154. löggjafarþing — 111. fundur
 14. maí 2024.
störf þingsins.

[13:33]
Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Það er sannarlega yfir mörgu eða gleðjast á Íslandi. Hér drýpur smjör af hverju strái og flestir hafa það betra en áður. Við erum í hópi allra ríkustu þjóða heims og erum laus við mörg af þeim vandamálum sem hrjá nágrannaþjóðirnar. Sú staðreynd breytir ekki því að við erum með tíund landsmanna í fátækt. Um það er ekki mikið deilt. Þeim hefur fjölgað nokkuð með þeirri fjölgun sem orðið hefur á flóttafólki og fólki frá öðrum þjóðum sem hefur kosið að leita hér skjóls og við þurfum ekki að bera kinnroða af því hvernig við höfum tekið á móti því fólki. Margir kvarta yfir kostnaðinum við það eins og gengur og ýmsar breytingar í sjónmáli hvað varðar þann málaflokk. Við í Flokki fólksins höfum látið reikna út að það myndi kosta u.þ.b. 40 milljarða að koma fátækasta fólkinu til sómasamlegs lífeyris. Það kæmist þokkalega af, reiknuðum við út, á 350.000 kr. lágmarksgreiðslu, skatta- og skerðingarlaust. Það myndi kosta samfélagið um 35 milljarða. Við verðum að miða þetta við 400.000 kr., skatta- og skerðingarlaust, í dag, liðlega 40 milljarða af 1.600 milljarða fjárlögum. Sómi okkar ætti að bjóða okkur að koma þessu í viðunandi horf svo að allir geti vel við unað. Það er enginn sáttur við þessa staðreynd sem varðar þessi 10%. (Forseti hringir.) Ég beini því til stjórnvalda að taka þessi mál nú föstum tökum og leysa okkur undan þeirri skömm sem í þessu felst.



[13:36]
Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegi forseti. Þótt sumarið sé vissulega dýrmætara hérna á Íslandi heldur en víða annars staðar þá er algerlega óverjandi að lykilstofnanir sem þjóna fárveiku fólki loki yfir sumartímann í sparnaðarskyni. Það á að loka meðferðardeild Stuðla í fjórar vikur í sumar, frá 10. júlí til 8. ágúst. Það fékk ég staðfest í gær. Þar hafa börn og unglingar fengið dýrmætan stuðning, m.a. vegna hegðunar- og fíknivanda, mjög sérhæft úrræði sem skiptir gríðarlegu máli fyrir börnin og ungmennin og fjölskyldur þeirra, oft algert lykilúrræði í vanda sem í sumum tilfellum hefur verið óyfirstíganlegur hjá fjölskyldum. Þessu úrræði á að loka. Þetta er auðvitað enn ein birtingarmynd þess hve þjónusta við fólk á öllum aldri sem glímir við fíknisjúkdóm er brothætt á Íslandi. Þær stofnanir sem veita þessa þjónustu, sem stundum skilur á milli lífs og dauða, búa við svo knappan fjárhag, að það þarf að loka á sumrin, hætta að veita þjónustu fyrir fólk sem sárlega þarf hana. Þetta er alveg sérstaklega nöturlegt þegar um börn er að ræða, ungmenni með hegðunar- og fíknivanda, því að Stuðlar eru svo sérhæft úrræði fyrir þennan viðkvæma hóp. En því miður er það þannig að forgangsröðun ríkisstjórnarinnar birtist okkur bara skýrt með þessum hætti. Svo einfalt er það. Og hver verður afleiðingin af þessu? Jú, langir biðlistar lengjast, vandinn færist til í tíma, álagið á kerfið eykst til lengri tíma. Þetta skilar verri þjónustu til barna og ungmenna sem eiga í miklum vanda nú þegar. Börn og ungmenni líða fyrir og þjást.

