154. löggjafarþing — 85. fundur
 12. mars 2024.
störf þingsins.

[13:32]
Birgir Þórarinsson (S):

Herra forseti. Ísland hefur staðfest nýjan fríverslunarsamning milli Indlands og EFTA-ríkjanna, þ.e. Íslands, Liechtenstein, Noregs og Sviss. Hér er um sögulegan tímamótasamning að ræða og samningurinn er fyrsti fríverslunarsamningurinn sem Indland undirritar við Evrópuríki. Asía er í stöðugum efnahagslegum vexti. Indland mun þar vaxa hraðast á komandi árum og í því felast mikil tækifæri sem við erum nú orðin þátttakendur í. Samningaviðræður Íslands og EFTA um fríverslunarsamninginn hafa staðið í 17 ár og hafa 20 lotur samningaviðræðna átt sér stað og viðskipti EFTA-ríkjanna og Indlands námu um 5,5 milljörðum evra á síðasta ári eða um 825 milljörðum íslenskra króna. Samningurinn kveður á um afnám tolla og annarra viðskiptahindrana. Til framtíðar getur Indland orðið einn af mikilvægari mörkuðum okkar fyrir útflutningsvörur. Samningurinn bætir markaðskjör á öllum helstu útflutningsvörum Íslands til Indlands og frá gildistöku hans munu sjávarafurðir og helstu iðnaðarvörur sem Ísland flytur út ýmist njóta fulls tollfrelsis eða umtalsverðrar tollalækkunar. Þrátt fyrir miklar takmarkanir á innflutningi á landbúnaðarvörum til Indlands tryggir samningurinn Íslandi tollfríðindi fyrir lambakjöt, vörur úr sjávarþara, drykkjarvatn og óáfenga drykki svo að eitthvað sé nefnt. Skuldbindingar sem Ísland tekur á sig varðandi markaðsaðgang fyrir landbúnaðarvörur eru sambærilegar við fyrri fríverslunarsamninga Íslands á vettvangi EFTA og þar er að stærstum hluta um að ræða landbúnaðarvörur sem ekki eru framleiddar á Íslandi.

Herra forseti. Ég óska okkur öllum til hamingju með þennan tímamótasamning. Ég vil nota hér tækifærið til að þakka íslensku samninganefndinni fyrir þeirra mikilvægu störf og öllum þeim sem hafa komið að þessu máli síðastliðin 17 ár.



[13:35]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum heppin að hafa þann rétt hér á Íslandi að mótmæla friðsamlega. Ég mótmælti hér friðsamlega með baráttusamtökunum Bót sem voru baráttusamtök gegn fátækt og félagslegu óréttlæti sem voru stofnuð eftir bankahrunið á sínum tíma. Ofbeldi í mótmælum á ekki að eiga sér stað. Það að ég hafi sagt frá því að tjaldbúðir sem voru hér við Austurvöll vikum eða jafnvel mánuðum saman, í boði Reykjavíkurborgar, væru fordæmisgefandi fyrir aðra til að geta tjaldað ef þeir vildu mótmæla varð til þess að ég var kallaður barnamorðingi, rasisti, fasisti og fleira sem er ekki einu sinni hafandi eftir, bara fyrir það eitt að benda á þetta. Og hvað segir það okkur þá um þá umræðu sem er í gangi í þjóðfélaginu í dag? Henni er varla viðbjargandi. Ég segi eins og Hera, sem ætlar að fara í Eurovision, að það sem hún hafi fengið yfir sig hafi verið svo skelfilegt að það sé ekki hafandi eftir; að það þurfi að faðma þetta fólk, að það sé eitthvað meira en lítið að þegar fólki líður svo illa að það þurfi að hrauna yfir náungann með alveg fáránlegum ásökunum. Barnamorðingi, fasisti, rasisti — það erum við ekki. En við erum með fólk sem býr í iðnaðarhúsnæði, hjólhýsum og heilsuspillandi húsnæði og því ber að mótmæla. En þegar gengið er að einhverjum ráðamanni og skvett á hann dufti, hvort sem það er glimmer eða annað, veit viðkomandi ekki hverju verið er að skvetta á hann. Það er ofbeldi. Að brjóta rúður í húsi er ofbeldi. Að reyna að skemma í nafni mótmæla er ofbeldi og það eigum við ekki að líða. Við erum frjáls til að mótmæla en gerum það friðsamlega.



