154. löggjafarþing — 123. fundur
 14. júní 2024.
störf þingsins.

[10:34]
Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Það blasir við okkur ansi áhugaverð staða nú á lokametrum þessa þings. Það er eiginlega ekki hægt að segja annað. Nýjasta fréttin er sú að Miðflokkurinn hefur boðað mögulega vantrauststillögu á hæstv. matvælaráðherra. Mig langar að segja það hér að ég styð þá tillögu eindregið, komi hún fram, bæði með vísan í stjórnsýslu ráðherrans sem ekki hefur verið heppileg, rétt eins og hjá forvera hæstv. matvælaráðherra fyrir ári, en ekki síður vegna þess að það er orðið mjög brýnt að koma þessari ríkisstjórn frá völdum.

Ég gæti haldið hér langa ræðu um tilefnin til þess að greiða atkvæði með vantrausti á hvern einasta ráðherra. Aðalatriðið er að ríkisstjórnin er ekki að ná utan um það verkefni að vinna fyrir fólkið í landinu. Það eru t.d. tugir mála sem bíða þess að vera afgreidd. Þingheimur hefur ekki hugmynd um hver þeirra verða kláruð. Stjórnarflokkarnir hafa haft fjórar vikur frá því að þingið fór í hlé vegna forsetakosninga til að ná saman lendingu um þau mál sem á að klára. Niðurstaðan af því blasir ekki enn við. Við erum enn í myrkrinu vegna þess að flokkarnir eru ósamstiga um nánast hvert einasta mál. Og við vitum auðvitað hvernig keðjuverkunin í þessu getur verið. Við sáum það mjög vel þegar við lukum þingstörfum fyrir ári.

Mig langar síðan að vekja athygli á orðum frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu vegna bréfs sem hæstv. fjármálaráðherra sendi henni vegna netverslunar með áfengi. Það er algerlega afdráttarlaust af hálfu lögreglunnar að svona afskipti af lögreglu eru ekki heppileg í réttarríki. Það getur vel verið að hæstv. ráðherra telji að hann hafi ekki verið að hafa afskipti af störfum lögreglu. (Forseti hringir.) Lögreglan er hins vegar þeirrar skoðunar að svo hafi verið.

Þetta er staðan sem blasir við okkur og ég vona svo sannarlega að við förum að komast upp úr þessum hjólförum.



[10:37]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegur forseti. 17. júní er fram undan og við fögnum íslenska þjóðhátíðardeginum. Þá komum við saman til að minnast og heiðra arf okkar og menningu. Þetta er dagur sem tengir okkur söguna við hugrekki og fórnfýsi þeirra sem komu á undan okkur og við það sem hefur mótað okkur sem þjóð. Í ár fögnum við 80 ára afmæli lýðveldisins sem stofnað var í skugga stríðs í Evrópu. Það var sundrung og eiginlega dauðans óvissu tímar en með bjartsýni að vopni ákváðu Íslendingar að slíta formlega konungssambandi við Danmörku. Það hefur verið áræðni fyrir 125.000 manna þjóð sem var fátæk bændaþjóð og varla farin að byggja upp þannig að við gætum staðið á eigin fótum. En það var vissa okkar að þetta gjöfula land með mikilvægar auðlindir væri undirstaða velsældar og sjálfstæðis. Við getum enn treyst okkar gjöfula landi á meðan við nýtum auðlindir okkar á sjálfbæran hátt.

Það er margt sem hefur breyst á 80 árum en sumt er eins. Það er stríð í Evrópu, ekki á sama skala og var árið 1944, en mannslíf hafa tapast, fólk er á flótta og börn gráta. Það er líka stríð víðar í heiminum. Sagt er að 54 þjóðir hái stríð rétt á meðan við dubbum okkur upp sem herlaus þjóð og veifum fána okkar þjóðar sem er fjarri heimsins vígaslóð. Við getum beðið og vonað að friður komist á og fjölskyldur geti sameinast á ný heima eða geti sameinast þar sem þær geta kallað heima og fundið öryggi á ný.