Höfum eitt á hreinu. Sumar stofnanir eru svo mikilvægar að þeim má ekki skella í lás á sumrin. Það gildir um meðferðardeild Stuðla. Það gildir líka um meðferðarstöðina Vík hjá SÁÁ en samt er lokað vegna fjárskorts. Í dag er 14. maí. Ég óttast að það sé of seint að koma í veg fyrir lokun meðferðardeildar Stuðla jafnvel þótt menn reyni, rétt eins og það er orðið of seint að koma í veg fyrir sumarlokun SÁÁ. Þessi úrræði eru bara of sérhæfð. Afleiðingarnar af þessu geta því miður orðið mjög alvarlegar. Að loka á sumrin og lengja biðlista er vond stefna. Þetta er sorglegt sinnuleysi.



[13:38]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Almenn sátt hefur ríkt um að Íslendingar sem herlaus þjóð taki þátt í varnarsamstarfi með öðrum NATO-ríkjum á borgaralegum forsendum, þ.e. í formi mannúðaraðstoðar og aðstoðar við uppbyggingu nauðsynlegra innviða á stríðshrjáðum svæðum. Þannig höfum við sent stoðtæki og teppi til Úkraínu, tekið þátt í að byggja upp færanleg neyðarsjúkrahús og þannig má áfram telja. Hjá núverandi ríkisstjórn hefur átt sér stað stefnubreyting sem ekki ríkir sátt um. Við sinnum ekki lengur aðstoð á borgaralegum forsendum í Úkraínu en kaupum í staðinn vopn til að nota í stríðsátökum. Hæstv. utanríkisráðherra kallar eftir því að við Íslendingar fullorðnumst í varnarmálum og setur það ákall í samhengi við friðarboðskap og aðstoð á borgaralegum forsendum sem ég skil sem svo að fullorðið fólk eigi ekki að standa í nú um stundir. Byssur til að drepa fólk sé meira fullorðins. Við þurfum að fullorðnast og horfast í augu við hvernig staðan er í heiminum, segir utanríkisráðherra. Þetta er ótrúlegur málflutningur, forseti, sem hlýtur að hljóma skelfilega í eyrum sumra stjórnarliða. Við vitum hitt, að friður er forsenda velferðar, frelsis og mannréttinda og að allir þrá að lifa við frið og öryggi.

Hvað merkir það í þjóðaröryggisstefnunni að við Íslendingar tökum þátt í varnarsamstarfi á borgaralegum forsendum? Því þarf að svara og við þurfum að vera viss um að þjóðaröryggisstefnan sé ekki bara orðin tóm og það þarf að bera ákvarðanir, m.a. í utanríkismálum, saman við það sem í henni stendur. Það er enginn hörgull á verkefnum á sviði mannúðaraðstoðar og innviðauppbyggingar í Úkraínu sem mikilvægt er að styðja og enginn íslenskur ráðamaður má vera feiminn við að tala fyrir friði og friðsamlegum lausnum.



[13:40]
Georg Eiður Arnarson (Flf):

Virðulegur forseti. Sá sem hér stendur hefur starfað í sjávarútvegi alla sína ævi og séð eiginlega allt sem hægt er að sjá. Ég hef rætt svokallað togararall við fjölmarga reynda sjómenn og skipstjóra og hef eiginlega engan hitt sem telur að þetta skili einhverri raunverulegri niðurstöðu um það hve mikið er af fiski í hafinu í kringum Ísland. Hafró veit í raun ekkert um stofnstærðir fiskstofna á Íslandsmiðum.

En skoðum aðeins tölurnar. Tímabilið 1950–1984, fyrir daga kvótakerfisins, veiddust plús/mínus 400.000 tonn af þorski árlega. Svo kom aðeins niðurslag á árunum í kringum 1980 og í framhaldinu var ákveðið að fara að tillögum Hafró og koma á kvótakerfi sem tók gildi 1984. Það átti að vera tilraun til þriggja ára og skila að þeim tíma liðnum jafnaðarþorskafla upp á 400.000–500.000 tonn. Veruleikinn er hins vegar sá að þessi tilraun hefur staðið í 40 ár og er jafnaðarveiðin á þeim tíma plús/mínus 200.000 tonn eða helmingi minni afli en stefnt var að í upphafi. Tilfinningin er sú að þetta kvótakerfi kerfi muni aldrei skila því sem það átti að skila í upphafi.