[13:37]
Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Hér hefur þingmönnum verið tíðrætt um það hvernig á að fjármagna aðkomu ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum breiðfylkingar og Samtaka atvinnulífsins, tímamótakjarasamningum. Það hefur verið nefnt af alls konar sérfræðingum, hagfræðingum og fulltrúum hvaðanæva að að það sé bara þrennt í stöðunni; þ.e. annaðhvort að hækka skatta, draga úr framleiðni eða þenslu eða jafnvel taka erlend lán. Engum einasta einstaklingi hefur dottið í hug það augljósa; það sem Flokkur fólksins hefur hér sex sinnum mælt fyrir þingsályktunartillögu um þar sem við förum fram á það að lífeyrissjóðir fái ekki lengur undanþágu frá staðgreiðslu skatta. Bara það að afnema undanþágureglu lífeyrissjóðanna um staðgreiðslu skatta við innborgun í sjóðina gæfi ríkissjóði hátt í 70 milljarða kr. á ári. Það er enginn með okkur á svona tillögu, ekki nokkur einasti aðili vegna þess að svarið sem kemur er: Ætlið þið virkilega að fara að taka jafnvel 34% í staðgreiðslu við innborgun þegar einstaklingurinn gæti verið að ávaxta þetta alla sína starfsævi? Ég segi á móti: Fussum svei. Ég veit ekki betur en að þeir sem hafa í sveita síns andlitis stritað á meðallaunum og lægstu launum alla sína starfsævi fái í rauninni baun í bala. Og það litla sem kemur frá lífeyrissjóðunum í greiðslu í fyllingu tímans er skert frá almannatryggingum. Viðkomandi er í rauninni nánast undir lágmarkslaunum eftir alla sína starfsævi ef hann hefur ekki verið svo heppinn að komast á spenann hjá hinu opinbera og fengið að maka krókinn þar í enn þá betri og virðulegri lífeyrissjóði heldur en hinn almenni launþegi í landinu. Þannig að ég segi: Það er löngu, löngu tímabært að afnema þessa sérreglu sem er utan um lífeyrissjóðina og gefa okkur kost á því að koma þessum tæplega 70 milljörðum kr. í okkar sameiginlegu sjóði á hverju einasta, einasta ári.



[13:39]
Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Fyrrverandi nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, Gylfa Zoëga, var í athyglisverðu viðtali á Eyjunni fyrir nokkru. Þar lét hann m.a. þessi orð falla, með leyfi forseta:

„Krónan er samkeppnishindrun. Þú hefur tryggingastarfsemina, þú hefur bankastarfsemina. Það er alls staðar renta í þessu hagkerfi sem fólk fær. Það er jákvætt þegar renta verður til eins og þegar Apple býr til síma, þá verður til renta af því að þeir eru með besta símann. En það er ekki jákvætt að það sé til renta vegna þess að það er engin samkeppni vegna þess að þú ert í svo lokuðu hagkerfi að enginn vill vera hérna og þú ert með gjaldmiðil sem er svona sveiflukenndur.“

Þetta eru stór orð frá manni sem þekkir íslenskt hagkerfi út og inn. Það er ekki hægt að lesa neitt annað út úr orðum hans en að íslenska krónan sé í raun ónothæf fyrir aðra en þá sem eiga fyrirtæki sem þrífast vel í skjóli fákeppni. Fyrirtækin sem þrífast í slíku skjóli eru nokkur og samráð þeirra hefur kostað íslenskan almenning tugi milljarða í formi hærra vöruverðs en ekki síður vegna aukinnar verðbólgu sem stóraukið hefur greiðslubyrði íslenskra heimila. Það sást bersýnilega í samráði skipafélaganna. Það skiptir heldur ekki miklu máli við hvaða tryggingafélag þú átt viðskipti við né heldur í hvaða banka þú leggur inn í launin þín. Kjörin eru alltaf sambærileg. Hvaða erlenda tryggingafélag eða banki ætti að vilja hefja hér starfsemi þegar gjaldmiðillinn sveiflast eins og strá í vindi og fyrirsjáanleikinn er enginn? Hvaða langtímafjárfestir ætti að vilja koma hingað í skugga áhættu, bæði af gengissveiflum og gjaldeyrishöftum? Hver er kostnaðurinn við krónuna þegar þú tekur með í reikninginn að hún er samkeppnishindrun sem ýtir burt erlendri fjárfestingu og verndar fákeppni?



