögum um listamannalaun kemur skýrt fram í 1. gr. að tilgangur þeirra sé að „efla listsköpun í landinu“, sem sagt starfslaununum, en slíkan tilgang eða markmið er ekki að finna í lögum um heiðurslaun listamanna. Í raun virðast lögin ekki hafa neinn eiginlegan tilgang annan en að veita afmörkuðum hópi listamanna föst mánaðarlaun fyrir vel unnin störf á sviði lista, enda er ekki gerð krafa um nokkurs konar vinnuframlag frá þeim sem þiggja heiðurslaun eftir að launin eru veitt. Markmið laganna er því ekki að efla þá sem hljóta heiðurslaunin í listsköpun sinni, enda eru heiðurslaunaþegar yfirleitt komnir á eftirlaunaaldur og oft hættir allri listsköpun. Það er náttúrlega ekki algilt af því að listin fer aldrei úr listamanninum, það er nokkuð ljóst. Þess utan geta listamenn ávallt sótt um starfslaun listamanna á grundvelli laga þar um, óháð aldri, og geta því þeir listamenn sem komnir eru á eftirlaunaaldur og enn að störfum aflað sér tekna með þeim hætti.

Heiðurslaun listamanna virðast því ekki bera neinn samfélagslegan ávinning, enda er það ekki markmið laganna. Eðlilegt verður að telja að samfélagslegur ávinningur sé forsenda fyrir fjárútlátum hins opinbera til íþrótta, lista og menningar almennt. Í tilviki heiðurslaunanna er tilgangur þeirra einungis að heiðra afmarkaðan hóp listamanna sem talinn er hafa skarað fram úr á starfsævi sinni. Færa má rök fyrir því að það sé vel til fundið að heiðra slíka listamenn með einhverjum hætti, en þá væri réttara að gera það með öðrum hætti en föstum launum á kostnað ríkissjóðs. Lengi vel var litið á heiðurslaun listamanna sem eins konar ellilífeyri sem átti að tryggja eldri listamönnum fjárhagslegt öryggi á efri árum. Slík sjónarmið eiga þó ekki við í dag þar sem almannatryggingakerfið tryggir listamönnum jafnt sem öðrum ellilífeyri. Þegar ákvörðun er tekin um að veita tilteknum listamanni heiðurslaun liggur nánast ekkert hlutlægt mat þar að baki og svo gott sem eingöngu unnt að ákveða hverjir séu þess verðugir að hljóta heiðurslaun á grundvelli huglægs mats. Í ljósi þess að list getur oft verið pólitísk, til að mynda ádeilur á einstaka stjórnmálamenn eða flokka, má líta svo á að óheppilegt sé að hinir sömu stjórnmálamenn og eru skotspónn ýmissa listamanna ákveði hverjir skuli hljóta heiðurslaun, enda getur það hæglega haft í för með sér að ákvörðunin verði ekki tekin út frá listrænni arfleifð manna heldur pólitískum skoðunum þeirra. Jafnframt er ferlið í kringum úthlutun heiðurslauna ógagnsætt og oft vandséð hvaða rök liggja að baki vali á listamönnum á heiðurslaunalistann. Slík framkvæmd er til þess fallin að varpa skugga á heiðurslaunafyrirkomulagið og vekur upp efasemdir um fagleg vinnubrögð við úthlutun heiðurslauna.

Ég vona að við getum fengið hér málefnalega og góða umræðu um þetta frumvarp og það fari til þóknanlegrar meðferðar í virðulegri allsherjar- og menntamálanefnd þar sem fjallað verður um þetta. Ekki væri verra að það tækist sátt um það hvort við fyndum eitthvað annað kerfi til að heiðra okkar góðu listamenn en með því að samþykkja heiðurslaun fyrir þá frá Alþingi sem, eins og hér kom fram, eru að hámarki 25 í hvert skipti. Þessi heiðurslaun eru því mjög takmörkuð auðlind. Frekar ætti að horfa á það hvernig við eflum nýja, unga listamenn enn meira og finna góða leið til að heiðra okkar góðu listamenn samt sem áður, sem ég tel að sé mjög gott mál. En ég held að vegna breyttra aðstæðna, eins og ég kom inn á; við höfum almannatryggingakerfi og eftirlauna- og lífeyrissjóðskerfi eru allt önnur og annað slíkt, sé kominn tími til að finna nýja leið í þessum efnum.