Fjárhagslegt tjón þjóðarinnar á þessum 40 árum er talið vera u.þ.b. 4.000 milljarðar í tapaðar tekjur eða u.þ.b. eins og 100 milljarðar á ári. Eitthvað gætum við nýtt þá fjármuni í. Fyrir þessa fjármuni mætti t.d. gera tvenn jarðgöng til Vestmannaeyja á hverju ári eða byggja nýjan Landspítala á tæplega tveggja ára fresti. Fyrir þá sem efast um þessar tölur vil ég benda á svar við skriflegri fyrirspurn hv. þm. Ingu Sæland um kvótakerfið. Þar kemur skýrt fram hve aflatölur hafa minnkað mikið eftir tilkomu kvótakerfisins.



[13:43]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Skerðingar í almannatryggingakerfinu eru komnar yfir 100 milljarða. Það sem er merkilegast við það er að á sama tíma og hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra og hæstv. núverandi fjármálaráðherra hæla sér af því að eldri borgarar hafi aldrei haft það betra og aldrei fengið meiri hækkanir þá sjáum við á tölunum að það hefur hækkað um 12–13% í almannatryggingakerfinu á milli áranna 2022 og 2023 en skerðingarnar hafa aukist um nærri 17%. Hvað er þetta að segja okkur? Jú, það er að segja okkur að þetta kerfi er arfavitlaust. Það er enginn mælikvarði á það hvort stór hluti eldri borgara hafi það svona gott. Það er ríkið sem hefur haft það ógeðslega gott í skerðingum. Það fær yfirleitt 8 kr. af hverjum 10 beint í vasann.

Ég hitti eldri borgara bara síðast í morgun sem benti mér á að það væri eldri borgari þarna úti sem lenti í því að þurfa að kalla á sjúkrabíl. Hann þurfti að fara á sjúkrahús. Bara greiðslan fyrir sjúkrabílinn var að valda honum þeim erfiðleikum að hann átti eiginlega ekki fyrir mat og á sama tíma var þessi einstaklingur síðan útskrifaður heim, einstæðingur í eigin húsnæði, enginn að hugsa um hann, enginn matur til, enginn að hafa eftirlit með honum. Hvað er þetta að segja okkur um heilbrigðiskerfið? Hvað er þetta að segja okkur um að það sé orðið löngu tímabært að þessi ríkisstjórn segi hreinlega af sér vegna þess að hún virðist ekki hæf til þess að hugsa um þá sem virkilega þurfa á því að halda? Meira að segja ungt fólk, það er ekki einu sinni hægt að hjálpa ungum manni sem fer í geðrof í New York vegna þess að tryggingakerfið virkar ekki, því miður. Heilbrigðiskerfið er algjörlega á brauðfótum og það er löngu tímabært að það verði tekið á þeim málum áður en alvarleg manntjón verða.



[13:45]
Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Þann 22. janúar 2020 skrifa ég eftirfarandi orð á samfélagsmiðla:

„Fór nýverið með litla drenginn til taugalæknis á LSH. Heimsókn sem er hluti af öllu hans ferli og verður áfram. Næsti tími bókaður í byrjun apríl að beiðni sama taugalæknis og verið hefur með hann. Ég sest upp í bíl og fæ um leið símtal frá LSH um að nú sé drengurinn minn að verða tveggja ára og því þurfi ég að fá tilvísun frá heimilislækni áður en ég kem með hann aftur. Ég skil þetta allt mjög illa.“