[13:41]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ræðum um tekjutap kvenna vegna barneigna. Hér á landi er staðan enn sú að konur taka meiri hluta fæðingarorlofsins og eru mun líklegri til að lengja það eða fara í hlutastarf að því loknu í þeim tilgangi að brúa svokallað umönnunarbil. Hvort tveggja leiðir til langvarandi og tilfinnanlegs tekjutaps fyrir konur á vinnumarkaði. Mér finnst alltaf jafn athyglisvert að heyra fólk útskýra afstöðu sína til töku fæðingarorlofs með tilliti til kynja. Fyrir karla er ákvörðunin oftast nær efnahagsleg. Ég meina, hvaða strákur getur lifað af 600.000 kr. á mánuði fyrir skatta? Þetta er mjög einföld efnahagsleg ákvörðun, ekki satt? Minna ber á sömu viðbrögðum þegar konur eiga í hlut. Það er eins og þá sé þegjandi samkomulag um það í hinni heimsfrægu jafnréttisparadís að tekjutap kvenna vegna fæðingarorlofstöku sé náttúrulögmál, a.m.k. ekkert sem þurfi að gera veður út af, enda geta kerlingar lifað af því sem þeim er rétt. Afstaðan endurspeglar rótfastar hugmyndir um stöðu kvenna í samfélaginu, á vinnumarkaði og á heimilinu. Hún endurspeglar líka blákaldar staðreyndir um muninn á tekjum kvenna og karla á Íslandi. Atvinnutekjur kvenna eru 21% lægri en karla. Það er óhagganleg staðreynd og af því verða alls kyns afleiddar og afleitar afleiðingar. Tekjufórn kvenna á vinnumarkaði vegna fæðingarorlofstöku er langt frá því að vera sjálfsögð. Hún leiðir til lægri ævitekna, verri kjara og verri réttinda á vinnumarkaði og að lokum til lægri eftirlauna þegar kemur að því að setjast í helgan stein, eins og það er kallað. Að þessu leyti eru konur enn til færri fiska metnar en karlar í íslensku samfélagi og á íslenskum vinnumarkaði og það er löngu orðið tímabært að fæðingarorlofi sé jafnt skipt á milli foreldra.



[13:44]
Dagbjört Hákonardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í fjölmiðlum berast nú fréttir af því að Útlendingastofnun hafi ákveðið að umsóknir þeirra Palestínumanna sem hafa óskað eftir fjölskyldusameiningu njóti ekki lengur forgangs hjá stjórnvaldinu líkt og þær hafa gert frá því í október þegar styrjöldin braust út á Gaza. Þetta eru undarleg skilaboð til þeirra sem enn þá bíða meðferðar fyrir hönd sinna aðstandenda. Við fylgdumst með endurfundum í kjölfar komu rúmlega 70 einstaklinga sem hafa bókstaflega verið heimtir úr helju fyrir botni Miðjarðarhafs fyrir helgi, að ógleymdum þeim einstaklingum sem hafa verið sóttir af hálfu hugrakkra íslenskra kvenna sem farið hafa á eigin vegum í þá svaðilför og kunnum við þeim óendanlegar þakkir fyrir.

Forseti. Það er ekki til hættulegri staður á byggðu bóli en á Gaza-strandlengjunni. Það er ekki til hættulegri staður. Allir sem þar eru staddir eiga á hættu að verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem er ekki á nokkurn hátt greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Mér gefst ekki tími til að fara yfir þær ógnir sem stafa af útbreiðslu lífshættulegra sjúkdóma og hungursneyðarinnar sem hefur brotist út og er viðhaldið markvisst af hálfu Ísraelsríkis. Forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, hefur ítrekað gefið út að árásir þeirra muni áfram standa yfir í fleiri vikur ef ekki mánuði til viðbótar þangað til þeir hafa náð takmarki sínu sem er gersamlega óljóst. Þær fjölskyldusameiningar — og þetta er mikilvægt — sem eiga sér stað frá Palestínu til aðstandenda á Íslandi eru skólabókardæmi um það hvernig verndarkerfið okkar á að virka í raun. Hérna er sannarlega um að ræða hóp fólks sem þarf á Íslandi að halda umfram önnur ríki og við sem þjóð erum betur í stakk búin til að hjálpa þeim en önnur ríki því hér eru tengslin. (Forseti hringir.) Þar fyrir utan eru öflugar fjölskyldur líklegri til að taka fullan þátt í íslensku samfélagi. Finnst ríkisstjórninni einfaldlega kannski nóg komið af Palestínufólki hér í bili?