[11:20]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að hafa löng orð um þetta mál annað en að mér finnst flutningsmaður vera á algjörum villigötum. Ég held að þetta væri mjög slæmt skref. Í fyrsta lagi finnst mér ekki heppilegt að vera að blanda saman starfslaunum listafólks og heiðurslaununum sem slíkum. Þetta eru tvö ólík kerfi og gegna mismunandi hlutverkum. Annars vegar gegna starfslaunin því hlutverki að efla og auka möguleika listafólks í sínu daglega amstri. Oft er þetta fólk sem leggur út á mjög óræðar brautir þegar það ákveður að taka sér þetta fyrir hendur. Það er lítið um það að þetta fólk geti gengið inn í föst störf, þó að það sé auðvitað til í ákveðnum listgreinum, og það má ekki gleyma því að kannski er framsæknasta listafólkið oft að greiða leið fyrir annað listafólk. Það má alveg halda því fram að listamenn gegni oft sama hlutverki og háskólafólk sem sinnir hluta af sínu starfi í þágu rannsókna. Þau varða leiðina fyrir annað fólk.

Listin á auðvitað öðrum þræði, stundum a.m.k., að vera pólitísk. Hún er spegill á samtímann og mér finnst það óþarfaviðkvæmni hér að stilla hlutunum upp með þeim hætti að það skapist einhver vandi vegna þess að listamaður tekur ákvörðun um að gagnrýna eða lyfta upp hlutum í samtímanum sem við stjórnmálamenn höfum stundum ekki einu sinni komið auga á. Þar fyrir utan er listin bara falleg í sjálfu sér. Ég man fyrir nokkrum árum þegar ég var formaður Arkitektafélagsins og sat í Sambandi íslenskra listamanna. Þá ræddum við það hvort við ættum að ákveða einn dag á ári sem væri listlausi dagurinn þannig að þegar fólk vaknaði upp þá heyrði það ekkert í útvarpinu sínu, enga músík, það væri búið að fjarlægja allar myndir af veggjunum og þegar það keyrði í vinnuna væri búið að taka burt allar stytturnar. Kannski verður þetta flóknast ef við þyrftum að fjarlægja allar þær byggingar sem geta flokkast undir listaverk þannig að þetta væri kannski ekki framkvæmanlegt.

En ég held að fólk ætti kannski að gera sér í hugarlund annað slagið hvernig lífið liti út ef listarinnar nyti ekki við. Það hefur komið skýrt fram hjá Ágústi Einarssyni hagfræðingi hvaða hlutverki listirnar gegna í rauninni í efnahagslegu sambandi líka, þó að mér finnist það kannski ekkert endilega vera hinn eini rétti mælikvarði á því hvort það á að hampa hlutum. En það skiptir máli. Þær skipta líka gríðarlegu máli til að styðja undir aðrar atvinnugreinar í landinu eins og ferðaþjónustu. Mér finnst það í rauninni bara þróun sem er ekkert endilega til þess fallin að hætta við hlutinn þó að í upphafi hafi það verið hugsað sem ellilífeyrir fyrir listafólk. Eðli viðurkenningarinnar hefur einfaldlega breyst. Við viðurkennum og veitum þessu fólki viðurkenningu bara fyrir þeirra framlag til menningar í landinu sem mun lifa með okkur oft á tíðum í margar aldir og miklu lengur, a.m.k. heldur en kannski þau orð sem hér eru töluð í þessum ræðustóli akkúrat í augnablikinu eða þeirra ríkisstjórna sem koma og fara. Okkar merkasta listafólk er kannski augljósasta leiðin til að styrkja sjálfsmynd okkar og þjóða almennt. Það er þess vegna sem önnur ríki heiðra sína listamenn og það eigum við líka að gera.

Það er heldur ekki rétt sem hv. þingmaður segir, að það liggi ekkert hlutlægt mat til grundvallar þegar þessi hópur er valinn. Það er hins vegar rétt að við höfum kannski ekki staðið undir því að fara nógu vel með það hlutlæga mat sem okkur hefur þó borist í hendur, vegna þess að það er fagráð þriggja einstaklinga, að mig minnir, sem gerir tillögu til Alþingis um það hverjir eiga að hljóta þetta hverju sinni. Alþingi hefur hins vegar ekki alltaf farið eftir því og kannski sjaldnast og það er kannski það sem við þurfum að breyta. Kannski ættum við að fela slíkum faghópi að ákveða þetta og láta það svo standa, vegna þess að sá hópur leggur til grundvallar framlag listafólksins til menningar og lista í landinu og síðan er hópnum líka falið að jafna innan hópsins milli kynja og milli listgreina, sem sem betur fer fer fjölgandi á Íslandi.