Virðulegi forseti. Á þjóðhátíðardeginum skulum við fagna sameiginlegum áfanga og sameinast í gleði og stolti. Við skulum fagna fjölbreytileikanum og þeim krafti sem býr í fólkinu okkar. Það er hátíð fram undan og við skulum nýta mikilvæg tækifæri til að sameinast og styrkja tengslin okkar hvert við annað.



[10:39]
María Rut Kristinsdóttir (V):

Forseti. Mig langar að nýta tímann til að ræða hér aðeins um þá stöðu sem blasir við minni kynslóð, unga fólkinu okkar en ekki síst fjölskyldufólki á Íslandi. Ég spyr: Er samfélagsgerðin okkar að virka fyrir barnafólk? Er ekki eitthvað skakkt og brotið í kerfinu okkar? Hvert sem ég fer eru kröftugir einstaklingar að bugast undan álaginu sem fylgir því að reyna að brúa bilið milli fæðingarorlofs og dagvistunar. Hvert sem ég fer eru sömu einstaklingar að bugast vegna tvöföldunar á greiðslubyrði lána, rándýrrar matarkörfu og þeytivindu sem virðist engan endi ætla að taka.

Alþingi getur ekki firrt sig ábyrgð. Á Alþingi eyðum við ótrúlega miklum tíma í að ræða dauða hluti, steinsteypustofnanir, framkvæmdir, stöðugildi, reglugerðir og lagaramma. Ég krefst þess að við tölum meira um fólk, stöðu þess og áskoranir. Í því samhengi vil ég hvetja þingheim til að skoða færslur Silvíu Friðjónsdóttur á Instagram frá því í gær. Þar lýsir hún þessum veruleika barnafólks sem eignast börn í röngum mánuðum. Þar lýsir hún kerfi sem er ekki hannað utan um veruleika fólks heldur utan um kerfið sjálft.

Ég dáist að langlundargeði minnar kynslóðar sem lætur það sífellt yfir sig ganga að vangetu ráðamanna sé velt yfir á þeirra herðar í formi okurvaxta, undirmönnunar og skilningsleysis á raunverulegum aðstæðum. Finnst fólki skrýtið að hér sé meðaltal barneigna komið undir tvö börn? Er fjölskyldufólk á Íslandi ekki meira virði en þetta? Af hverju er mín kynslóð ekki hrópandi á torgum yfir óréttlætinu, yfir okrinu, yfir skorti á þjónustu sem það leggur þó dag og nótt við að borga fyrir og halda uppi?



[10:41]
Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Klifaðu á lyginni nógu oft og áður en varir er hún orðin að sannleika. Hver þekkir ekki möntruna um að hér drjúpi smjör af hverju strái, hér hafi kaupmáttur aldrei verið meiri, hér séu skuldir heimilanna í algeru lágmarki? Hér hafa allir það svo rosalega gott. Ég ætla að leyfa mér að efa það að það sé hægt að ljúga þessu í þá tugi þúsunda Íslendinga sem hokra hér hvern einasta dag og ná ekki endum saman. Ég nefndi í eldhúsdagsræðunni minni í fyrrakvöld dæmið um ungu konuna sem var að leita aðstoðar á samfélagsmiðlum, einstæð með börnin sín tvö, og var að velta því fyrir sér hvort hún gæti fengið hugmyndir frá einhverjum í svipuðum sporum sem væri að glíma við það að eiga 5.000 kr. á viku til að gefa börnunum sínum að borða. Hún hefur kannski verið að reyna að gefa þeim eitthvað annað en núðlur, Cheerios og hrísgrjón, Cheerios með vatni jafnvel og hafragraut með vatni jafnvel ef vel áraði.

Við skulum gera okkur grein fyrir því að þessi ríkisstjórn, sem heldur áfram að níðast á þegnunum hvern einasta dag og tekur í rauninni ekki utan um neitt nema þá sem þurfa ekki á hjálpinni að halda, er ríkisstjórn sem á fyrir löngu að vera búin að pakka saman og pilla sig enda er hún algerlega verkstola. Hún er algjörlega vanhæf í öllum þeim störfum meira og minna sem hún er að vinna hér. Við höfum ekki vitað það síðustu fjórar vikur hvort við erum að koma eða fara í þessum þingsal vegna þess að það logar allt stafnanna á milli í þessari „ágætu“ ríkisstjórn. Þannig að ég segi ekkert annað en það að ég mun hrópa hallelúja uppi í Hallgrímskirkjuturni þegar þessi ríkisstjórn hefur lagt upp laupana og einhverjir aðrir hafa tekið við stjórnartaumunum sem vita hvernig þeir eiga að fara með allt samfélagið en ekki bara hluta af því.



