154. löggjafarþing — 110. fundur
 13. maí 2024.
utanríkis- og alþjóðamál 2023, ein umræða.
skýrsla utanrrh., 1099. mál. — Þskj. 1634.

[15:58]
utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Árleg skýrsla utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál er nú enn á ný lögð fram. Í ár eru 80 ár frá lýðveldisstofnun og þá er hollt að líta aðeins um öxl. Stórir sigrar hafa unnist og lífskjör landsmanna hafa almennt stökkbreyst. Sú lífskjarasókn hefur byggst á frjálsum viðskiptum, að stærstum hluta útflutningsviðskiptum, auk alþjóðasamskipta á sviði stjórnmála, lista og menningar. Án traustra bandamanna og sterkra alþjóðlegra samskipta værum við einfaldlega fátækari í víðu samhengi. Þessu má meðal annars þakka farsælli utanríkisstefnu sem byggir á því alþjóðakerfi sem verið hefur við lýði frá því að lýðveldið var stofnað.

Þessu kerfi er nú ógnað. Innrásarstríð Rússlands er stærsta ógn við frið í Evrópu frá lokum síðari heimsstyrjaldar og árás á alþjóðakerfið sem sjálfstæði Íslands byggist á. Ísland hefur með ráðum og dáð stutt varnarbaráttu Úkraínumanna, sem leggja nú líf sitt að veði fyrir land sitt og frelsi. Fyrir botni Miðjarðarhafs hefur ófriðarbál kviknað með blóðugum átökum og ómældum hörmungum sem haft hafa víðtæk samfélagsleg áhrif og kynt undir sundrungu meðal þjóða. Í Súdan, á Haítí og í Mjanmar þjást óbreyttir borgarar sem ekkert hafa til sakar unnið í þeirri skálmöld sem þar ríkir. Vaxandi skautun og verndarhyggja, afturför lýðræðis og mannréttinda, að ógleymdri loftslagsvá, eru allt alvarlegar áskoranir sem alþjóðasamfélagið stendur frammi fyrir. Fyrir litla þjóð sem byggir velsæld sína og sjálfstæði á öflugu alþjóðakerfi, opnum heimsviðskiptum og virðingu fyrir alþjóðalögum er ekki valkostur að sitja hjá.

Á víðsjárverðum tímum er enn brýnna að vel sé hlúð að víðtækum hagsmunum Íslands á alþjóðavettvangi. Utanríkisþjónustan er framvörður þjóðarinnar í margbreyttri hagsmunagæslu sem lýtur að varðveislu alþjóðakerfisins og grunngildanna sem það byggir á, vörnum og öryggi landsins, markaðsaðgangi fyrir íslensk fyrirtæki og varðstöðu um það ferða- og athafnafrelsi sem við Íslendingar njótum á alþjóðavettvangi, auk aðstoðar við Íslendinga og íslensk fyrirtæki erlendis þar sem sendiskrifstofur Íslands víða um heim gegna lykilhlutverki.

Framlag Íslands er stundum veigameira en smæð okkar segir til um. Sögulegur leiðtogafundur Evrópuráðsins sem haldinn var í Reykjavík fyrir ári við góðan orðstír var áþreifanlegt framlag Íslands til að treysta í sessi grunngildi ráðsins; lýðræði, mannréttindi og réttarríkið. Þetta endurspeglast í Reykjavíkuryfirlýsingunni, lokaniðurstöðum fundarins, og þeim meginreglum um lýðræði sem leiðtogarnir samþykktu að fylkja sér um og kenndar eru við Reykjavík, á ensku, með leyfi forseta, Reykjavik Principles of Democracy. Þótt fundurinn hafi verið hátíðlegur og vel af öllu skipulagi og umgjörð látið, mátti glöggt merkja að hann var haldinn í skugga innrásar Rússlands í Úkraínu. Stuðningur aðildarríkjanna við baráttu Úkraínumanna fyrir landi sínu og frelsi var þungamiðjan í umræðum og niðurstöðum fundarins. Leiðtogarnir ályktuðu í þágu brottnuminna úkraínskra barna og með stofnsetningu alþjóðlegrar tjónaskrár fyrir Úkraínu var stigið mikilvægt skref í átt að uppgjöri á þeim skaða sem Rússland veldur með ógeðfelldu framferði sínu. Fundurinn var lokastefið í hálfsárslangri formennsku Íslands í Evrópuráðinu. Auk grunngildanna var lögð áhersla á málefni barna, kynjajafnrétti og réttindi hinsegin fólks og tengsl umhverfis og mannréttinda. Þessar sömu áherslur eru í fyrirrúmi í stjórnarstörfum Íslands í Mennta- og menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, og verða grundvallaráherslur í setu okkar í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna tímabilið 2025–2027, náum við þar kjöri.

Í 75 ár hefur Ísland tryggt öryggi sitt, frú forseti, með þátttöku í sterkasta varnarbandalagi sögunnar og með tvíhliða varnarsamningi við öflugasta herveldi heims. Nú þegar alþjóðakerfið á undir högg að sækja og Evrópa stendur frammi fyrir stærstu öryggisógn frá lokum síðari heimsstyrjaldar er nauðsynlegt að Ísland vinni að sameiginlegum öryggishagsmunum bandalagsins sem verðugur bandamaður. Áframhaldandi stuðningur við varnarbaráttu Úkraínu er mikilvægasta framlag lýðræðisríkja til að tryggja eigið öryggi og varnir. Samtímis glíma þau við fjölþáttaógnir, hættu á hryðjuverkum og áskoranir sem fylgja hraðri tækniþróun og örum breytingum í alþjóðasamfélaginu. Vegna þessa gerbreytta öryggislandslags hafa ríki Evrópu snúið við blaðinu og hækkað framlög sín til varnarmála svo um munar. Er svo komið að meiri hluti bandalagsríkja mun standa við skuldbindingar sínar innan Atlantshafsbandalagsins um að verja a.m.k. 2% af vergri landsframleiðslu til varnarmála.

Á vettvangi Atlantshafsbandalagsins hafa stefnur og áætlanir verið uppfærðar með áherslu á nærvarnir og fælingu. Hér á landi hefur verið brugðist við með því að uppfæra viðbragðsáætlanir í takt við áætlanir bandalagsins og setja aukinn kraft í alþjóðlegt samstarf á sviði varnarmála. Samhliða auknu samstarfi á vettvangi Atlantshafsbandalagsins hefur svæðisbundinni varnarsamvinnu vaxið fiskur um hrygg. Sameiginleg verkefni Bandaríkjanna og Íslands, á grundvelli gagnkvæmra varnarskuldbindinga, hafa til að mynda vaxið að umfangi vegna aðgerða og innviðauppbyggingar á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli, ekki síst í tengslum við kafbátaeftirlit og fælingaraðgerðir á Norður-Atlantshafi. Þannig höfum við markvisst lagt meira af mörkum til sameiginlegra öryggishagsmuna og eflt öryggi Norður-Atlantshafssvæðisins.

Innan lands miðar aukið samráð á sviði öryggis- og varnarmála að því að styrkja álags- og áfallaþol innviða, stjórnkerfis og samfélagsins alls vegna þeirra ólíku öryggisógna sem við stöndum frammi fyrir. Fjárframlög til varnarmála hérlendis hafa aukist jafnt og þétt að undanförnu, innlent samráð verið styrkt mjög og upplýsingaskipti um öryggis- og varnarmál verið efld. Í fjármálaáætlun 2025–2029 eru framlög til varnarmála aukin enn frekar. Til þess að geta talist trúverðugur aðili að þessu öfluga varnarsamstarfi þarf Ísland að leggja sitt af mörkum til sameiginlegra varna. Það má þó aldrei gleymast að slíkt framlag er fyrst og fremst í okkar eigin þágu. Ísland þarf að fjárfesta í eigin getu til að tryggja eigin öryggishagsmuni sem jafnframt eykur öryggi annarra bandalagsríkja. Í þeim efnum eru mörg tækifæri til þess að gera betur.

Frú forseti. Í rúm tvö ár hafa Úkraínumenn varist ólöglegri og grimmilegri allsherjarinnrás Rússlands, fært með því ómældar fórnir og sýnt meira hugrekki og kænsku en nokkur bjóst við. En þjóð getur ekki varið sig með hugrekkinu einu saman. Undanfarna mánuði hafa Úkraínumenn kallað eftir því að Vesturlönd veiti þeim enn meiri og tímanlegri stuðning því það er sannarlega við ramman reip að draga í þessu stríði. Það er nú deginum ljósara að Rússar svífast einskis og virða alþjóðalög og -samninga að vettugi þegar heimsvaldastefna þeirra er annars vegar. Í ljósi þessa gjörbreytta öryggislandslags í Evrópu sáu Finnland og Svíþjóð þann kost vænstan að láta af langvarandi stefnu um að standa utan varnarbandalaga og ganga til liðs við Atlantshafsbandalagið.

Það er því um fleira að tefla en landsvæði og sjálfstæði Úkraínu. Alþjóðakerfið, virðing fyrir alþjóðalögum og friðhelgi landamæra, ásamt öryggi og frelsi Evrópubúa er einfaldlega að veði. Væri framganga Rússa látin óátalin fæli það í sér umbreytingu á leikreglum alþjóðasamfélagsins í þá veru að breyta megi landamærum og uppræta fullveldi í skjóli vopnavalds. Þess vegna er nauðsynlegt að Ísland taki þátt í samstilltu átaki vestrænna lýðræðisþjóða um að standa þétt við bakið á Úkraínu þangað til Úkraína sigrar. Í þessu augnamiði samþykkti Alþingi nýlega mikilvæga ályktun um langtímastuðning Íslands við Úkraínu og á næstunni munu stjórnvöld skrifa undir tvíhliða samning við Úkraínu þar að lútandi. Minnug þess varnarstuðnings sem við sjálf njótum getum við ekki veigrað okkur við því að styðja með beinum hætti við varnir Úkraínu til að svara brýnni þörf á vígvellinum. Án vopna og varna verður innrás Rússlands ekki hrundið, mannúðarkrísan dýpkar og stuðningur við framþróun og lýðræðislegar umbætur verður til einskis. Með því að svara kalli Úkraínu stöndum við vörð um það alþjóðakerfi sem fullveldi Íslands byggist á. Það sama gildir um nágrannaríki Úkraínu og á nærsvæðum á Balkanskaga og í Suður-Kákasus þar sem áhrif Rússa ógna stöðugleika og framförum. Það er mikilvægt að lýðræðisþjóðir leggi sig fram við að aðstoða þessi ríki við að feta veg lýðræðis, frelsis og mannréttinda.

Sjónir heimsbyggðarinnar hafa að undanförnu beinst að þeim harmleik sem á sér stað fyrir botni Miðjarðarhafs. Skelfileg hryðjuverkaárás Hamas í Ísrael 7. október 2023, sem Ísland fordæmdi harðlega, var mannskæðasta árás á gyðinga frá helförinni. Ísland er meðal þeirra ríkja sem studdu rétt Ísraels til að verja sig gegn slíkri ógn en gerði jafnframt frá upphafi skýra kröfu um að stjórnvöld færu að alþjóðalögum í varnarbaráttu sinni. Alþingi áréttaði ákall Íslands um að hryðjuverk skuli fordæma, alþjóðalög skuli standa og grunnreglum um vernd borgara og aðgengi fyrir mannúðaraðstoð eigi aldrei að fórna. Skýr afstaða Alþingis í þessum efnum hefur verið leiðarljós í öllum málflutningi Íslands á alþjóðavettvangi.

Sterku ákalli Íslands og alþjóðasamfélagsins um vopnahlé hefur ekki verið svarað. Þúsundir óbreyttra borgara og barna liggja í valnum, neyðaraðstoð sætir enn óásættanlegum hindrunum og hungursneyð vofir yfir. Fjöldi gísla er enn í haldi Hamasliða. Ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og ákvörðun Alþjóðadómstólsins í Haag um bráðabirgðaráðstafanir hafa því miður litlu breytt. Átökin hafa haft áþreifanleg áhrif á öryggi á svæðinu öllu og áfram er hætta á útbreiðslu þeirra. Íran grefur undan stöðugleika með stuðningi við hryðjuverkasamtök á svæðinu, nú síðast með beinni árás sinni á Ísrael sem Ísland fordæmdi harkalega. Öryggi á Vesturbakkanum hefur farið þverrandi og samstaða hefur náðst innan ESB um þvingunaraðgerðir gegn herskáum landnemum á Vesturbakkanum, sem Ísland hyggst innleiða. Það er því grundvallaratriði að varanleg lausn finnist sem allra fyrst á langvarandi deilu Ísraels og Palestínu, tveggja ríkja lausn sem krefst bæði hugrekkis og fórna aðila.

Átök og óstöðugleiki valda víðar þjáningu. Ekkert lát virðist á ofbeldisfullri borgarastyrjöld í Súdan sem hrakið hefur milljónir á flótta og valdið alvarlegri mannúðarkrísu. Ástandið á Haítí hefur farið hríðversnandi með yfirtöku glæpagengja. Í Afganistan fer vægast sagt bágri stöðu og réttindum kvenna sífellt aftur og hætta er á stigmögnun átaka í Mjanmar. Svo mætti því miður lengi telja.

Það er því ekkert lát á þeim málefnum sem alþjóðakerfið þarf að leita lausna á. Ísland hefur ríkum skyldum að gegna í alþjóðlegri þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð. Með markvissu framlagi til þróunarsamvinnu getum við stuðlað að aukinni velsæld, jöfnuði og stöðugleika. Alþjóðleg þróunarsamvinna verður þannig áfram ein af meginstoðum íslenskrar utanríkisstefnu og lykilframlag okkar til framfylgdar heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Það skipti okkur máli að niðurstöður jafningjarýni Þróunarsamvinnunefndar OECD á þróunarsamvinnu Íslands, sem kynntar voru um mitt síðasta ár, skyldu staðfesta að framlag íslenskra stjórnvalda hafi skilað umtalsverðum árangri. Í þingsályktun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands fyrir árin 2024–2028 er skýrt að við ætlum að halda áfram á réttri braut. Stefnan tekur mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sameiginlegum vegvísi þjóða heims í átt að farsæld og friði. Með öflugu samstarfi við alþjóðastofnanir styður Ísland með árangursríkum hætti við þau ríki sem helst þurfa á stuðningi að halda. Nýlega hafa rammasamningar við sjö stofnanir Sameinuðu þjóðanna á sviði mannúðar- og þróunarsamvinnu verið endurnýjaðir til þriggja ára. Í gegnum samstarfið við Alþjóðabankann leggur Ísland sitt af mörkum til sjálfbærrar uppbyggingar innviða og efnahags þróunarríkja, sérstaklega allra fátækustu ríkjanna. Í öllu samstarfi leggja íslensk stjórnvöld áherslu á mannréttindi, kynjajafnrétti, sjálfbæra nýtingu sjávar- og orkuauðlinda.

Frú forseti. Íslendingar hafa náð markverðum árangri til bættra lífskjara og aukinnar velferðar í tvíhliða samstarfsríkjum í þróunarsamvinnu. Á þeim 35 árum sem liðin eru frá því að Ísland hóf þróunarsamvinnu í Malaví höfum við stuðlað að bættum aðgangi að hreinu vatni fyrir um 400.000 manns, námsumhverfi 100.000 barna verið bætt og 250.000 konum og börnum verið tryggður aðgangur að bættri heilbrigðisþjónustu. Eitt allra fátækasta ríki heims, Síerra Leóne, er nýtt samstarfsríki Íslands. Sendiskrifstofa opnaði á liðnu hausti og var formlega opnuð 2. maí sl. Þar er Ísland eitt fárra samstarfsríkja með viðveru í landinu og tækifærin til góðra verka óteljandi. Stefnt er að því að útrýma fæðingarfistli, sjá 30.000 börnum fyrir heimaræktuðum skólamáltíðum og bæta aðgang að neysluvatni og hreinlæti. Ísland hefur einnig átt í farsælu samstarfi við héraðsyfirvöld í Úganda. Þróun mannréttinda hinsegin fólks í landinu veldur hins vegar verulegum áhyggjum.

Frú forseti. Frjáls alþjóðaviðskipti hafa ætíð verið drifkraftur framfara og velsældar en að undanförnu hafa átök og skautun á alþjóðavettangi haft margvísleg neikvæð áhrif á samofið efnahagslíf heimsins. Vart hefur orðið við vaxandi einangrunar- og verndarhyggju í alþjóðaviðskiptum. Ríki huga nú þegar að hagvörnum sínum, svo sem öryggi aðfangakeðja, og eru í auknum mæli meðvituð um hættuna af því að frjáls milliríkjaviðskipti umbreytist í pólitískt vogarafl. Þar eru samstarfsþjóðir okkar á Evrópska efnahagssvæðinu engin undantekning.

Ísland leggur áherslu á góða framkvæmd EES-samningsins, mikilvægasta viðskiptasamnings Íslands, sem tók gildi fyrir þremur áratugum síðan og hefur óumdeilt fært almenningi og atvinnulífi gríðarlegan ávinning. Þátttaka í innri markaðnum og styrk staða hans er þannig mikilvægur liður í hagvörnum okkar Íslendinga. Stjórnvöld beita sér einnig fyrir því að koma á fullu tollfrelsi í viðskiptum með sjávarafurðir inn á markað Evrópusambandsins. Mikilvægt skref í þeirri vinnu var sameiginleg yfirlýsing um endurskoðun markaðsaðgangs fyrir vörur, sem samþykkt var sem hluti af niðurstöðum viðræðna um nýtt tímabil uppbyggingarsjóðs EES, sem var lokið í nóvember á síðasta ári. Það er út af fyrir sig óásættanlegt að Evrópusambandið haldi tollum á sjávarafurðir í viðskiptum við Ísland, náið samstarfsríki, þegar fyrir liggur að sambandið fellir slíka tolla niður í fríverslunarsamningum sem sambandið gerir gagnvart öðrum ríkjum.

Ísland hefur í áranna rás gert fjölda viðskiptasamninga til að tryggja aðgang okkar að erlendum mörkuðum og gera íslenskan útflutning samkeppnishæfari, m.a. í gegnum aðild okkar að Fríverslunarsamtökum Evrópu, EFTA. Fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna og Indlands, sem undirritaður var í Nýju-Delí í mars síðastliðnum, var sá fyrsti sem Indverjar gera við Evrópuríki. Samningurinn er þýðingarmikill fyrir viðskipta- og efnahagssamband Íslands við Asíu og felur í sér fjölmörg tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf með stórbættum markaðskjörum fyrir allar helstu útflutningsvörur landsins. Til að setja stærðina í samhengi búa álíka margir á Indlandi og í gjörvallri Afríku.

Frú forseti. Við Íslendingar metum friðinn mikils og að samskipti þjóða einkennist af virðingu, jafnræði og sátt og sannarlega hefur íslensk þjóð eins og allar aðrar þjóðir hagsmuni af því að friður ríki í kringum okkur. En það brennur því miður við að hugmyndin um frið sé oft hér á landi sett upp sem andstaða við varnir. Það skiptir máli að við áttum okkur á því að við hér á Íslandi erum ekki meira friðelskandi en aðrar þjóðir. Það eru bæði sögulegar og aðrar ástæður fyrir því að við erum eitt fárra þjóðríkja án hers og það er ekki af því að við séum meira friðelskandi en aðrir. Munurinn á okkur Íslendingum og því fólki sem hefur þurft að verjast innrásum annarra eða verið þvingað til að taka þátt í innrásinni í önnur lönd er einfaldur. Við erum heppin og við getum verið þakklát fyrir það en við eigum ekki að gorta okkur af því að vera heppin.

Þegar við fjöllum hér í dag um skýrslu um utanríkis- og alþjóðamál þá tel ég mikilvægt að við setjum þetta í samhengi því að við þurfum að bregðast við breyttum aðstæðum í öryggismálum og við gerum það með því að þétta raðirnar með öðrum lýðræðisríkjum. Við gerum það með því að byggja upp eigin varnir á sama tíma og við tökum þátt í sameiginlegum vörnum bandamanna okkar og við gerum það með því að leggja okkur fram og vanda okkur og mæta þeim ógnum sem við stöndum frammi fyrir. Við þurfum að fullorðnast því þegar friði er ógnað í Evrópu þá kemur það okkur við. Þegar kemur að því að leggja okkar fram í stuðningi við það að gera það sem þarf þá eigum við ekki að spyrja fyrst hvað hentar okkur best heldur hvort við getum lagt fram eitthvað af því sem brýnust þörf er á.

Við hér á Íslandi búum almennt við lífsgæði sem óvíða verður við jafnað og hafa þau byggst upp á frelsi, mannréttindum, jafnrétti og jöfnum tækifærum. Fyrir okkur sem búum við slík lífsgæði er nánast ómögulegt að gera okkur í hugarlund að þau geti glatast en það geta þau. Okkur virðist óhugsandi að búa í samfélagi þar sem skoðanafrelsi, málfrelsi, fjölmiðlafrelsi er takmarkað mjög, mannréttindi hinsegin fólks virt að vettugi og árangri í jafnréttismálum snúið til verri vegar. Því miður býr stór hluti mannkyns við slíkar aðstæður. Í því samhengi er mikilvægt að hafa hugfast að hetjuleg barátta úkraínsku þjóðarinnar snýst ekki aðeins um að hrinda innrásarher Rússa heldur einnig að öðlast tækifæri til að tryggja sömu lífsgæði og við njótum, m.a. með aðild að samfélagi evrópskra lýðræðisþjóða. Þau vita sem er að friður er lítils virði án frelsis. Okkar skylda er að standa með þeim og þar liggja hagsmunir okkar einnig.

