154. löggjafarþing — 95. fundur
 15. apríl 2024.

Málshefjandi var .

um fundarstjórn.

breyting á búvörulögum.

[15:05]
Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Við þekkjum það auðvitað að matvælaráðuneytið hefur gert alvarlegar athugasemdir við það hvernig við högum okkar vinnu hér á Alþingi Íslendinga. Það eitt og sér er auðvitað alvarlegt mál, að framkvæmdarvaldið geri athugasemdir með þessum hætti, og við hljótum að kalla eftir því við forseta þingsins hver hans viðbrögð eru við þessu og ekki síður frá meiri hluta atvinnuveganefndar, vegna þess að það hefur einhvern veginn legið í orðum og verið sagt nánast berum orðum af hv. formanni nefndarinnar, Þórarni Inga Péturssyni, að hluta af lagasetningarvaldinu hafi í raun og veru verið útvistað til aðila úti í bæ við skrif á breytingartillögu og nefndaráliti sem gerbreyttu málinu og það er einmitt það sem matvælaráðuneytið er að gera alvarlegar athugasemdir við.

Það hefur líka komið fram hjá nýjum hæstv. matvælaráðherra, Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, að boltinn sé hjá þinginu og mér finnst að forseti þingsins þurfi að stíga inn, segja okkur frá því hvar hans afstaða í þessu máli liggur og ég kalla líka eftir því að meiri hluti atvinnuveganefndar upplýsi restina af þingheimi (Forseti hringir.) hvernig það megi vera að hluta af lagasetningarvaldi Alþingis sé útvistað til lögmannsstofu úti í bæ sem tengist einum hagsmunaaðilanum sem undir er í málinu mjög svo sterkum böndum.



[15:06]
Forseti (Birgir Ármannsson):

Forseti vill það eitt segja um þetta mál að það mál sem hv. þingmaður er væntanlega að vísa til var afgreitt hér af Alþingi fyrir páska og komi fram breytingartillögur sem varða þau atriði sem þarna er um að ræða þá munu þær að sjálfsögðu fá þinglega meðferð. Það hvað meiri hluta atvinnuveganefndar finnst um málið verður bara að koma frá þeirri nefnd.



[15:07]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Störfin hérna á þingi eru margvísleg, yfirgripsmikil, flókin og eru einfaldlega þannig að enginn einn þingmaður kemst yfir öll málin. Þess vegna treystum við því mjög iðulega að þau sem starfa fyrir okkur í nefndum þingsins upplýsi okkur um stöðu mála í þeim nefndum og tökum afstöðu til þeirra mála samkvæmt þeim upplýsingum. En nú er það að koma í ljós einmitt í þessu máli með búvörulögin að breytingarnar sem þar komu gengu allharkalega yfir þingið. Maður veltir því fyrir sér hvort einhverjir þingmenn einhverra flokka í meiri hlutanum hafi kannski ekki alveg áttað sig á því hvað þeir voru að samþykkja þegar allt kom til alls. Ég held að það sé einmitt gott ráð fyrir þingforseta að skoða það þegar svona yfirgripsmiklar breytingar eru gerðar (Forseti hringir.) hvort það sé ekki örugglega á þeim forsendum að þær séu tækar til frekari umræðu (Forseti hringir.) því að ef það eru gerðar yfirgripsmiklar breytingar á lögum af nefndum eru kröfur um að það þurfi að endurmeta kostnað þeirra alla vega (Forseti hringir.) og ég er ekki viss um að það hafi verið gert í þessu tilviki t.d.