[13:46]
Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Ég vil fylgja aðeins eftir ágætri umræðu sem var hér í þingsal í gær um fíknivandann. Eins og stundum er þá kemur í ljós ákveðinn samhljómur á milli okkar þingmanna, alveg óháð því hvar við stöndum í hinu pólitíska litrófi. Það er mikill vilji í þessum sal til að gera betur í þjónustunni við þennan viðkvæma hóp. Hins vegar er það oft þannig að þegar við förum síðan niður í einstaka aðgerðir þá fer svolítið að bera á því að við séum ekki alveg sammála um hvað á að gera. Við getum nefnt þegar við förum að tala um áfengi í verslunum, netverslun með áfengi, afglæpavæðingu eða jafnvel lögleiðingu og hver áhrifin af þessu eru á samfélagið og allt það, þá dragast kannski upp átakalínur þar sem við erum ekki öll sammála. En það kom hins vegar glögglega fram í gær að við erum þó sammála um að við þurfum að gera betur í því að þjónusta það fólk sem er veikt af þessum alvarlega sjúkdómi. Mig langar svolítið að nefna í þessu samhengi að alveg sama þótt við komumst að bestu lausn allra lausna í þeim álitaefnum sem ég var að nefna hér áðan með áfengi í verslunum, afglæpavæðingu, lögleiðingu eða hvað það er, þá mun staðan alltaf verða sú — það er bara staðreynd — að þarna úti verður ótrúlegur fjöldi fólks sem þjáist áfram af þessum sjúkdómi. Við megum því aldrei í umræðunni um öll þessi atriði gleyma því að í raun og veru snýst grundvallarspurningin um rétt fólks til þess að fá þjónustu heilbrigðiskerfisins þegar það er hvað veikast. Það er líka spurningin um að börn eigi rétt á því að foreldrar þeirra fái þjónustu til að þau alist upp í eðlilegu umhverfi.

Ég er að leggja fram þingmál um að við veitum 100 millj. kr. beint til SÁÁ til þess að fjármagna að fullu þá viðhaldsmeðferð sem þar er í gangi út af ópíóíðafíkninni. (Forseti hringir.) Það þýðir síðan að þeir fjármunir sem SÁÁ veitir í þá meðferð munu frekar nýtast til þess að bjóða einmitt upp á það sem er algjört grundvallaratriði; heilbrigðisþjónustu fyrir veikt fólk þegar það þarf á henni að halda.



[13:48]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Mig langar að nefna hér þá staðreynd að Ísland er háskattaland. Ég held að almenningur á Íslandi sé meðvitaður um það að hér er verðbólga tíðara vandamál en þyrfti að vera, að við greiðum hærri vexti en þyrfti að vera. Við höfum núna í samhengi við heimsfaraldurinn verið með lengri verðbólgukafla en aðrar þjóðir, við förum hærra upp í vöxtum og þetta veit fólk. Færri vita og færri tala um að við greiðum háa skatta í alþjóðlegum samanburði. Íslenskur almenningur greiðir háa skatta í alþjóðlegum samanburði. Önnur hver króna sem hagkerfið skapar fer í skatta og lífeyrisgreiðslur. 70% skattanna og gjaldanna eru síðan greidd af þriðjungi þjóðarinnar og birtingarmyndirnar eru allt frá því að vera dýrasta bjórkrús Evrópu yfir í töluvert háan tekjuskatt þar sem hann fer hæst. Mér finnst skipta máli að við tölum um það hér inni í þessum sal að það er ástæða til að beina því til stjórnvalda að sýna hófsemi í skattlagningu á almenning. Auðvitað er það þannig að við viljum fá þjónustu og við viljum greiða fyrir þjónustuna en í því samhengi skiptir líka máli að nefna, af því við erum að tala um það núna hvað það er mikill ávinningur í því að lækka vexti og ná niður verðbólgu, að íslenska ríkið er á sama stað og almenningur með það að það er að sprengja sig á vaxtakostnaði. Þess vegna eigum við að reyna að koma í veg fyrir dýrar lántökur ríkisins því þær skilja okkur eftir í þeirri stöðu að almenningur er að greiða háa skatta án þess þó að fá þjónustuna fyrir, án þess þó að við séum með heilbrigðisþjónustu án biðlista, án þess þó að við séum að fjárfesta af krafti í samgöngum, án þess þó að við fjárfestum í löggæslu. (Forseti hringir.) Háu skattarnir skila ekki þjónustu vegna þess að íslenska ríkið er að sprengja sig á vaxtakostnaði.