Í skýrslu þeirri sem hér er til umræðu kemur glögglega fram hversu fjölbreyttum og mikilvægum verkefnum utanríkisþjónustan sinnir. Sama hvernig blæs í samskiptum þjóða þarf Ísland alltaf að geta treyst á að hagsmunagæsla utanríkisþjónustunnar fyrir hönd lands og þjóðar á erlendum vettvangi fari fram af öryggi og festu. Þannig tryggjum við stoðir fullveldisins og grundvöll þeirra lífskjara sem við búum við.



[16:17]
Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ráðherra nefnir í ræðunni að Ísrael hafi haft rétt til að verja sig eftir hryllilega árás Hamas-samtakanna en segir líka að sú varnarbarátta skulu vera í samræmi við alþjóðalög. Spurningin er bara nokkuð einföld: Telur hæstv. ráðherra að öll viðbrögð Ísraels frá 7. október fram á daginn í dag hafi verið í samræmi við alþjóðalög? Og ef ekki, af hverju treysti ráðherra sér ekki til að fordæma það í ræðunni?



[16:17]
utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt sem ég nefndi í ræðunni að við höfum verið skýr með það að Ísraelsríki hafi rétt til að verja sig. Um það gilda líka reglur alþjóðalaga. Ég hef verið mjög skýr með það að alþjóðalögum fylgi ekki bara heilög réttindi, sem ríki eiga að geta treyst á að sé fylgt, heldur sömuleiðis heilagar skyldur. Og við gerum ríkar kröfur á lýðræðisríki að fylgja þeim lögum. Við höfum séð og fengið frásagnir sem eru ekki í samræmi við alþjóðalög, bæði af viðbrögðum, þegar kemur að möguleikum til að koma neyðaraðstoð inni á svæði o.s.frv. Þetta hef ég áður sagt og er sjálfsagt að það komi fram úr þessum stól af þessu tilefni (Forseti hringir.) þegar við fjöllum um þessa skýrslu vegna þess að þegar átök eru (Forseti hringir.) þá verðum við að geta treyst á að sá rammi sem alþjóðalögin eiga að veita — að þeim sé fylgt.



[16:19]
Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott að þetta er skýrt og eðlilega notar hæstv. ráðherra sterkt orðalag þegar hún gagnrýnir hrottalegar, hrikalegar hryðjuverkaárásir Hamas. En ég saknaði þess hreinlega að ráðherra hafi ekki kjark til þess að segja það beinum orðum að við fordæmum líka brot á alþjóðalögum.

Í öðru lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra. Nú liggja um 35.000 manns í valnum og allir innviðir Gaza eru hreinlega í rúst. Finnst ráðherra þetta styðja við sjálfbærni palestínsku þjóðarinnar til framtíðar, sem þó hlýtur að vera forsenda varanlegrar lausnar og tveggja ríkja lausnarinnar sem Ísland styður? Og hvernig hyggst ráðherra koma sterkari skilaboðum til umheimsins á framfæri um að þetta sé ekki leiðin til að tryggja tveggja ríkja lausn?



[16:20]
utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Við munum fordæma öll brot á alþjóðalögum sem sannast á þau ríki sem þau fremja og það mun eiga við hér eftir sem hingað til. Bara núna fyrir helgi, þegar tekin var fyrir hjá Sameinuðu þjóðunum ríkari aðkoma Palestínu innan Sameinuðu þjóðanna, vorum við með, myndi ég segja, mjög skýra atkvæðaskýringu á þessu. Allur þessi fjöldi óbreyttra borgara og barna sem hafa látist er auðvitað gríðarlega alvarlegt og hryllilegt og ekki hægt að réttlæta. Ísrael hefur þennan skýra rétt til sjálfsvarnar en alls ekki ótakmarkaðan og við höfum ítrekað krafist þess að farið sé að lögum og að ríkið haldi sig innan þess ramma. Auðvitað er verkefnið gríðarlega flókið og stórt þegar búið er að (Forseti hringir.) sprengja allt sem búið er að sprengja. Ég viðurkenni það alveg að maður fyllist vanmætti við tilhugsunina um hvernig eigi að vera hægt að ná tveggja ríkja lausn þegar viljinn virðist ekki einu sinni vera nægur (Forseti hringir.) beggja megin borðs.



[16:22]
Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir ræðu sína. Hérna er mikilvæg skýrsla komin fram. Mig langar að spyrja hæstv. utanríkisráðherra að því er lýtur að EES-samningnum, sem er nú 30 ára gamall, varðandi bókun 35. Fyrir rúmum 30 árum, árið 1993, var farin sú leið að samþykkja 3. gr. laga um EES-samninginn, þ.e. sem sagt svokallaðan skýringarlið, en í bókun 35 er skýrt tekið fram að þessi skýringarregla skuli ekki hafa í för með sér framsal á löggjafarvaldi og var 3. gr. miðuð við það. Ég tel að þessi leið hafi verið mjög farsæl fyrir EES-samninginn en það er algerlega undir íslenskum stjórnvöldum komið, íslensku löggjafarvaldi og utanríkisráðuneytinu, að við framfylgjum okkar löggjöf í samræmi við EES-samninginn. Það er ekki við neina aðra að sakast. Spurningin er þessi: Mun hæstv. ráðherra ekki örugglega hætta við að leggja fram frumvarp um bókun 35 en styrkja frekar þá umgjörð sem leiðir til þess að við séum með okkar reglur í samræmi við EES-samninginn? Það hefur kannski ekki verið nægilega mikið gert á síðustu 30 árum en þessi vandi hefur legið fyrir allan tímann og þetta var lausnin sem var samþykkt þá.



[16:23]
utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hvað varðar bókun 35 þá er, eins og við ræddum þegar frumvarpið var lagt fram síðast, í því frumvarpi engin ný ákvörðun um að útvíkka gildissvið EES-samningsins eða að framselja neitt meira vald, borið saman við það sem var ákveðið fyrir 30 árum síðan. Í millitíðinni, frá því að frumvarpið var síðast lagt fram, þá erum við bara með gríðarlega skýra niðurstöðu æðsta dómstóls á Íslandi sem er niðurstaða Hæstaréttar. Ef við bara fylgjum henni, sem ég geri ráð fyrir að þingmenn muni vilja gera, þá kallar það á lagabreytingu á EES-samningnum í samræmi við frumvarpið sem ég hef áður lagt fram. Ég mun að sjálfsögðu leggja fram málið aftur og treysti því að áfram sé mikill þverpólitískur stuðningur við það frumvarp hér á þingi.



[16:25]
Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fæðingarorlofsdómurinn sem féll í Hæstarétti fyrir nokkrum vikum kallar ekki á það að bókun 35 sé lögfest, hann gerir það ekki. Dómstóllinn segir að það sé hægt að leita skaðabóta sé brotið á rétti ef íslensk lög eru ekki í samræmi við EES-samninginn. Dómstóllinn telur líka upp lögin þar sem er framsal á valdi; jú, það er í loftferðum, alþjóðaflugi, þá eigum við fylgja alþjóðareglum, í alþjóðlegu bókhaldi eigum við að fylgja alþjóðlegum bókhaldsreglum og það eru tvenn önnur lög sem vitnað er til. Þetta eru sérafmörkuð lög þar sem er tekið fram að alþjóðareglur gangi framar íslenskum lögum, vegna þess að þú getur ekki flogið erlendis án þess að fylgja alþjóðlegum flugreglum. Þú getur ekki fylgt alþjóðlegu bókhaldi nema fylgja alþjóðlegum bókhaldsreglum. Það er sérafmarkað og dómstóllinn segir ekki að við eigum að lögfesta bókun 35. Það er bara rangtúlkun á dómnum eins og frekast er unnt. Ég skora á hæstv. utanríkisráðherra að lesa þann dóm skilmerkilega. Það er hægt að leita skaðabóta, Frankovich-dómurinn er þar undir og dómur í máli Erlu Maríu Sveinbjörnsdóttur sem varðar Ísland. (Forseti hringir.) Þetta mál var leyst fyrir 30 árum og með því að fara núna og rífa upp þetta mál (Forseti hringir.) er verið að segja að þeir sem samþykktu EES-samninginn á sínum tíma hafi haft rangt fyrir sér. Það var pólitískt samkomulag þá (Forseti hringir.) og það að vera vekja upp gamla drauga (Forseti hringir.) er ekki rétt, svo það liggi algjörlega fyrir.



[16:26]
utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er einfaldlega ósammála hv. þingmanni um að við séum að vekja upp gamla drauga. Þetta er verkefni sem hefur legið fyrir framan okkur í töluvert langan tíma og við höfum lagt mikla vinnu í að leysa. Ég heyri áskorun hv. þingmanns um að falla frá því að leggja fram frumvarpið og gera það að lögum vonandi hér í þinginu en ég mun ekki verða við þeirri áskorun vegna þess að ég hef einfaldlega þá pólitísku sannfæringu að það sé mjög mikilvægt að við afgreiðum þetta mál hér á okkar forsendum, á forsendum löggjafarvaldsins, að þingið taki afstöðu til þess hvernig það er best gert. Það liggur fyrir frumvarp þess efnis og í millitíðinni var farið í að vinna þessa skýrslu og utanríkismálanefnd hefur fjallað um hana. Ég lít svo á að það sé mín skylda að standa vörð um hagsmuni Íslands. Það gerum við með því að standa vörð um EES-samninginn. Hérna liggur fyrir að treysta þarf það orðalag í samræmi við einmitt þann pólitíska vilja (Forseti hringir.) sem hér var fyrir 30 árum síðan og hefur ekki breyst. Ég vonast til þess að það verði áfram (Forseti hringir.) þessi stuðningur við að frumvarpið verði að lögum.



[16:28]
Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Tímabundinn forveri hæstv. ráðherra frysti um tíma greiðslur til flóttamannahjálpar Palestínu, UNRWA, vegna ásakana Ísraels sem síðan hefur verið sýnt fram á að voru ekki á neinum rökum reistar. Nú hafa sem betur fer þær greiðslur hafist á ný og langar mig í því samræmi að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki standi til að hækka framlag Íslands til UNRWA umfram það sem var gert fyrr í vetur í ljósi þeirrar skelfilegu neyðar sem er á Gaza.



[16:28]
utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt, við höfum áfram stutt við þessa neyðaraðstoð sem UNRWA sér um á svæðinu. Við erum með rammasamning sem kveður á um 110 millj. kr. á ári og við höfum auðvitað undanfarið brugðist við í nokkur skipti með viðbótarstuðningi. UNRWA er ein leið til þess. Það eru líka aðrar leiðir en sannarlega eru önnur úrræði sem koma aðstoð inn á svæðið. Þau eru flest mjög háð því að nota UNRWA til að koma þeirri aðstoð inn á svæðið. Við gerum ráð fyrir um 315 millj. kr. til Palestínu í ár og 80 millj. kr. viðbótarframlagi hefur þegar verið varið til neyðaraðstoðar. Við höfum viljað vera í færum um að bregðast við með skjótum hætti við aðstæður sem þessar og við erum sannarlega tilbúin að gera það áfram.



[16:30]
Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Það birtist frétt í Viðskiptablaðinu fyrr í dag um áætlanir hæstv. ráðherra um að opna sendiráð eða sendiskrifstofu á Spáni og þar sem fjallað var um minnisblað sem ráðuneytið sendi fjárlaganefnd þess efnis að bæta við fjármagni til að gera þetta. Ég ásamt fleiri hv. þingmönnum höfum lagt fram þingsályktunartillögu um að hvetja ráðherra til að gera nákvæmlega þetta. Mig langaði að spyrja hver staðan er. Hvenær geta Íslendingar, búsettir á Spáni, átt von á því að fá þar sömu sendiráðs- eða sendiskrifstofuþjónustu eins og Íslendingar búsettir í öðrum löndum Evrópu þar sem er slík þjónusta?



[16:31]
utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Líkt og hv. þingmaður veit sem nefndarmaður í fjárlaganefnd þá óskaði fjárlaganefnd eftir minnisblaði um stöðuna á þessu máli. Þetta hefur auðvitað verið rætt talsvert undanfarin misseri. Ef við tökum svona hin almennu viðmið um það hvað mælir með því eða hvað hjálpar okkur að forgangsraða hvar við erum með sendiráð og hvar ekki og við horfum á viðskiptahagsmuni, pólitísk tengsl, tengsl milli borgara þessara landa og menningarleg tengsl, þá er alveg augljóst að næsta sendiráð sem við myndum opna væri í Madríd. Við erum eina NATO-ríkið sem er ekki með sendiráð í Madríd. Á Spáni búa hluta úr ári eða allt árið þúsundir Íslendinga. Það mæðir mjög á okkar ræðismönnum þar í landi sem vinna við það í sjálfboðastarfi að sinna okkar fólki. Það eru mikil viðskiptaleg tengsl á milli landa og mikil tækifæri í því að treysta þau betur fyrir utan þá staðreynd að hér hefur Spánn verið með sendiskrifstofu um þó nokkurn tíma og miðað við almennt í samskiptum ríkja þá ættum við að vera búin að svara með sama hætti. (Forseti hringir.) Fyrrverandi fjármálaráðherra gat ekki orðið við því að veita fjármuni í þetta verkefni. En ég skynja pólitískan vilja til að gera það og ég vonast til þess að við getum fundið leiðir þannig að hægt sé að gera þetta sem fyrst.



[16:33]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kostur, stundum ókostur, að vera aftarlega í röðinni. En ég vil undirstrika það sem kom hér fram varðandi Spán og sendiráð og bið hæstv. ráðherra að halda sig og ráðuneytinu við efnið. Ég held að það séu ríkir hagsmunir Íslendinga að það skref verði tekið.

Ég vil hins vegar aðeins beina sjónum mínum í fyrra andsvari mínu að bókun 35 þar sem er alveg ljóst, bæði af fræðimönnum og núna mjög skýrri og mjög ákveðinni niðurstöðu Hæstaréttar Íslands um að forgangsreglan hafi ekki verið innleidd réttilega í íslenskan rétt. Ég greindi áherslumun á milli núverandi ráðherra og fyrrverandi utanríkisráðherra sem var í skamman tíma varðandi það hvernig ætti að klára þetta mál. Ég vil einfaldlega spyrja: Má ekki búast örugglega við því að ráðherra láti ekki hrekjast af leið heldur mæti með málið í haust? Eða vill hæstv. ráðherra kannski frekar að við í hv. utanríkismálanefnd tökum málið upp og afgreiðum það núna frá okkur? (Forseti hringir.) Ég er meira en reiðubúin til þess, enda ekki í fyrsta sinn sem Viðreisn hleypur undir bagga þegar kemur að EES-málum.



[16:34]
utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég lít svo á að hér sé einfaldlega um verkefni að ræða sem við þurfum að klára. Það er búið að vinna þessa vinnu og þessi skýrsla held ég að sé einfaldlega til bóta til að undirbyggja frumvarpið og þá þinglegu meðferð sem það mun fá og þá auðvitað ekki í fyrsta sinn þannig að það er búið að vinna eitthvað í haginn. Það sem hefur breyst í millitíðinni er annars vegar þessi skýrsla sem ég tel til bóta og hins vegar skýr niðurstaða Hæstaréttar Íslands sem ætti að hjálpa þeim sem hafa haft fyrirvara á þessu máli, að geta litið til þess og stuðst við það. En ég mun sannarlega koma með málið hingað inn, mæla fyrir því og vonast til þess að ég geti áfram treyst á þverpólitískan stuðning (Forseti hringir.) við þetta mál, enda snýst þetta um að segja skýrt það sem meint var fyrir 30 árum og standa vörð um EES-samninginn fyrir (Forseti hringir.) hagsmuni Íslands, íslensks efnahagslífs, atvinnulífs og íslenskra borgara.



[16:36]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessu svari. Þetta er alveg skýrt. Þetta mál mun koma hingað fyrir þingið og það mun a.m.k. ekki stranda á okkur í Viðreisn þegar að því kemur, enda miklir hagsmunir þjóðarinnar undir. Lífskjarasóknin sem ráðherra kom réttilega inn á alveg frá lýðveldisstofnun hefur m.a. verið út af því að við höfum tekið fullan þátt, ekki bara innan NATO heldur líka innan EFTA og síðan EES-samningsins. Þetta er mikilvægt að heyra. Ég kem inn á það í ræðu minni á eftir en ég get ekki dregið dul á það að ég hef ákveðnar áhyggjur af ysta hægrinu innan sem utan flokks utanríkisráðherra þegar kemur að þessu máli. En ég mun fara betur yfir það á eftir.

Seinni spurning mín varðar varnarstefnu fyrir Ísland. Mér hefur þótt skorta á að við höfum algjörlega skýra varnarstefnu og sérstaklega að við förum yfir okkar hagsmuni út frá vörnum og öryggi landsins, gerum þetta svipað og aðrar þjóðir hafa gert. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hún sé reiðubúin til að fara í slíka vinnu þegar kemur að þessu verkefni, þ.e. að ramma enn betur inn varnir og öryggi landsins og gera skýrar. (Forseti hringir.) Slíkt mun m.a. koma í veg fyrir að til að mynda einhver vopnakaup komi fólki á óvart (Forseti hringir.) heldur er þingið, hið lýðræðislega kjörna vald, búið að fara yfir þessi mál.



[16:37]
utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur auðvitað gríðarlega margt breyst bara undanfarin tvö ár. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að hefðum við verið með varnarstefnu nú þegar þá hefðum við líklega uppfært hana og ef við værum með hana uppfærða og algerlega í takt við tímann þá væri gott að geta stuðst við það. Hins vegar höfum við verið að taka ákvarðanir þegar ákveðnar aðstæður koma upp og viljað gera það hratt. En ég leyfi mér að nefna hér að ég hef alla vega í minni tíð sem utanríkisráðherra átt í mjög góðum, rosalega góðum samskiptum við utanríkismálanefnd og traustum samskiptum, alltaf getað tekið samtöl við nefndarmenn líka um erfið mál. Það er alla vega góður grunnur til að byggja á til að skrifa út þar sem við höfum verið að gera, vinna það í pólitísku samráði, geta átt slík samtöl við utanríkismálanefnd og sömuleiðis hér í þinginu vegna þess að á þessum tímum sem við lifum erum við ekki að fara að skoppa til baka yfir á rétta braut og þurfum ekki að hafa skoðun á þessu lengur. (Forseti hringir.) Ég er algerlega sammála hv. þingmanni að það að vera með skýra sýn á hvað nákvæmlega við ætlum að gera og hvernig við ætlum að beita okkur teldi ég mjög til bóta.



[16:39]
Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Tveir þingmenn hafa hér á undan mér í andsvörum spurt hæstv. ráðherra út í bókun 35 út frá mismunandi sjónarmiðum. Mig langar þess vegna að bera fram mjög afmarkaða spurningu og spyrja hæstv. ráðherra hvort hún sjái fyrir sér að leggja málið fram á þessu þingi. Framlagningarfrestur er löngu liðinn en við sjáum að það er enn þá verið að áætla að mæla fyrir nýjum málum og þess vegna vil ég spyrja: Sér hæstv. ráðherra fyrir sér að mæla fyrir máli er varðar bókun 35 á þessu þingi?



[16:39]
utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Við erum auðvitað komin inn í miðjan maí. Þingið er að fara í hlé núna í lok vikunnar og mörg stór mál liggja inni í þinginu. Á endanum finnst mér skipta mestu máli að þegar mælt er fyrir málinu þá sé það unnið hratt og örugglega og það afgreitt. Það er ekki bragur á því að vera að margleggja fram frumvarp sem er mikilvægt og er þverpólitískur stuðningur við, búið er að undirbyggja og þarf einfaldlega að klára. Ég kem inn í ráðuneytið að nýju þegar framlagningarfrestur er liðinn en skýrslan er komin fram og hún undirbyggir að mínu mati frumvarpið enn frekar og ég lít svo á að skýr niðurstaða Hæstaréttar geri það sömuleiðis og geri það verkefni að klára þetta frumvarp með einum eða öðrum hætti ákjósanlegra og einfaldara og einhvern veginn skýrara að það þurfi að gera, ætli menn að bregðast við (Forseti hringir.) skýrri niðurstöðu Hæstaréttar. Það er svarið sem ég get gefið núna. Það er mjög stutt eftir af þinginu og ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður t.d. myndi tala mjög lengi í slíku máli.



[16:41]
Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Mér líður eins og hæstv. ráðherra hafi haft af mér fullt af ræðum rétt í þessu en ég mun jafna mig að hausti. Í framhaldi af þessu þá langar mig að nefna að hæstv. ráðherra kom inn á það hér áðan að það væri svona að einhverju marki verið að leiðrétta þann gjörning sem hér var við innleiðingu fyrir 30 árum síðan og færa til þess staðar sem raunveruleg meining þingsins hafi legið, ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt. Er það nú alveg víst að það sé raunin? Er ekki líklegt að þingið hefði afgreitt þetta eins og ráðherra leggur til núna á sínum tíma hefði það verið talin leið sem sátt væri um og ætlunin að fara? Mér segir svo hugur að það sé verið að gera býsna lítið úr mikilvægi fyrirvaranna sem menn höfðu í huga hvað það varðar að vera ekki í einhvers lags sjálfheldu gagnvart færibandinu frá Brussel þegar fram í sækti. Það er ekki beint spurning í þessu en ég geld varhuga við því að hér sé fullyrt að menn hafi í raun ætlað að gera þetta með þessum hætti fyrir 30 árum síðan.