Mér fyndist það því gríðarlega stórt skref aftur á bak ef þetta frumvarp yrði samþykkt og ég hef í rauninni enga trú á því vegna þess að ég held að það finnist mjög menningarsinnað fólk í öllum flokkum sem skilur eðli þessara hluta. Þeir fjármunir sem fara yfir höfuð í listsköpun á landinu eru ekki það miklir. Nægir að nefna að það er t.d. áskilið að 1%, minnir mig frekar en 1,5%, af byggingarkostnaði fari í Listskreytingasjóð. En ég held að það sé nú í fæstum tilfellum farið eftir því og við ættum kannski að fylgja því betur eftir, ekki síst á þeim tímum sem fólki finnst við arkitektar búa til of mikið af litlausum byggingum. Þannig að ég held að við ættum að skerpa á vinnulaginu við að ákveða hverjir fái þetta og hverjir ekki. Það er mjög einfalt að gera einfaldlega með því að hlusta betur á faghópinn sem leggur einmitt hlutlægt mat á það hverjum hlotnast þessi heiður og hverjum ekki. Þetta er líka hvetjandi fyrir ungt listafólk sem er eftir kannski fimm, sex ára nám að fara út í gríðarlega óvissu. Það eru engin fyrirtæki eða stofnanir sem bíða eftir þessu fólki og bjóða því fasta vinnu sem tryggir þeim öruggt lífsviðurværi alla ævi. Það ættum við að virða og auðvitað að þakka því listafólki sem er á þessum lista okkar núna og mörgum, mörgum öðrum sem ekki komast inn á hann fyrir ómetanlegt framlag sem við munum muna eftir og mun lifa með kynslóðum löngu, löngu eftir okkar dag.



[11:28]
Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir hans ræðu í þessu máli. Ég get tekið undir margt í ræðunni en það var annað sem mér fannst kannski ekki alveg vera í takti við það frumvarp sem ég var að leggja hér fram. Ég byrja á að spyrja hv. þingmann hvernig hann fékk það út að ég væri að blanda þessum tveimur málum saman, af því að ég reyndi, bæði í greinargerðinni með frumvarpinu og í máli mínu, að segja að þetta væri einmitt sitthvor hluturinn og að ég væri ekki að fjalla um starfslaun listamanna hér. Ég sagði að það væri frekar að þróa þau áfram til að styðja við unga og nýja listamenn og annað slíkt.

Ég get tekið undir mikilvægi listarinnar og fjölbreytni hennar. Í þessu frumvarpi er ekki neitt gert til þess að draga úr aðkomu ríkisins að listsköpun eða mikilvægi listar í landinu, langt í frá. Það er bara erfitt að svara þeirri spurningu að þó að við viljum heiðra okkar virðulega, góða og mikilvæga listafólk, hvernig það réttlætir það að viðhafa kerfi þar sem aðeins að hámarki 25 útvaldir af Alþingi fá heiðurslaun en allir hinir sem eru að gera það svo gott — ég hugsa að listgreinarnar séu örugglega fleiri en 25. Hvernig er þá hægt þá að réttlæta slíkt kerfi sem var búið til á öðrum forsendum í staðinn fyrir að opna hugann og sjá hvernig við getum heiðrað fleira af okkar góða listafólki?



[11:30]
Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað getum við heiðrað listamenn á ýmsan hátt, hvert og eitt okkar gætu gert það bara með því að lesa bækurnar og skoða málverkin og fara á tónleikana. En hér erum við að tala um að lyfta upp fólki sem fagnefnd hefur komist að að hefur skilað ótrúlega merkilegu lífsstarfi sem skiptir sjálfsmynd þjóðarinnar máli. Ég held að ef hv. þingmaður myndi spyrja bara almenna listamenn, þótt þau hafi aldrei ratað á þennan lista og muni ekki gera það, hvort þau vildu leggja þetta niður að svarið yrði nei, afdráttarlaust. Og af því að í upphafi spurði hv. þm. Vilhjálmur Árnason hvernig ég hafi fengið það út að hann væri að bera saman starfslaunin annars vegar og heiðurslaunin hins vegar þá er það bara mjög einfalt, vegna þess að er alveg rétt hjá hv. þingmanni, hann talar um það í greinargerðinni hver munurinn á þessu sé, en hann segir hér í ræðustóli í andsvarinu að hann hafi viljað koma því á framfæri hvernig hægt væri að þróa starfslaunin frekar og efla þau á kostnað þá heiðurslaunanna, þannig að það er auðvitað augljóst mál hvað ég átti við.