[13:51]
Gísli Rafn Ólafsson (P):

Herra forseti. Í dag stöndum við frammi fyrir vaxandi áskorun sem snertir kjarna velferðarkerfisins okkar og grunnstoðir samfélagsins, spilafíkn. Þetta er ekki aðeins einstaklingsbundið mál heldur vandamál sem hefur djúpstæð áhrif á fjölskyldur, samfélög og þjóðfélagið í heild sinni. Stefna Pírata í þessu efni byggist á grundvallarþáttum eins og persónufrelsi, upplýsingarétti og verndun þeirra sem eru viðkvæmir fyrir spilafíkn. Spilafíknin getur haft alvarlegar afleiðingar, ekki aðeins fyrir einstaklinginn heldur einnig fyrir nánasta umhverfi hans. Það er því mikilvægt að samfélagið taki á þessu máli með skilningi, samkennd og virkum úrræðum. Það snýst ekki aðeins um að meðhöndla fíknina sjálfa heldur einnig að takast á við rót vandans sem getur verið fjölþætt og flókin.

Píratar leggja áherslu á að heilbrigðiskerfið og félagslega kerfið okkar sé undir það búið að veita sérhæfða og aðgengilega meðferð fyrir þá sem glíma við spilafíkn. En jafnframt er mikilvægt að fræðsla og forvarnastarf séu efld til að draga úr líkum á því að fólk þrói með sér spilafíkn. Samfélagið þarf að styðja við einstaklinga og fjölskyldur þeirra sem eiga í vanda vegna spilafíknar. Þetta þýðir að við þurfum að skapa umhverfi þar sem það er mikilvægt að leita sér hjálpar án fordóma. Píratar trúa á mikilvægi þess að veita einstaklingum tól og stuðning til að takast á við þessa áskorun, hvort sem það er í gegnum heilbrigðiskerfið, menntakerfið eða samfélagið í heild.

Að lokum. Við sem þjóðkjörnir fulltrúar berum ábyrgð á að tryggja að stefnumótun okkar og úrræði í spilafíknarmálum séu í samræmi við gildi um réttlæti, jafnrétti og mannúð. Það er skylda okkar að grípa til aðgerða sem sporna við spilafíkn og veita þeim sem þurfa á því að halda viðeigandi aðstoð og stuðning.



[13:53]
Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Á fundi hv. umhverfis- og samgöngunefndar í morgun fengum við góða gesti, fulltrúa öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna, Isavia innan lands, frá Reykjavíkurborg og fulltrúa innviðaráðuneytisins, að ræða þær hugmyndir sem nú eru uppi varðandi uppbyggingu húsa við austur-vestur enda flugbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli í mikilli nálægð við flugbrautina. Margt fróðlegt kom þar fram. Það hefur líka komið í ljós í því samhengi að engar rannsóknir hafa farið fram á því hvaða áhrif slíkar byggingar, sem fyrirhugað er að byggja einhverja 300 m frá flugbrautarendanum, gætu haft á flugöryggi og rekstraröryggi flugvallarins. Það má öllum vera ljóst, í tengslum við stöðuna á Reykjanesskaga, að Reykjavíkurflugvöllur mun gegna mikilvægu hlutverki næstu árin og áratugina sem helsta samgöngumiðstöð innan lands og varaflugvöllur er einnig geysilega mikilvægur í tengslum við sjúkraflug í landinu. Í fyrra voru flogin rúmlega 900 sjúkraflug yfir landinu með hátt í 1.000 sjúklinga. Síðan má heldur ekki gleyma að flugvöllurinn er mikilvægur varðandi almannavarnir landsins.