[16:42]
utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Skýrslan og greinargerðin sömuleiðis sýna vel hvert markmiðið var og þegar maður les greinargerðina frá þessum tíma þá var markmiðið og það loforð sem var gefið að við værum að innleiða bókun 35. Síðan var einfaldlega talið það myndi duga til, það orðalag sem þar var. Svo var ekki. Það er þá bæði dómaframkvæmd og afstaða Hæstaréttar. Þessi nýi hæstaréttardómur segir einfaldlega að 3. gr. laga EES-samningsins feli ekki í sér forgangsreglu eins og bókun 35 kveður á um. Þetta er skýrt. Á þeim tíma var sagt: Við erum að innleiða bókun 35 með fullnægjandi hætti, það er það sem við erum að gera. Svo þróast ýmislegt og auðvitað gerist ýmislegt en þetta er staðan sem við erum í í dag. Óháð öllu þá tel ég einfaldlega rétt að bregðast við þessu, bregðast við þessu á okkar forsendum hér í þessum sal (Forseti hringir.) og gera það sem þarf til að standa vörð um EES-samninginn og rétta framkvæmd hans.



[16:44]
Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirgripsmikla skýrslu, starfsmönnum ráðuneytisins líka og henni fyrir að fylgja skýrslunni úr hlaði. Ráðherra dró réttilega upp mynd af alvarlegri stöðu heimsmála. Hún nefnir styrjaldir og ógnarástand víða í heiminum, aukna skautun og ógnir sem steðja að lýðræðinu. En hún ræddi einnig mikilvæg verkefni og jákvæð skref Íslendinga í þróunarsamvinnu, auk þess að lyfta mikilvægi fjölþjóðlegrar samvinnu og frjálsra viðskipta. Ég ætla að stikla á örfáum mikilvægum atriðum.

Líkt og ráðherrann nefndi geisar skálmöld í Súdan, Haítí, í Mjanmar, en ég ætla að staldra aðeins við tvö svæði án þess þó að gera lítið úr hörmungum annars staðar; annars vegar ósvífið innrásarstríð Rússa í Úkraínu og hins vegar hryllinginn sem á sér stað núna á Gaza. Stríðið í Úkraínu snertir okkur Íslendinga auðvitað mikið. Þar er um að ræða innrás í fullvalda ríki í Evrópu, beinlínis í bakgarði nokkurra vinaþjóða okkar. Fyrir litla sjálfstæða þjóð eins og Ísland er auðvitað mikið í húfi að slíkt verði alls ekki liðið. Þess vegna stöndum við einörð með bandalagsþjóðum okkar að baki úkraínsku þjóðinni.

Það var því mjög mikilvægt skref þegar Alþingi samþykkti nú nýlega ályktun um langtímastuðning við Úkraínu en í henni felst: 1. Að stuðla að öflugu tvíhliða samstarf ríkjanna. 2. Virk þátttaka í alþjóðlegu samstarfi sem styður sjálfstæða, fullvalda, lýðræðislega Úkraínu í samræmi við vilja íbúanna og friðarferli forsetans. 3. Stuðningur við varnarbaráttu Úkraínu. 4. Mannúðaraðstoð og vernd við íbúa Úkraínu. Og að lokum viðhald grunnþjónustu og efnahags Úkraínu á meðan á átökunum stendur og endurreisn og uppbygging eftir að þeim lýkur, gríðarlega stórt verkefni.

Það hafa heyrst raddir jafnvel hér inni að aðkoma okkar og annarra ríkja eigi fyrst og fremst að felast í að koma á friðarviðræðum milli Rússa og Úkraínumanna, jafnvel á þessum tímapunkti. Mín afstaða í þessu er mjög skýr: Við eigum að virða afstöðu Úkraínumanna sjálfra til slíkra hugmynda. Þeir útiloka friðarviðræður á öðrum forsendum en m.a. þeim að þeir endurheimti allt sitt land og að Rússar leggi niður vopn og komi sér heim til sín. Hvaða fordæmi fælist líka í annarri nálgun, að öflugt herveldi kæmist upp með að brjóta alþjóðasamninga og ráðast inn í nágrannaríki sitt með eyðileggingu og mannfalli og vera svo verðlaunað með auknu landsvæði? Hverjir gætu þá orðið næst fyrir barðinu á Rússum? Pólland, Litáen, Lettland eða Eistland eða jafnvel Norðurlandaþjóðirnar, Finnland og Noregur? Allt eru þetta ríki sem eiga landamæri að Rússlandi.

Ef þetta yrði fordæmið þá spyr maður sig: Hver væri staða Íslands ef á okkur yrði ráðist? Það er nefnilega mjög mikilvægt að huga að því að þegar ný lína er dregin í sandinn er afskaplega erfitt að færa hana til baka. Íslenska þjóðin hefur líka í langflestum könnunum frá því að stríðið hófst mælst meðal þeirra þjóða sem veita og sýna Úkraínu mestan stuðning og við eigum að láta það vera vegvísi Alþingis og ríkisstjórnar.

Frú forseti. Yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar styður einnig málstað palestínsku þjóðarinnar. Við horfum hins vegar máttvana á eitt öflugasta herveldi heims mylja Gaza-svæðið undir sig og drepa heilu fjölskyldurnar með köldu blóði í viðleitni til að útrýma hryðjuverkasamtökum Hamas. Vissulega ber að fordæma viðbjóðslega hryðjuverkaárás Hamas-samtakanna 7. október 2023 og Ísrael á rétt á að verja sig og borgara sína. En Ísrael ber að fara að alþjóðalögum. Hernaður Ísraelshers síðustu sjö mánuði hefur verið svo yfirgengilega kaldrifjaður að það er ekkert annað en hneisa að alþjóðasamfélagið hafi ekki beitt sér með enn sterkari hætti. Nálægt 35.000 manns, ekki síst konur og börn, hafa verið myrt síðustu sjö mánuði. Þetta er u.þ.b. íbúatala Kópavogs. Þarna hefur mér þótt vanta afdráttarlausari skilaboð frá ríkisstjórninni.

Í skýrslunni er vissulega gerð grein fyrir aðkomu Íslands að deilunni, en hvernig ætli almenningur líti nú á þetta og hverju ætli almenningur muni eftir varðandi afstöðu ríkisstjórnarinnar? Jú, í fyrsta lagi að Alþingi þurfti með ályktun að skýra afstöðu ríkisstjórnarinnar, ályktun sem fordæmdi hryðjuverk Hamas, ólöglegar aðgerðir Ísraels á Gaza og krafðist tafarlauss vopnahlés. Alþingi sá sig knúið til að samþykkja hana eftir að fyrrverandi utanríkisráðherra hafði staðið fyrir hjásetu landsins um skýra ályktun hjá allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

Í öðru lagi man fólk líklega þegar þáverandi utanríkisráðherra og núverandi hæstv. forsætisráðherra, án ráðgjafar við þing eða ríkisstjórn, frysti greiðslur til UNRWA, flóttamannahjálpar Palestínumanna, vegna ásakana um að 12 af 30.000 starfsmönnum samtakanna hafi átt beinan eða óbeinan þátt í hryðjuverkum Hamas í október síðastliðnum. Þessi skilaboð sendi ráðherrann umheiminum frá Íslandi á sama tíma og fréttir bárust af því að íbúar Gaza væru á barmi hungursneyðar. Í þriðja lagi man þjóðin eflaust eftir því hvað ríkisstjórnin dró lappirnar við að aðstoða við komu ríflega 100 manns út af Gaza-svæðinu og hingað heim, einstaklinga sem höfðu á þeim tíma fengið heimild frá Útlendingastofnun til fjölskyldusameiningar. Þáverandi forsætisráðherra útskýrði það einkum með því að verkefnið væri svo óheyrilega flókið. Sú skýring féll þó um sjálfa sig þegar óbreyttar íslenskar konur tóku málin í sínar hendur og þá fór loks að rofa til. Í fjórða lagi man þjóðin örugglega eftir því þegar núverandi hæstv. forsætisráðherra og þáverandi utanríkisráðherra gerði sig og þjóðina að athlægi í Noregi andspænis heimspressunni þegar hann svaraði blaðamanni af hroka, firringu og yfirlæti um árás Ísraelsmanna á flóttamannabúðir.

Í fimmta lagi minnist fólks þess sennilega daglega hvað viðbrögð íslensku ríkisstjórnarinnar eru máttlaus og þögnin og fálætið yfirþyrmandi vegna þessara hryllingsatburða sem eiga sér stað þarna. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort við eigum virkilega ekki von á að heyra sterkari rödd á næstunni og hvernig sá tónn verður, og ekki bara vísa í lokaða fundi eða ályktanir eða atkvæðaskýringar. Við skulum nefnilega muna það að einmitt sem friðsöm og vopnlaus smáþjóð getum við sagt hlutina skýrt og hreint út. Það getur verið flóknara fyrir stórþjóðirnar sem hafa meira eða minna vélað með jörðina í hundruð ára.

Það væri gott að fá svör við þessu því að okkur rennur blóðið til skyldunnar að beita okkur fyrir friði á þessu svæði. Með framförum í tækni, viðskiptum og upplýsingabyltingunni hefur heimurinn á einhvern hátt skroppið saman. Allir jarðarbúar eru samhangandi heild og atburðir á einum stað hafa áhrif á aðra til góðs eða ills. Svo er það auðvitað blessað siðvitið sem við treystum líka á.

Það er heldur ekki hægt að horfa fram hjá aðkomu Íslendinga að stofnun Ísraelsríkis árið 1947. Það var fulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum sem var framsögumaður að tillögunni á allsherjarþinginu. Þá var Ísland fyrst Vesturlanda til að viðurkenna sjálfstæði Palestínu þegar Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu Össurar Skarphéðinssonar, þáverandi utanríkisráðherra, árið 2011. Smáríkið Ísland hefur því verið virkur þátttakandi á alþjóðasviðinu þegar kemur að málefnum Ísraels og Palestínu og ábyrgð okkar er bæði pólitísk og siðferðileg.

Frú forseti. Íslandi hefur alltaf farnast best þegar við eigum í miklum samskiptum og frjálsum viðskiptum við aðrar þjóðir. Ég er sammála hæstv. ráðherra um mikilvægi EES-samningsins en í síkvikum heimi getum við ekki hallað okkur aftur og lygnt aftur augum og haldið að hlutir séu endanlega í höfn þegar búið er að skrifa undir samning. Það eru blikur á lofti og það eru að verða breytingar á heimsskipaninni og allt þetta kallar á endurmat á stöðu okkar í fjölþjóðlegu samstarfi, hvort heldur sem um er að ræða samstarf við Norðurlöndin, Evrópusambandið, NATO eða aðra. Ég giska á að slíkt mat hvetji fremur til aukins samstarfs við líkt hugsandi þjóðir en hitt. Eftir inngöngu Finna og Svía í NATO eru Ísland og Noregur t.d. einu Norðurlöndin sem eru ekki bæði í NATO og ESB. Og þó að NATO verði áfram meginbrjóstvörn okkar þegar kemur að vörnum er kæruleysi að horfa fram hjá því að ESB er að styrkja varnargetu sína gagnvart ýmsum fjölþáttaógnum sem kannski eru síður á forgangslista NATO.

Frú forseti. Umræða um varnar- og öryggismál verður eðlilega fyrirferðarmeiri á óvissutímum og það eru sífellt fleiri sem þora að tala um það að við þurfum að verja meira fjármagni til öryggis- og varnarmála. Hæstv. ráðherra bendir réttilega á að það höfum við gert á síðustu árum. En það skiptir líka höfuðmáli hvernig þeim fjármunum er varið og hvernig þeir nýtast sem best. Við skulum bara horfast í augu við það að áfram mun Ísland þurfa að reiða sig á NATO og tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin þegar kemur að hefðbundnum stríðsvopnum. Lega Íslands er hins vegar hnattrænt mikilvæg og okkar framlag inn í þetta samstarf er ómetanlegt fyrir bandalagið í formi mikilvægrar aðstöðu á Miðnesheiði ásamt hlutverki við samhæfingu, menntun, friðargæslu og mannúðarþjónustu. Aukin framlög okkar hafa líka skilað sér til að auka gistiríkjastuðning og styrkja varnarmálatengda starfsemi.

En við getum gyrt okkur sjálf í brók varðandi aðrar og nærtækari áskoranir. Ég nefni t.d. net- og orkuöryggi, matvælaöryggi, sæstrengi, upplýsingaóreiðu, netárásir og ýmislegt sem er stundum í daglegu máli kallað fjölþáttaógnir. Sumt af þessu er reyndar ágætlega skilgreint í samþykktri þjóðaröryggisstefnu sem við hljótum að horfa til. Það væri mikilvægt að stjórnvöld kortlegðu betur framlög til ólíkra þátta fjárlaga sem gætu fallið undir skýrar varnir vegna þess að í litlu herlausu landi er samvinna og samhæfing ólíkra stofnana innan lands lykilatriði. Það hlýtur að geta kallast falskt öryggi þegar dregið er fram hlutverk mikilvægra einstakra stofnana sem eru svo fjársveltar ár eftir ár. Ég nefni t.d. Landhelgisgæsluna og lögregluna. Nú geri ég mér grein fyrir því að sumt af þessu er ekki beint á könnu hæstv. ráðherra en engu að síður verður að skoða hlutina í breiðu samhengi og hvetja ráðherra til að ráðast í svona yfirlit.

En við höfum líka séð, allt frá því að stríð braust út í Úkraínu, að Norðurskautsráðið hefur meira og minna verið lamað þrátt fyrir að enn þá séu verkefnin mikilvæg og við horfum á sama tíma á Rússa færa sig sífellt meira upp á skaftið. Þessu hafa frændur okkar Norðmenn rækilega fundið fyrir með njósnum Rússa og kortlagningu á mikilvægum innviðum. Það bendir margt til aukinna umsvifa í norðri, einnig af hálfu Kínverja, vegna þess að nú óttast ríkin í norðri að stórt landsvæði á Svalbarða, sem gengur kaupum og sölum, sé undir smásjá þeirra. Ég minni aftur á að ef við ætlum að verja okkur verðum við að fjármagna okkar mikilvægu stofnanir.

Ég verð að hlaupa hér yfir hluta af ræðunni, ég á bara eina mínútu eftir og ætla að koma aðeins inn á þróunarsamvinnu. Við Íslendingar höfum tekið undir markmið Sameinuðu þjóðanna um 0,7% og það er ánægjulegt að sjá að í fyrsta skipti í langan tíma þá virðumst við ætla að stíga skref í þá átt og vera komin upp í 0,46% árið 2028 eða 2029. Það er fagnaðarefni og mikilvægt að Alþingi fylgi því eftir með fjárveitingum og að það sé gert og skili sér inn í áætlanir stjórnvalda. Við höfum leitast við að vinna með fátækustu þjóðum heims, ég nefni t.d. Malaví, Úganda og Síerra Leóne og ráðherra fór ágætlega yfir það hvernig við höfum beitt okkur þar. Nú vill svo til að ég er nýkominn frá Síerra Leóne ásamt hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur þar sem við kynntum okkur vinnuna þar. Það er ótrúlegur árangur sem er að nást og ber að þakka starfsfólki utanríkisþjónustunnar fyrir hversu myndarlega það stendur að verki.

En að lokum, frú forseti, þá þakka ég ráðherra aftur fyrir skýrslugjöfina og vonast til að eiga áframhaldandi gott samstarf við hana og nefndina.



[17:00]
Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir sína framsögu og óska henni til hamingju með þessa glæsilegu skýrslu. Hún er 158 blaðsíður og mjög ítarleg samantekt. Ég man nú ekki eftir því að hafa séð svona viðamikla og ítarlega skýrslu áður, hvorki frá þessu ágæta ráðuneyti né öðru ráðuneyti. Það er sannarlega vel þess virði að fara í gegnum þetta allt saman en á því gefst ekki kostur hér í stuttu innleggi. Þess vegna ætla ég bara að stikla á því sem mér finnst skipta máli í þessu. Það er búið að fara yfir það sem ég held að við Íslendingar séum öll samstiga í og sammála um, að við ætlum að standa með Úkraínumönnum til hins ýtrasta. Staðan mætti vera betri, það mætti vera betri, jákvæðari og bjartsýnni tónn í þeim sem telja að hér sé kannski sigurinn ekki eins fastur í hendi eða vel í sjónmáli eins og vera bæri. En við höldum áfram. Þetta eru sirka 5,2 milljarðar sem við erum búin að setja í framlög til ýmissa mála, þar á meðal færanleg sjúkrahús, og 4.200 Úkraínumenn hafa hingað verið boðnir velkomnir. Þar mætti kannski reikna einhverja 2 milljarða til viðbótar en í peningalegu samhengi, þótt þetta séu stórar upphæðir, erum við ekki að sýta það.

Við erum auðvitað öll miður okkar yfir stöðunni fyrir botni Miðjarðarhafs og sjáum ekki fyrir endann á henni. En þó að þessi mál taki mikinn tíma og orku og peninga þá er yfir mörgu öðru að gleðjast á móti, t.d. sirka 74 fríverslunarsamningum við þjóðir sem spegla um tvo þriðju mannkyns. Það eru 46 tvísköttunarsamningar fyrirliggjandi í dag og spurning hvort hleypa þyrfti meiri krafti í þá lúkningu, fleiri samninga.

Hér var vikið að EES-málum og bókun 35 og svo má nefna þessa yfirvofandi grænu skatta sem munu auðvitað bitna á heimilum landsins. Skipaflutningar verða skattlagðir og það þýðir dýrari fæðu og dýrari vöru á Íslandi, og það verður auðvitað dýrara að fljúga á milli landa frá og með 2026 að óbreyttu. Þess vegna finnst mér, eins og ég hef stundum nefnt í þessum stóli, að það hafi verið dálítið einhliða stafað ofan í okkur af hálfu Evrópusambandsins hvernig við skulum sitja og standa ef við ætlum að fá að vera „memm“. Það kemur fram í þessari skýrslu hversu óþolandi það er að geta ekki klárað mál eins og tollamál á sjávarafurðir í viðskiptum. Niðurfellingar á tollum voru grunnur og forsenda inngöngu okkar í Evrópska efnahagssvæðið á sínum tíma. Þetta gengur því miður ekki eins og við hefðum óskað en við kyngjum meira og minna hikstalaust öllu sem kemur frá því með vaxandi þunga, 650 tilskipunum á ári hverju í smáu og stóru.

Varðandi varnarmálin þá þarf ekki að fjölyrða um það að við erum og verðum í NATO að óbreyttu eins og hin Norðurlöndin hafa nú ákveðið að gera, Finnland og Svíþjóð, til viðbótar við Danmörku og Noreg. Í skýrslunni kemur skýrlega fram að við Íslendingar þurfum að fjárfesta í eigin getu og viðbúnaði til að tryggja eigin þjóðaröryggishagsmuni, sem jafnframt eykur öryggi annarra bandalagsríkja. Í þeim efnum eru mörg tækifæri til að gera betur. Við þetta staldra ég og óska eftir nánari skýringum hæstv. ráðherra á því hvað menn eru að hugsa í þeim efnum og hverjir munu halda utan um þau mál í ráðuneytinu. Eins og ég hef vitnað í hér áður frá reynslu minni í Ráðhúsi Reykjavíkur hér handan götunnar þá voru svo fjölmargir embættismenn sem sögðu við mann heiðarlega í einrúmi: Eftir átta eða tíu klukkustunda stífa daga kemur maður heim til sín eftir alla fundina, dæsir og segir: Hver er að fara að framkvæma allt þetta sem var talað um í dag? Það óneitanlega kemur aðeins upp í hugann við lestur þessarar 158 blaðsíðna skýrslu. Með fullri virðingu fyrir hinu öfluga starfsliði utanríkisþjónustunnar: Er virkilega allur þessi málafjöldi raunverulega á borðum „aksjón“-manna og -kvenna sem ætla að taka að sér að framkvæma og fylgja eftir? Ég vona það.

Ég fagnaði kaflanum um Bláfæðubandalagið, sem inniber náttúrlega þörunga sem eru að verða heilmikið ævintýri á Íslandi. Þörungavinnsla er á Reykjanesi og víðar; stóriðnaður, hollmeti, sennilega fyrsta lífefnið á jörðinni sem verður til við samspil sólar og sjávar, þetta græna slím sem verður að einfrumungi og síðan að fæðu. Blágrænir þörungar eru taldir ein hollasta og öflugasta fæða sem til er. Við erum að verða mjög öflug í þessu og ánægjulegt að við Íslendingar skulum hafa verið frumkvöðlar að því að koma Bláfæðubandalaginu á kopp, Aquatic Blue Food Coalition, með leyfi forseta. Að við skulum hafa gegnt formennsku í því frá árinu 2021 vissi ég ekki fyrr en við lestur skýrslu hæstv. utanríkisráðherra.

Ég velti fyrir mér tvennu eða þrennu til viðbótar sem ég vildi biðja hæstv. ráðherra að veita mér svör við. Vinaþjóð okkar, Japan, er búin að vera mikilvægur útflutningsmarkaður. Við höfum um langt skeið leitast við að fá japönsk stjórnvöld til viðræðna um fríverslunarsamning en við litlar undirtektir, eins og segir í skýrslunni. Það vekur athygli manns að vinaþjóð sem er jú tilbúin í menningarsamstarf og alls kyns samstarf við okkur sýnir ekki fríverslunarsamningi mikinn áhuga. Þarf ekki bara lempni og lagni og að hnykkja frekar á því með viðvarandi hætti að við ætlumst til slíkra samninga við vinaþjóðir?