En það er óþarfi að rífast um það. Ég held að aðalatriðið sé að við þróum áfram, eins og ég sagði í ræðu minni, með hvaða hætti við getum tilnefnt og veitt framúrskarandi listafólki heiðurslaun án þess að það sé hafið yfir vafa að það liggi faglegt mat þar á bak við. Það gerist frekar með því að þingnefnd Alþingis hlusti á fagnefndina en taki ekki alltaf sjálfstæðar ákvarðanir sem byggja jafnvel á því hvað mörg SMS berast með tilteknum nöfnum.



[11:32]
Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skynja það nú að við hv. þingmaður erum algjörlega sammála um að það er mikilvægt að heiðra listamenn og listafólk. En hvort að heiðurslaun séu akkúrat rétta leiðin til þess, þar greinir okkur á, eða þessi takmörkun á því að heiðra að hámarki 25. Sá sem fer einu sinni inn á listann hefur hingað til ekki farið út af honum aftur nema þegar viðkomandi andast. En við þekkjum samt hér í þessum sal að það er misjafnt hvernig aðdragandinn er að því hvernig valið er á listann. Þar hafa þessi sjónarmið komið fram og það hefur verið kallað, held ég, í þessa fagnefnd alveg síðan 2016 eða 2017. Þá er ekkert síður pólitík innan listaheimsins en hér inni á Alþingi, ef ekki meiri, varðandi hvaða listgreinar eiga fulltrúa þar inni. Og svo koma að sjálfsögðu kynin og aðrar breytur þar inn í. Við höfum oftar en ekki fengið mikið af tölvupóstum og skeytum, bæði frá listamönnunum sjálfum og frá stjórnmálaflokkum eða frá fólki innan þeirra sem tala fyrir einstaka listamönnum og við vitum alveg að það er mjög mikil pólitík á bak við þetta kerfi þó að við séum með þessa nefnd og hún hafi verið kölluð til. Það er líka pólitík innan listaheimsins varðandi hvernig valið er í nefndina, hvernig listgreinarnar er metnar, virðing á milli listgreina. Þetta þekkjum við allt hér sem höfum fylgst með þessu ferli um langan tíma.



[11:34]
Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, auðvitað er aldrei neitt hafið yfir vafa. En í stað þess að kasta kerfi sem skiptir máli fyrir listamenn þá væri kannski tilraunarinnar virði að reyna að vinda ofan af pólitískum duttlungum, ef þeir ráða ferðinni. Það er hægt, eins og ég benti á áðan, með því að reiða sig meira á faghópinn sem er tilnefndur með ákveðnum hætti. Það væri t.d. alveg hægt að leggja það bara alfarið í hendur Samband íslenskra listamanna að gera það og aftengja þetta alveg stjórnmálunum. Nú veit ég ekki hvernig það er gert. Það getur meira að segja vel verið að það sé þannig.

En það er auðvitað alveg rétt hjá hv. þingmanni að fólk kemur ekki inn og fer út af þessum lista bara svona eftir því sem vindar blása vegna þess að hér er ekki verið að greiða fólki laun fyrir að vinna að list sinni og það er heldur ekki verið að verðlauna það fyrir eitthvert ákveðið listaverk. Það er verið að heiðra það fyrir lífsstarf sem hefur greitt leiðina fyrir fólk sem kemur á eftir, sem er líklegt til að halda sjálfsmynd okkar sem þjóðar á lofti meðal annarra þjóða sem heiðra meira eða minna allar sitt listafólk. Mér þykir gott að heyra það sem kom fram í andsvarinu, þó að ég hafi þóst vita það, við hv. þingmaður er ekki ósammála um að við eigum að heiðra listamenn. Við skulum þá bara láta staðar numið hér og láta ágreininginn snúast um hvort þetta er rétta leiðin eða ekki. En ég vildi bara koma upp til að lýsa því yfir að mér finnst þetta ekki vera rétta leiðin og mér fyndist það vera skref aftur á bak.