Í júní 2022 samþykktum við hér í þinginu ný loftferðalög, sem eru mikill lagabálkur. Í nýjum loftferðalögum voru klár ákvæði og nokkrar greinar sem tengdust því hvernig hægt væri að verja með skilmerkilegum hætti flugvelli landsins. Ég held að það sé öllum ljóst að hér er um gríðarlega mikilvægan innvið að ræða, þjóðhagslegan innvið. Er ekki rétt að nýta líka það sem stendur í loftferðalögum í þessu máli? Það kom fram á fundinum í morgun að nú hefur ráðuneytið skipað skipulagsnefnd um Reykjavíkurflugvöll þannig að nú er reiknað með að sú vinna fari af stað, og það er ánægjulegt. En öllum er ljóst að það er mikilvægt fyrir þjóðina að hafa góða yfirsýn yfir þessi mál og við erum komin í miklar ógöngur þar sem við stöndum með þessi mál í dag.



[13:56]
Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Þegar talað er um fíkn í samfélagslegri umræðu er oftast verið að tala um áfengis- og/eða lyfjafíkn en önnur fíkn sem er einnig mjög alvarleg, eins og hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson talaði um hérna áðan, er spilafíkn. Mikilvægt er að við aukum skimun fyrir spilafíkn en spilafíkn gleymist oft. Fíknin hefur ekki einungis neikvæð áhrif á einstaklinginn heldur einnig á fjölskyldu einstaklingsins. Forvarnir fyrir fjárhættuspil eru af mjög skornum skammti en mikilvægt er að ná til ungs fólks.

Flestir sem eiga við spilafíkn að stríða spila í spilakössum sem er það spil sem hefur hvað mest forspárgildi um hvort einstaklingur sé með spilavanda en hér á landi eru um 900 spilakassar. Það er mikilvægt að takmarka þann skaða sem fólk sem spilar í spilakössum verður fyrir. Það er mjög mikilvægt að taka upp það sem heitir spilakort eða rafræn skráning svo að fólk geti sett sér mörk en einnig er mikilvægt að þeir sem reka spilakassa setji líka mörk á hversu miklu er hægt að eyða hverju sinni. Með spilakorti getur fólk sett sér mörk tengd tíma og upphæðum, fólk getur lokað á sig og fleira. Það sem er mikilvægast í þessu samhengi er að þetta er skaðaminnkandi. Þetta hefur verið gert á Norðurlöndunum við góðan árangur sem er sá að fólk eyðir minni pening en áður í spilakassa. Það þarf að leggja mikið púður í þetta og útfæra þetta vel þar sem þetta er mjög mikilvægt fyrir heilsu og velferð þeirra sem eiga við spilafíkn. Reynsla af spilakortum erlendis sýnir að fólk vanmetur oft hversu miklu það tapar og ofmetur hversu mikið það vinnur. Það er mikilvægt að setja upp regluverk sem felur í sér að það er takmarkað hversu miklum peningum er hægt að tapa í peningaspilum. Það er mikilvægt að spilakortin verði að raunveruleika hér á landi svo að við getum aðstoðað þann hóp sem glímir við spilafíkn alla daga. Það er skaðaminnkandi og nauðsynlegt svar við spilafíkn.



[13:58]
Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Flokkur fólksins hefur lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, um samræmda vigtun sjávarafla. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar til að tryggja að vigtun sjávarafla verði framkvæmd af óháðum aðilum á sem nákvæmastan hátt. Lagt er til að heimild Fiskistofu til að veita leyfi til endurvigtunar og heimavigtunar verði felld brott og allar nauðsynlegar undanþágur frá meginreglunni um að allur afli skuli veginn á hafnarvog í löndunarhöfn þegar við löndun. Þetta eru grundvallaratriði sem þarf að ræða þegar kemur að lögum um sjávarútveg.