[15:08]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég ætla að taka undir þær athugasemdir sem hér hafa verið gerðar. Auðvitað varðar þetta þingið allt og vinnubrögð okkar hér þó að meiri hluti atvinnuveganefndar beri hitann og þungann af þessum ólögum sem voru lögð hér fyrir til samþykktar og fóru í gegn fyrir tilstuðlan meiri hlutans og með atkvæðum Miðflokksins, ef ég man rétt. Ég mun að sjálfsögðu taka þetta upp í atvinnuveganefnd sem hlýtur að fara að funda. En mig langar bara að benda á sem dæmi í hvaða flýti þetta var allt unnið — og það þurfti ekki. Hér hafa mál farið í gegn í krafti þingmeirihluta en það hefur verið þingleg meðferð sem ekki hefur endilega verið gagnrýniverð. Það er hægt að gagnrýna þá meðferð núna. Ég gerði athugasemd við ákveðna hluti í nefndaráliti sem ég hafði ekki séð áður og það var tekið til greina og ég hélt þar með að því yrði breytt. Svo var ekki. Ég áttaði mig ekki á því að ég ætti að hringja í lögfræðing Kaupfélags Skagfirðinga. Ég hefði betur vitað það.



[15:10]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég sakna þess að heyra viðbrögð forseta þingsins við því sem fram hefur komið með opinberum hætti í fjölmiðlum, að þetta frumvarp hafi í reynd farið út úr húsi Alþingis, út úr húsi Alþingis Íslendinga, þar sem hagsmunaaðilar voru að skrifa lög klæðskerasniðin að þeim sjálfum. Í bréfi matvælaráðuneytisins hingað til Alþingis kemur fram að markmiðið með frumvarpinu eins og það var kynnt fyrir Alþingi var að verja hagsmuni bænda og hagsmuni neytenda sem gátu gengið hönd í hönd í þessu máli. Niðurstaðan var sú að ráðuneytið spyr þingið hvort því sé alvara með því að hafa kastað hagsmunum bænda algerlega út af borðinu og hagsmunum neytenda í leiðinni. Eitthvað gerðist þarna í skjóli nætur, einhver slík vinnubrögð að þau þoldu ekki dagsins ljós og það er ástæða til að minna á það að Kaupfélag Skagfirðinga á ekki að fara með löggjafarvald á Alþingi.



[15:11]
Guðbrandur Einarsson (V):

Forseti. Fyrir utan innihaldið í þessu frumvarpi þá finnst mér þetta snúast um verklag og vinnubrögð. Ég er, eins og ég hef oft sagt áður, tiltölulega nýr hérna á Alþingi og maður er svo sem að læra vinnubrögðin í nefndunum og átta sig á því hvernig hlutirnir ganga fyrir sig. Við erum t.d. að fara að ræða á morgun nefndarálit með breytingartillögu vegna skráningar raunverulegra eigenda og breytingar á lögum um einkahlutafélög og lögum um ársreikninga. Þar kemur fram að Skatturinn hafi lagt fram breytingartillögu, eina breytingartillögu. Það kemur fram í nefndarálitinu að þessi breytingartillaga hafi verið borin undir ráðuneytið og að ráðuneytið sé sammála breytingartillögunni. Þess vegna gerir nefndin breytingartillöguna að sinni (Forseti hringir.) og tiltekur í nefndaráliti að þannig skuli það vera. Varðandi þetta frumvarp sem þarna um ræðir þá er ekki haft samband við neinn, (Forseti hringir.) nema þá helst Kaupfélag Skagfirðinga.



[15:12]
forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að ræða störf þingsins þegar það á við og sannarlega er það svo að það er mikilvægt að sátt sé um það með hvaða hætti við afgreiðum formlega frumvörp og aðrar tillögur sem liggja fyrir þinginu. Í tengslum við þá umræðu sem hér fer fram er gjarnan blandað saman ýmsum efnisatriðum og margir þeir sem hafa athugasemd við það hvernig þingið afgreiddi málið færa hér fram miklar áhyggjur bænda. Þá vil ég bara koma hingað upp til að greina frá því að um helgina hitti ég nokkra bændur sem eru bara mjög ánægðir með frumvarpið, sauðfjárbændur sem telja að frumvarpið muni geta bætt þeirra kjör inn í framtíðinni, sérstaklega rætt um þær breytingar sem þingið hefur nýlega gert og að menn séu þeirrar skoðunar, frumframleiðendur, að breytingarnar gætu stuðlað að því að neytendur myndu njóta góðs af aukinni hagræðingu í greininni og að sauðfjárbændur myndu fá hærra afurðaverð fyrir sína framleiðslu. (Forseti hringir.) Þannig að það er ekki þannig að það séu allir á einu máli vegna þeirra athugasemda sem hafa verið gerðar við frumvarpið. Ég tek eftir því að þeir sem eru með athugasemdir telja sig vera að tala hér fyrir hönd allra (Forseti hringir.) sauðfjárbænda í landinu og það er bara alls ekki þannig.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir hv. þingmenn á að ræða fundarstjórn forseta en fara ekki út í efnislega umræðu um einstök mál.)



