154. löggjafarþing — 83. fundur
 11. mars 2024.

Spyrjandi var .

efnahagsstjórn og kjarasamningar.

[15:21]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra um kjarasamningana. Ég vil undirstrika að það er mikið fagnaðarefni að hér hafi náðst langtímakjarasamningar. Þeir veita ákveðinn fyrirsjáanleika og ekki síst er þetta mikilvægt fyrir þá sem hafa þurft á húsnæðisstuðningi að halda eftir ákveðna óstjórn af hálfu ríkisstjórnarinnar í landinu. Engu að síður er þetta fagnaðarefni. En ég tala um fyrirsjáanleika. Þá skiptir máli að það sé alveg skýrt að ríkisstjórnin segi hvernig hún ætlar að fjármagna 80 milljarða framlag ríkissjóðs til kjarasamninganna, hvernig það á að gerast. Það eru margir mánuðir síðan að ríkisstjórnin sjálf lýsti því yfir að hún ætlaði að stíga mynduglega inn í kjarasamningana. Það eru margir mánuðir síðan verkalýðshreyfingin sagði hverjar kröfur hennar væru. Síðan er blaðamannafundur núna til að kynna kjarasamningana og ekki talað skýrt um það hvernig ríkissjóður ætlar að fjármagna sína aðkomu. Það er svona uml um að beita eigi aðhaldi í ríkisrekstri, hugsanlega fara í sameiningar. Þessi ríkisstjórn hefur enga afrekaskrá þegar kemur að aðhaldi í ríkisrekstri eða hagræðingu í ríkisrekstri, sameiningu ríkisstofnana, bara enga. Það er því ekki þannig að ríkisstjórnin geti komið og sagt: Við ætlum bara að gera þetta einhvern veginn með aðhaldi. Við þurfum að fá ríkisstjórnina til að tala skýrt. Það er kaldhæðni örlaganna að kjarasamningarnir sjálfir eru að vinna til baka það sem slök efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar hefur valdið heimilum og fyrirtækjum í formi viðvarandi verðbólgu, lengur hér en annars staðar. Viðvarandi hærri vextir hér en annars staðar — þeir verða reyndar alltaf þrisvar sinnum hærri hér en annars staðar — eru afleiðing hagstjórnar þessarar ríkisstjórnar. En launþegar, verkalýðshreyfingin og almenningur í landinu (Forseti hringir.) á skýra kröfu um það að ríkisstjórnin svari skýrt hvernig hún ætlar að fjármagna framlag sitt, 80 milljarða. Er það með erlendum lántökum, sem ég vara eindregið við? Er það með hækkun skatta og gjalda eða er það með raunverulegu aðhaldi í ríkisrekstri, efni sem hún kann ekkert í?



[15:24]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég ætla að leyfa mér að segja að það er mikil ánægja í samfélaginu með þróun mála á almennum vinnumarkaði. Það er mikil ánægja með að það hafi náðst kjarasamningar til fjögurra ára. Það eru einna helst að maður heyri óánægju frá stjórnarandstöðunni á Alþingi sem kannski átti ekki von á að þetta myndi ganga eftir. Við erum komin með langtímasamninga og ég er mjög bjartsýn á það að fleiri félög fylgi í kjölfarið. Fagfélögin skrifuðu undir um helgina, VR situr við samningaborðið og þar að sjálfsögðu skiptir innlegg stjórnvalda máli.

Hv. þingmaður talar um óstjórn í húsnæðismálum. Ekkert gæti verið fjær lagi. Í tíð þessarar ríkisstjórnar og núverandi hæstv. innviðaráðherra hefur einmitt verið mótuð langtímahúsnæðisstefna sem svo sannarlega var þörf á. Það hefur verið gert rammasamkomulag um uppbyggingu húsnæðis og í þessari áætlun, sem við kynntum samhliða kjarasamningum, er gert ráð fyrir að við höldum áfram að styrkja framboðshliðina eins og við höfum boðað. Ekkert sem þarf að koma á óvart þar. Og já, við erum að efla barnabótakerfið, sem þarf heldur ekki að koma á óvart, enda kynntum við fyrstu aðgerðir til að efla það í tengslum við skammtímasamninga í lok árs 2022. Við ætlum að halda áfram með þá kerfisbreytingu sem byggir á ítarlegu samtali við aðila vinnumarkaðarins. Við ætlum sömuleiðis að efla leigustuðning, sem þarf heldur engum að koma á óvart því að það er það sem við höfum verið að gera.