[10:43]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Við þekkjum flest kennara sem breyttu lífi okkar til góðs. Þessir kennarar eiga skilið að fá að gera það sem þeir gera best, sem er einfaldlega að kenna og kenna við betri aðstæður en þeir gera í dag. Þeir eiga skilið að stjórnvöld meti þá að verðleikum, að brugðist sé við grafalvarlegum niðurstöðum í skólunum sem allar eru á sömu lund. Brottfall nýrra kennara úr starfi er töluvert, sem speglar auðvitað hversu erfitt starfsumhverfið er í dag.

Skólinn á að vera okkar besta jöfnunartæki í samfélaginu en er það ekki í dag. Í heimsóknum Viðreisnar í grunn- og framhaldsskóla nýverið fundum við vel þann mikla metnað sem einkennir kennara í starfi sínu og við heyrðum ákall þeirra um að settur verði aukinn kraftur í gerð námsefnis, að bekkir þurfi að minnka. Við heyrðum líka tal um að það hafi áhrif að samræmdar mælingar skorti fyrir skólana því að mælingar eru stuðningstæki fyrir börnin.

40% 15 ára barna á Íslandi geta ekki lesið sér til gagns í lok skólagöngu. Ísland skrapar botninn í alþjóðlegum samanburði og botninum er því miður líklega ekki náð. Þetta segir höfundur nýrrar skýrslu og nýjasta skýrslan, sem fjallar um stöðu drengja, ber með sér að stjórnvöld hafa brugðist börnunum. Nýjasta skýrslan er á sömu lund og allar þær fyrri og á þessari stöðu bera stjórnvöld höfuðábyrgð. Börn sem búa ekki yfir nægilegum lesskilningi eru að missa af tækifærum, glata tækifærum til frambúðar. Það er stjórnvalda að tryggja að skólarnir geti gegnt því hlutverki sem þeim er ætlað að gera, að auka tækifæri barna. Ég sakna þess að við séum ekki að ræða þessa stöðu meira í þessum sal. Stjórnvöld verða að ræða þessa alvarlegu stöðu því að sú framtíðarmúsík sem hér er að teiknast upp er gríðarlega mikið áhyggjuefni.



[10:46]
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Síðustu daga hefur verið mjög mikið rætt um þjóðaróperuna, frumvarp hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra sem ljóst er að hlýtur ekki framgöngu á þessu þingi en kemur fyrir þingið næsta haust. Ég vil ítreka það sem ég hef áður sagt úr þessum ræðustól, að ég tel mikilvægt að þjóðaróperan verði sett á fót og ég tel að það yrði mikið framfaraskref fyrir íslenska menningu og samfélag. Það er líka ljóst af þeim umsögnum sem hafa borist þinginu að það er mikill stuðningur í listaheiminum við það að þjóðaróperan verði stofnuð.

Það er mikilvægt að við hér styðjum við íslenska menningu. Í aukinni alþjóðavæðingu eru menning og listir eitt af því sem einkennir hverja og eina þjóð. Ferðamenn leita margir í menningu annarra landa. Stundum er það sérstaklega ástæðan fyrir því að þeir koma til landsins en oft er það bara hluti af þeim heimsóknum sem þeir fara í á meðan þeir eru í öðru landi. Því skipta menningarstofnanir eins og þjóðaróperan miklu máli til að geta sýnt erlendum gestum fjölbreytta íslenska menningu.