Samkvæmt gildandi reglugerð um tilvísanir fyrir börn er áskilið að heilsugæslulæknir skrifi tilvísun fyrir börn frá tveggja ára aldri að 18 ára aldri þurfi þau á þjónustu sérgreinalækna að halda. Slík tilvísun er m.a. forsenda þess að þjónusta sérgreinalæknis sé gjaldfrjáls. Þessu stendur nú til að breyta með reglugerðarbreytingum sem hafa verið birtar í samráðsgátt stjórnvalda en það verður m.a. gert með því að sérgreinalæknir sem fær til sín barn samkvæmt tilvísun heilsugæslulæknis getur vísað því sjálfur til læknis í annarri sérgrein telji hann þörf á því án aðkomu heilsugæslunnar. Ákvæði gildandi reglugerðar um að barn þurfi nýja tilvísun frá heilsugæslulækni verður fellt brott. Læknir sem fær barn til meðhöndlunar á sjúkrahúsum getur vísað barni til sérfræðings telji hann þörf á því. Krafa um tilvísun heilsugæslulæknis í slíkum tilvikum verður felld brott. Rannsóknar- og myndgreiningarþjónusta barna verður gjaldfrjáls þótt ekki liggi fyrir tilvísun frá heilsugæslulækni. Gildistími tilvísana fyrir börn með langvinna sjúkdóma eða fötlun, sem nú er tíu ár, verður lengdur og getur gilt allt þar til barnið nær 18 ára aldri. Hér má svo taka meira til en hægt er að kynna sér reglugerðarbreytinguna í heild í fyrrnefndri samráðsgátt. Ég segi: Bravó, Willum Þór Þórsson, hæstv. heilbrigðisráðherra.



[13:47]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í gær kom ein lítil og nett tilkynning inn á vef Stjórnarráðsins frá heilbrigðisráðuneytinu. Tilkynningin fjallar um að einfalda eigi tilvísunarkerfi fyrir börn vegna heilbrigðisþjónustu. Tilvísanakerfið hefur sætt þó nokkurri gagnrýni síðustu misseri, ekki síst frá læknum sem talið hafa það taka dýrmætan tíma frá þeim og valdið óþarfaskriffinnsku. Það verður ekki af hæstv. heilbrigðisráðherra Willum Þór Þórssyni tekið að hann hlustar og gengur í verkið. Nú hafa verið birt drög að reglugerðarbreytingum í samráðsgátt. Samkvæmt gildandi reglugerð um tilvísanir fyrir börn er áskilið að heilsugæslulæknar skrifi tilvísun fyrir börn frá tveggja ára aldri að 18 ára aldri þurfi þau á þjónustu sérgreinalækna að halda. Slík tilvísun er m.a. forsenda þess að þjónusta sérgreinalækna sé gjaldfrjáls. Þetta kerfi verður nú einfaldað til muna. Eftir reglugerðarbreytingar getur sérgreinalæknir sem fær til sín barn samkvæmt tilvísun heilsugæslulæknis vísað því sjálfur til læknis í annarri sérgrein telji hann þörf á, án aðkomu heilsugæslunnar. Þá getur læknir sem fær barn til meðhöndlunar á sjúkrahúsi vísað barni til sérfræðings telji hann þörf á því. Auk þess getur gildistími tilvísana fyrir börn með langvinna sjúkdóma eða fötlun, sem nú eru tíu ár eða meira, gilt allt til að barnið verður 18 ára. Þá verður hjúkrunarfræðingum veitt heimild til að gera tilvísanir fyrir börn vegna þjónustu talmeinafræðinga en hingað til hafa aðeins heilsugæslulæknar getað vísað börnum í þjónustu þeirra. Fleiri góðar breytingar er að finna í reglugerðardrögum en þær miða allar að því að bæta þjónustu og auka skilvirkni, m.a. með áherslum á að tími lækna nýtist betur til að sinna beinni þjónustu við sjúklinga. Hér er ekki bara verið að stytta bið barna eftir mikilvægri þjónustu heldur einnig verið að bæta starfsumhverfi lækna. — Vel gert.



[13:49]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Kennarasambandið gerði nýlega könnun um stöðu kennara innan skólakerfisins og viðhorf þeirra til þessa mikilvæga starfs, lykilstarfs fyrir íslenskt samfélag. Við vitum að þriðjungur skólastjóra grunnskóla og rúmur fjórðungur leik- og grunnskólakennara sjá ekki fyrir sér að vera í sama starfi eftir fimm ár. Þetta er auðvitað gríðarlegt áhyggjuefni og eitthvað sem við hér, og ekki síst framkvæmdarvaldið, með ráðherra menntamála í broddi fylkingar, hljótum að hafa miklar áhyggjur af og vilja leysa og reyna að marka ákveðna stefnu sem styður við skólasamfélagið, sem styður við kennarastarfið og það umhverfi sem verið er að bjóða þeim upp á dags daglega. Það er auðvitað gjörbreytt frá því að við flest sem sitjum hér vorum í skóla, hóparnir eru stærri, það er nokkurn veginn sama framlag af námsgögnum í fjárhæðum og var 2006 til 2007. Allur stuðningur er ekki sá sem hann ætti að vera til þess að létta undir með kennurunum. Þessi könnun er því gríðarlegt áhyggjuefni og við verðum að taka hana alvarlega og það strax.