[15:14]
Indriði Ingi Stefánsson (P):

Forseti. Ég verð nú að taka undir með mörgum hv. þingmönnum sem hafa komið og rætt um þetta mál að það hlýtur að vera mikilvægt að þingið eigi aðkomu að því hvernig lög eru samin, nóg er um það að lög séu samin inni í ráðuneytum. Það hlýtur þá líka að vera mikilvægt þegar við erum búin að afla umsagna um ákveðin mál að ef þau síðan stökkbreytast í meðförum þingsins þá hljóti að þurfa að bregðast við því og mögulega kalla eftir nýjum umsögnum. Það er líka rosalega skrýtið ef þeir aðilar sem eru búnir að veita umsagnir um mál geta síðan ekki treyst því að þeir hafi verið að veita umsögn um það mál heldur að málið sé orðið eitthvert allt annað í seinni meðförum þingsins. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[15:15]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég ætla að halda áfram að tala hér um efnismeðferðina úr því að hæstv. forsætisráðherra, sem ég óska til hamingju með embættið og óska velfarnaðar í starfi, kemur hingað upp og leggur orð í belg sem mér þykir gott og jákvætt. Þá langar mig eiginlega til að freista þess að fá hann hingað upp öðru sinni til að segja þinginu hvaða skoðun hann hefur á þeim þætti málsins sem er málsmeðferðin. Finnst hæstv. forsætisráðherra til eftirbreytni hvernig þetta mál var unnið? Ég held að hugtakið„ í skjóli nætur“ geri því ekki einu sinni rétt til, slík var leyndin og flýtirinn. Mér þætti gott að vita það — og nú fær hæstv. forsætisráðherra aðstoð frá þingflokksformanni Framsóknar og það er vel, fínt að fá þetta samfléttað — vegna þess að þetta er ekki gott afspurnar.



[15:16]
Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Af því að vika er löng í pólitík og það eru þrjár vikur síðan frumvarpi um búvörulög var hraðað í gegnum þingið þá er kannski rétt að rifja upp fyrir þingheim að hér lá fyrir frávísunartillaga. Hér lá fyrir tillaga þingmanna Pírata og Flokks fólksins um að vísa frumvarpinu til ríkisstjórnar frekar en að flýta því hér í gegn vegna þess að það væri ekki búið að meta áhrif frumvarpsins á bændur, á neytendur eða hvaða áhrif þetta gæti haft á kjarasamninga, af því að við höfðum í höndunum gagnrýni úr öllum þessum áttum. Það eitt að það væri óljóst hvaða áhrif frumvarpið hefði, það hefði átt að duga stjórnarliðum til að taka í handbremsuna, stoppa þetta mál, anda í kviðinn yfir páskana og kalla til umsagnir um málið. Þó að hæstv. forsætisráðherra hafi hitt einhverja bændur á hlöðuballi um helgina þá kemur það ekki í staðinn fyrir þinglega meðferð með greiningum og umsögnum.