Ég tel að listir séu ein besta leiðin til að læra af sögunni. Við förum á söfn, við horfum á bíómyndir, lesum bækur og sjáum leikrit og óperan er enn ein leiðin til að koma sögunni á framfæri. Síðustu ár hér á landi hefur óperan ekki verið með tryggan starfsgrundvöll, það hafa komið upp vandamál vegna kjaramála og hér á landi eru fjölmargir ungir söngvarar sem starfa á allt öðrum vettvangi því það eru ekki til störf við hæfi fyrir þau. Þjóðaróperan þarf að verða að veruleika fyrir íslenska menningu.



[10:48]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Það er mörgum þessa dagana tíðrætt um að við stöndum okkur ekki nógu vel hérna á Alþingi og séum afkastalítil. Ég ætla að fá að vera hjartanlega ósammála því. Þar sem ég er formaður allsherjar- og menntamálanefndar langar mig að renna hér yfir hluta af þeim frumvörpum sem við höfum afgreitt út úr þeirri ágætu nefnd.

Forsætisráðherra mælti fyrir frumvarpi þar sem ráðherra sem fer með málefni almannavarna var veitt skýr lagaheimild til að taka ákvörðun á grundvelli tillögu ríkislögreglustjóra og að höfðu samráði við stjórnvöld um nauðsynlegar framkvæmdir í þágu almannavarna. Við erum hér að tala um til að mynda uppbyggingu varnargarða sem hafa svo sannarlega reynst vel. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra kom með frumvarp um breytingar á háskólalögum varðandi örnám og prófgráður. Þá kom hún einnig með þingsályktunartillögu um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélaginu á Íslandi. Ályktunin fól í sér stefnu og aðgerðaáætlun á sviði háskóla- og vísindastarfs, nýsköpunar og hugverkaiðnaðar og í fjarskiptum, upplýsingatækni og netöryggi. Við höfum tekið fyrir breytingar á lögum um Menntasjóð námsmanna þar sem er lagt til að ábyrgðarmannakerfi bæði Lánasjóðs íslenskra námsmanna, sem sagt eldri lánasjóðnum, svo og Menntasjóðsins verði fellt niður að fullu. Mennta- og barnamálaráðherra kom með frumvarp þar sem við lögðum niður Menntamálastofnun en stofnuðum nýja stofnun er heitir Miðstöð menntunar og skólaþjónustu. Það er stofnun sem hefur mikilvægt hlutverk til að styðja, efla og samhæfa menntun, skólaþjónustu og annað skólastarf.

Þá höfum við fjallað um ýmis samræmingarfrumvörp og veitt nemendum sem hlotið hafa alþjóðlega vernd og dvalarleyfi af mannúðarástæðum námsstyrki. Við höfum breytt lögum um fjölmiðla til að verja betur börn og réttindi heyrnar- og sjónskertra. Við höfum afgreitt málstefnu íslensks táknmáls og aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu. (Forseti hringir.) Ýmislegt má telja og ég var ekki einu sinni komin að dómsmálaráðherra. Þá verð ég að segja það að hér í dag munum við afgreiða frumvarp til laga um breytingar á útlendingalögum, mál sem við höfum farið mjög vel yfir í nefndinni og því verður ánægjulegt að sjá það verða að lögum síðar í dag. (Forseti hringir.) Enn eru inni í nefndinni nokkur mál sem við höfum gefið okkur mikinn tíma í. Þar má nefna þjóðlendur, lögreglulög og sanngirnisbætur og ég vona svo sannarlega að við náum að klára þau mál líka.

(Forseti (BÁ): Forseti verður að minna hv. þingmenn á að ræðutími í störfum þingsins er tvær mínútur en ekki tvær og hálf mínúta eins og hjá hv. þingmanni og verður að gera athugasemd við það.)