Við erum búin að tala um fríverslunarsamning við Bandaríkin árum og áratugum saman. Við erum búin að gera slíkan samning við Kína. Það vekur furðu að við skulum ekki vera með slíkan samning við Bandaríkin. Þarf ekki að setja aukið púður í það, hæstv. ráðherra, og bara einbeita sér að því að klára það sem klára þarf í þeim efnum? Þeir eru eflaust uppteknir af því að við værum ekki að fara að flytja inn nautakjöt frá Bandaríkjunum eða eitthvað slíkt, en allt snýst um lipurð og lagni í samningaviðræðum.

Það er annað sem ég vil nefna varðandi Bandaríkin og það er sá hluti Bandaríkjanna sem mér er best kunnugur, Kalifornía. Stundum er talað um Kaliforníu sem fjórða eða fimmta stærsta hagkerfi heimsins. Það er gríðarlegur auður sem þar verður til, bæði í, skulum við segja, vitundariðnaði en ekki síst í Kísildalnum og þeim tæknibyltingum sem þaðan eru sprottnar. Þá veltir maður fyrir sér hvort ekki væri tilefni til þess — í fyrsta lagi er mikill fjöldi Íslendinga sem býr í Kaliforníu, Suður-Kaliforníu — að vera með alvöruskrifstofu, alvöruútgerð í Los Angeles. Suður-Kalifornía telur um 25 milljónir manna og hagkerfið þar er alveg ótrúlega öflugt. Við getum sagt að þetta sé í rauninni höfuðstöð samfélagsmiðlanna í heiminum, fjölmiðlanna í heiminum, útgáfunnar í heiminum, vitundariðnaðarins í heiminum. Með fullri virðingu fyrir öllum hinum kontórunum okkar tel ég tímabært að við förum að tala alvarlega um skrifstofu Íslands á þessum góða stað.

Ég vil líka segja að ég hef hreyft því við hæstv. ráðherra og forvera hennar, a.m.k. tvo, hversu undarlegt það er að hafa verið gistivinaþjóð Bandaríkjanna síðan eftir seinni heimsstyrjöld og alveg fram á þennan dag, með stuttu hléi frá 2006–2018, en vera ekki enn komin í náðina með hinum vinaþjóðunum sem fá þennan fína grænahliðsaðgang eftir langt flug á milli heimsálfa. Ég er búinn að lenda í því mjög oft sjálfur með ung börn í fanginu, örþreytt, að þurfa að bíða í tvo til þrjá klukkutíma þegar maður er svo óheppinn að lenda t.d. með Hong Kong-flugi eða Kínaflugi á bandarískum velli. Ég hef talað um Global Entry-löndin áður. Þau eru ansi mörg og ekki endilega allt lönd sem maður hefði talið að ættu að vera komin á undan okkur þarna inn. Borgarar Argentínu, Brasilíu, Barein, Indlands, Kólumbíu, Bretlands, Þýskalands, Hollands, Panama, Singapúr, Suður-Kóreu, Sviss, Taívan, Mexíkó; allt er þetta fólk skilgreint sem vinir Bandaríkjanna en Íslendingar mega húka í biðröðum og bíða.

Sérstaklega í ljósi þess hve Bandaríkin kunna nú afskaplega vel að meta lipurð okkar og samstarfsvilja í yfirstandandi óhugnanlegu ástandi stríðsátaka og eru með vaxandi umsvif, mætti ég biðja hæstv. ráðherra enn einu sinni að hnykkja á þessu máli og koma okkur inn á þennan lista og auðvelda íslenskum borgurum að heimsækja þetta stórveldi sem er nánasti bandamaður okkar í svo mörgum efnum, klára viðskiptasamninginn við Bandaríkin og klára grænahliðssamninginn, Global Entry-samninginn? Þá held ég að við mættum bara nokkuð vel við una í stóra samhenginu. Við skulum vona að við höldum áfram að halda fullri reisn í samkvæmi meðal þjóða í samstarfi okkar við þær. Við þurfum ekki að bera kinnroða fyrir það sem við erum að gera í dag varðandi þá sem sækja hér um hæli eða leita skjóls á Íslandi. Það er málaflokkur sem er mikið umræddur en við höfum sýnt, og þá sérstaklega gagnvart Úkraínu, okkar hugarþel gagnvart fólki sem verður fyrir hörmulegum áföllum á borð við þau sem þar eru í gangi og hafa verið allt of lengi.

Að svo mæltu ætla ég ekki að hafa mín orð mikið lengri. Ég treysti því að fá svör við þessum álitaefnum og að þessi umræða hér í dag um þessa mögnuðu, stóru og umfangsmiklu skýrslu verði innihaldsrík og fróðleg fyrir bæði þing og þjóð.



[17:14]
Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hæstv. ráðherra og starfsfólki hennar fyrir mjög ítarlega og upplýsandi skýrslu. Ég hvet sem flesta til að skoða hana og kynnast því mikilvæga starfi sem er unnið innan utanríkisráðuneytisins. Ég held að það sé mikilvægt að bæði þingmenn og þjóð fái þessa góðu innsýn vegna þess að oft er litið á utanríkisþjónustuna sem eitthvert svona punt á erlendum vettvangi. Þarna séum við að borga stórfé fyrir að hafa einhverja búandi í einhverjum flottum sendiráðsbústöðum og taka þátt í einhverjum veislum á erlendri grundu eða eitthvað. En sannleikurinn er sá að þetta starfsfólk vinnur mikla og mikilvæga vinnu sem lestur þessarar skýrslu, sem er nú alveg sæmilega löng, hún er alveg um 150 síður, veitir mjög fræðandi og góðan skilning á hvað raunverulega er að gerast innan utanríkisþjónustunnar. Sem þjóð sem byggir tilveru sína á að alþjóðleg lög og mannréttindi séu virt er fátt mikilvægara en að sýna það í verki sem þjóð að við tökum þátt í alþjóðlegu samstarfi ríkja. Þar þurfum við að vera öflug rödd þeirra grunngilda sem við byggjum okkar eigið samfélag á. Þetta á sérstaklega við á tímum eins og þeim sem við lifum á núna þar sem stríð, hungursneyð og afleiðingar loftslagsbreytinga hafa sívaxandi áhrif á líf fólks um allan heim.

Í umræðunni hér heima er t.d. oft fólk sem er að flýja þessi lönd, hælisleitendur. Við megum ekki gleyma því að með því að gera líf þeirra betra þar sem þau búa drögum við úr fjölda þeirra sem leita annað. En sendiráð og sendiskrifstofur Íslands og útsent starfsfólk sem vinnur í þeim er ekki eingöngu að tryggja að rödd mannréttinda, jafnréttis og alþjóðlegra laga heyrist heldur vinnur það líka við öfluga hagsmunavörslu fyrir okkur öll. Það þýðir ekki mikið fyrir okkur hér á þingi eða þjóð að kvarta yfir einhverjum erlendum reglum eða tilskipunum ef við erum ekki tilbúin að veita nægt fjármagn til þess að tryggja þessa hagsmunagæslu á þeim vettvangi þar sem þær verða til.

Sendiráðin gegna líka lykilhlutverki þegar kemur að því að veita Íslendingum á erlendri grund aðstoð þegar neyðin knýr að dyrum, hvort sem það felst í því að flytja fólk af hættusvæðum eða aðstoða með týnd vegabréf. Þarna gegna líka 206 ræðismenn sem starfa sem sjálfboðaliðar mikilvægu hlutverki sem vert er að þakka fyrir. Ég, ásamt fjölda annarra þingmanna, hef lagt fram þingsályktun þess efnis að opnuð verði sendiskrifstofa Íslands á Spáni til að efla samskipti landanna og stuðning við Íslendinga í landinu, en Spánn er fjórða fjölmennasta ríki Evrópusambandsins og þungavigtarríki í öllu starfi sambandsins. Ísland er eina Atlantshafsbandalagsríkið sem ekki heldur úti sendiskrifstofu á Spáni, en það er, eins og áður sagði, lykilríki innan Atlantshafsbandalagsins.

Talið er að um 3.500 Íslendingar eigi fasta búsetu á Spáni en mörg þúsund, ef ekki tugir þúsunda, dvelja þar enn fremur tímabundið um lengri eða skemmri tíma sem ferðamenn og dvalargestir árið um kring. Spánn er einn helsti áfangastaður íslenskra ferðamanna og er sérstaklega vinsæll staður fyrir fólk sem komið er yfir miðjan aldur. Það dvelur þar oft veturlangt. Íslendingar eiga um 4.000 fasteignir á Alicante- og Murcia-svæðinu og um 1.500 þeirra eru búsett á því svæði en um 1.000 manns á Kanaríeyjum. Það er gríðarlega mikið álag á kjörræðismönnum Íslands á Spáni vegna verkefna sem veita þessum hópi margvíslega aðstoð. Það var ánægjulegt að sjá í fréttum í dag að hæstv. utanríkisráðherra er í samtali við fjárlaganefnd um að veita fjármagn til þessa mikilvæga verkefnis. Það er nefnilega algerlega óásættanlegt að allir þeir Íslendingar sem þarna búa eða dvelja um skemmri eða lengri tíma njóti ekki fullrar þjónustu eins og þar sem íslensk sendiráð eða sendiskrifstofur eru til staðar. Mig langar sérstaklega að hvetja ráðuneytið og hæstv. ráðherra til að skoða það hvort hægt sé að byrja með sendiskrifstofu íslensks sendiráðs, en það er nákvæmlega sú leið sem Spánverjar fóru, og þar með kannski draga aðeins úr kostnaðinum og milda hræðsluna innan fjárlaganefndar og fjármálaráðuneytisins og vinna þannig í því að tryggja það að við fáum þarna þá þjónustu sem fólk þarf á að halda.

Skýrslan fer einnig vel í gegnum hið góða starf sem unnið er í tengslum við þróunarsamvinnu. Það var sérstaklega ánægjulegt að lesa að miðað við bráðabirgðatölur fyrir 2023 þá tókst okkur að veita meiri þróunaraðstoð en við ætluðum okkur, þ.e. 0,36% af þjóðarframleiðslu en ekki 0,35%. Ég veit að menn eru ekki alltaf ánægðir þegar farið er fram úr en þarna er vert að fagna. Ég held að þetta sé gott veganesti fyrir þá áætlun um hækkun á stuðningi sem kynnt var í nýsamþykktri þróunarsamvinnustefnu en þar er miðað við að þessi tala fari upp í 0,42% á næstu fimm árum. Sú góða þróunarsamvinnustefna hefur verið rædd vel hér á þingi og er óþarfi að ítreka margt sem þar kom fram. En mig langar samt að byrja á því að benda á að í kaflanum um þróunarsamvinnu, sem byrjar á bls. 72, er mjög ítarleg og góð yfirsýn yfir öll þau verkefni sem við erum að vinna í samstarfslöndunum og það sem við erum að vinna í samvinnu við alþjóðastofnanir og félagasamtök. Mig langar að hvetja fólk til að kynna sér þann hluta skýrslunnar jafnvel þó að það sleppi öllum hinum köflunum.

Mig langar líka að hvetja hæstv. ráðherra til að víkka út tækifærin til þess að senda íslenska sérfræðinga á sviði mannúðarmála til starfa hjá stofnunum Sameinuðu þjóðanna. Við gerum þetta í dag, t.d. í gegnum Alþjóðabankann, í tengslum við jarðhitasérfræðinga, en málið er að við höfum mjög mikið af reynslumiklu fólki á sviði mannúðarmála, flest uppalið í björgunarsveitunum eða Rauða krossinum, sem myndi ekki einungis nýtast vel í þessi störf og á alþjóðlegum vettvangi heldur myndi sú reynsla og þekking nýtast mjög vel inn í okkar eigið starf hér á landi. Ég veit að þetta hefur verið gert að einhverju marki en ég held að það séu möguleikar til að gera enn meira og er ég tilbúinn að ræða það við ráðuneytið hvenær sem er.

Þegar við lítum svo yfir svið alþjóðamála eins og þau birtast í nýjustu skýrslu utanríkisráðherra er ljóst að við stöndum á tímamótum, á tímum þegar heimurinn stendur frammi fyrir ógnum sem ekki þekkja landamæri, allt frá loftslagsbreytingum til stríðsátaka. Þá er mikilvægi skilvirkra og samhæfðra aðgerða með mannúð að leiðarljósi ótvírætt. Ísland hefur lengi verið þekkt fyrir framlag sitt til alþjóðasamstarfs, ekki aðeins í gegnum fjárframlög til mannúðarstarfs heldur einnig í gegnum virkan stuðning við lýðræðisþróun og mannréttindi. Sú hefð er mikilvægari en nokkru sinni fyrr þar sem við sjáum stríð og átök herja á saklaust fólk, jafnvel á meðan við erum saman komin hér.

Eitt af þeim verkefnum sem ber hæst í skýrslunni er óbilandi stuðningur okkar við Úkraínu í baráttu hennar gegn yfirgangi og innrásarher Rússa. Þetta stríð, sem er ekki aðeins átök um landsvæði heldur barátta fyrir grundvallargildum lýðræðis og frelsis, minnir okkur á það mikilvæga hlutverk sem smærri ríki geta haft við að styðja við og styrkja alþjóðalög. Í ljósi þessa hlutverks er ekki síður mikilvægt að minnast á átökin á Gaza-svæðinu þar sem Ísland hefur lýst yfir stuðningi við mannúðarmál og kallað eftir vopnahléi. Þar hefði verið tækifæri til þess að skipa leiðandi hlutverk í að vinna að friði en því miður skorti allan áhuga á slíku leiðtogahlutverki hjá hæstv. afleysingarráðherra sem tók við embættinu hluta af árinu.

Það er í þessum anda sem við eigum að líta til framtíðar. Við Píratar höfum ávallt lagt áherslu á gildi eins og gagnsæi, almannahagsmuni og virðingu fyrir mannréttindum. Þessi gildi eiga ekki aðeins við innanlandsstjórnmálin heldur einnig það hvernig við mætum á alþjóðavettvangi. Í ljósi þeirrar aðstoðar sem við veitum þurfum við einnig að gæta að því að mannúðaraðstoð og þróunarsamvinna eru ekki aðeins bráðabirgðalausnir heldur þarf það að vera hluti af langtímastefnu sem miðar að sjálfbærni og stöðugleika þeirra samfélaga sem við erum að aðstoða. Það er ekki nóg að bregðast við neyð heldur verðum við líka að byggja upp getu þessara samfélaga til að standa á eigin fótum. Ísland hefur einstakt tækifæri til að vera rödd fyrir smærri þjóðir í alþjóðasamfélaginu, rödd sem berst fyrir réttlæti, friði og sjálfbærni. Við getum verið brúarsmiðir í alþjóðamálum, brúarsmiðir sem byggja á stöðvum réttlætis, jafnréttis og mannréttinda. Látum okkur öllum vera það ljóst að ábyrgðin sem hvílir á herðum okkar er mikil. Við getum ekki horft fram hjá þeirri þörf sem er á okkar framlagi, hvort sem er í mannúðaraðstoð, í stuðningi við þjóðir í baráttu fyrir frelsi sínu eða í því að viðhalda og styrkja alþjóðlegar stofnanir. Þá á Ísland ekki bara að vera þátttakandi. Ísland á að vera leiðtogi.



[17:27]
Bjarni Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Öryggisáskoranir Íslands eru margar, flóknar og sumar alvarlegar og við þurfum að fást við þær með viðeigandi hætti í samstarfi við vinaþjóðir okkar. Við erum að treysta varnir okkar og viðbúnað vegna nýrra ógna. Fjölþáttaógnir, netöryggi, mögulegrar árásir á grunninnviði, að grunninnviðir standi sem best af sér náttúruhamfarir, slys og umhverfisslys, jafnvel af mannavöldum, eða hryðjuverk af því tagi, fæðuöryggi og grunnviðbúnaður eins og olíubirgðir í landinu og aðrir lykilþættir aðfangakeðju sem halda grunninnviðum gangandi á átaka- eða hamfaratímum. Við lifum í mikið breyttum heimi. Við því höfum við verið að bregðast eins og með uppfærðri þjóðaröryggisstefnu og verðum að gera áfram, bæði sem fullvalda þjóð á okkar forsendum og á grundvelli sérstöðu okkar sem vopnlausrar þjóðar og eyríkis í Norður-Atlantshafi en ekki síður í samstarfi við bandalagsþjóðir okkar og þær þjóðir sem deila með okkur grunngildum og sýn á samfélag þjóðanna og standa vörð um mannréttindi, lýðræði og dómskerfið. Fáir skilja betur en við Íslendingar þýðingu þess að standa vörð um endurheimt og nýfengið fullveldi. Ísland stendur því þétt að baki Úkraínu og öðrum ríkjum, smáum sem stórum, til fullveldis, yfirráða yfir eigin landi og möguleika til að móta og ráða eigin framtíð í lýðræðissamfélagi.

Ég legg áherslu á að við horfum til mikilvægis þess að tryggja sem best aðfangakeðjur, ekki síst til að viðhalda grunninnviðum og að til staðar séu neyðarbirgðir, svo sem lyfja-, eldsneytis- og matvælabirgðir, að hér sé öflug matvælaframleiðsla og að við getum verið sjálfum okkur mest nóg um matvæli. Við verðum að tryggja fæðuöryggi okkar. Engir milliríkjasamningar eða framkvæmd þeirra mega ganga á þann rétt okkar, þar með talið EES-samningurinn. Þvert á móti eigum við að nýta okkur milliríkjaviðskipti til að tryggja þessa stöðu okkar. Við verðum að rísa upp af þeim dróma að sýna ekki meira frumkvæði í eigin lagasetningu um brýn hagsmuna- og réttindamál, svo sem í neytendavernd, náttúruvernd eða þar sem þjóðaröryggi okkar er undir, eins um óheftar fjárfestingar útlendinga í orkuinnviðum.

Þegar kemur að EES-samningnum höfum við ekki staðið okkur í neytendavernd, eins og að innleiða tilskipun 104/2014, sem hefur ekki enn formlega verið tekin upp í íslensk lög, en hún treystir betur skaðabótarétt neytenda, svo sem gagnvart meintu ólöglegu samráði skipafélaganna Eimskips og Samskipa sem hefur stórskaðað neytendur og fyrirtæki sem ekki hafa átt aðra kosti en að skipta við þau sökum yfirburðastöðu þeirra á markaði. Á þessari verkfælni í lagasetningu hafa stórfyrirtæki með ráðandi stöðu á markaði hagnast og jafnvel gengið lengra fyrir vikið á kostnað almennings í landinu. Við þurfum ekki að bíða eftir innleiðingu þessarar tilskipunar hins vegar, við getum einfaldlega gengið í að setja slík lög sjálf.

Í því sambandi er vert að nefna að EES-samningurinn hefur einmitt verið nefndur til sögunnar sem helsta hindrun þess að við getum komið við nauðsynlegum lagabreytingum til verndar neytendum til að styrkja matvælaöryggi og fæðuöryggi, að með bættum upprunamerkingum sé verið að mismuna framleiðendum matvæla í öðrum löndum þar sem matvælaeftirlit er oft á tíðum bágbornara og gæði matvæla lakari. Slík þvæla fengist aldrei staðist ef á það reyndi fyrir dómstólum sem við höfum undirgengist um þessi efni, að okkur beri að halda upplýsingum um innihald uppruna matvæla leyndum fyrir neytendum til að þóknast þeim sem telja sér hag í slíku í stað þess að standa vörð um heilsu fólks, að það geti tekið upplýsta ákvörðun um val á matvælum út frá hreinleika þeirra og uppruna, og vil ég hvetja utanríkisráðherra til að sækja skýran rétt Íslands í þessum efnum — á stjórnvöld að ganga til þess verks.

Eitt af því sem hæst stendur á síðasta ári er vel heppnaður leiðtogafundur Evrópuráðsins í Reykjavík síðastliðið vor þar sem aðildarþjóðirnar hófu á loft og endurnýjuðu heit sín um grunngildin, samþykktu tjónaskrá fyrir Úkraínu og á samþykktu vegvísi fyrir réttinn til heilnæms umhverfis; sannarlega staðfesting á stöðu Íslands og hvers við erum megnug á alþjóðavettvangi sem smáþjóð sem horft er til.

Í skýrslunni er farið yfir stöðuna á alþjóðavettvangi. Við höfum staðið þétt við bakið á Úkraínu allt frá því að blóðug innrás valdhafa í Rússlandi hófst. Nýsamþykkt stefna um langtímastuðning við Úkraínu skiptir miklu máli og þar fylgjum við fordæmi fjölda ríkja til að tryggja fyrirsjáanleika í áframhaldandi stuðningi við úkraínsku þjóðina.

Einnig er fjallað um þann skelfilega harmleik sem á sér stað fyrir botni Miðjarðarhafs, þá hræðilegu hluti sem þar hafa gerst undanfarna mánuði. Hægt væri að kveða enn fastar að orði í umfjöllun um þau fjöldamorð sem hafa verið framin undanfarnar vikur á þúsundum barna og annarra almennra borgara, harðari fordæmingu á þeirri allsherjarhernaðarárás Ísraels sem hefur verið yfirvofandi og er nú hafin gagnvart þeim hundruðum þúsunda Palestínumanna sem hafa leitað skjóls í Rafah og eiga sér engrar undankomu auðið ef sá viðbótarharmleikur sem þar er yfirvofandi verður ekki stöðvaður. Hér skiptir miklu að Ísland beiti sér í samfélagi þjóðanna fyrir friði og sjálfstæðu ríki Palestínumanna.