Það er næstum því hálft ár frá því að niðurstöður PISA voru kynntar og við vitum ekkert hvernig málum vindur fram þar. Við tókum nokkrar bunur í þessum þingsal, lýstum öll yfir ákveðnum áhyggjum. Það þyrfti að leita svara og styðja við skólaumhverfið, ekki bara tala um það heldur tala við fólkið í skólunum. En við vitum ekkert hvernig þessu miðar. Ég vona að ráðherra menntamála geti komið hingað í þingsal innan tíðar og sagt okkur frá stöðunni, að hverju verið er að vinna. Það er eitt stærsta hagsmunamál íslensks samfélags að skólakerfið okkar (Forseti hringir.) virki og við séum með kennara sem vilja halda áfram að starfa í þessu krefjandi en um leið gefandi umhverfi. (Forseti hringir.) Til þess þarf ákveðnar breytingar og til þess þarf stuðning stjórnvalda og það ótvíræðan.



[13:52]
Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Enn á ný heyrum við af því að fasteignafélagið Þórkatla hafi ekki náð að borga fólki það sem samið hafði verið um. Margir þingmenn fengu sendan tölvupóst í gær frá Grindvíkingum sem hafa ekki fengið greitt þrátt fyrir að hafa sótt um uppkaup þann 8. mars sl. Nú eru liðnir rúmir tveir mánuðir og enn bólar ekkert á greiðslu. Þessi dráttur vekur að sjálfsögðu athygli og vekur upp spurningar um það vinnulag sem viðhaft er við útgreiðslu. Margir hafa verið að gera tilboð í aðrar eignir með fyrirvara um uppkaup Þórkötlu á eignum þeirra. Vegna þessara tafa hafa kauptilboð runnið út og fólk missir af eignum. Við slíkar aðstæður getur fólk lent á götunni og neyðst til að flytja landshorna á milli til að koma sér þaki yfir höfuðið. Þetta þarf að laga, virðulegur forseti. Þá hafa smærri fyrirtæki sem mörg hver hafa ekki getað starfað í sex mánuði leitað eftir frekari aðstoð. Í viðtali á RÚV þann 10. maí sl. var haft eftir hæstv. forsætisráðherra að það styttist í að hægt væri að kynna aðgerðir til stuðnings atvinnulífinu í Grindavík. Þar sagði ráðherra að nálgun ríkisstjórnarinnar væri að reyna að sýna það í verki að þau hefðu trú á því að hlutirnir gætu blessast og að þau sem vilja bjarga sér fái tækifæri til að gera það. Ég vil því skora á ríkisstjórnina að standa við stóru orðin. Hún á að flýta þessari vinnu eins og mögulegt er. Það er, virðulegur forseti, ekki eftir neinu að bíða.