[11:37]
Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Frú forseti. Já, það er margt í þessu og ég er að sumu leyti sammála því sem hv. þingmaður hefur hér sagt um viss vandkvæði á því fyrirkomulagi sem við höfum haft á heiðurslaununum til þessa. Á síðustu öld skiptu stjórnmálaflokkarnir, þingflokkarnir, þessu dálítið á milli sín. Hver flokkur fékk sinn listamann og svo var kannski úr misgóðum listamönnum að velja hjá viðkomandi flokkum þannig að oft var það dálítið undir hælinn lagt hvernig til tókst með þá sem fóru á heiðurslaun, án þess að ég ætli eitthvað að fara að nefna einhver sérstök nöfn hér um listamenn sem hafi ekki verið þess verðir að vera á heiðurslaunum. Það er ekki við hæfi að gera það hér, en þess voru dæmi vegna þess að viðkomandi höfðu þá góð tengsl inn í tiltekna stjórnmálaflokka. Þetta íslenska kunningjasamfélag virkaði dálítið þannig að ef maður var í góðum samböndum gat maður kannski komist á heiðurslaun listamanna þó að maður væri ekki einu sinni kominn á eftirlaunaaldur.

Mér finnst lykilhugtak í þessu vera það sem segir í greinargerð; samfélagslegur ávinningur. Í greinargerðinni er sett spurningarmerki við það hvort það sé einhver samfélagslegur ávinningur af því að vera með þessi heiðurslaun. Því er eiginlega svarað neitandi og er þá borið saman við t.d. starfslaun listamanna, framlög til íþrótta eða annað því um líkt. Það er vissulega sjónarmið að samfélagslegur ávinningur er kannski ekki alveg augljós. Þessi heiðurslaun geta skipt sköpum um afkomu viðkomandi listamanna. Við vitum að margir listamenn búa við sárafátækt vegna þess að þeir hafa ekki greitt í lífeyrissjóði og þar fram eftir götunum og eiga ekki sparnað þegar kemur að ævikvöldinu. Það getur skipt miklu máli að hafa slíkar fastar tekjur án þess að þurfa að vera að fylla út sífelldar umsóknir eða sýna einhver afköst. Samt er það kannski ekki aðalatriðið að þessi heiðurslaun séu fyrir viðkomandi listamenn. Samfélagið er ekki með þessi heiðurslaun fyrir viðkomandi listamenn. Samfélagið er með þessi heiðurslaun fyrir sig. Þetta er hinn samfélagslegi ávinningur; hann snýst um sjálfsmynd samfélagsins. Við erum svona samfélag sem heiðrar sína listamenn, sem velur þá listamenn sem við teljum hverju sinni að hafi haft mikil áhrif á líf okkar og menningu og séu þess verðir að við heiðrum þá.

Mér hefur heyrst í umræðum hér um þetta frumvarp að hv. þingmaður sé sammála því að það sé rétt að heiðra listamenn sem hafa skarað fram úr eða haft sérstök áhrif á þróun listanna með sínum ferli en hann hafi meiri spurningar um hvernig það fyrirkomulag sé. Ég get að sumu leyti tekið undir það að það er umdeilanlegt fyrirkomulag að Alþingi geri þetta með þeim hætti sem verið hefur. Ég hef sjálfur setið í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og tekið þátt í því að heiðra listamenn með þessum hætti og get vottað að það er með því ánægjulegasta sem ég hef tekið þátt í að gera hér á þinginu vegna þess að það voru listamenn sem ég taldi vera mjög verðuga þess að hljóta þennan heiður og var þá gaman að fá að eiga hlut í því að heiðra fólk fyrir ævistarf sitt og framlag til íslenskrar menningar. En í því starfi áttaði ég mig á því að það eru vissir vankantar á því að við þingmenn séum að véla um þetta af vissum vanefnum. Við fengum álitsgerð frá sérfræðingum en það var alveg undir hælinn lagt hvort sú greinargerð fékk nokkurn hljómgrunn meðal þingmanna sem voru bara að nefna sína uppáhaldslistamenn og tala um af hverju við heiðrum ekki frekar þennan og hinn. Þetta var ekki mjög markviss vinna og hún var ekki fagleg. Að fenginni þessari reynslu hef ég svolítið komist á þá skoðun að það sé frekar rétt að fela þessa vinnu fagmönnum, að við fáum vandaða vinnu fagmanna við að hjálpa okkur við að heiðra þessa listamenn.