Vikið er í skýrslunni að skálmöldinni í Súdan, á Haítí og meðferðinni á Róhingjum í Mjanmar, ekki Afganistan eða morðöldunni sem hryðjuverkasamtökin Boko Haram standa fyrir gegn minnihlutahópum kristinna í Nígeríu og fleiri Afríkuríkjum sem lítið fer fyrir í fréttum og vestræn ríki hafa brugðist mjög takmarkað við. Ég sakna þess sérstaklega í skýrslunni að ekki sé vikið að brottflutningi heillar þjóðar með ofbeldi af hendi Asera frá heimalandi sínu, Nagorno-Karabakh, þjóðernishreinsun á 100.000 manna þjóð sem þar hafði búið í aldir með menningu sína og samfélag. Hér brást samfélag þjóðanna sem sneri sér undan. Hér stóð Ísland ekki heldur upp fyrir aðra smáþjóð. Það gerðu fulltrúar Alþingis á Evrópuráðsþinginu en viðbrögð frá íslenskum stjórnvöldum létu mestmegnis á sér standa eins og annarra. Ég vil því nota tækifærið og skora á utanríkisráðherra að taka upp stöðu þessa fólks, þjóðar sem hefur verið hrakin úr landi sínu með ofbeldi og tala fyrir því að þau fái endurheimt heimili sín, land og samfélag.

Alþjóðleg loftslagsvá er nefnd í skýrslunni en umfjöllun um hana spöruð. Rétturinn til heilnæms umhverfis hefur verið viðurkenndur sem sjálfstæð mannréttindi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í ályktun allsherjarþingsins og mannréttindaráðsins. Hann tengist þýðingarmiklum réttindum einstaklinga sem njóta m.a. verndar 2. og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Til ályktana Sameinuðu þjóðanna hefur verið vísað í vinnu Evrópuráðsins og ályktun Evrópuráðsþingsins, nú síðast í yfirlýsingu leiðtogafundarins í Reykjavík í maí 2023. Í íslenskri stjórnskipan er rétturinn til heilnæms umhverfis ekki viðurkenndur sérstaklega en nýtur öðrum þræði verndunar að íslenskum rétti fyrir tilstilli mannréttindasáttmála Evrópu. Hér verður að gera betur. Með innleiðingu Árósasamningsins hefur Ísland skuldbundið sig til þess að virða markmið samningsins um að stuðla að vernd réttar einstaklinga og framtíðarkynslóða til að lifa í umhverfi sem stuðlar að heilsu og velferð þeirra. Hér er sannarlega verk að vinna fyrir ríki eins og Ísland sem vill vera í forystu og fyrirmynd á alþjóðavísu í aðgerðum gegn hamfarahlýnun og verndun vistkerfa. Hér er sannarlega verk að vinna. Nái frumvarp um þetta efni sem undirritaður hefur lagt fram á Alþingi fram að ganga eykst svigrúm einstaklinga í erfiðri sönnunarstöðu til að fá úr réttarstöðu sinni skorið og jafnframt verður aðgengi þeirra að réttarúrræðum um umhverfis- og auðlindamál betur tryggt. Tímamótaúrskurður Mannréttindadómstóls Evrópu á dögunum markar mikilvæg vatnaskil í náttúruvernd og réttindum fólks til heilnæms umhverfis. Ísland er eitt þeirra ríkja sem ekki getur skorast undan því að ráðast í mikilvægar lagabætur til að styrkja umhverfisrétt og réttinn til heilnæms umhverfis sem grundvallarmannréttindi í íslenskri löggjöf og stjórnarskrá.

Margt jákvætt er hægt að segja um þá þróunarsamvinnu sem Ísland hefur sinnt og mikilvægt að við getum byggt enn betur undir kynjajafnrétti sem aflvaka félagslegs réttlætis, framfara og velsældar í þeim löndum þar sem við sinnum þróunarsamvinnu. Ísland hefur sýnt gott fordæmi í sinni þróunarsamvinnu og hvernig við beitum okkur milliliðalaust til þeirra sem aðstoðinni er beint að í vel skilgreindum verkefnum með skýr markmið. Það gerum við og eigum að gera með uppbyggilegum hætti og af virðingu fyrir samfélagi og menningu þeirra þjóða sem við vinnum með, en um leið með mikilvægi kynjajafnréttis að leiðarljósi.

Að lokum er rétt að minna á að við finnum okkur reglulega og oft í þeirri stöðu að upp á okkur er þröngvað hlutum sem eiga ekki við hér vegna séríslenskra aðstæðna, legu landsins og smæðar þjóðarinnar; löggjöf og reglum sem ganga harðar gegn fullveldi þjóðarinnar, þrengja möguleika til eigin ákvarðanatöku sem sjálfstæðrar þjóðar í eigin landi, að við fáum skipað okkar málum sjálf. Það hlýtur því ávallt að vera eitt helsta verkefni íslenskrar utanríkisþjónustu að standa gegn frekara fullveldisframsali og verja sjálfstæði og fullveldi Íslands.



[17:37]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún vekur upp ákveðnar spurningar, m.a. um stjórnarsamstarfið, en líka um það hvort það sé rétt, eins og ég skildi hv. þingmann, að hann telji að Ísland hafi ekki styrkt fullveldi sitt heldur frekar veikt þegar við urðum stofnaðilar að NATO, þegar við urðum aðilar að EFTA og þegar við skrifuðum undir EES-samninginn. Er hv. þingmaður að meina það að við stöndum veikar að vígi eftir að hafa orðið aðilar að þessum alþjóðasamningum eða erum við sterkari? Ég vona að flestir viti hvert mitt álit er en mér þætti gott að vita hvort ég hafi verið að skilja hv. þingmann rétt, að fullveldi okkar sé veikara og við veikari sem þjóð eftir þessi mikilvægu skref sem voru tekin í utanríkismálum Íslands.

Þetta var fyrsta spurningin. Önnur spurning er varðandi bókun 35. Ég er að reyna að draga út, og það virðist oft vera frekar með töngum heldur en hitt, afstöðu stjórnarþingmanna. Ég er að reyna að fá það fram hvort það sé ekki örugglega samstaða um að ráðherra leggi aftur fram frumvarp sem ráðherra lagði fram núna á síðasta ári en var ekki afgreitt, hvort hv. þingmaður styðji það ekki og muni um leið stuðla að því að við fullgildum og klárum bókunina þannig að réttindi Íslendinga verði ekki minni og léttvægari en þeirra sem eru á EES-svæðinu. Má ekki treysta á stuðning hv. þingmanns þegar kemur að þessu?

Í þriðja lagi langar mig að forvitnast um það hvort ég hafi greint ágreining á milli hv. þingmanns og ráðherra eða ríkisstjórnar. Telur hv. þingmaður að ríkisstjórnin og þingið hefðu átt að ganga lengra þegar kemur að málefnum fyrir botni Miðjarðarhafs og því hörmungarástandi sem þar er? Hefði hv. þingmaður sett fram aðrar áherslur en ríkisstjórnin hefur gert?



[17:39]
Bjarni Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé bara eins og ég sagði, að það hljóti ávallt að vera eitt helsta verkefni íslenskrar utanríkisþjónustu að standa gegn frekara fullveldisframsali og verja sjálfstæði og fullveldi Íslands. Það er og verður eitt helsta verkefnið og í því felst engin gagnrýni.

Varðandi bókun 35. Hún er svo sem ekki sérstaklega hér undir í þessari umræðu en málið er hjá ráðherra. Það á eftir að koma í ljós, það er ekki alla vega komið fram enn og það þyrfti að fá vandaða umfjöllun, vænti ég, ef eitthvað hefur breyst þar.

Varðandi ágreining. Ég ætla ekki að bera á borð neinn ágreining en hins vegar getur maður haft sínar áherslur. Varðandi átökin fyrir botni Miðjarðarhafs og þessa hræðilegu atburði sem þar er að eiga sér stað núna og í Palestínu þá var líka mikilvæg afstaða sem Ísland tók núna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna varðandi leiðina að því að styðja við Palestínu sem ríki til framtíðar og vonandi stígum við fleiri góð skref fljótt í þá áttina.



[17:41]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að túlka orð hv. þingmanns þannig að hann telji að ekki hafi átt sér stað fullveldisafsal þegar við höfum tekið þátt í því mikilvæga alþjóðasamstarfi sem við höfum staðið fyrir og beitt okkur fyrir, hvort sem það er innan NATO, EFTA-ríkjanna eða EES-samningsins. Ég tek heils hugar undir með hæstv. utanríkisráðherra um að sá samningur er mikilvægasti milliríkjasamningur sem við höfum gert, ekki síst þegar litið er til lífskjaraaukningar okkar Íslendinga núna á þeim áratugum sem samningurinn hefur gilt.

Ég vil hins vegar taka undir með hv. þingmanni þegar hann nefndi neytendaverndina og nefndi það sem þarf að klára hér. Það eru ýmis mikilvæg málefni sem snerta réttindi einstaklinga og lögaðila sem ekki hafa verið fullklárað af okkar hálfu. Ég vil taka undir þá gagnrýni sem hefur verið sett fram um leið og ég segi og bendi á að það er heimatilbúinn vandi, þessi bírókratismi eða þetta þunga embættismannareglugerðafargan sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir. Við erum að sjá það í hverju málinu á fætur öðru að tæplega 400.000 manna þjóð vill flækja regluverkið meira en 500 milljóna markaður. Mér finnst það ámælisvert af því að til að mynda á sviði orkumála eða annarra sviða höfum við ekki verið að einfalda regluverk eins og við hefðum átt að gera til að fara m.a. í það að nýta betur auðlindir okkar í þágu lands og þjóðar og betri lífskjara. Hitt er síðan, og ég kem að því í minni ræðu, að það er augljóst af ræðu hv. þingmanns að — ég ætla ekki að segja að það sé vík milli vina innan ríkisstjórnarsamstarfsins en það er augljós, ekki bara áherslumunur (Forseti hringir.) sem við vitum af, það er ágreiningur þegar kemur að því að fylgja eftir bókun 35. (Forseti hringir.) Við í Viðreisn munum vera á vaktinni og ég undirstrika (Forseti hringir.) að við munum aðstoða ríkisstjórnina ef þörf krefur þegar kemur að því.



[17:43]
Bjarni Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef svo sem ekkert miklu við það að bæta eða að velta vöngum yfir þeim bollaleggingum sem hér voru bornar fram. Það var skýrt sem ég sagði, að þetta sé eitthvað sem við þurfum ávallt að vera gætin með, þ.e. með fullveldið sem fjöregg þjóðarinnar sem við þurfum ávallt að halda vel um og meta hverju sinni. Það er þá stærri og meiri umræða að taka það fyrir hvernig okkur tekst það í einstökum verkefnum og í tengslum við einstaka samninga sem við gerum. En ég legg áherslu á, eins og hv. þingmaður tók undir, að við getum sýnt meira frumkvæði í eigin lagasetningu, að það sé lagasetning sem hentar okkar aðstæðum og tekur á þeim málum sem við þurfum að taka á, en líka að við gleymum ekki hlutum eins og — ég nefndi sérstaklega neytendaverndina, sem væri eðlilegt að við værum búin að klára fyrir okkar leyti. En annars hef ég ekki mikið meira um þetta að segja.



[17:45]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því eins og fleiri að þakka fyrir aldeilis ágæta skýrslu frá utanríkisráðuneytinu og ráðherra um utanríkis- og alþjóðamál. Þetta er mikilvægt plagg. Í stórum dráttum dregur það fram það sem hefur verið lögð áhersla á, hvað hefur verið gert. En síðan er náttúrlega það sem kannski stendur ekki þarna líka umhugsunarefni fyrir okkur sem og þau verkefni sem við stöndum frammi fyrir hér í þinginu til skemmri og lengri tíma. Auðvitað er það mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að í grundvallaratriðum náist sátt um alþjóðakerfið. Það eru fáar þjóðir aðrar en smáþjóðir sem hafa ríka hagsmuni af því að alþjóðakerfið, alþjóðasamskiptakerfið virki.

Hér hefur svolítið verið talað um fríverslunarsamninga, sem blessunarlega hafa tekist til að mynda við Indland. En það er ljóst að við hefðum ekki getað náð þessum samningum sjálf, ein og sér. Það liggur alveg fyrir að við þurftum að vera í samfloti annarra ríkja, ekki síst Noregs og Sviss sem höfðu þennan þunga sem þurfti til að draga fram þennan mikilvæga fríverslunarsamning sem var gerður við stórþjóð Indlands.

Síðan er hitt að ég vil taka undir það sem hér hefur verið sagt og í rauninni skila þökkum til baka til hæstv. utanríkisráðherra, að samstarfið við nefndina hefur almennt verið mjög gott. Það er fagnaðarefni — það er svolítið merkilegt líka að fylgjast með því að síðustu utanríkisráðherrar hafa allir komið frá sama flokki, Sjálfstæðisflokknum, en það hefur einfaldlega verið borin mismikil virðing fyrir þessu mikilvæga samstarfi og samtali sem þarf að vera á milli utanríkisráðherra hverju sinni og síðan hæstv. utanríkismálanefndar. Ég vil sérstaklega hrósa þessum utanríkisráðherra sem nú er fyrir þá verkferla sem hafa verið teknir upp og hún hefur sinnt af kostgæfni.

Að því sögðu þá snertir það líka þetta samstarf og samtal við utanríkismálanefnd. Í rauninni eru risaákvarðanir, prinsipp-ákvarðanir eins og það að vera hluti af vopnakaupum — þetta er viðkvæmt mál og við sem erum að ræða utanríkismál og varnarmál hverju sinni skiljum að fólk setur fram spurningar um af hverju þessi leið er farin og mér finnst hæstv. ráðherra hafa svarað því alveg ágætlega. Hins vegar hefði ég gjarnan viljað að utanríkisráðherra hefði á sínum tíma átt þetta samtal við utanríkismálanefnd. Það hefði komið í veg fyrir þá árekstra og þá tortryggni sem eðlilega vaknar við það að Ísland verði aðili að vopnakaupum, að við höfum ekki skýra ríkjandi varnarstefnu, sem hefði verið svo upplagt fyrir okkur að fara í strax og ekki síst eftir innrás Rússa í Úkraínu, að við hefðum farið svipaðar leiðir og okkar nágrannaþjóðir. Við vitum hvaða leið Svíar og Finnar fóru. Þeir gerðust aðilar að NATO. Það var þeirra skýra leið til þess að styrkja sína varnar- og öryggishagsmuni. Við erum líka að heyra það bara út frá sögunni, sögu Eystrasaltsríkja. Ég sá nýlegt viðtal bara í morgun við Landsbergis, utanríkisráðherra Lettlands, þar sem hann dró fram að þeirra öryggi fælist í aðild að Evrópusambandinu og NATO og það sama gerði Kaja Kallas, forsætisráðherra Eistlands, nú um daginn þegar þau drógu fram og sögðu að öryggi landsins væri stýrt inn í þennan farveg Evrópusambandsins og NATO.

En við höfum ekki farið í svipaða vinnu. Það hefur margt verið gert vel, það má ekki misskilja mig, en ég held að það sé þessi innbyggða feimni okkar gagnvart því að ræða varnar- og öryggismál. Við höfum sett þetta allt of sjaldan á dagskrá, við erum bara örfá hér innan þingsins sem höfum verið að ræða þetta. En ég hefði viljað sjá meiri forystu af hálfu ríkisstjórnar einmitt í þessa veru, að þessi mál hefðu verið rædd og ekki bara á lokuðum fundum þjóðaröryggisráðs, af því að ég tel að lykillinn að því að öðlast skilning á því, að almenningur öðlist skilning á því hversu mikilvægt það er að vera með puttann á púlsinum þegar kemur að vörnum og öryggi landsins sé að það verði upplýst umræða, að það verði gegnsæi í umræðunni og að fólk skilji hvert skref sem við tökum í varnar- og öryggismálum. Það er það sem við hefðum átt að gera og getum enn þá gert og mér finnst ég greina mjög jákvæða tóna í þessa veru hjá hæstv. utanríkisráðherra.

Við vorum saman á fundi mjög merkilegum fundi einmitt um NATO, 75 ára afmæli aðildar okkar að NATO, þar sem við, Ísland, vorum ein af stofnaðilum að NATO 1949, og það hefur svo sannarlega sýnt sig í gegnum söguna að okkar seta við borðið hefur haft þýðingu í stærra samhengi, en líka í okkar þjóðfélagslega samhengi. Ég get bent á landhelgisdeiluna á sínum tíma þar sem skipti máli að við gátum útskýrt okkar stöðu og hagsmunir heildarinnar voru teknir fram yfir einstaka hagsmuni eins og t.d. Breta á sínum tíma. Þannig að það skipti máli að vera þessi rödd sem er svo dýrmæt af því að við höfum miklu að miðla, hvort sem það er á sviði réttindamála, umhverfismála og alls konar sviða sem við getum miðlað áfram af þekkingu okkar og reynslu.

En við sjáum það líka að heimsmyndin hefur gjörbreyst. Við erum að sjá stríðsátökin í Evrópu, við erum að sjá aðsteðjandi ógnir eins og netárásir, árásir á mikilvæga innviði, upplýsingaóreiðu og við erum að sjá líka í ríkara mæli, sem ég tel mikla hættu fólgna í, ákveðna upplausn og einstrengingshátt og sagan sýnir það bara á millistríðsárunum milli fyrri og síðari heimsstyrjaldar hvernig stóru ríkin brugðust við eins og Bandaríkin með því að loka ríkinu. Það leiddi til efnahagslegrar kreppu. Það leiddi líka til óróa innan ríkjanna sem gat verið ákveðin ógn við öryggi landsins. Þannig að ég hef miklar áhyggjur af aukningu þess að ríkið beiti frekari tollum og efnahagsþvingunum í heimsviðskiptum. Það er hættulegt og það eru ekki síst hættulegt fyrir smáríki eins og Ísland ef stóru ríkin ætla að fara þessa leið og við erum að kljást við þau til viðbótar við stóru risana, fyrirtækjarisana sem við höfum lítið í ein og sér.

Öll þessi breytta mynd kallar að mínu mati líka á að við förum enn betur yfir málin. Við í Viðreisn höfum lagt fram þingsályktunartillögur, við vorum eini flokkurinn sem lagði fram konkret tillögur um það hvernig ætti að bregðast við breyttu umhverfi á sviði öryggis- og varnarmála eftir innrásina 24. febrúar í Úkraínu 2022. Við eigum að efla samstarfið við Bandaríkin. Við eigum að beita okkur enn frekar innan NATO, tala óhikað fyrir því, strax og færi gefst, að Úkraína verði tekin inn í NATO og vonandi sem fyrst líka inn í Evrópusambandið. Varðandi Georgíu erum við núna að sjá mótmæli þar á hverjum degi og ótta fólks við að landið verði smám saman yfirtekið af Rússum og þau skref eru tekin núna þessa dagana, sem er mikið áhyggjuefni fyrir frelsis- og lýðræðiselskandi þjóðir sem við Íslendingar teljum okkur tilheyra. Þetta er allt saman ákveðin ógn við okkur og þess vegna verðum við að beita okkur meira innan þess samstarfs sem við erum í, eins og innan NATO.

Við þurfum að ræða það hvernig Norðurlöndin geti komið að auknum varnarviðbúnaði bæði NATO en líka okkar Íslendinga. Það er líka umhugsunarefni að stjórnstöð Norðurlandaríkjanna innan NATO er ekki á sama staðnum. Annars vegar erum við Íslendingar og Norðmenn í Northfolk á meðan aðrar Norðurlandaþjóðir eru í Brunssum í Hollandi. Þetta er eitthvað sem við þurfum að velta fyrir okkur og taka alla vega samtalið um hvað er best fyrir okkur að gera, hvort við ættum allar að vera undir sem Norðurlöndin undir Northfolk eða með öðrum hætti.

Ég veit að þessar vangaveltur eru líka innan Eystrasaltsríkjanna og mig minnir að utanríkisráðherra Finna hafi bent á að hagsmunir Finna væru bæði að vera norðurslóðaríki en líka Eystrasaltsríki. Ég tel mikla hagsmuni fólgna í því að þessi svæði vinni saman ásamt Bretum þegar kemur að vörnum. Við þurfum, og þið hafið áður heyrt mig tala um það, að taka upp eða alla vega ræða varnarsamninginn, hvort það sé ekki alveg öruggt, af því að það stendur ekki í honum að Bandaríkin komi okkur til aðstoðar ef það er massíf eða meiri háttar árás á innviði okkar Íslendinga, hvað það þýðir. Hver kemur okkur til bjargar? Hvert leitum við? Ég veit að það er ýmislegt í gangi en þetta þarf að vera skýrt.

Við þurfum þessa markvissu varnarstefnu sem ég hef ítrekað nefnt hér til að við forðumst misskilning og árekstra yfir, að mínu mati, eðlilegu skrefi eins og varðandi það sem utanríkisráðherra tók í rauninni einn síns liðs varðandi vopnakaupin. Síðan þurfum við auðvitað að tryggja efnahagslega hagsmuni samhliða öryggishagsmunum.