Lagt er til í frumvarpinu að myndavélaeftirlit verði með vigtun afla en ör tækniþróun hefur verið undanfarin ár sem leiðir til þess að hægt er að stunda þannig eftirlit án mikillar fyrirhafnar. Það skiptir gríðarlega miklu máli að rétt sé staðið að vigtun sjávarafla. Vigtun sjávarafla skiptir sköpum þegar tryggja á að skipverjar fái sanngjarnt kaup og að réttar upplýsingar um veiðar skili sér til stjórnvalda sem sinna rannsóknum og eftirliti með fiskstofnum þjóðarinnar. Í dag eru 84 aðilar með svokallað endurvigtunarleyfi. 17 aðilar fá leyfi til heimavigtunar. Ein algengasta aðferð við undanskot afla er þegar íshlutfall er skráð hærra en það er í raun. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu kom m.a. fram að dæmi væru um að verulegt misræmi væri milli íshlutfalls í afla þegar eftirlitsmenn Fiskistofu hefðu sinnt eftirliti með hlutfalli íss og borið saman við vegið meðalhlutfall. Það er grundvallaratriði að hafnarvog stjórni varðandi magn þess sjávarafla sem kemur að landi. Það eru margar sögur og mörg dæmi um það að ísprósenta hafi rokið upp úr öllu valdi við endurvigtun sjávarafla. Það þarf að stoppa sem allra fyrst. Það minnkar algjörlega tiltrú á kerfinu að svo sé. Þess vegna á hafnarvog að ráða þegar kemur að vigtun sjávarafla en ekki endurvigtun í heimahúsi. Hún getur vissulega komið til en hún á ekki að hafa áhrif á það aflamagn sem kemur að landi hverju sinni.



[14:00]
Hákon Hermannsson (M):

Herra forseti. Við ræðum hér á eftir í sérstakri umræðu um þau tækifæri sem kunna að felast í rafeldsneytisframleiðslu. Það er gott að hér og hvar landið um kring sjái menn tækifæri til að orka verði til ráðstöfunar til slíkra verkefna. Á öðrum svæðum er staðan þó ólík. Á Vestfjörðum t.d. er staðan þannig að Orkubú Vestfjarða áætlar að brenna 3,4 milljónum lítra af olíu á yfirstandandi ári til að skila af sér rafmagni til húshitunar og annarra verkefna. Vestfirðir hafa um árabil verið í gíslingu þeirra sem helst vilja ekki sjá frekari orkuframleiðslu og virðist græn orkuframleiðsla þá vera litin sérstöku hornauga. Ný orkuverkefni innan eða utan rammaáætlunar hafa verið stopp um langt árabil. Verkefni eins og Hvalárvirkjun, sem er í nýtingarflokki rammaáætlunar, kemst ekki áfram vegna mótmæla þeirra sem áður töldu rammaáætlun sanngjarna leið til að leiða mál til lykta. Verkefni eins og möguleg virkjun í Vatnsfirði er stopp vegna þess að enn sem komið er hefur ráðherra orkumála ekki tekið tillit til óska Vestfirðinga um að verndunarskilmálum Vatnsfjarðar sé breytt þannig að virkjun í Vatnsfirði, sem hefur mjög hófleg umhverfisáhrif, komist á rekspöl. Meira að segja Botnsvirkjun í Dýrafirði þarf nú að fara í umhverfismat að kröfu Skipulagsstofnunar sem mun seinka framkvæmdum umtalsvert. Ég ætla ekki einu sinni að fara í umræðuna um línulagnir og hringtengingu rafmagns á Vestfjörðum. Það er ótækt að landsvæði eins og Vestfirðir sé skilið eftir með þeim hætti sem nú blasir við. Það fæst hvorki að framleiða orku né flytja hana. Á meðan er brennd olía til að tryggja lágmarksafhendingu á rafmagni, og menn telja sig vera í einhvers konar orkuskiptum.