Ég held að mér sé óhætt að segja að alls staðar í þeim löndum sem við berum okkur saman við tíðkast það að einhverjir listamenn séu teknir sérstaklega út úr og heiðraðir fyrir sitt framlag sem þykir alveg sérstakt. Oft eru svona akademíur og stundum er það þannig að akademían sjálf tekur inn listamenn og það fer eftir einhverjum sérstökum reglum. Það er allur gangur á þessu og það væri skrýtið ef það kæmi frétt um það frá Íslandi, af því að nú tíðkast fréttir frá Íslandi í erlendum fjölmiðlum, að Íslendingar væru hættir að veita heiðurslaun listamanna. Það held ég að vina- og frændþjóðum okkar þætti skrýtið uppátæki. Þetta tíðkast alls staðar og snýst einfaldlega um að viðkomandi þjóð telur sig vera á ákveðnu menningarstigi.

Það er hins vegar svo að það má hugsa sér betri leið við að velja þessa viðkomandi listamenn en við verðum að finna þá leið og koma okkur saman um hver sú leið er og verðum að vera búin að ganga frá því hvernig sú leið verður áður en við höldum í þá vegferð að leggja niður heiðurslaun listamanna. Ég tel að þetta sé alveg öfug röð eins og hér er lagt upp með. Ég er smeykur um að dæmin sýni að ef eitthvað er einu sinni lagt niður er erfitt að koma því á fót aftur. Eins og þetta virðist hugsað er eins og þetta eigi að smádeyja út með þeim sem njóta þessara launa núna án þess að það komi fram í greinargerðinni hvað hv. flutningsmaður sér fyrir sér að komi í staðinn.

Ég er alveg til viðræðu um að þessu fyrirkomulagi verði breytt og það tekið úr höndum hinna pólitísku fulltrúa. Þó má segja að viss rök séu fyrir því að þingið hafi þetta með höndum vegna þess að við sem hér sitjum erum kjörin sem fulltrúar kjósenda og erum fulltrúar þjóðarinnar. Við erum þjóðkjörnir fulltrúar og það má segja að þetta sé ljúf skylda sem okkur er lögð á herðar. En ef við höldum því fyrirkomulagi að þjóðkjörnir fulltrúar haldi áfram að velja þessa listamenn þá verðum við að koma meiri skikki á það hvernig þeir eru valdir, að það sé bæði meiri festa og faglegar að því staðið.



[11:47]
Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir afar góða ræðu. Hún var mjög áhugaverð og velti upp þeim álitamálum sem maður hefur í þessu og var vel gerð. Það eru nefnilega nokkrar stórar spurningar í þessu sem mér finnst vera svolítið erfitt að nálgast og finna svör við. Hv. þingmaður talaði um sjálfsmynd samfélagsins og ég get algerlega tekið undir að list skiptir miklu máli þar og við berum öll mjög mikla virðingu fyrir listum og mikilvægi þeirra, eins og við gerum líka fyrir íþróttafólki og afreksíþróttafólki sem nær að sameina þjóðina á bak við sig. Margir listamenn hafa haft áhrif á líf mitt þó að ég sé ekki mjög djúpt í listinni og listaheiminum og hef kannski meira verið á öðrum vettvangi. Ég hugsa að það samfélag sem er á svipuðum stað og ég, sem nýt þessara frægu listamanna í gegnum ýmsa viðburði á mínum lífsferli — ég horfi svolítið öðruvísi á það hvaða listamaður er mikilvægur minni sjálfsmynd heldur en hvernig akademían eða fagfólkið lítur á það. Þess vegna finnst mér svolítið erfitt að skilja hvernig hægt er að koma hér upp og segja að það sé hægt að meta hvaða list það er sem hefur haft hvað mest áhrif á sjálfsmynd þjóðar, að fagfólk hafi eitthvert meira vit eða skoðun á því en ég. Mér finnst þetta svolítið eins og að fá fagmenn til þess að segja hvaða stjórnmálaflokkur eigi að fá þá virðingu að vera settur á einhver heiðurslaun fyrir áhrif sín á samfélagið og sjálfsmynd þjóðar út á við.