Efnahagslegir hagsmunir Íslands. Það má segja að efnahags- og varnarsamvinna séu tvær hliðar á sama peningi og við sjáum það að núna þegar Evrópusambandið — já, já, ég mun tala um Evrópusambandið — er ekki að taka til þessara hefðbundnu varna heldur er það að fara inn á svið þegar heimsmyndin er einmitt að breytast. Evrópusambandið er að taka það meira til sín að byggja upp netþekkingu þegar kemur að netárásum. Evrópusambandið er að skoða hvernig hægt er að verja innviði, hvernig hægt er að berjast gegn upplýsingaóreiðu, sem er stór ógn við lýðræðisskipulag okkar sem teljum okkur til vestrænna lýðræðiselskandi þjóða. Þetta skiptir máli þegar við ræðum líka Evrópusambandið og aðild að Evrópusambandinu, að við tökum það inn í þetta. Það er alveg á hreinu hvaða efnahagslegu hagsmunir eru undir. Við erum að tala um jöfn tækifæri og nýjan gjaldmiðil og allt það, en við verðum líka að fá á borðið hvaða hagsmunir öryggislega séð eru til viðbótar. Þetta eru Norðmenn að ræða og ekki síst hægri menn þar að ræða sín á milli og hafa verið óhræddir við að benda á að þetta þurfi þeir að taka upp. Ég tel okkur þurfa að gera það líka.

Við verðum að leggja öll spilin á borðið, vera heiðarleg hvað það varðar, þora að beita okkur fyrir því að treysta þjóðinni fyrir næsta skrefi, sem er að taka til umræðu aðildarumsókn að Evrópusambandinu, hvort við eigum að halda henni áfram. Þegar ég tala um að leggja öll spilin á borðið þá þýðir það að við þurfum að fá að vita nákvæmlega hvað þetta þýðir út frá efnahagslegu sjónarmiði en ekki síður út frá öryggissjónarmiði landsins af því að það er frumskylda ríkisins og ríkisvaldsins að verja öryggi borgaranna. Inn á við er það að fjölga og efla lögreglu. Inn á við er það líka að efla Landhelgisgæsluna. En við verðum að sjá út á við hvað það þýðir fyrir okkur að vera ekki aðili að Evrópusambandinu þegar kemur að öryggis- og varnarumræðu á alþjóðasviðinu. Það er því miður þannig að það eru flokkar sem vilja ekki einu sinni taka upp þennan spilastokk af því að þeir eru hræddir við að öll spil verði lögð á borðið. Það er miður og það er skammsýni og við höfum ekki efni á því, ekki síst í ljósi þeirrar frumskyldu sem ríkisvaldið hefur, þ.e. að verja öryggi borgaranna.

Ég ætla að biðja hæstv. forseta að setja mig aftur á mælendaskrá af því að ég á eftir að fara yfir þróunarsamvinnuna, fara betur yfir Úkraínu og það sem hefur verið sagt um Úkraínu. Ég vil eiginlega taka strax undir með hæstv. ráðherra að mér finnst miður að skynja það á ýmsum fundum sem ég hef setið að þá er aðeins að fjölga röddunum varðandi það að það eigi bara að beita sér fyrir vopnahléi núna. Það var bara síðast í fyrradag sem ég hitti manneskjur sem sögðu: Verðum við ekki að fara að ræða betur við Rússana? — Við verðum ekkert að gera það meðan Úkraína segir nei, á meðan Úkraínu er að kalla eftir okkar samstöðu. Þannig að ég fagna því sérstaklega sem ráðherra sagði hér áðan: Við verðum að standa með Úkraínu og gera það sem þarf til að þau geti varið landið sitt af því að með því að Úkraínufólk geti varið Úkraínu þá erum við líka að verja okkur, okkar frelsi, lýðræði o.s.frv.

En ég hef áhyggjur af þessu og ég hef áhyggjur af því að þolgæðið gagnvart stríðinu minnki af því að það eru ýmsir aðrir fókuspunktar sem eru líka eðlilegir og við þurfum að taka ákveðið á í stað þess að þeir séu að draga athygli frá þessu og að fólk byrji á endanum að yppa öxlum og segja: Þetta er svo dýrt, er ekki bara best að fara einhverjar aðrar leiðir? Einhverjar aðrar leiðir en þær sem Úkraínumenn samþykkja koma ekki til greina finnst mér.

Ég á eftir að ræða ekki bara Úkraínu heldur á ég líka eftir að ræða (Forseti hringir.) ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs. Ég hefði einmitt viljað ræða tillögu okkar Viðreisnar í þá veru (Forseti hringir.) að við krefjumst vopnahlés strax, mannúðaraðstoð verði komið á hið fyrsta, við fordæmum morð á almennum borgunum (Forseti hringir.) og að öllum gíslum í haldi Hamas verði strax sleppt lausum. Þetta mun ég fara yfir í næstu ræðu.



[18:00]
Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra greinargóða skýrslu og góða framsögu og yfirferð hennar. Eins og vanalega hefur starfsfólk utanríkisþjónustunnar skilaði af sér góðu verki, bæði í efni og framsetningu. Á árinu sem er liðið frá síðustu skýrslu hæstv. ráðherra um utanríkismál hafa horfur og ástand í heiminum því miður ekki orðið betri nema síður sé. Hæstv. ráðherra lýsir því vel hvernig alþjóðakerfinu sem við eigum allt okkar undir er nú ógnað. Ófriðarbál loga víða og athygli okkar nemur ekki nema brotabrot af þeim hörmungum. Flestallar hörmungar fara undir radar, halda ekki fyrir okkur vöku. Mér varð svo oft hugsað til þessa á nýlegu ferðalagi mínu í Síerra Leóne, einu fátækasta ríki heims og nýju tvíhliða samstarfsríki Íslands í þróunarsamvinnu. Þar sá ég margt sem situr í mér og heldur fyrir mér vöku, m.a. hitti ég fórnarlömb og baráttukonur gegn kynfæralimlestingum á konum en Síerra Leóne hefur eitt hæsta hlutfall heims þessa hryllilega ofbeldis, hlutfall sem hefur þó á nokkrum árum farið úr yfir 90% í um 83% kvenna sem verða fyrir þessu mannréttindabroti. Limlestingin er flokkuð í þrjú stig eftir alvarleika, eftir því hversu mikið er fjarlægt af kynfærunum en öll þrjú stigin tíðkast í Síerra Leóne. Staðan er þannig að nánast allar konur sem við hittum, allar litlar stelpur, höfðu orðið fyrir þessum hryllingi, verið skornar með misgóðum verkfærum eins og rakvélarblöðum og skærum og gróið misvel saman. En þær sem við hittum höfðu þá a.m.k. lifað af. Fjölmargar deyja við þessar aðfarir.

Við funduðum líka með stjórnvöldum í Síerra Leóne, stjórnvöldum sem hafa verið treg að berjast gegn þessum óskapnaði. Við tókum málið að sjálfsögðu uppi alla sem við hittum en það er ekki sport fyrir alla að hafa stjórn á framsetningunni um slík mál. Íslenskir skaphundurinn sem ég er þurfti a.m.k. að taka á öllu sínu og rifja upp allt sem hún lærði í diplómataþjálfun utanríkisráðuneytisins. En svona ferðir, svona fundir, minna mann líka á það að framlag Íslands skiptir máli og rödd Íslands skiptir máli. Auðvitað þyrmir yfir okkur þegar við sjáum hörmungar, hungur og ofbeldi hvert sem við lítum. En það þýðir ekki að skríða bara undir sængina og slökkva ljósin. Við getum sannarlega látið til okkar taka. Ég verð þó sífellt sannfærðari um það að við þurfum að tryggja það að framlög okkar nýtist vel, að við hámörkum virði fjárframlaga, vinnuframlags, tíma og orku sem við eyðum, m.a. í þróunarsamvinnu.

Virðulegi forseti. Ísland hefur, eins og okkar helstu samstarfsríki, þurft að laga sig að aðstæðum og breyttum veruleika í kjölfar allsherjarinnrásar Rússlands í Úkraínu. Því miður sér ekki fyrir endann á þessari ólöglegu innrás. Þessa dagana berast okkur því miður jákvæðar fréttir af framlínunni. Það verður ekki sagt nógu oft hversu aðdáunarverð frammistaða Úkraínumanna hefur verið í þessu erfiða stríði. Ég fagna því auknum stuðningi Íslands við Úkraínu. Ég hef sagt frá heimsókn minni hér áður til Bandaríkjanna með kollegum mínum og formönnum utanríkismálanefnda á Norðurlöndunum og Eystrasaltslöndunum og viðtökunum sem við fengum þar og ég segi aftur frá þessu til að ná betur til þessa minni hluta sem þykist ekki skilja það af hverju við leggjum þessa höfuðáherslu á stuðning við Úkraínu. Þegar við fórum á fundi með bandarískum stjórnmálamönnum sem höfðu auðvitað vissan skilning og miklar áhyggjur af ástandinu í Úkraínu, þá var samt viðkvæðið alltaf það sama alls staðar: Þetta er að gerast í ykkar heimshluta, í ykkar bakgarði. Eruð þið ekki örugglega með allt uppi á tíu hjá ykkur? Eins og hæstv. ráðherra fór hér yfir í framsögu sinni er fjárfesting í vörnum Úkraínu fjárfesting í eigin vörnum. Það er ekki bara okkar mat heldur allra okkar nágranna- og vinaþjóða.

Og talandi um okkar eigin varnir, virðulegi forseti. Mér heyrist við flest sammála um mikilvægi aðildar að NATO og varnarsamningsins við Bandaríkin og sömuleiðis um mikilvægi þess að Ísland tryggi viðbúnaðargetu í samræmi við skuldbindingar sínar í öryggis- og varnarmálum. Nágranna- og samstarfsríki okkar hafa stóraukið útgjöld til öryggis- og varnarmála í takt við aukna spennu og óstöðugleika í umhverfi okkar. Undanfarin ár hafa þessi mál verið tekin alvarlega af utanríkisráðherrum Sjálfstæðisflokksins. Varnarmálaskrifstofa ráðuneytisins hefur verið endurvakin, sérstök deild fjölþáttaógna stofnsett og ráðist hefur verið í umtalsverð viðhalds- og endurbótaverkefni vegna varnarmannvirkja á öryggissvæðum. Við höfum aukið fjárútlát til málaflokksins umtalsvert og styrkt samstarf okkar á mörgum sviðum, m.a. norrænt varnarsamstarf og innan sameiginlegu viðbragðssveitarinnar. Við eigum að taka áfram virkan þátt í varnartengdum verkefnum og viðhalda varnarinnviðum okkar í samræmi við þjóðaröryggisstefnu Íslands. Þannig tryggjum við áframhaldandi frið á okkar friðsælu eyju.

Virðulegi forseti. Í öllu því umróti sem við höfum orðið vitni að undanfarna mánuði og ár, hvort sem er varðandi heimsfaraldur eða styrjaldir, hefur styrking á samstarfi Íslands við nágranna- og vinaþjóðir verið ljós í myrkrinu. Hæstv. utanríkisráðherra á hrós skilið fyrir þá áherslu sem hún hefur lagt á að rækta ýmiss konar samstarf, bæði á sviði utanríkismála en ekki síst á sviði varnarmála. Þar stendur samstarfi við Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin auðvitað upp úr enda nánustu samstarfsríki Íslands. Þessari samvinnu er lýst vel í framlagðri skýrslu hæstv. ráðherra og ég hvet hana til að halda áfram á sömu braut. Við þingmenn þekkjum það vel að eiga vini og bandamenn í þessum þjóðum í okkar störfum.

Virðulegi forseti. Átök víðs vegar um heiminn hafa auðvitað sett mjög mark sitt á alþjóðleg samskipti undanfarna mánuði og ár. Við fylgjumst flestöll með hryllingnum sem tekur engan endi í Úkraínu og hörmungum fyrir botni Miðjarðarhafs þar sem saklausir borgarar eru, eins og svo oft, meginfórnarlömb átaka. Þessi átök og vaxandi átök víðar í heiminum hafa mikil áhrif, m.a. á norðurslóðasamstarf og á þróunarsamvinnu, svo dæmi séu tekin. Það hefur verið vont að verða vitni að vaxandi spennu á norðurslóðum en eins og við vitum er öryggi á svæðinu, sjálfbærni, samfélagsleg og efnahagsleg þróun stór hagsmunamál fyrir Ísland. Þetta er undirstrikað í skýrslu hæstv. ráðherra.

Og af því ég nefni þróunarsamvinnu, virðulegi forseti, langar mig að enda mína yfirferð á smáumfjöllun um hana. Ég fagna yfirlýsingum hæstv. ráðherra um mikilvægi þróunarsamvinnu sem hún sýnir ekki bara í ræðu og riti heldur líka í verki. Þróunarsamvinna er mikilvæg og það hefur verið átakanlegt að taka á móti áköllum frá fólki í samstarfsríkjum okkar í þróunarsamvinnu sem kalla eftir meiri aðstoð eftir því sem neyðin vex samhliða vaxandi átökum víðs vegar um heiminn og samhliða því að athygli okkar hefur verið að dreifast víðs vegar um heim. Það er ótrúlega þungbært að hlusta á hróp þessa fólks sem virðast ekki vekja neina gríðarlega mikla athygli eða mikla tilfinningasemi hjá viðtakendum. Þar sem ég er nýkomin úr vinnuferlið til Síerra Leóne eins og ég hef þegar nefnt þá langar mig til að hvetja hæstv. ráðherra til að vinna að framgangi málefna þar sem við höfum sérþekkingu á. Maður sér það þegar komið er til Síerra Leóne hversu vel áherslur okkar og sérþekking Íslands geta nýst í þróunarsamvinnu Íslands.

Ég gæti staðið hér í allan dag og rætt utanríkismál. Þau eru mér svo mikið hjartans mál. Mér finnst hæstv. ráðherra hafa gert vel með sinni framsögu og svörum hér í dag og sömuleiðis fjölmargir hv. þingmenn úr mörgum flokkum sem hafa lagt margt gagnlegt til málanna. Það er ótrúlega jákvætt hversu samstiga við þingmenn erum í mörgum utanríkismálum, enda er samstarf okkar í hv. utanríkismálanefnd sérstaklega ánægjulegt og til mikillar fyrirmyndar.



[18:09]
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Með milliríkjasamningum og alþjóðastarfi hefur Ísland byggt sterkan grunn og látið gott af sér leiða og látið til sín taka í heimsmálunum. Við erum samstarfsaðilar á ýmsum mikilvægum sviðum, t.d. í Atlantshafsbandalaginu, sem hefur veigamikla þýðingu hvað varðar varnar- og öryggismál þjóðarinnar. Vera Íslands í NATO verði sífellt mikilvægari fyrir öryggishagsmuni landsins á tímum stöðugrar tækniþróunar og miðað við þá þróun í heimsmálunum sem við sjáum raungerast í dag. Við megum aldrei gleyma því að þrátt fyrir smæð sína getur Ísland sinnt mikilvægu hlutverki á alþjóðaskala. Framlag okkar skiptir máli og mikilvægi stöðugrar hagsmunagæslu okkar í þágu íslensks samfélags og atvinnulífs er óumdeilt. Framlag okkar í menningarmálum, jafnréttis- og mannréttindamálum, þróunarsamvinnu og málum um farsæld barna er til fyrirmyndar en kerfisbreytingar okkar í þágu farsældar barna hafa vakið umtalsverða athygli um allan heim. Víða um heim horfa aðilar hingað til að sækja innblástur með það að markmiði að bæta sitt nærsamfélag. Það er virkilega jákvætt að Ísland sé fyrirmynd á lykilsviðum.

Ég vil einnig nefna þá góðu vinnu sem hefur átt sér stað í þágu viðskiptafrelsis íslenskra aðila. Góðir viðskiptasamningar mynda hagstæðar aðstæður til að skapa útflutningstekjur og tryggja aðgengi að vörum og þjónustu hér á landi í gegnum erlenda aðila þegar við á. Með gerð viðskiptasamninga stuðlum við að aðgengi að erlendum mörkuðum og jöfnum samkeppnishæfi innlendra atvinnurekanda á alþjóðamarkaði þar sem samkeppnin getur reynst smáum aðilum virkilega strembin.

Virðulegi forseti. Við megum aldrei sofna á verðinum í utanríkismálum. Það er okkar skylda sem þjóð að leggja okkar af mörkum í þágu alþjóðasamfélagsins og ekki síður að tryggja hagsmuni og sérstöðu Íslands á alþjóðamælikvarða.



[18:11]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Mig langar til þess að byrja þessa umræðu á því að vitna beint í skýrsluna, með leyfi forseta, í setningu sem ég held að sé lykilatriði í þessari umræðu allri og margir hafa lagt út af hér í þessari umræðu og það er þetta:

„Vaxandi skautun og verndarhyggja, afturför lýðræðis og mannréttinda, að ógleymdri loftslagsvánni, eru allt alvarlegar áskoranir sem alþjóðasamfélagið stendur frammi fyrir. Fyrir litla þjóð sem byggir velsæld sína og sjálfstæði á öflugu alþjóðakerfi, opnum heimsviðskiptum og virðingu fyrir alþjóðalögum er ekki valkostur að sitja hjá. Á viðsjárverðum tímum er enn brýnna að vel sé hlúð að víðtækum hagsmunum Íslands á alþjóðavettvangi.“

Mér hefur þótt þetta áhugaverð og góð umræða sem hér hefur átt sér stað. Eðli málsins vegna hefur töluvert verið rætt um að Atlantshafsbandalagið og aðkomu okkar þar og varnarsamninginn við Bandaríkin sem eru grunnstoðir öryggis og varna okkar. Það hefur verið rætt um aðild okkar að Fríverslunarsamtökum Evrópu sem veitir okkur aðgang að mörkuðum utan Evrópu og síðan auðvitað um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið sem er langmikilvægasti viðskiptasamningur Íslands. Ég er ein af þeim sem tel hagsmunum okkar, ekki síst á viðsjárverðum tímum, akkúrat betur borgið með því að taka skrefið alla leið og gerast aðili að Evrópusambandinu að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er kannski ekki það sem ég ætla þó að gera að umræðuefni hér heldur langar mig til að ræða norrænt samstarf sérstaklega. Það er mikilvægt nú þegar smáríki eiga töluvert undir, líka samvinnu sín á milli, á þessum viðsjárverðu tímum sem við lifum en líka er það viðeigandi í ljósi þess að á þessu ári gegnir Ísland formennsku í Norðurlandaráði.

Það liggur fyrir og við vitum það sem störfum á vettvangi Norðurlandaráðs að norrænt samstarf hefur gengið í gegnum tímabil mikilla breytinga þar sem varnar- og öryggismál, borgaralegur viðbúnaður, netöryggi, loftslagsbreytingar og annað slíkt einkenna norræna dagskrá meira en áður. Að sama skapi hefur orðið meiri þungi undanfarið í málflutningi þeirra sem hafa talið mikilvægt, jafnvel nauðsynlegt, að uppfæra Helsinki-samninginn svokallaða sem liggur til grundvallar norrænu samstarfi og er frá árinu 1962.

Undanfarið ár hefur síðan átt sér stað vinna á vegum Norðurlandaráðs við endurskoðun þessa samnings og hluta þess tímabils stýrði ég þeirri vinnu. Við hittum alla nefndarformenn í Norðurlandaráði, við hittum fulltrúa norrænu ráðherranefndarinnar og við hittum sérfræðinga alls staðar að um hin ýmsu málefni. Í þessari vinnu kom það í ljós að Helsinki-samningurinn þarfnaðist uppfærslu, ekki eingöngu tungumál samningsins, sem er úrelt á marga vegu og gamaldags heldur endurspegla þemun eða flokkarnir, kaflarnir í samningnum, einfaldlega ekki núverandi norrænt samstarf. Á þingi Norðurlandaráðs í Færeyjum í byrjun apríl skilaði hópurinn af sér skýrslu sem er nú til frekari vinnu í forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Skýrslan er ekki löng en yfirgripsmikil og ber þess merki að það var mikill einhugur í vinnuhópnum um langflest atriðin, að það þyrfti að uppfæra orðalag í mörgum köflum. Það var t.d. ekki talað um loftslagsmál í kafla um náttúruvernd, kaflinn um fjölmiðla var mjög einsleitur, prentmiðlar og analog-sjónvarp og -útvarp voru þar, ekki samfélagsmiðlar. Það vantaði aðra kafla; það vantaði kafla um viðbúnað og samfélagsöryggi, það vantaði kafli um loftslagsmál og það vantaði sérkafla um landamærahindranir, nokkuð sem við fundum illa fyrir á Covid-árunum o.s.frv. En langmesta plássið fékk umræða um öryggis- og varnarmál. Sá kafli hefur ekki verið til staðar í samningnum.

Í skýrslu ráðherra sem við ræðum hér er áréttað að þróun öryggismála á heimsvísu geri það að verkum að svæðisbundið samstarf verður sífellt mikilvægara. Þetta á við innan NATO og Norðurlandaráð hefur haft gott og rótgróið samstarf þar um. En það er mikilvægt að hafa nauðsynlega festu í varnar- og öryggissamstarfi norrænu ríkisstjórnanna og Norðurlandaráð er kjörinn vettvangur fyrir slíkt samstarf.