[14:02]
Brynja Dan Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Á síðasta þingi var lögð fram aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu sem náði því miður ekki fram að ganga en það þýðir ekki að ráðuneytin og sveitarfélögin geti ekki farið í fræðslu fyrir sína starfsmenn um þessi mál. Þess vegna hef ég lagt fram fyrirspurnir til innviðaráðherra um fræðslu hjá sveitarfélögum og til allra ráðherra um fræðslu innan þeirra ráðuneyta. En af hverju er ég að tala um þetta núna? Jú, því að mér fannst umræðan ná nýrri lægð síðustu vikurnar. Ég vil einhvern veginn aldrei vera viðkvæm eða setja sjálfa mig inn í þessa jöfnu en það er víst þannig að minn veruleiki er að vissu leyti annar en ykkar flestra og ég á til að mynda önnur samtöl við barnið mitt en þið flest sem hér inni sitja. Ég bý við forréttindastöðu þegar kemur að mörgu en ég finn sterkt í ýmsum aðstæðum að ég er oft ein eða ein af mjög fáum með annan húðlit. Ísland hefur verið einstaklega einsleitt samfélag en það er sem betur fer að breytast. Það væri svo frábært ef öll sveitarfélög væru með verklag, forvarnir og aðgerðaáætlun þegar upp kemur rasismi í skólum, leikskólum, innan íþróttahreyfingarinnar eða annars staðar í samfélaginu. Það myndi veita öryggi, traust og utanumhald fyrir jaðarsetta hópa. Ég hvet því allar sveitarstjórnir til að taka þessu alvarlega, að setja af stað einhvers konar aðgerðaáætlun sem unnin er með fagfólki, taka af skarið og vera leiðandi. En staðreyndin er sú að þeir sem eru af erlendu bergi brotnir búa við annan veruleika og það þarf að hafa skýrt verklag og viðbragð við rasisma.

Að því sögðu vil ég nota tækifærið og hrósa Menntaskólanum að Laugarvatni fyrir afdráttarlausa afstöðu og vönduð vinnubrögð í síðustu viku þegar mál af þessum toga kom upp. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[14:04]
Brynhildur Björnsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Meðal þess sem er í umræðunni varðandi börnin okkar þessa dagana er annars vegar íslenskan, sem mörg óttast að sé á undanhaldi, og hins vegar vanlíðan og kvíði. Mögulega helst þetta að einhverju leyti í hendur, að geta tjáð tilfinningar sínar og líðan er undirstaða andlegs heilbrigðis, sjálfstrausts og vellíðunar. Einhver kynnu að segja að íslenskan sé ekkert sérstakt lykilatriði í andlegri vellíðan því börn séu velflest talandi á ensku, en þá ber að benda á að þótt íslensk börn tali mikla ensku og jafnvel sín á milli þá eru þau ekkert endilega góð í henni á þann hátt að þau geti tjáð tilfinningar, hugsað sig í gegnum vandamál eða verið skapandi og fyndin. Öflug menningarsköpun fyrir börn og unglinga er lykilatriði til að styðja hvort tveggja íslenskuna og andlegt heilbrigði því það er margsannað að menning, bæði ástundun og neysla, bætir, hressir og kætir. En það er ekki nóg að efnið sé á íslensku heldur mætti það líka vera í meira mæli úr íslenskum veruleika. Af hverju ættu börn að vilja tala íslensku ef þeim finnst samfélagið þar sem sú tunga er töluð ekkert sérstaklega spennandi? Ef allt sem þau sjá á skjá eða lesa um í bókum gerist annaðhvort í óræðum fantasíuheimi eða í öðrum löndum? Þess vegna er svo mikilvægt að lyfta upp og búa til og styðja leikrit, bækur, bíómyndir, sjónvarps- og útvarpsefni, tölvuleiki og tónlist, alla list og sköpun og afþreyingu fyrir börn sem notar íslensku til að spegla íslenskan veruleika og gagnast ekki síður til að kynna tungumálið og samfélagið fyrir börnum sem koma hingað úr öðrum samfélögum svo þau upplifi líka að íslenskan sé þeirra. Einhverjum finnst þetta viðhorf kannski þjóðrembingslegt en það er það ekki. Til að læra tungumál þarftu að eiga tungumál. Til að meta menningu þarftu að þekkja menningu. Til að skilja eitthvað nýtt þarftu að eiga samanburð við eitthvað annað. Það er mikilvægt að eiga eitthvað sem er þitt, jafnvel þótt það sé til þess eins að hafna því fyrir eitthvað sem þér finnst betra. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)