[10:51]
Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Við vitum ekki alveg hvort hillir undir þinglok en í öllu falli styttist þetta dag fyrir dag. Mig langar að nefna mál sem mér heyrist vera óljóst hvort verði klárað — ég held að það sé mikilvægt að það verði ekki klárað í núverandi mynd hvernig sem þetta allt saman endar — en það er samgönguáætlun sem nú liggur fyrir. Það eru einfaldlega, ég kom inn þetta í ræðu minni hér við eldhúsdagsumræður, það mörg atriði í áætluninni sem kalla á frekari og dýpri skoðun að það er fullkomlega óforsvaranlegt að afgreiða áætlunina eins og hún liggur fyrir núna. Við bíðum endurskoðunar, eða eins og ráðherra kallar það uppfærslu samgöngusáttmálans sem ætti auðvitað að endurskoða. Þar er skipting fjárveitinga og framúrkeyrsla, sérstaklega í ákveðnu kjördæmi, sem bendir til að muni soga til sín allt framkvæmdafé sem annars væri til ráðstöfunar landið um kring. Það eru, bara svo maður horfi til eigin kjördæmis, mál eins og Skógarstrandarvegur sem væri eflaust að lenda í fullkominni upplausn ef mál halda fram sem horfir. Með Sundabrautina erum við því miður föst í sama hægaganginum og föst inni í einhverju fyrirkomulagi sem við virðumst ekki hafa fulla stjórn á, og þannig mætti áfram telja. Þetta eru allt saman atriði sem kalla á yfirlegu, yfirvegaða yfirlegu, bæði nefndar og ráðuneytis. Málið eins og það liggur fyrir núna er ótækt.

Ég hvet hv. ríkisstjórnarflokka til að stíga skref til baka, setja samgönguáætlunina eins og hún liggur fyrir til hliðar, taka hana aftur upp í haust og þá með miklu forsvaranlegri hætti en nú er verið að reyna að gera.



[10:53]
Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Það var fróðlegt að sitja hér í þingsal undir eldhúsdagsumræðum hv. kollega minna, bara nokkuð skemmtilegt. Auðvitað ekki eins skemmtilegt og þétt og góð umræða hér í þingsal um frjálst flæði ópersónugreinanlegra gagna. Okkur er bara svo umhugað um að EES-samningurinn virki. Hv. þingmenn fóru um víðan völl, ræddu sín helstu baráttumál og strengdu kosningaloforð. Vörpuðu jafnvel upp hrollvekjandi framtíðarsýn, alveg virkilega. Hæstv. ráðherrar Sjálfstæðisflokksins nýttu sinn tíma í að fara yfir það sem vel hefur verið gert á þeirra málefnasviðum á yfirstandandi kjörtímabili. Útlendingamál og orkumál eru auðvitað risavaxin mál um þessar mundir. Fleiri stjórnmálamenn hafa reyndar nýlega áttað sig á því og láta litlum saumaklúbbum eftir að ræða nýja stjórnarskrá og aukin ítök Evrópusambandsins á Íslandi. Velkomin um borð.

Sjálfstæðisflokkurinn er raunveruleg breiðfylking. Þar finnum við allt litrófið og þar rúmast alls konar skoðanir á alls konar málum. Og það hljómar trúlegra en þegar sex manna hópur, svo ég nefni einhverja tölu, reynir að halda þessu fram. En Sjálfstæðisflokkurinn er algjörlega einhuga þegar kemur að stærstu áskorununum; orkumálunum, efnahagsmálunum, útlendingamálunum. Einhuga um lykilinn að enn sterkara heilbrigðiskerfi og almannatryggingakerfi. Loforð okkar til almennings byggja á langri og góðri ferilskrá. Við höfum nefnilega átt ríkan þátt í því að byggja hér upp eitt ríkasta, öruggasta og jafnasta samfélag í heimi. Á eldhúsdegi fóru hæstv. ráðherrar Sjálfstæðisflokksins yfir nýleg dæmi um góðar og mikilvægar breytingar fyrir íslenskt samfélag. Um útlendingalöggjöf sem við erum loksins að breyta til samræmis við nágrannalöndin, um áratugalöngu kyrrstöðuna sem hefur verið rofin í orkumálum, sókn í orkumálum, jarðhitaleit og einföldun leyfisveitinga.

Höldum áfram á réttri braut, gerum frábært samfélag enn betra. Við Sjálfstæðismenn erum hér til þess.