Nú er það svo að með aðild Svía og Finna að NATO breytast auðvitað forsendur norræns samstarfs á sviði öryggis- og varnarmála, það gefur augaleið. Af sögulegum ástæðum tók Helsinki-samningurinn ekki til þessa málaflokks. Hann er, eins og ég sagði, frá árinu 1962 og það var ákveðið vinasamband Finna við Sovétríkin þá sem átti stóran þátt í því að ekki var fjallað um öryggis- og varnarmál í norrænu samstarfi í upphafi sjöunda áratugar síðustu aldar. Það hefur síðan gjörbreyst þannig að þegar við horfum núna fram á þessa breyttu stöðu, þegar við horfum fram á mikilvægi og vaxandi þróun í átt að svæðisbundnu samstarfi í öryggis- og varnarmálum, þá liggur það fyrir að það þarf að taka upp þennan kafla í formlegu norrænu samstarfi og samningurinn þarf að bera þess merki, hann þarf að endurspegla þetta samstarf. Það ríkti eindreginn samhugur um að beina þeirri ósk til forsætisnefndar að vinna málið áfram þannig að kaflinn verði settur inn í samninginn.

Það eru líka fleiri atriði. Við töluðum um að í þessum öryggis- og varnarmálakafla þyrftum við að taka til netöryggismála og fjölþáttaógna, sem eru auðvitað gríðarlega mikilvæg mál þegar kemur að samfélagsöryggi. Þar þurfum við ekki bara á því að halda að það sé stórt, sterkt norrænt samstarf, svæðisbundið samstarf, við þurfum líka að tryggja hér á landi að við verðum ekki veikasti hlekkurinn í því samstarfi vegna þess að keðjan verður bara jafn sterk og veikasti hlekkurinn. Þar tel ég að við þurfum að leggja í töluvert mikla vinnu.

Þetta er það sem mig langaði að nefna sérstaklega hér, að það liggur sem sagt fyrir núna tillaga um að öryggis- og varnarmál verði felld inn í Helsinki-samninginn. Þar að baki liggja tillögur, skýrslur og vinna fjölmargra aðila frá öllum Norðurlöndum sem best þekkja til í þessum málaflokki og forsætisnefnd Norðurlandaráðs er núna með þann bolta. Það eru uppi áætlanir um að málið verði til lykta leitt á þingi Norðurlandaráðs í haust. Það þing verður haldið hér á Íslandi vegna þess, eins og ég sagði áðan, að Ísland gegnir formennsku núna, og ég bind miklar vonir við að þar verði þessi mál kláruð. Það mun setja enn eina stoðina undir stefnu okkar í öryggis- og varnarmálum og ekki bara efla öryggi okkar heldur tryggja það líka að rödd okkar og áhrif séu til staðar.

Okkur er títt að tala um Helsinki-samninginn sem norrænu stjórnarskrána okkar og við sem stjórnmálamenn vitum að við breytum ekki oft um stjórnarskrá, þótt sumum finnist að það megi gerast oftar en gerst hefur, en það koma tímar í sögunni sem fela einfaldlega í sér svo miklar breytingar að það þarf að breyta stjórnarskránni. Norrænt samstarf hefur sennilega aldrei verið mikilvægara en í dag, ekki bara vegna stöðunnar í öryggis- og varnarmálum heimsins og okkar heimshluta, ástæðurnar eru fleiri en þetta er áherslan hér núna, og Helsinki-samningurinn verður einfaldlega að taka á þeim áskorunum og tækifærum sem Norðurlöndin standa frammi fyrir.

Þannig að þetta er nú staðan og ég óska þess að verði niðurstaðan sú að Norðurlandaráð taki þá ákvörðun á þingi sínu hér í haust að samþykkja þessar breytingartillögur og uppfærslu á Helsinki-samningnum og gefa þar með boltann áfram yfir til norrænu ríkisstjórnanna þá muni ríkisstjórn Íslands grípa þann bolta vel og örugglega, vegna þess að ég er sannfærð um að þeir gerist ekki meiri hagsmunirnir hjá öðrum Norðurlöndum en Íslandi. Við eigum gríðarlega mikilla hagsmuna að gæta að þessi yfirfærsla eigi sér stað og að svæðisbundin samvinna á sviði öryggis- og varnarmála verði a.m.k. líka mjög sterk innan Norðurlandaráðs. Við erum öll komin saman í NATO, Norðurlöndin, við erum ekki öll innan Evrópusambandsins og við þurfum á því að halda að norræn samstaða sé óvefengjanleg á þessu mikilvæga sviði.



[18:22]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Hver er uppskriftin að góðu samfélagi, allavega samkvæmt okkur hérna á norðurslóðum og Norðurlöndum? Það eru sterk og öflug mannréttindi, öflug vernd almennra borgara og einstaklinga í lýðræðissamfélagi. Hver er uppskriftin að því að eyða mannréttindum í lýðræðissamfélagi? Það er dálítið staðan sem við erum að glíma við í alþjóðastjórnmálum, í geópólitíkinni, með leyfi forseta, í dag. Staðan er einfaldlega sú að það er markvisst verið að grafa undan lýðræði og mannréttindum í hinum vestræna heimi þar sem þessi gildi eru hvað sterkust og það gengur illa að breiða þau út. Það ætti að vera okkur mikið áhyggjuefni. Einhverra hluta vegna er sá áróður mjög smitandi og hefur valdið þessari svokölluðu öfgahægribylgju í Evrópu á undanförnum árum. Ég vil þó ekki endilega kenna þetta við einhverja hægri stefnu, mér finnst það ekki sanngjarnt. Þetta er ákveðin öfgastefna og hvort hún fer til hægri eða vinstri eða hvert svo sem er mér slétt sama um, þetta nálgast einfaldlega ákveðinn fasisma og alræðishugmyndir um vald og hvar vald býr. Við skulum einfaldlega segja það á eins skýran hátt og hægt er, að að baki þessari áróðursherferð nokkurn veginn um gjörvallan heiminn eru þónokkrir en Rússland er þungamiðjan í þeim gjörningum. Sú upplýsingaóreiða sem hefur komið frá Rússlandi, er mjög vel staðfest að komi frá Rússlandi, varðar m.a. afskipti af kosningum, t.d. í Bandaríkjunum og í mörgum Evrópuríkjum og hvernig málið um Cambridge Analytica t.d. kom upp líka. Það eru til öfl sem vilja ekki mannréttindi og lýðræði. Rússland er stór leikmaður í þeirri fléttu.

Það hafa margir látið glepjast af þessari orðræðu, þessari pólitísku orðræðu sem Rússland hefur átt mikinn þátt í að búa til á undanförnum árum. Sú orðræða er mjög algeng innan þessarar hægriöfgastefnu. Við þurfum að finna eitthvað annað orð yfir þetta en öfgahægri, yfir þessa fasistabylgju í rauninni sem er að ganga gegn okkar vestrænu gildum. Við verðum að passa okkur á því að detta ekki í þá gildru sem er verið að setja upp. Það er þessi gildra þar sem er beinlínis verið að búa til aðstæður víðs vegar í heiminum með hernaðarbyltingum. Það eru þó nokkur lönd sunnanvert við Sahara í Afríku þar sem hefur verið gerð hernaðarbylting í rauninni gegn ákveðinni nýlendustefnu Frakka. Þar voru Wagner-hópurinn og arftaki Wagner-hópsins aðalaðilarnir í því að hjálpa uppreisnaraðilum þar til að komast til valda. Frakkar eru í rauninni í beinu stríði við Rússa þarna í Afríku. Víðar um heiminn, t.d. í Sýrlandi þar sem Rússar hafa verið að aðstoða stjórnvöld í Sýrlandi við að halda völdum og á fleiri stöðum er í rauninni verið að búa til þá, má segja, jákvæðu afleiðingu fyrir þessa aðila að búa til flóttafólk. Það er ekki flóttafólkinu að kenna hvaða aðstæður eru búnar til, það einfaldlega flýr þær aðstæður, skiljanlega. Þetta er hönnuð atburðarás, við skulum bara hafa það algerlega á hreinu. Það eru vissulega til tilfelli þar sem aðrar aðstæður valda þeim flóttamannavanda sem við erum að glíma við en það eru líka hannaðar aðstæður. Þær aðstæður eru hannaðar til þess að grafa undan mannréttindum og lýðræði af því að við þekkjum það bara út frá ákveðnum mannlegum gildum og samfélaginu hvernig við bregðumst oft við utanaðkomandi ógn. Það er mjög auðvelt að mata þá hræðslu sem upp kemur þegar það er flóttamannaástand. Það er á okkar ábyrgð að láta ekki glepjast af þeim hræðsluáróðri. Innflytjendamál eru flókin, þau eru erfið, þau eru áskorun og það er auðvelt að kenna flóttamönnum eða innflytjendum um vandann. Það er allt of auðvelt. En það er á sama tíma mjög varhugavert því að réttindin sem við notum og byggjum upp til þess að búa til gott lýðræðissamfélag — við gröfum undan þeim á sama tíma og við hallmælum innflytjendum, af því að það er „við og þau“ umræða. Þannig að við verðum að passa okkur.

Upplýsingaóreiðan er nefnilega líka hluti af stríðsátökum. Ísland er ekkert undanskilið þeirri áhættu og það er skipulögð dreifing ósanninda og áróðurs í stríðsrekstri sem hefur það markmið að skapa óreiðu og grafa undan tiltrú almennings á innviðum og stofnunum. Sitt sýnist hverjum auðvitað um það hvað er upplýsingaóreiða og hvað ekki. Það er endalaust verið að velta því fram og til baka og ásaka ýmsa saklausa aðila um upplýsingaóreiðu. En hún er þarna líka til staðar. Hinum megin frá fáum við oft varnir gegn þessari fölsku upplýsingaóreiðu, í rauninni bara með málefnalegri gagnrýni eða ekkert rosalega málefnalegri gagnrýni endilega sem er ásökuð um að vera falsfréttadreifing og er það í rauninni ekki tæknilega séð. Kannski ónákvæm umræða eða eitthvað því um líkt. En það að gagnrýna ranga umræðu sem upplýsingaóreiðu hjálpar einungis þeim sem eru í alvörunni að dreifa ósannindum og áróðri með það að markmiði að eyða mannréttindum og lýðræðissamfélagi. Þannig að það er rosalega mikið ábyrgðarhlutverk okkar að reyna að vanda okkur og vera nákvæm í því þegar við erum að kljást við þennan í rauninni beina stríðsrekstur þegar allt kemur til alls.

Það er merkilegt að slíkar árásir, tölvuárásir en líka árásir gegn skipulögðum lýðræðislegum kosningum, falla undir 5. gr. NATO-samkomulagsins. Það hefur svo sem verið brugðist við því á ákveðinn hátt en ekki kannski á eins afgerandi hátt og hægt væri að bregðast við. Ég er ekkert að mæla með því að það eigi að gera það, það er að sjálfsögðu hægt að gera hlutina öðruvísi. En þetta er hluti af því sem við þurfum að vita af til þess að geta nálgast þessa umræðu og aðstæður á réttan hátt, til þess að láta ekki plata okkur í viðbrögð sem eru ofsafengin á einn eða annan hátt. Ég myndi óska þess að fólk myndi íhuga það einu sinni eða tvisvar áður en það tekur undir það sem hefur verið sýnt fram á að sé áróður, beinlínis áróður frá Rússlandi, því að það mun alls ekki hjálpa okkur að glíma við vandann sem við stöndum frammi fyrir bara innan lands af öllum öðrum ástæðum heldur en þeim sem er verið að kynda undir. En síst af öllu mun það verða lýðræðinu eða mannréttindum til góðs.



[18:32]
Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir skýrslu sína um utanríkis- og alþjóðamál. Ég vil taka undir það sem kemur fram í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra um það að allt frá fyrstu árum lýðveldisins hefur Ísland skipað sér í fremstu röð í liði með vestrænum þjóðum sem staðið hafa vörð um framþróun lýðræðis, mannréttinda og virðingu fyrir alþjóðalögum. Líka það að utanríkisstefna Íslands hvíli á traustum stoðum samninga og samstarfs við aðrar þjóðir. Það má segja, og ég tek undir með hæstv. ráðherra um það, að íslensk utanríkisstefna byggi á fjórum stoðum. Það er aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu, varnarsamningurinn við Bandaríkin, EES-samstarfið og norrænt samstarfi. Við erum stofnaðilar að NATO. Ég vil vekja athygli á því að fyrrverandi forsætisráðherra og flokkur hennar sem á aðild að ríkisstjórn er andstæðingur aðildar að Atlantshafsbandalaginu, en samt erum við á öðru kjörtímabili ríkisstjórnar þessara flokka og enn erum við í NATO. Ég get ekki séð annað en að við séum með breiða samstöðu varðandi aðild að Atlantshafsbandalaginu og er það vel og við höfum verið í 75 ár í ár. Ísland hefur tryggt öryggi sitt með þátttöku í þessu sterkasta varnarbandalagi sögunnar og með tvíhliða varnarsamningi við öflugasta herveldi heims sem eru Bandaríkin.

Mig langar aðeins að víkja að sögunni í ljósi þess hversu mikilvægt það er að við ræktum varnarsamstarfið við Bandaríkin og að það sé grundvallarstoð okkar í utanríkis- og varnarmálum. Þessar sögulegu rætur eru líka gríðarlega mikilvægar og áhugaverðar. Það var þannig að 9. apríl 1940, þegar Þjóðverjar, nasistar, hertóku Danmörku, þá fékk Ísland fyrst völd yfir eða tók við stjórn utanríkismála sinna. Þetta var í apríl 1940. Strax í júlí og desember það ár fóru íslenskir sendimenn þess á leit við Bandaríkin að Ísland færi undir varnir Bandaríkjanna, sem hluti af svokallaðri Monroe-kenningu. Það var til þess að koma í veg fyrir að Þjóðverjar myndu ráðast á Ísland. Þeir komu síðan í ágúst ári seinna. Monroe-kenningin felur það í sér að hún nær til allra Suður- og Norður-Ameríkuríkja, að þau séu hluti af áhrifasvæði Bandaríkjanna, og ég get ekki séð annað en að varnarsamningurinn byggi á því að við séum hluti af varnarkeðju Bandaríkjanna sjálfra, þ.e. ef það er ráðist á Ísland þá sé verið að ráðast á Bandaríkin líka. Það er ekki bara 5. gr. NATO-samningsins heldur líka þessi varnarsamningur. Við erum þar undir og það sýnir hversu mikilvægt það er að við séum með þennan virka varnarsamning og að hann þróist áfram, t.d. vegna netvarna og líka varðandi kapla í framtíðinni.

Ég tel að í alþjóðamálum og varnarmálum þá séum við mjög sammála að mörgu leyti. Það hefur verið vitnað hér til tveggja mála því til stuðnings. Það er þingsályktun um afstöðu Íslands vegna átaka fyrir botni Miðjarðarhafs. Þar var þingheimur algerlega sammála:

„Alþingi ályktar að án tafar skuli komið á vopnahléi af mannúðarástæðum á Gaza-svæðinu svo tryggja megi öryggi almennra borgara, jafnt palestínskra sem ísraelskra. Alþingi fordæmir öll ofbeldisverk sem beinast gegn almennum borgurum í Palestínu og Ísrael. Alþingi krefst þess að alþjóðalögum sé fylgt í einu og öllu í þágu mannúðar, öryggis almennra borgara og verndar borgaralegra innviða.

Alþingi fordæmir hryðjuverkaárás Hamasliða á almenna borgara í Ísrael sem hófst 7. október 2023. Alþingi fordæmir sömuleiðis allar aðgerðir ísraelskra stjórnvalda í kjölfarið sem brjóta gegn alþjóðlegum mannúðarlögum …“

Þetta var gríðarlega mikilvæg ályktun af hendi Alþingis og ánægjulegt hve sammála þingheimur var.

Einnig má benda á þingsályktun um stefnu um stuðning Íslands við Úkraínu þar sem þingheimur var nánast alveg sammála, held ég, ég held að einn flokkur hafi ekki greitt atkvæði með alla vega einum lið af fimm í tillögunni og það var um stuðning Íslands við Úkraínu. Þetta eru þau mál sem eru hvað efst á baugi núna í heiminum og það er mikilvægt að við stöndum saman í öryggis- og varnarmálum.

Vissulega er norræna varnarsamstarfið mikilvægt en landfræðileg lega landsins er einfaldlega þannig að við erum ekki á Skandinavíuskaganum og við erum ekki með landamæri að Finnlandi heldur erum við eyja úti í Norður-Atlantshafi og þá er mikilvæg aðildin að Norður-Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningnum sem ég minntist hér áðan og þann sögulega bakgrunn sem sá samningur á sér rætur í. Þetta var eitt af fyrstu verkum íslenskrar utanríkisþjónustu á sínum tíma.

Mig langar aðeins að tala um EES-samninginn sem er mikilvægasti viðskiptasamningur sem Ísland hefur átt aðild að. Það kom fram hér í umræðum við hæstv. utanríkisráðherra áðan að hún hygðist leggja fram frumvarp til laga um bókun 35 sem kveður einfaldlega á um það að lög sem eiga uppruna sinn í Brussel gangi framar almennum lagaákvæðum í íslenskum lögum. Ég tel að frá þessu máli hafi verið gengið fyrir 30 árum síðan. Ég tel líka, og ég get fært rök fyrir því, að Alþingi Íslendinga hefði sennilega ekki samþykkt EES-samninginn ef þetta mál hefði ekki verið útkljáð þá. Málið var útkljáð með því að samþykkja 3. gr. laga um EES-samninginn. 3. gr. segir að það eigi að skýra ákvæði íslenskra laga í samræmi við EES-samninginn. Það var farin þessi leið eftir miklar vangaveltur og mikla diskúsjón, bæði á þingi og í samfélaginu, um það hvort við ættum að taka inn bókun 35. EES-samningurinn hefði ekki verið samþykktur með þeim hætti sem gert var ef það hefði átt að samþykkja bókun 35. Það kemur fram í greinargerð með frumvarpi til EES-laganna, um bókun 35, með leyfi forseta:

„Það var lengi krafa EB í samningaviðræðunum um EES að EFTA-ríkin samþykktu forgang EES-reglna þar sem réttarstaða einstaklinga yrði ekki tryggð á sama hátt í EFTA-ríkjunum og í EB-ríkjunum ef dómarar í EFTA-ríkjunum dæmdu á grundvelli landsréttar þó hann stangaðist á við EES-reglur.

EFTA-ríkin féllust ekki á þessa kröfu EB þar sem ljóst var að í þeim EFTA-ríkjum þar sem þjóðarétturinn hefur ekki þegar forgang fyrir landslögum, mundi forgangsregla EB-réttarins kalla á framsal löggjafarvalds.“

Svo segir, með leyfi forseta:

„Niðurstaða samninganna var sú að í bókun 35 við EES-samninginn staðfesta samningsaðilar að löggjafarvald sé ekki framselt til stofnana EES. Einnig er tekið fram að markmiðum um samræmda túlkun EES-reglna verði að ná með reglum í réttarkerfi hvers ríkis. Samningsaðilar skuldbinda sig því til, ef þörf krefur, að lögfesta túlkunarreglur þess efnis, að ef upp kemur misræmi milli EES-reglna sem hafa verið lögfestar og annarra ákvæða í lögum, þá gildi reglur EES í því tilviki. Sjá nánar 3. gr. frumvarps til laga um Evrópska efnahagssvæðið og athugasemdir við þá grein.“

Það var greinin sem átti að taka á þessu vandamáli. Það er hins vegar ekki rétt að halda því fram að bókun 35 feli ekki í sér valdframsal eða að það sé ekki verið að ganga á löggjafarvaldið því að bókun 35 felur það í sér að reglur sem eiga uppruna sinn í Brussel ganga framar almennum reglum. Það myndi takmarka löggjafarvald Alþingis Íslendinga til framtíðar með þeim hætti að það yrðu tvö stig, tvenns konar almenn lög: Annars vegar lög sem eru samþykkt eingöngu af Alþingi Íslendinga og hins vegar lög sem eiga uppruna sinn í Brussel. Þau væri rétthærri. Það gengur ekki gagnvart stjórnarskrá lýðveldisins.

Annað er mikilvægt að hafa í huga. Það hefur vitnað hér til dóms nr. 24/2003, í svokölluðu fæðingarorlofsmáli, þar sem verið er að tala um að hann réttlæti það að lögfesta bókun 35. Ég tel þetta alranga túlkun. Hæstiréttur minnist á þrjú dæmi þess sem hafa forgang. Það er í lögum um lagaskil á sviði samningaréttar. Það er í lögum um ársreikninga, nánar tiltekið um alþjóðlega reikningsskilastaðla. Ef við ætlum að hafa alþjóðlega reikningsskilastaðla þá skulum við rétt vona það að alþjóðlegar reglur hafi forgang. (Forseti hringir.) Sama gildir um lög um loftferðir. Þar er fjallað um alþjóðaflug og þar verða að sjálfsögðu alþjóðareglur í alþjóðaflugi að hafa forgang. (Forseti hringir.) Það er ekki rétt, það er ekki hægt að líta þannig á að við getum núna farið að taka upp almenna forgangsreglu þegar við höfum búið við þessa túlkun á 3. gr. EES-laga í 30 ár. Þetta hefur gengið ágætlega í 30 ár og við eigum að halda áfram á þeirri vegferð. (Forseti hringir.) Ef við göngum á rétt borgaranna þá getur sá einstaklingur sótt skaðabætur eins og í öðrum ríkjum, eins og Ítalíu í Frankovich-málinu, og í fleiri ríkjum.