[11:49]
Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar og ég þykist skynja það að þetta mál er ekki sett fram vegna þess að hv. þingmaður sé andvígur list. Það er ekki það sem vakir fyrir honum heldur er hann meira að velta fyrir sér: Af hverju heiðrum við þennan frekar en alla hina og hver er bær til að velja? Þetta eru allt gildar spurningar og það er ekki til einhlítur mælikvarði um það hvað er mikil list og hvað ekki. Þetta er eins og að spyrja: Af hverju er Guernica Picassos meira listaverk heldur en það sem ég var að krota á meðan ég var að hlusta á hv. þingmann tala? En það er samt svo að Guernica er meira listaverk og hefur náð að tjá óheyrilega stóra og mikla hluti í sameiginlegri vitund mannkynsins. Það er líka svo að það hafa verið skrifuð og gerð listaverk hér á landi sem hafa náð að tjá eitthvað sem við eigum öll sameiginlegt og við finnum það þegar við stöndum andspænis þessum listaverkum, hvort sem við lesum þau, horfum á þau eða hlustum á þau. Til að meta þetta mega ekki koma til einhver hreppasjónarmið, flokkspólitísk eða pólitísk sjónarmið, heldur er fólk sem hefur varið ævi sinni í það að stúdera list, njóta listar og vera í kringum list best hæft til þess að meta, þó að það sé alltaf umdeilanlegt.



[11:52]
Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Þetta eru skemmtilega heimspekilegar umræður sem við eigum hér um þetta. Ég held einmitt að það sé mjög erfitt að mæla list út frá hlutlægum mælikvörðum. Meira að segja þeir sem eru búnir að verja ævi sinni í að meta list og annað — hvernig er hægt að segja að þessi hafi gert meira en hinn eða að þessi listgrein sé mikilvægari en hin?

Þótt ég hafi tekið þátt í störfum hv. allsherjar- og menntamálanefndar hef ég aldrei samþykkt viðbót við heiðurslaun listamanna. Kannski einu sinni — ég á eftir að kanna betur hvernig það endaði — þegar það var hálfgerð þjóðstjórn eftir kosningar. Annars hef ég ekki tekið þátt í þeirri afgreiðslu. Þá vorum við með fjöldann allan af mjög virðulegu listafólki á lista. Það komu tilnefningar og fjöldi fólks kunni að meta list þeirra og voru allir verðir þess. Af langri setu minni í allsherjar- og menntamálanefnd hef ég komist að því að pólitíkin innan listageirans er mun meiri en hér við Austurvöll. Hún er mjög mikil; af hverju sviðslistirnar fá minna en bókmenntirnar og af hverju bókmenntirnar fá minna en textahöfundar o.s.frv. Hv. þingmaður þekkir þetta verandi úr listageiranum. Hvað varðar þá sem uppfylltu skilyrðin var mikið rifist um þetta: Það er enginn úr þessari listgrein og þess vegna á hann að fá frekar en hinn. Hinn sem var búinn að uppfylla öll skilyrði og gera mikið fyrir sjálfsmynd þjóðar komst ekki að af því að svo margir aðrir voru búnir að gera það líka, eða að hann var ekki af réttu kyni og fleiri voru af öðru kyninu. Við erum því hvort sem er í vandamálum með þetta.



[11:54]
Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Lífið er ekki einfalt. Það er eiginlega eina svarið sem ég get gefið við þessum vangaveltum. Þetta er vissulega flókið úrlausnarefni en eftir stendur það að ég tel að samfélagslegur ávinningur sé svo mikill af því að heiðra úrvalslistamenn sem almenn sátt er um, að það sé til vinnandi að standa í því að leysa af hendi þetta flókna verkefni. Á móti kemur að það er alltaf ánægjulegt að heiðra fólk fyrir sitt góða starf. Ég hef tekið þátt í þessu starfi og alls ekki alltaf haft minn vilja fram, en ég hef alltaf tekið þátt í þessari afgreiðslu og gert það með mikilli ánægju. Ég tel að það yrði mikið skref aftur á bak ef við hættum að heiðra okkar fremstu listamenn með þessum hætti, a.m.k. ættum við ekki að gera það fyrr en við erum búin að finna aðrar leiðir sem augljóslega séu hentugri.