[10:55]
Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Þann 17. júní 1944 var íslenska lýðveldið stofnað á Lögbergi á Þingvöllum og fagnar það því nú 80 ára afmæli. Sérstök hátíðardagskrá í tilefni af 80 ára afmæli lýðveldisins hefur verið sett upp með fjölda viðburða. Hvar er betra að njóta þessara merku tímamóta heldur en í umhverfi Þingvalla? Því hvet ég þingheim allan sem og þjóðina til að heimsækja Þingvelli og njóta þess umhverfis sem þar er og minnast þessara merku tímamóta sem eru einn stærsti viðburðir í Íslandssögunni. 15. og 16. júní hefur verið sett á fót menningarhátíð á Þingvöllum með fjölbreyttri dagskrá og er hægt að sjá dagskrána betur inni á lýðveldi.is og thingvellir.is og hvet ég alla til að kynna sér það. Þar verður fjölbreytt dagskrá, t.d. fyrir börn; þar verður menningarkort afhjúpað og þar verður verkefnið Ef ég væri forseti og Fornleifaskóli barnanna, víkingar verða staðnum og glíma, farið verður í margar gönguferðir, m.a. með forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, opnuð verður ljósmyndasýning á morgun klukkan fjögur á Hakinu um hátíðahöldin þann 17. júní 1944, það verður svokölluð kórahátíð á Þingvöllum, fjallkonan mætir og svo verður á sunnudagskvöldið söngvavaka á Valhallarreitnum þar sem fjöldi merkra tónlistarmanna mun koma fram. Ég hlakka til að sjá ykkur á Þingvöllum um helgina.



[10:57]
Elín Íris Fanndal (Flf):

Virðulegi forseti. Námsgreinar eru flestar þannig skipulagðar að þegar nemandi hefur lokið námi sínu getur hann þá þegar hafið vinnu í sínu nýja fagi. Svo eru sumar námsgreinar þar sem nemandi þarf að námi loknu að öðlast starfsréttindi og þarf þá sem hluti af því ferli að fara í launaða starfsþjálfun, hvort sem það er kandídatsár læknis eða sveinspróf iðnnemanda. En svo er það þriðja tilfellið þegar nemendur þurfa að fara í starfsþjálfun að starfi loknu og vinna fulla vinnu sem er hluti af þeirri starfsþjálfun í því fagi sem þeir hafa lokið námi í en þeir fá ekki borgað fyrir starfsþjálfunina, sem er engu að síður nauðsynlegur hluti og undanfari þess að þeir geti, eins og aðrar stéttir, fengið launaða vinnu við sitt nýja fag. Helga Ben. iðjuþjálfi vakti athygli á því óréttlæti sem nemendur í iðjuþjálfun verða fyrir að námi loknu. Þá þurfa þeir að stunda ólaunaða vinnu sem hluta af sinni starfsþjálfun og flestir þurfa því að taka námslán fyrir þeirri starfsþjálfun og skuldsetja sig þar með til framtíðar. Helga velti því upp hvort hugsanleg ástæða þessa mismunar gagnvart iðjuþjálfun sé sú að iðjuþjálfar eru kvennastétt á meðan múrarar, rafvirkjar og smiðir sem fá greitt fyrir sína starfsþjálfun eru karlastéttir. Það er sorglegt til þess að hugsa að ung kona velti slíku fyrir sér og segir mögulega eitthvað um viðhorf til sumra starfsstétta. Ég tek heils hugar undir með Helgu og það er með öllu ólíðandi að hún og aðrir þurfi að stunda ólaunaða vinnu til að öðlast starfsréttindi. Það þarf að tryggja jafnrétti nemenda hvað þetta varðar og tryggja öllum stéttum, bæði karla- og kvennastéttum, laun fyrir sína vinnu jafnvel þó að hún sé hluti af því ferli að öðlast starfsréttindi.

Svo geri ég að lokum orð þessarar ungu konu að mínum, með leyfi forseta:

Sjáið þið viðskiptafræðing fyrir ykkur vinna heilt ár í banka launalaust áður en viðkomandi fær starfsréttindi? Nei, ég hélt ekki.