[13:54]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ríkisstjórn Noregs var að tilkynna um fjórföldun á aðstoð sinni við Palestínu. Eins og við vitum flest hér leggur Noregur nú þegar mjög mikið til, bæði í þróunaraðstoð og neyðaraðstoð. Mér finnst þetta umhugsunarvert vegna þess að við sem eitt ríkasta land í heimi ættum að geta lagt mjög vel til aðstoðar við Palestínufólk. Hér í gær voru umræður við hæstv. utanríkisráðherra um utanríkismál almennt. Þar kom því miður skýrt fram að utanríkisráðherra Íslands treysti sér ekki til að fordæma beinum orðum stríðsrekstur Ísraels á Gaza. Það sætir eiginlega furðu að við séum enn stödd þar, sjö mánuðum frá því að þetta hryllilega stríð braust út, að íslensk stjórnvöld veigri sér við að tala um hlutina eins og þeir eru og veigri sér við því að fordæma stríðsreksturinn á Gaza. Mér finnst það sýna ákveðna linkind gagnvart þeim ríkjum sem þar eiga í hlut og á ég þar við aðallega Ísraelsríki og einnig Bandaríkjastjórn, mestu stuðningsmenn þeirra. Mér finnst það sýna ákveðið skilningsleysi á því hvað við getum gert sem fullvalda, frjáls og vel stæð þjóð til þess að styðja við Palestínumenn, til þess að leggja okkar litlu lóð á vogarskálarnar til að leita friðar og reyna með öllum hætti að binda enda á stríð sem lýst hefur verið sem þjóðarmorði og er örugglega hægt að lýsa sem drögum að þjóðarmorði.



[13:56]
Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þrjár konur sóttu um vernd hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Þær eru þolendur kynlífsmansals og kljást við andlega og líkamlega sjúkdóma, beinar afleiðingar af ofbeldinu sem þær hafa verið beittar. Ein kvennanna er svo veik að hún getur varla setið upprétt, hvað þá gengið. Þær hafa verið hér á landi í fjögur til sex ár og tilkynnt sig reglulega til yfirvalda. Þær hafa verið í íslenskunámi, sem er ein forsenda fyrir veitingu ríkisborgararéttar, og gengið svo vel að ein þeirra flutti ræðu á íslensku á samkomu gegn kynbundnu ofbeldi í nóvember. Þær vilja vera hér. Þær vilja vinna, gefa af sér til samfélagsins, borgar skatta, gera gagn.

Virðulegi forseti. Á fimmtudag voru konurnar dregnar fyrir dómara án fyrirvara og úrskurðaður í gæsluvarðhald og í nótt voru þær sendar úr landi, aftur til Nígeríu þar sem þeirra bíður ekkert nema ofbeldið sem þær flúðu. Nú eru þær komnar út fyrir íslenska lofthelgi með lækni sem átti að halda þeim á lífi þangað til þær væru komnar úr okkar höndum. Þessar konur heita Blessing, Mary og Esther. Ég er fullkomlega miður mín, virðulegi forseti, yfir örlögum þeirra og ég er svo sannarlega ekki ein um það. Það eru takmörk fyrir því hversu lágt við sem samfélag viljum og getum lagst og við þurfum að vita hvernig svona getur gerst. Þess vegna hef ég óskað eftir því að fá ríkislögreglustjóra, kærunefnd útlendingamála og Útlendingastofnun á fund allsherjar- og menntamálanefndar til að fá skýringar á þessu ömurlega máli. Þetta er ekki hægt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[13:58]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Það kom fram í málflutningi Félags eldri borgara fyrir skemmstu að um 15.000 eldri borgarar væru í mjög erfiðri stöðu. Mér finnst dálítið áhugavert að lesa þetta í samhengi við niðurstöðu sem velferðarnefnd fékk fyrir stuttu síðan, sem er afrakstur nokkurra ára vinnu hjá mér í fjárlaganefnd og síðan Pírata í velferðarnefnd við að fá greiningu á því sem er, eins og niðurstaðan var, mjög óskýr lagasetning með tilliti til skerðinga á lífeyri frá Tryggingastofnun vegna lífeyrissjóðsgreiðslna. Staðan er sú að fólk er skert um allt að 71.000 kr. á mánuði vegna lífeyrissjóðsgreiðslna. Niðurstaða þingsins er að það sé óskýrt að það sé heimilt samkvæmt lögum. Ég skil eiginlega ekki alveg af hverju þetta er ekki stærra mál, síðan við fengum þessa niðurstöðu, hvað svo sem ríkisstjórnin ætlar að gera til að bregðast við þessum vanda sem er uppi vegna núverandi stöðu laganna; ólögleg skerðing, 71.000 kr. á mánuði. Og það í þeirri stöðu að 15.000 eldri borgarar eru í viðkvæmri stöðu. Ég kalla einfaldlega eftir viðbrögðum. Við erum búin að fá þessa niðurstöðu. Hvað á að gera næst? Á að fara eftir lögunum eins og þau eru skrifuð eða á að leiðrétta þau?