[15:18]
Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Mér finnst þetta mál í raun vera enn ein birtingarmynd þess hversu lítil virðing er borin fyrir þinginu og þinglegri meðferð og sérstaklega kannski bara stjórnarandstöðunni. Það er í raun og veru ótrúlegt. Þegar svona mál, svona stórt og mikilvægt mál, kemur til þingsins og það koma rauð flögg frá svo mörgum aðilum sem eiga að skipta okkur máli þá eigum við að hlusta á þessa aðila. Þetta eru verkalýðsfélögin, þetta er Samkeppniseftirlitið sem er að flagga þessum málum fyrir okkur og það koma upp verulegar áhyggjur og þingið allt í einu hugsar: Bíddu, bíddu, bíddu, getum við ekki aðeins hægt á þessu og skoðað þetta almennilega til að koma í veg fyrir að við séum að gera einhver mistök? En þá er það bara einhvern veginn hunsað. Það er hunsað. Þetta er ótrúlega oft, frú forseti, og þetta er svo mikil vanvirðing. Það hefur komið fram trekk í trekk að það eru mistök sem þessi meiri hluti, þessi ríkisstjórn keyrir hérna í gegnum þingið á handahlaupum af því að þau bera enga virðingu (Forseti hringir.) fyrir því að hægja á sér og hlusta á raddir gagnrýnenda og hlusta á raddir stjórnarandstöðunnar og hugsa með sér: (Forseti hringir.) Kannski ættum við aðeins að hægja á okkur og tryggja að við séum ekki að gera nein mistök.

Þetta er ekki faglegt, forseti, og þetta mál og niðurstaða þess er enn ein birtingarmynd þess.



[15:19]
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Ég vil bara taka undir með hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson og hv. þm. Halldóru Mogensen sem að mínu mati eru að benda á það sem jafnvel skiptir mestu máli hvað þetta mál varðar. Það sem þetta kristallar er vanvirðing ríkisstjórnarinnar og meiri hluta þingmanna hér fyrir Alþingi, fyrir stjórnarskránni, fyrir þeirri stjórnskipun sem við búum við og þar með gagnvart lýðræðinu.

Virðulegur forseti talar um þinglega meðferð. Ein helsta gagnrýnin á meðferð þessa frumvarps var einmitt sú að það hefði ekki fengið þinglega meðferð eins og stjórnarskráin gerir kröfu um þinglega meðferð.

Hæstv. forsætisráðherra segir að það sé mikilvægt að sátt sé um það hvernig við vinnum hér á þinginu. Mig langar því bara að spyrja hv. þingmenn meiri hlutans og hæstv. ráðherra hvort við getum ekki sæst á það að við vinnum alla vega samkvæmt stjórnarskránni. Sjálf hef ég lent í því að breytingartillögum sem ég hef gert við mál hefur verið vísað frá vegna þess að það kemur fram í annarri umferð og breytingin er of mikil breyting á málinu og þá er ekki hægt að taka það til meðferðar, (Forseti hringir.) breytingar sem síðan koma inn í frumvörp frá meiri hlutanum þar sem önnur verri ákvæði fylgja. (Forseti hringir.) Er það bara eftir hentisemi sem meiri hlutinn vill fylgja stjórnarskránni, og þessi ríkisstjórn?



[15:21]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Okkur ber, alþingismönnum, að taka það alvarlega þegar Alþingi er sakað um slæleg vinnubrögð. Það eru neytendasamtök, það eru stór samtök stéttarfélaga og félög atvinnurekenda sem færa fyrir því rök að hér hafi ekki verið höfð góð vinnubrögð. Við erum sökuð um að hafa dregið taum sérhagsmuna umfram almannahagsmuni. Það eru alvarlegar ásakanir og það eru ekki bara stjórnarandstæðingar á þingi sem vilja koma höggi á stjórnarmeirihluta sem hér eru að tala. Þess vegna finnst mér, forseti, að við þurfum að hlusta á þetta og taka þetta alvarlega, finna út úr því hvað er satt og rétt og hvort eitthvað sé til í þessari gagnrýni, því að það særir mig a.m.k. þegar Alþingi Íslendinga er sakað um spillingu.