[11:00]
Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Virðulegur forseti. Á mánudaginn 17. júní fögnum við 80 ára afmæli lýðveldisins Íslands. Af því tilefni munu kórar hvaðanæva af landinu syngja valin lög undir yfirskriftinni Sungið með landinu. Kórsöngur er þjóðaríþrótt Íslendinga og talið er að 38% Íslendinga hafi einhvern tímann verið í kór. Þessa kóra skipar fólk af öllum stærðum og gerðum. Það eru barnakórar, kórar eldri borgara, kirkjukórar, hinsegin kórar, kvenna- og karlakórar og sá nýjasti í flórunni; Alþingiskórinn. Til að syngja í kór er tóneyra ákjósanlegt en ekki endilega nauðsyn. Verkefni kóra er að stilla saman allar raddir, ekki bara þær þjálfuðu sem hafa verið í kórnum árum saman heldur líka þær ungu og nýju sem ekki ná sama samhljómi nema með hjálp þeirra eldri og reyndari, þær sem kunna kannski ekki öll lögin í fyrstu atrennu en eru svo mikilvæg og dýrmæt viðbót og styrking við þær raddir sem fyrir eru. Við erum öll kór íslenska lýðveldisins. Í 80 ár höfum við stillt okkur saman og sungið í samhljómi. Stundum er kórinn falskur, stundum ekki í takt við sjálfan sig eða ytri taktvísa. Þegar á bjátar er þetta þó besti kórinn. Þá ná allar þessar ólíku raddir að stilla sig saman og ná fegursta hljómi samkenndar og samhjálpar. Þessum hljómi þurfum við að ná oftar og halda lengur, bjóða nýju raddirnar velkomnar því að það er besta leiðin til að efla og auka þennan samhljóm. Þannig verðum við meðal þjóða þjóð sem lifir sæl við ást og óð og auð, sem friðsæld gaf, svo vitnað sé í eitt ástsælasta kóralag lýðveldisins, með leyfi forseta. — Gleðilega þjóðhátíð og til hamingju með árin 80. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[11:02]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég hélt í augnablik að hv. þingflokksformaður Vinstri grænna væri að tala um þann kór sem starfar hér daglega og er kór ríkisstjórnarinnar sem er alveg ábyggilega falskur um þessar mundir og það sem verra er, að fulltrúar hvers flokks fyrir sig syngja hver sitt lagið. Það er auðvitað ástæðan fyrir því að við erum í þessum vandræðum sem við erum hérna. Og nú langar mig að tala raunverulega um störf þingsins, herra forseti. Við verðum áður en við byrjum næsta haust að reyna að leita leiða til að finna fyrirkomulag þannig að hlutirnir gangi aðeins smurðara heldur en nú er, að það safnist ekki allar afurðirnar af færibandinu í einn kepp við útgöngudyrnar og svo eigi að skófla þessu út á nokkrum dögum. Við heyrum lítið frá stjórnarliðum hvað þeir vilja með næstu klukkutíma og næstu daga en það er ljóst að starfsáætlunin er annaðhvort komin úr sambandi eða er u.þ.b. að verða tekin úr sambandi og við eigum eftir risastór mál eins og fjármálaáætlun, samgönguáætlun og ýmis önnur mál. Það sem við fréttum af þingstörfunum er eiginlega mest með því að lesa Morgunblaðið klukkan sex á morgnana þar sem við fáum fréttir um að þetta málið eða hitt sé að tínast út, á sama tíma og fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna við þingflokksformannaborðið fullvissa okkur um að það eigi að klára þessi mál. Nú verður býsna fróðlegt, herra forseti, að komast að því hvort Morgunblaðið er sannspárra en þingflokksformenn stjórnarliða.

Herra forseti. Ég hvet forseta til að leita leiða fyrir næsta haust til að búa þannig um hnútana að hlutirnir gangi nú aðeins betur fyrir sig svona framan af vetri.