Hvernig ætlum við að fjármagna þetta? Við munum kynna fjármálaáætlun þar sem gert er ráð fyrir þessu. Við höfum talað algerlega skýrt. Þetta er okkar forgangsmál. Það er okkar forgangsmál að skapa hér forsendur til þess að unnt verði að draga úr verðbólgu og að vextir verði lækkaðir, að skapa forsendur til að lækka vexti. Þess vegna segi ég: Innlegg stjórnvalda í þessa kjarasamninga er fjárfesting, fjárfesting í þjóðarhag. Ég tel að sá ávinningur sem efnahagslífið á Íslandi mun hafa af því að hér náist langtímasamningar sem skapa forsendur fyrir lækkun verðlags og vaxta, sé margfaldur á við (Forseti hringir.) umfang þeirra aðgerða sem hér hafa verið kynntar og gefi okkur tækifæri til að halda áfram að vaxa og dafna á samningstímanum.



[15:26]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég undirstrika að kjarasamningar til lengri tíma eru fagnaðarefni. Það er enginn að deila á það. Við erum einfaldlega að spyrja skýrrar spurningar: Hvernig verður þetta fjármagnað? Þessu hefur Viðreisn varað við alveg frá 2019, við bentum á það fyrir Covid að ríkissjóður var þá þegar orðinn ósjálfbær. En ég vil óska Vinstri grænum til hamingju með það að vera búin að toga Sjálfstæðisflokkinn í sjö ár, mjög reglulega, og núna síðast að fara og auðvelda leiðina inn í skattahækkanir. Það er bara þannig. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru þegar byrjaðir að afneita þessum samningum. Formaður fjárlaganefndar, Framsóknarmaður, segir: Við förum alla vega ekki einhverja ákveðna leið eins og almennar skattahækkanir, við ætlum frekar að fara í aðhald. Það heyrist sitthvor tónninn. Ég held að helsti tíminn hjá ríkisstjórninni síðustu mánuði hafi verið að vinna í einhverjum fyrirvörum af hálfu ríkisstjórnarflokkanna í hinu og þessu málinu. Það sem við erum að biðja um er: Talið þið skýrt, hættið að vera með einhverjar sjónhverfingar. Það skiptir máli að kjarasamningar til lengri tíma vinni raunverulega gegn verðbólgu, (Forseti hringir.) vinni raunverulega að því að lækka vexti. Þá þarf ríkisstjórnin að segja það skýrt hvernig hún ætlar að gera það en ekki koma með einhverjar sjónhverfingar. (Forseti hringir.) Hæstv. ráðherra veit það vel eftir að hafa legið í kassa og kassinn sagaður í sundur, að töframaðurinn var ekki að saga manneskjuna í sundur, hún er hér enn þá. Við þurfum raunveruleikatengsl, ekki einhverjar sjónhverfingar.



[15:28]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að rifja upp afrek forsætisráðherrans á töfrasviðinu sem eiga auðvitað mikið erindi við almenning í landinu. En ef við erum að ræða áhrif þessara kjarasamninga á þróun efnahagsmála þá munu þeir, a.m.k. ef marka má fyrstu viðbrögð greiningaraðila sem eru öll á einn veg, hjálpa okkur í því verkefni að stuðla að hjöðnun verðbólgu og skapa forsendur fyrir lækkun vaxta. Ríkissjóður er ekki ein stærð sem hægt er að tímasetja á einn dag og þess vegna segi ég: Þetta eru hin stóru þjóðhagslegu áhrif. Ég vil hins vegar vera algerlega skýr, eins og hæstv. fjármálaráðherra var hér áðan: Við teljum, með því að taka þessa ákvörðun, að þetta sé okkar forgangsverkefni í komandi fjármálaáætlun. Þetta hefur forgang umfram önnur verkefni. Við erum ekki að fara að fjármagna þetta, enda væri það nú vægast sagt óeðlilegt að koma aftan að fólki þannig, með því að hækka tekjuskatt á einstaklinga eða lögaðila í landinu. Við erum ekki að gera það. En ég vil líka segja það af því hv. þingmaður nefndi hér árangur ríkisstjórnarinnar í þessu að sjálf hef ég nú sameinað stofnanir, það hafa fleiri ráðherrar gert. (Forseti hringir.) Hér hefur verið unnið heilmikið í því verkefni að einfalda ríkisreksturinn og ég er ekki í nokkrum vafa um að það er áfram hægt að gera (Forseti hringir.) án þess að það bitni á nokkurn hátt á þjónustu við almenning sem alltaf er okkar forgangsmál. Ég held að þessar aðgerðir sem við kynntum séu góðar fyrir samfélagið, góðar fyrir velferðina í landinu (Forseti hringir.) og reynist á endanum, eins og ég sagði áðan, fjárfesting í þjóðarhag.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á að ræðutími er takmarkaður í óundirbúnum fyrirspurnum, bæði hjá hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum, tvær mínútur í fyrri ræðu og ein mínúta í síðari.)