[15:22]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég sit nú ekki í atvinnuveganefnd en ég veit að þetta frumvarp kom fram 14. nóvember. Það voru fimm mánuðir í gær síðan þetta kom fyrir þingið og síðan hefur það verið í vinnslu. Niðurstaða málsins gengur ekki á svig við tilgang eða markmið frumvarpsins. Það eina sem var bætt við var rauða kjötið, hvíta kjötið var inni í frumvarpinu. Ég veit ekki betur en að í 2. umræðu um þetta mál hafi flestir verið svona, voru kannski ekki á móti því en gátu svona — einn þingmaður minni hlutans var meira að segja á nefndarálitinu, en þegar einhverjir aðrir risar stigu upp úti í bæ þá varð allt vitlaust og við eigum að hlaupa eftir því núna. Hvar voru þingmenn minni hlutans í nefndinni? Voru þeir sofandi á fundum? (ÞorbG: Við sofum á nóttunni.) Akkúrat. Voru fundir haldnir þá í atvinnuveganefnd? (ÞorbG: Já, í Kaupfélaginu.) Nei.



[15:23]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Málið snýst ekki um það hvenær þingmálið kom upprunalega fram til þingsins (Gripið fram í.) heldur snýst það um breytingartillögurnar sem voru lagðar fram á síðustu stundu. Stórtækar breytingartillögur sem eru lagðar til á síðustu stundu og umsagnaraðilar fá ekki tækifæri til að meta hvort þær séu í rauninni efnisleg breyting á frumvarpinu eða ekki. Um það snýst málið. Alla jafna samkvæmt lögum um þingsköp, þegar gerðar eru miklar breytingar á frumvörpum, þá ber þingnefndum að meta fjárhagsleg umsvif þess máls. Ég skal fullyrða að það var alveg örugglega ekki gert í þessu tilviki þó að ég viti það ekki, en að gefinni reynslu var það örugglega ekki gert. Ég læt mér duga að giska á það en ég er 100% viss um að það sé rétt. Þegar við fáum miklar breytingar — við höfum meira að segja áður fengið mál þar sem hafa verið gerðar umfangsmiklar breytingar og þá er einmitt sagt: (Forseti hringir.) Heyrðu, við verðum að fá annan umsagnarhring til að athuga hvort þetta sé ekki allt í lagi. Það var ekki gert hérna heldur rúllað í gegn. Það þurfti að klára þetta. Það eitt og sér bendir til þess að það sé eitthvað annarlegt í gangi hérna.



[15:25]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Kannski í kjölfar orða hæstv. nýs forsætisráðherra ríkisstjórnarinnar um að hann hafi rekist á bónda sem er ánægður með þessar breytingar þá hefur fyrrverandi formaður Bændasamtakanna rætt um sín viðbrögð í fjölmiðlum við þessu frumvarpi og hvað honum finnst um þessi vinnubrögð meiri hlutans. Það hafa Neytendasamtökin gert líka, það hefur ASÍ gert, VR. Þetta eru allt saman hópar sem gæta hagsmuna annars vegar bænda og hins vegar almennings í landinu. Þessi lagasetning ríkisstjórnarinnar er árás á markmið hennar um að ætla að berjast gegn verðbólgu því að samkeppnisreglum er kippt úr sambandi. Það er með ólíkindum að hlusta hérna á formann svokallaðs Sjálfstæðisflokks tala svona um virkan markað og virka samkeppni. (Gripið fram í.) Hann er bara orðinn að formanni Vinstri grænna.