[14:00]
Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Í febrúar 2023 skipaði umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra starfshóp til að kanna helstu leiðir til bættrar orkunýtingar og orkuöflunar með hliðsjón af orkuskiptum 2040. Skýrsla starfshópsins, Bætt orkunýtni og ný tækifæri til orkuöflunar, hefur vakið athygli og varpað ljósi á mikla gerjun vegna orkukosta. Það er ástæða til að þakka Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, fyrir framsýni og fyrir að leggja rækt við þennan málaflokk.

Varðandi orkuöflun var starfshópnum sérstaklega falið að skoða nýja orkukosti á borð við sólarorku og sjávarfallaorku, glatvarma og varmadæluvæðingu og aðra orkukosti en þá sem falla undir rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Íslenskt samfélag býr að því fágæti að njóta ódýrrar raforku og afhending til heimila og almennra fyrirtækja þarf að vera í forgangi.

Virðulegur forseti. Staðreyndin er sú að raforkuverð á Íslandi er það lágt að nýir orkukostir eiga erfitt uppdráttar í samkeppni við þá sem fyrir eru vegna lágs söluverðs raforku. Þrátt fyrir það búa ákveðin svæði og landshlutar við hærra orkuverð en ásættanlegt er og starfshópurinn telur mikilvægt að jafna orkukostnað hérlendis og opna tækifæri nýrra orkukosta. Til að flýta fyrir orkuskiptum og nýjum orkukostum verður að einfalda leyfis- og umsóknarferli sem nú taka allt of langan tíma. Þá þarf að vekja almenning til umhugsunar um bætta orkunýtingu og bjóða upp á sveigjanleika í gjaldskrá sem hvetur til betri orkunýtingar og álagsstýringar. Aflnotkun dagsins í almenna raforkukerfinu getur sveiflast um 200 MW.

Virðulegur forseti. Til ársins 1975 voru öll hús í Eyjum kynt með olíu. Þá tók hraunhitaveita við og rafskautaketill. Þá kom einstök varmaskiptastöð sem skilar 70°C heitu vatni. Þegar Landsvirkjun og Landsnet skerða afhendingu raforku til Vestmannaeyinga þarf að nýta olíu sem orkugjafa og hefur fjarvarmaveitan í Eyjum keypt 6 milljónir lítra af olíu á árunum 2014–2023 vegna raforkuskorts. (Forseti hringir.) Orkuskipti kalla á aukna framleiðslu og virkjun orkukosta.



[14:03]
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Í gær var hæstv. dómsmálaráðherra spurð hvernig hún réttlætti ómennskuna sem felst í því að brottvísa mansalsþolendum lóðbeint í sömu aðstæður og þær eru að flýja, sömu stjórnvöld og segjast hafa það að stefnu að veita þolendum mansals aðstoð, stuðning og vernd. Hvernig er það stuðningur og aðstoð við þolendur mansals að kippa undan þeim fótunum? Hvernig er það stuðningur að brottvísa þeim í nákvæmlega sömu aðstæður og þeir eru að flýja? Hvernig réttlætir hæstv. ráðherra brottvísun þolenda mansals? Hæstv. dómsmálaráðherra sagðist ekki geta rætt einstök mál.

Vandinn hér er sá, virðulegi forseti, að þetta eru ekki einstök mál. Bent hefur verið á kerfisbundinn vanda í meðferð mansalsmála hér á landi. Skýrsla á vegum alþjóðlegra eftirlitsaðila hefur leitt í ljós að Ísland er og hefur verið viðkomustaður þolenda mansals og hefur m.a. verið bent á að erfitt sé að fá nákvæma mynd af aðstæðum og stöðu mansalsmála á Íslandi vegna þess að aðferðin sem við beitum við að bera kennsl á þolendur er alfarið á forsendum dómskerfisins. Ef gerandinn finnst ekki er ekkert mansal og enginn mansalsþolandi. Sem hluti af átaki stjórnvalda í mansalsmálum voru sett í lög sérstök dvalarleyfi fyrir þolendur mansals og hugsanlega þolendur mansals. Hversu mörg slík hafa verið veitt á undanförnum árum? Eitt árið 2019 og annað 2022. Í svari við fyrirspurn minni segir ráðuneytið að þolendur mansals séu, með leyfi forseta, „að jafnaði […] taldir uppfylla skilyrði fyrir veitingu alþjóðlegrar verndar eða mannúðarleyfis“, og þetta skekki tölurnar. Ekki var hins vegar hægt að svara því hversu mörg hafa fengið stöðu flóttamanns á þeim forsendum því að það er hvergi skráð.

