154. löggjafarþing — 106. fundur
 6. maí 2024.

Spyrjandi var .

rannsókn vegna örlætisgjörnings ríkislögreglustjóra.

[15:07]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ríkissjóður situr uppi með 500 millj. kr. reikning eftir að Haraldur Johannessen, fyrrverandi ríkislögreglustjóri, hækkaði lífeyrisréttindi útvalinna undirmanna sinna um helming án þess að hafa til þess heimild. Þetta er niðurstaða meiri hluta Hæstaréttar sem kallar verk Haraldar örlætisgerning, en samningarnir standa þar sem það þykir a.m.k. ekki sannað að undirmennirnir hafi vitað betur og vissulega var það svo að tveir ráðherrar sögðu Harald í fullum rétti í kjölfar þessarar ákvörðunar, samkvæmt umfjöllun Heimildarinnar a.m.k. Síðastliðinn þriðjudag sendi svo kjara- og mannauðssýsla ríkisins tölvupóst til ráðuneytisstjóra allra ráðuneyta og forstöðumanna ríkisstofnana þar sem ráðuneytin eru minnt á að sinna yfirstjórnunar- og eftirlitsskyldu sinni og koma í veg fyrir örlætisgerninga af þessum toga í framtíðinni.

Þá kemur einnig fram að fjármálaráðuneytið hafi ekki svarað fyrirspurn blaðamanna um eftirmál niðurstöðu Hæstaréttar en hins vegar hafi dómsmálaráðuneyti vísað á héraðssaksóknara þar sem blaðamenn Heimildarinnar fengu þær upplýsingar að engu máli af þessu tagi hafi verið vísað til saksóknara og ekki sé í gangi rannsókn.

Ég vil af þessum sökum, virðulegi forseti, spyrja hæstv. dómsmálaráðherra: Telur hún ekki rétt með tilliti til alvarleika þessa máls, með tilliti til þess að þarna er búið að skuldbinda ríkissjóð án heimildar að vísa málinu til rannsóknar, að mögulega geti verið um brot á hegningarlögum að ræða í þessu tilliti? Hvernig hyggst hæstv. dómsmálaráðherra bregðast við gagnvart fyrrverandi ríkislögreglustjóra? Mun hún óska eftir því að héraðssaksóknari taki málið til meðferðar?



[15:09]
dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er mjög mikilvægt að farið sé vel með almannafé og að stofnanir og undirstofnanir ríkisins geri það. Ég get ekki sagt annað en að það sé sjálfsagt af þar til bærum yfirvöldum að fara í áframhaldandi rannsókn á þessu máli sem hv. þingmaður vísar hér til og það er þá ríkissaksóknara að meta það hvort eigi að fara í áframhaldandi rannsókn eða ekki.



[15:10]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Eins og ég skil þetta þá er það héraðssaksóknari sem ákveður þetta. Burt séð frá því hvaða saksóknari það er þá er ég að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hyggist beina því til héraðssaksóknara vegna þess að þegar héraðssaksóknari spurði hvort það væri rannsókn í gangi þá sagði hann að engri slíkri beiðni hefði verið beint til þeirra. Ég hlýt að spyrja, bara fyrir hönd ríkissjóðs vegna þess að ráðherrann vísar til þess að það skipti máli að það sé vel farið með almannafé, hvort það sé ekki tilefni til aðgerða þegar í ljós kemur að þarna er búið að gefa án heimildar skuldbindingar af hálfu ríkissjóðs og það má alveg velta upp þeirri spurningu hvort það hafi verið gert með saknæmum hætti. Ég spyr hvort það sé ekki ástæða af hálfu ráðherra að gera það. Við skulum muna það líka að þetta er sami maður, virðulegi forseti, og sagði þegar starf hans var undir, með leyfi forseta: (Forseti hringir.) „Það er efni í sérstakt viðtal ef til starfsloka kemur vegna þessara ásakana. Það myndi kalla á annað og dýpra viðtal um það sem hefur gengið á á bak við tjöldin.“ (Forseti hringir.) Er ekki ástæða til að rannsaka þetta nánar, hæstv. ráðherra?



[15:11]
dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina í annað sinn. Ég ítreka það sem ég sagði hér í fyrra svari mínu, að ráðherra getur ekki metið hvort þarna hafi eitthvað saknæmt átt sér stað heldur erum við með stofnanir til að meta það. Það er sjálfsagt að metið sé hvort þetta sé refsivert eða ekki en það er þá ríkissaksóknara eða héraðssaksóknara að hefja þá rannsókn en ekki ráðherra.