[15:26]
Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Eitt eru efnisatriði frumvarpsins og annað eru vinnubrögðin. Núna er þetta þannig að hæstv. ríkisstjórn og ríkisstjórnarflokkarnir þurfa ekkert endilega að vera að hafa okkur í stjórnarandstöðunni fyrir þessu. Eins og var rakið hérna ágætlega þá er þetta Samkeppniseftirlitið sem hefur gagnrýnt þetta harðlega. Alþýðusambandið hefur gagnrýnt þetta harðlega. Það hefur VR gert líka. Félag atvinnurekenda hefur gert það. Neytendasamtökin hafa gert það og fráfarandi formaður Bændasamtakanna hefur líka gert það. Þarna er nú ansi margt undir, myndi ég halda. Ef menn vilja ekki taka mark á þessu þá gæti ríkisstjórnin kannski tekið mark á matvælaráðuneytinu sem hefur gert athugasemd við þetta líka. [Hlátur í þingsal.] Mér finnst svolítið sérstakt hvað hæstv. forseti þingsins og hæstv. forsætisráðherra skauta létt frá umræðunni hér um vinnubrögðin. Það hefur komið fram í viðtölum við hv. formann atvinnuveganefndar að hluta af lagasetningarvaldi Alþingis, skrifum á breytingartillögu og nefndaráliti, var útvistað út í bæ. (Forseti hringir.) Eru hæstv. forsætisráðherra og hæstv. forseti þingsins sammála því að þetta séu eðlileg vinnubrögð? (Forseti hringir.)

Svo langar mig rétt í lokin fyrir hönd þingflokksformanns míns að koma því á framfæri að orðaskipti hv. þm. Ingibjargar Isaksen hér við ráðherrabekkinn áðan voru við félagsmálaráðherra en ekki forsætisráðherra.



[15:27]
Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað gert en að koma hér upp og bera af mér sakir um að sofa á nefndafundum sem hv. formaður, Halla Signý Kristjánsdóttir, hélt hér fram. Nei, það var sko alls ekki þannig að við værum sofandi þó svo að kannski hafi fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna verið það í nefndinni, enda uppgötvuðu þeir ekkert hvað þeir voru að afgreiða fyrr en eftir á eins og er greinilegt einmitt af þeim athugasemdum sem hv. þingmaður kemur hér með sem veit ekki einu sinni að það voru breytingartillögurnar sem voru vandamálið. Þær komu fram mjög seint. Þær voru afgreiddar og málið afgreitt af fundinum án þess að nokkur kæmi og gæfi umsagnir. Það var ekki fyrr en við fengum umsagnir frá hagaðilum og öðrum sem sáu þetta koma hér inn í 3. umræðu, vegna þess að þessar breytingar höfðu aldrei verið sýndar út fyrir nefndina, sem við fórum að fá athugasemdir um það (Forseti hringir.) sem væri að þessu. Það er þessi meðhöndlun, að breyta miklu og fara ekki (Forseti hringir.) í gegnum það ferli að fá umsagnir við jafn veigamiklar breytingar, það er það sem við erum að gagnrýna hér. Og að ætla svo að kalla það það að við séum sofandi á verðinum.



[15:29]
Indriði Ingi Stefánsson (P):

Virðulegi forseti. Mér verður að finnast það nokkuð sérstakt að við séum að tala hérna um ágæti frumvarpsins, að sauðfjárbændur séu ánægðir með það — þó það nú væri, það hlýtur einhver að vera ánægður með niðurstöðuna. En tilgangurinn má ekki helga meðalið. Þó að það sé glimrandi niðurstaða fyrir suma er hún það ekki fyrir alla, enda sjáum við mikla gagnrýni á þetta frumvarp. Það hlýtur að vera að við þurfum að hafa í huga hvernig ferlið á að vera og að við getum séð fyrir, bæði við á þingi og umsagnaraðilar, hvernig mál þróast. Það hlýtur að vera algjört lágmark.



[15:30]
Guðbrandur Einarsson (V):

Herra forseti. Við getum haldið áfram að rífast um innihald frumvarpsins fram á kvöld. En af því að hér er verið að tala um bændur þá vil ég líka minnast á neytendur sem óttast um afkomu sína. Þeir eru að glíma við breytingar á verðlagi á degi hverjum, þeir eru að glíma við háa vexti og háa verðbólgu. Það er eðlilegt að fólk óttist um afkomu sína þegar það er búið að heimila samráð sem gerir það að verkum að menn geta bara ákveðið sín á milli hvaða verð á að vera. Það sem mér finnst hins vegar skipta máli í þessu er verklagið. Er rétt að vinna svona inni á Alþingi þegar er verið að koma með breytingartillögur? Eiga breytingartillögur að fara til umsagnar í ráðuneytinu eða ekki? Á bara stundum að gera það en sleppa því þegar það hentar einhverjum ákveðnum hópum? Ég bara spyr um verklagið, virðulegur forseti. Eftir hverju erum við að vinna hérna?