[18:43]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil í stuttri ræðu undir þessum dagskrárlið gera athugasemdir við orðalag og málflutning hæstv. utanríkisráðherra þegar hún talar til fólks sem talar fyrir friði og segir að við sem það gerum þurfum að fullorðnast, að við verðum að horfast í augu við heiminn eins og hann er. Ég skil þetta tal hæstv. utanríkisráðherra um að við Íslendingar þurfum að fullorðnast í varnarmálum sem svo að við sem tölum fyrir friði og friðsamlegum lausnum séum barnaleg í þeim efnum. Við þurfum að fullorðnast og horfast í augu við hvernig staðan er í heiminum, þurfum að fást við heiminn eins og hann er, segir hæstv. utanríkisráðherra. Sem er reyndar ótrúlegt, forseti, því að friður er forsenda velferðar, forsenda frelsis og allar manneskjur þrá að lifa við frið og öryggi.

Þegar Ísland var í formennsku í norrænu ráðherranefndinni bar formennskuáætlun Íslands yfirskriftina: Norðurlönd, afl til friðar. Þetta var í fyrra. Hafa þau kannski fullorðnast síðan þá? Formennskuáætlun Íslands í Norðurlandaráði í ár ber yfirskriftina: Friður og öryggi í norðri. Norðurlönd eru þekkt fyrir að vera boðberar friðar, afvopnunar og friðsamlegra lausna og við þurfum að halda áfram á þeirri braut, ekki síst nú þegar allar norrænu þjóðirnar verða meðlimir í NATO. Ráðamenn eiga að sleppa því að tala niður þá sem tala fyrir friðsamlegum lausnum. Boðberar friðar þurfa að vera fleiri en ekki færri. Á hæstv. utanríkisráðherra kannski við að þau sem vilja ekki að Ísland taki þátt í vopnakaupum eða vopnaflutningum séu þau sem séu barnaleg? Þá vil ég minna á að við eigum þjóðaröryggisstefnu sem samþykkt var einróma árið 2016 og endurskoðuð í þverpólitískri sátt í fyrra. Þar er lögð áhersla á frið og friðsamlegar lausnir og 3. töluliður stefnunnar hljóðar svona, með leyfi forseta:

„Að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu verði áfram lykilstoð í vörnum Íslands og meginvettvangur vestrænnar samvinnu sem Ísland tekur þátt í á borgaralegum forsendum til að efla eigið öryggi og annarra bandalagsríkja.“

Ég vil spyrja: Hvað merkir að við tökum þátt í þessu starfi á borgaralegum forsendum? Því verður hæstv. utanríkisráðherra að svara. Fellur það að sjá þjóðum fyrir vopnum í stríði undir þátttöku á borgaralegum forsendum? Við þurfum að vera viss um að þjóðaröryggisstefnan sé ekki bara orðin tóm og við þurfum líka að vita hvað hún merkir í raun.

Frú forseti. Það má aldrei vera feimnismál að tala fyrir friði og friðsamlegum lausnum. Það að hæstv. utanríkisráðherra segi friðarboðskap barnalegan í sínu máli er sannarlega gagnrýnisvert.



[18:47]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að fara yfir stutt yfir það sem er eitt af verkefnum okkar í utanríkismálanefnd, það er m.a. að halda EES-samningnum á lífi. Það þýðir að við þurfum að gera það raunverulega ef okkur er full alvara þegar við segjum hann vera mikilvægasta milliríkjasamning sem við höfum gert og það hafa bæði utanríkisráðherra og fleiri gert. Ég hef, eins og ég hef sagt áður úr þessu púlti, áhyggjur af ysta hægrinu eða afturhaldsöflum, hvort sem þau eru í flokkum sem vilja gera allt til að draga úr mikilvægi þessa samnings þannig að við á endanum — og það er þegar byrjað að tala fyrir því; maður heyri raddir m.a. innan úr Sjálfstæðisflokknum, ég les greinar á síðum Morgunblaðsins þar sem verið er að segja það kinnroðalaust að við eigum frekar að fara í það að hverfa frá EES og Schengen og fara yfir í tvíhliða viðræður. Mér finnst það einfeldni. Mér finnst það barnaskapur að horfast ekki í augu við þann umheim sem nú blasir við. Við sjáum það að þeir samningar sem við höfum verið að gera í fríverslunarsamningum eru 38 eða 39, að mig minnir. Þar af eru þrír eða fjórir sem við höfum náð að gera á eigin forsendum. Við höfum gert hina í samvinnu við EFTA-ríkin. Það skiptir okkur máli að vera í samfloti með öðrum og ekki síst þá við EFTA-ríkin núna meðan við erum eingöngu við það borð og þá verðum við að nýta það vel.

Ég hef ákveðnar áhyggjur núna miðað við framvinduna á svonefndri bókun 35, sem er búið að reyna að gera tortryggilega. En þetta snýst fyrst og fremst um að tryggja réttindi Íslendinga og að við Íslendingar eigum rétt á grundvelli EES en ekki að okkar staða sem neytenda, sem einstaklinga, eins og m.a. hefur komið í fæðingarorlofsmálum sem Hæstiréttur fjallaði um á athyglisverðan hátt, að okkar réttur á þessu svæði sé tryggður. Út á það gengur þetta mál. Einhvern veginn hefur þessum afturhaldsöflum tekist að einhverju leyti að hræða fólk til að vera á móti þessu eða jafnvel þingmenn hér sem eru að reyna að gera allt til að torvelda framgang þess að við viðurkennum og setjum forgangsreglu þegar kemur að EES-málunum. Þannig að, talandi t.d. um fæðingarorlof, við eigum og öðlumst skýran rétt til fæðingarorlofs á EES-svæðinu, að hann verði skýr en ekki óviss eins og var fyrir dóminn. Við í utanríkismálanefnd erum búin að fara mjög ítrekað og vel yfir þessi mál. Þegar hæstv. núverandi utanríkisráðherra lagði það mál fram sem þáverandi utanríkisráðherra fórum við mjög vel yfir það, fengum mjög marga gesti og eins núna þegar skýrsla forvera hennar í starfi var lögð fram varðandi EES-samstarfið.

Samandregið þá er þetta eitt af þessum málum sem Alþingi verður að standa vaktina gagnvart og þá skiptir ekki máli hvort það er stjórn eða stjórnarandstaða. Ég undirstrika að við í Viðreisn komum ríkisstjórninni til hjálpar þegar þriðji orkupakkinn var ræddur hér og mörg gífuryrði látin falla um sjálfstæði og fullveldi. Og ekkert, enginn spádómur varðandi það mál, sem var snúið, rættist — enginn spádómur, þessir dómadags spádómar sem fylgdu því máli. En ríkisstjórnir þurfti aðstoð og við í Viðreisn hjálpuðum henni að ná því máli í gegn.

Að öðru. Ég vil undirstrika varðandi tvö risamál. Það er annars vegar varðandi þróunaraðstoð, ég tel jákvæð skref hafa verið tekin í þróunaraðstoð, ekkert stór en þau eru jákvæð og þau eru mikilvæg og það eru ákveðin merki til lengri tíma um hvað við ætlum að gera. Þetta er að skila sér í mjög merkilegu starfi, hvort sem það er í Malaví í eða Síerra Leóne eða fleiri ríkjum þar sem við höfum lagt hönd á plóg. Síðan er hitt sem við þurfum að átta okkur á þegar kemur að stóra sviðinu, alheimsmálunum, og það er hvernig við getum stuðlað að friði í heiminum. Ég vil taka undir það með ráðherra að ég held að það verðum við að gera á raunsæjan hátt, það verðum við að gera á þann hátt að það nýtist raunverulega þeim þjóðum sem eru að berjast gegn ofríki annarra, eins og t.d. Úkraínumenn eru að berjast gegn ofríki Rússa, og við verðum að hlusta á þær þjóðir. Þá er ekkert undanskilið hvaða leiðir við þurfum að fara og getum farið sem herlaus þjóð. (Forseti hringir.) Ef það þýðir að við þurfum að hjálpa Úkraínumönnum, hvort (Forseti hringir.) sem er með vopnakaup eða annað, þá gerum við það. En ég undirstrika að það á að fara í gegnum þingið og slík prinsippumræða verður (Forseti hringir.) að hafa átt sér stað hér í samtali við utanríkismálanefnd áður en slík skref eru tekin.

Að öðru leyti þá vil ég þakka þessa umræðu og annars ágæta skýrslu.



[18:53]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa góðu og miklu skýrslu sem verður örugglega gott lesefni á náttborðinu næstu daga. En ég get ekki orða bundist og vil fá að ræða hérna aðeins áherslur á norrænt samstarf. Það er auðvitað af mörgu að taka í skýrslunni en ég ætla að fá að leyfa mér að tala bara um gildi norræns samstarfs verandi forseti Norðurlandaráðs. Eins og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir kom inn á áðan þá er það svo sannarlega þannig að formennskuáætlunin okkar ber yfirskriftina Friður og öryggi á norðurslóðum. Það er full ástæða fyrir því að við veljum nákvæmlega þetta efni og það er sú ástæða að við teljum nauðsynlegt að fá Norðurlöndin með okkur í lið við að horfa svolítið í auknum mæli upp á norðurskautið og það sem er að gerast þar. Þar sjáum við auðvitað loftslagsbreytingarnar í svo skýru ljósi, áhrif loftslagsbreytinganna því að þar eru þær hraðari en nokkurs staðar annars staðar. Það veldur því að ísinn er að bráðna, það opnast siglingaleiðir og öryggi á þeim slóðum kann að vera ógnað með ýmsum hætti, bæði af völdum loftslagsbreytinganna en ekki síður af völdum þeirra sem áseilast einhverjar auðlindir sem þarna kunna að vera eða með einhverjum hætti telja sig vera að verja eitthvað sem þeir vilja halda utan um. Þarna er auðvitað verið að vísa sérstaklega í Rússa sem hafa verið hvað agressífastir í uppbyggingu hernaðarmannvirkja á norðurslóðum. Þess vegna er full ástæða til þess að önnur norðurslóðaríki horfi sérstaklega á það sem þarna er að gerast og séu viðbúin því að þarna gæti ástand breyst hratt og alla vega ljóst að þessi ríki þurfa að sýna ákveðinn fælingarmátt, að þau séu með augun á boltanum eða augun á þessu svæði.

Ástæðan fyrir því að við erum að ræða þetta núna í Norðurlandaráði er ekki síst að það vantar vettvang fyrir þingmenn norðurslóðaríkja til að ræða öryggis- og varnarmál á norðurslóðum. Eins mikilvægt og norðurslóðaráðið er, og auðvitað er ákveðin krísa þar núna eftir fulla innrás Rússa í Úkraínu, þá er það ráð þar sem ákveðið var að ræða ekki um öryggis- og varnarmál. Það þýðir að þingmannasamtökin sem hafa fylgt norðurslóðaráðinu, SCPAR, hafa líka verið með það sem markmið að ræða ekki öryggis- og varnarmál. Þrátt fyrir að staðan sé sú að Rússar taki ekki þátt á þeim vettvangi, eins og staðan er núna, þá er engu að síður mikil feimni við að ræða þennan málaflokk þar. Þess vegna held ég að það sé svo mikilvægt að Norðurlöndin taki sig saman og sameinist svolítið um sýn og stefnu í málefnum norðurslóða og tali fyrir friði en ekki síst öryggi á þessu svæði.

Ég vil taka undir það sem ráðherra sagði á ráðstefnu hérna fyrr í dag og ekki síður það sem er yfirskrift greinar hennar; „Hvers virði er friður án frelsis?“ Það er alveg ljóst að eins fallegur og friður er og eins fallegt og það er að vera friðelskandi þjóð og herlaus þjóð þá eru aðstæður í heiminum bara allt aðrar í dag en þær voru kannski fyrir fimm eða tíu árum síðan. Við getum ekkert lokað augunum fyrir því að það að vera þátttakandi í stærsta varnarbandalagi í heimi eða vera með varnarsamning við Ameríku eða ræða þessi mál og vera með sameiginlega sýn með hinum vinum okkar á Norðurlöndunum skiptir máli og það skiptir verulega miklu máli. Og til að við getum líka tekið þessa umræðu af einhverju viti er nauðsynlegt að auka þekkingu okkar þingmanna og stjórnkerfisins alls á varnarmálum. Þar óttast ég að við stöndum kannski aðeins höllum fæti og langar því að nota tækifærið og hvetja ráðherrann áfram í þeirri vinnu að við séum að búa til og byggja upp þekkingu inni í ráðuneytinu okkar á varnar- og öryggismálum, á málefnum norðurslóða og að við þingmenn tökum það líka til okkar í umræðum um þessi mál, á málþingum og annars staðar þar sem við tökum þátt.

Ég vildi bara koma aðeins inn á þennan málaflokk og verð náttúrlega líka að segja, og ég hef nú kastað því fram hér áður í ræðu, að Norðurlöndin eru farin að vinna í auknum mæli saman í varnarmálum og við höfum fengið kynningu á því á vettvangi Norðurlandaráðs að það hefur verið unnið að ákveðinni innkaupastefnu saman, flugherir landanna hafa æft mikið saman og það eru haldnar stórar æfingar, bæði á vettvangi NATO og líka hinna Norðurlandanna. Ég er hreinlega farin að velta því fyrir mér hvort það kunni að vera einhver framtíðarsýn að norrænir herir sameinist enn frekar. Þá gæti Ísland meira að segja verið þátttakandi í slíku samstarfi. Þó að við státum okkur af því að vera herlaus þjóð þá kann það að vera falleg hugsun í einhverju en hversu langt nær sú hugsun ef við ætlumst til þess að það séu þá einhverjir aðrir sem verja okkur ef til þess kæmi? Þá hef ég velt því fyrir mér hvort það væri eðlilegt að Norðurlöndin sameinuðust enn frekar á þessum vettvangi. Við sjáum hvað er að gerast á hinum Norðurlöndunum þar sem er verið að auka við herskylduna. Það er verið að setja umtalsvert meiri fjármuni í þessi mál, hvort sem það er að fjármagna herinn eða önnur varnar- og viðbúnaðarmál, því að þegar við ræðum um þessi öryggismál þá er hernaðarlegt öryggi eitt en annað og ekki síðra er borgaralegt flugöryggi og það sem við glímum við mjög reglulega hér sem eru almannavarnir ýmsar og öryggi því tengt.

Að því sögðu þakka ég kærlega fyrir þessa góðu skýrslu og þessa fínu umræðu sem er búin að eiga sér stað hérna í dag. Það er mikilvægt að við ræðum þennan málaflokk og mér finnst við frekar gera of lítið af því heldur en of mikið á þessum vettvangi.



[19:00]
utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Mig langar að bregðast við nokkrum atriðum eftir umræður hér í dag sem ég þakka á sama tíma kærlega fyrir. Aðeins varðandi það sem hv. þm. Logi Einarsson nefndi áðan um að við þyrftum að taka skýrari afstöðu í málefnum eða átökum fyrir botni Miðjarðarhaf, að það væri ekki nóg að segja hlutina á lokuðum fundum. Það sem við segjum á alþjóðavettvangi skiptir auðvitað máli og það er sá vettvangur sem við höfum helst. Að tala þar skýrt úr sæti okkar skiptir máli og greiða atkvæði í samræmi við það. Það er auðvitað það sem við höfum verið að gera og gerðum síðast í síðustu viku og voru birtar fréttir um það. En mig langar líka af þessu tilefni að nefna það að útvarp allra landsmanna mætti sannarlega greina oftar frá því þegar Ísland kemur mikilvægum skilaboðum á framfæri á erlendum vettvangi og tekur þar skýra afstöðu og kemur okkar málstað á framfæri. Þannig að það er stundum kannski ekki nema von að almenningur heyri ekki af því þrátt fyrir samfélagsmiðla og einstaka stjórnmálamenn sem koma því þar á framfæri.

Hv. þm. Jakob Frímann Magnússon spurði hvað átt væri við í skýrslunni þegar við segjum að auka eigi og þurfi viðbúnaðargetu á varnarsvæðinu. Það snýst í raun einfaldlega um það að við séum betur í færum til að taka á móti bandamönnum sem hingað koma, hvort sem það er til æfingar eða eftirlits eða annars. Það er í samræmi við það sem ég nefndi líka í ræðu minni áðan, að okkur bæri skylda til þess að huga að eigin vörnum og við hefðum þar hlutverki að gegna og þar ættum við að hafa það skýrt að við sinnum ákveðnum hlutum sjálf og hluti af því er að auka viðbúnaðargetu á varnarsvæðinu.

Spurt var um fríverslunarsamning við Bandaríkin. Stutta svarið þar er einfaldlega að Bandaríkjamenn eru ekki á þeim buxunum að fjölga fríverslunarsamningum og þar á meðal ekki við Ísland. Meira að segja fríverslunarsamningsviðræður við bæði Bretland og Kenía og fleiri sem voru í gangi eru það ekki lengur en eru með skýr markmið um þéttara samstarf og samráð á ákveðnum sviðum og við ræktum það eins og við getum.

Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir nefndi að Norðurlöndin væru ekki öll undir sömu herstjórn í Northfolk, en Ísland og hin Norðurlöndin eru sannarlega að vinna að því að Norðurlöndin falli undir sömu herstjórn.

Aðeins um það sem nefnt var varðandi brúarsmíði og samhengi við Afríku og almennt í pólitíkinni. Við erum auðvitað alveg reiðubúin til að miðla málum og byggja brýr og við gerðum það t.d. í Evrópuráðinu þegar það kom upp deilumál og ekki síst þegar kom að því að stofna tjónaskrá fyrir Úkraínu. Við tökum að okkur að leiða samningaviðræður, hvort sem það er í allsherjarþinginu eða í Alþjóðaviðskiptastofnuninni og þegar við getum þá leggjum við okkur fram um að koma til móts við sjónarmið þróunarríkjanna. Við erum meðvituð um að þau telja sig mörg hver bera skarðan hlut frá borði. Ég var í Kaupmannahöfn fyrir ekki löngu síðan, í síðustu viku minnir mig, ásamt utanríkisráðherrum á Norðurlöndum og töluverðum fjölda utanríkisráðherra Afríkuríkja. Það eru gríðarleg verðmætir fundir sem eru einu sinni á ári. Veruleikinn er einfaldlega sá að það ríkir traust, virðing og vinátta milli Norðurlandanna og mjög margra Afríkuríkja sem skiptir máli að næra og rækta og skiptir máli bæði fyrir Norðurlöndin, fyrir ýmis ríki í Afríku og sömuleiðis bara fyrir pólitíkina í stóra samhenginu.

Það var spurt við hvað væri átt þegar talað er um að við séum að taka þátt á sviði varnarmála á borgaralegum forsendum. Það þýðir einfaldlega að við tökum þátt á borgaralegum forsendum af því að við erum ekki með her. Það er það sem það þýðir.

Ég verð að segja að ég er örlítið einfaldlega leið eftir að hafa hlustað á ræðu hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður var viljandi að misskilja orð mín eða ekki, en ég væri til í að spyrja á móti: Hvernig skilgreinir hv. þingmaður frið? Hvað værum við að meina ef við ætluðum að gera kröfu um að samið yrði um svokallaðan frið án frelsis? Hvers virði er friður án frelsis? Réttlátur friður er ekki það sama og friður sem fæst þegar látið er undan kúgaranum. Þetta veit úkraínska þjóðin mjög vel og geldur fyrir það á hverjum degi með lífi úkraínska borgara. Staðan er einfaldlega sú að íslensk stjórnvöld standa með þeim í þeirri baráttu og það væri sannarlega skammgóður vermir fyrir okkur hér á Íslandi að ganga að skilmálum Rússlands og það vita þau líka sem eru þar með vopnum að berjast fyrir friði. Ég held að ég geti alveg leyft mér að segja að ég veit ekki um mörg ríki sem þrá frið meira en úkraínska þjóðin. Úkraínska þjóðin þráir sannarlega frið. Þess vegna eru þau að kalla í örvæntingu eftir vopnum til að verjast og þess vegna hafa íslensk stjórnvöld tekið þátt í því verkefni með mjög takmörkuðum hætti — en þó, og ég er stolt af því.

Ég geri ráð fyrir því að ef við stæðum frammi fyrir því að á okkur væri ráðist þá myndum við mjög gjarnan óska eftir því að við fengjum annað og meira en mannúðaraðstoð og slík gögn, frekar að hér væri hægt að verjast með vopnum. Hvers virði er friður án frelsis og hvernig ætlum við að skilgreina frið? Við erum ekki að gera kröfu um að frjáls og fullvalda þjóð með alþjóðlega viðurkennd landamæri gefi það allt saman eftir í þágu svokallaðs friðar til þess að þau þurfi ekki að berjast lengur, því að hvers virði er friður án frelsis? Ég held að við sjáum það á hverjum degi að úkraínska þjóðin er að svara því mjög skýrt og við munum áfram standa með þeim og gera það sem við getum til að hjálpa þeim af veikum mætti í því verkefni.

— Ég steig ekki alveg úr ræðustól. Ég gleymdi nefnilega að lokum að þakka starfsfólki utanríkisráðuneytisins fyrir alla vinnuna. Það er mikil vinna sem fer í að taka saman yfir heilt starfsár öll þau helstu verkefni sem hefur verið sinnt. Þau gerðu það með miklum sóma og myndarbrag og ég þakka fyrir þá vinnu. Ég þakka sömuleiðis fyrir umræðurnar hér í dag. Þær eru góðar. Ég vildi að við gerðum það oftar að eiga samtal um utanríkismál, alþjóðamál, öryggis- og varnarmál. Ég held reyndar, því miður, að það muni reyna meira á það á komandi misserum að dýpka þá umræðu og hafa hana hér og hlakka til áframhaldandi samstarfs með hv. utanríkismálanefnd.



[19:09]
utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Skýrslan gengur til utanrmn.