Oft er sagt að stóri gallinn á kerfinu sé hversu þröngur lagaramminn sé og stjórnvöld séu bara að vinna vinnuna sína, „computer says no“, með leyfi forseta. Ítrekaðar ábendingar (Forseti hringir.) um að við kunnum ekki einu sinni að greina þolendur mansals, hvað þá veita þeim þá aðstoð sem þau þurfa er ekki í samræmi við lög. Það er því ekki stóri gallinn. (Forseti hringir.) Það er stærri galli að kerfið neitar að fylgja lögum vegna þess að það hentar ekki þeim sem valdið hafa. (Forseti hringir.) Rétt eins og ítalska mafían notar íslenska ríkisstjórnin raunveruleg líf fólks af holdi og blóði (Forseti hringir.) til þess að senda öðrum skilaboð. Og forseti, nei, það er ekki það sem lögin boða.



[14:05]
Andrés Ingi Jónsson (P):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir að hafa nýtt þennan ræðustól í dag og í gær til að tala fyrir friði. Það er ekki vanþörf á þessa dagana vegna þess að stríðsátökin í Úkraínu virðast hafa komið upp mjög mikilli rörsýn á allt alþjóðastarf síðustu misseri. Auðvitað þarf að bregðast við ástandinu í Úkraínu en nú erum við að horfa upp á það að norrænt samstarf og Evrópusamstarf er að verða gegnsósa af hernaðarhyggju sem á ekki erindi þar inn. Samstarf sem snýst um menningarsamninga, snýst um það að búa til sameiginlega sjálfsmynd stórra svæða í heiminum, á að vera á forsendum fólks, friðar og mannúðar.

Vandinn er að þessi rörsýn hefur líka smitað hæstv. utanríkisráðherra, eins og birtist í því að hún talar um það að við sem tölum fyrir friðsamlegum lausnum þurfum að fullorðnast og að við sem gagnrýndum það að í tillögu um stuðning við Úkraínu væri verið að breyta eðli samstarfs Íslands, með því að veita peninga í bein vopnakaup, þyrftum að fullorðnast. Ráðherra finnst þetta ekki vera eðlisbreyting vegna þess að það er komið í ljós að ráðherra hafði einhvern veginn í lokuðum bakherbergjum byrjað að veita fjármuni í sjóði til að kaupa hergögn í einhver misseri. Það var ekki almannavitneskja og það er vandinn við öryggis- og varnarmál hér á landi, allt gerist bak við luktar dyr, hvort sem það er sú staðreynd að aldrei hafi verið meiri framkvæmdir á Keflavíkurvelli en akkúrat núna, það birtist ekki fyrr en við plokkuðum ofan af fjármálaáætlun hér þar sem átti að sinna viðhaldsframkvæmdum, nú eða það að viðvera herliðs á Keflavíkurflugvelli hefur verið varanleg frá árinu 2015. (Forseti hringir.) Sú staðreynd varð ekki ljós fyrr en þremur árum síðar þegar þingið fór að grennslast fyrir um það. (Forseti hringir.) Ísland á að nýta sér sína sérstöðu sem herlaust land. (Forseti hringir.) Við eigum að tala fyrir friði. Við eigum allt að gera annað en að kynda ófriðarbál. (Forseti hringir.) Til þess þarf að snúa baki við því leynimakki í kringum öryggis- og varnarmál sem ríkisstjórnin hefur iðkað af kappi á síðustu árum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)