[15:31]
Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Mig langaði bara að kasta inn í umræðuna hérna alveg í lokin að mér hefur fundist það svona almennt vera vandamál þegar kemur að þessu vantrausti til þingsins og það sem ég hef tekið eftir þegar kemur að því hvernig þessi meiri hluti vinnur, öðruvísi en aðrir meiri hlutar sem ég hef reynslu af, að það virðist ekki vera hægt að afgreiða ríkisstjórnarmál út úr nefnd án þess að vera í svo þéttu samráði við ráðuneytin einmitt að yfirleitt þá eru ráðuneytin bara að skrifa breytingartillögurnar fyrir meiri hlutann frekar en þingið. Þessu hef ég orðið vitni að margoft. Þess vegna þykir mér þetta svona extra furðulegt, að hér er ekki einu sinni beðið um umsögn frá ráðuneytinu. Hvers konar vantraust hefur þetta verið á ráðuneytið líka, að það séu gerðar svona stórar breytingar á málinu og það er ekki einu sinni sóst eftir umsögn, ekkert samráð haft? Mér þykir það vera áhugavert í ljósi þess hvernig mín reynsla hefur verið af vinnubrögðum þessa meiri hluta, að það hefur verið algjört vantraust til ráðuneytisins (Forseti hringir.) og vantraust til starfsmanna þingsins líka og frekar farið einmitt og talað við einhvern lögfræðing hagsmunaaðila úti í bæ. Mér þykir þetta ekki hægt.



[15:32]
Ingibjörg Isaksen (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmönnum að það er mikilvægt að hér sé vandað til verka þegar við erum að setja lög. Ég er því miður ekki í atvinnuveganefnd og formaður atvinnuveganefndar er því miður veikur heima hjá sér og ekki hér til svara. En samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef varðandi málsmeðferðina á þessu tiltekna máli þá skilst mér að jú, það hafi verið leitað ráða hjá sérfræðingum utan þingsins en vinnan hafi farið fram á nefndasviði þar sem fengin var hjálp hjá starfsmönnum þingflokka og mig langar til að biðja nefndarmenn í atvinnuveganefnd að leiðrétta mig ef hér er rangt farið með mál. En mér skilst einnig að nefndarálitið hafi legið í rúma fjóra sólarhringa hjá minni hluta atvinnuveganefndar áður en að það fór til skráningar, bara svo því sé haldið til haga.



[15:34]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég geri ekki athugasemdir við náið samstarf löggjafans við framkvæmdarvaldið og ráðuneyti þegar kemur að því að vinna að frumvörpum sem eru hér til meðferðar á Alþingi og það þarf að bera undir ráðuneyti ýmis efnisatriði og annað slíkt. En við erum ekki að tala um það hér. Hér erum við að tala um að frumvarp sem var sent inn af fyrrverandi hæstv. matvælaráðherra undirgekkst slíkar breytingar í hv. atvinnuveganefnd að ráðuneytið sem sendi frumvarpið til þingsins þekkir það ekki lengur og sendir þess vegna bréf. Það er bréfið frá hæstv. fyrrverandi matvælaráðherra sem eiginlega upplýsir það sem gerðist inni í hv. atvinnuveganefnd. Virðingar sinnar vegna þarf hið háa Alþingi að svara því skýrt: Hver skrifaði breytingartillögurnar? Hvaðan komu þær? Hafi þær komið frá hagsmunasamtökum þá heitir þetta spilling. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)