[11:04]
Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Hvernig tekur maður ákvarðanir? Er það út frá því hvernig vindurinn blæs þann daginn? Eða er það út frá bestu upplýsingum og gögnum hverju sinni? Ber ráðherra ekki ábyrgð á því að aflað sé gagna til að vita hvort það sem við erum að gera í okkar samfélagi sé besta aðferðin hverju sinni? Ég tel ekkert mikilvægara fyrir heilbrigðiskerfið og lýðheilsu þjóðarinnar en öflun gagna. Það er grundvallaratriði að við fylgjumst með heilbrigði þjóðarinnar og aukningu sjúkdóma og aukningu sjálfsvígshættu og viðbrögðum okkar við henni. Það er grundvallaratriði sem við erum ekki að fylgjast með. Skráningar eru lykilatriði, það er mjög mikilvægt að geta náð í gögn um heilsubrest Íslendinga. Því skil ég ekki, herra forseti, af hverju hæstv. heilbrigðisráðherra virðist hafa mjög takmarkaðar upplýsingar um sjúkdóma og geðsjúkdóma hjá þjóðinni, það virðist mest vera fylgst með krabbameini.

Forseti. Ég hef spurt ýmissa spurninga og beint ýmsum fyrirspurnum til heilbrigðisráðherra um sjúkdóma hjá þjóðinni. Nú síðast fékk ég svar við fyrirspurn minni um sjálfsofnæmissjúkdóma og skjaldkirtilssjúkdóma. Þá spyr ég einfaldlega um tíðni sjúkdóma, um breytingar á tíðni og ef breytingar hafa orðið af hverju þær stafi. Í svari hæstv. ráðherra segir að hann hafi ekki þessar upplýsingar og geti því ekki upplýst um stöðu þessara sjúkdóma á Íslandi. Ég hélt, herra forseti, að þetta ætti bara við um geðsjúkdóma og sjálfsvígshættu sem ekki er verið að fylgjast með eða hægt að fá gögn um frá heilbrigðisráðuneytinu. En svo virðist ekki vera.

Forseti. Ég tel alvarlegt að heilbrigðisráðherra sé ekki að fylgjast með þessu og geti þá ekki með nokkru móti brugðist við aukningu sjúkdóma hjá Íslendingum. Til þess að geta byggt upp öflugt heilbrigðis- og velferðarkerfi (Forseti hringir.) þurfum við að byrja á því að fá það á hreint hvað sé að gerast í samfélaginu okkar og hver staðan sé.



[11:07]
Lenya Rún Taha Karim (P):

Forseti. Mér finnst ég alltaf sjá sömu vinnubrögðin hjá þessari hæstv. ríkisstjórn; stórar og miklar yfirlýsingar um aðgerðir sem eiga að bæta kjör almennings en það fylgja sjaldnast einhverjar útfærslur á þessum aðgerðum með. Þessi vinnubrögð má sjá skýrt við þessi þinglok í ýmsum málaflokkum og mér er umhugað um orkumál í ljósi ræðu hv. þingmanns úr röðum Sjálfstæðisflokksins þar sem hún snerti á orkumálum og mikilvægi þeirra í störfum þessarar ríkisstjórnar og stjórnarmeirihluta. Ég vil minna á metnaðarfullar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í stjórnarsáttmálanum frá 2021 þar sem stefnt er að því að ná fullum orkuskiptum fyrir árið 2040, sem er nota bene ekki í takt við umhverfis- og loftslagsmarkmið Evrópusambandsins sem við eigum það til að líta til. Hins vegar eru vinnubrögð stjórnarmeirihlutans varla í samræmi við orðræðu hans þegar kemur að orkumálum, hvorki uppi í pontu né í stefnuyfirlýsingum, við þessi þinglok þegar rétt rúmlega ár er í kosningar. Það er ekki að sjá neinar umfangsmiklar breytingar eða viðbætur í þessum málaflokki og yfirlýsingar um hraðara leyfisveitingaferli orkumannvirkja, endurskoðun rammaáætlunar, lög um vindorku og raforkuöryggi er bara það, yfirlýsingar. Ljóst er að Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að keyra á orkumálum í næstu kosningum en þar sem ekkert er að frétta af umbótum í málaflokknum þá sé ég fyrir mér hröð og óvönduð frumvörp sem þröngvað verður í gegn á næsta löggjafarþingi, 2024–2025, í þeim eina tilgangi að hafa eitthvað til að sýna fram á í næstu kosningum og allar líkur eru á því að umhverfis- og náttúruvernd, aðkoma og þátttaka almennings og vandaðir stjórnsýsluhættir mæti miklum afgangi í þeim vinnubrögðum.