139. löggjafarþing — 10. fundur,  14. okt. 2010.

frestur til að skila erindum til fjárlaganefndar.

[11:11]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það er óneitanlega furðulegt stundum að sitja í hv. fjárlaganefnd. Mig langar til að vekja athygli á einu, það var gefinn út frestur til 15. september fyrir þá aðila eða félagasamtök sem vildu skila inn erindum. Framkvæmdin hefur verið með þeim hætti í fjöldamörg ár að sá frestur hefur ekki verið heilagur, hann hefur verið framlengdur og jafnvel þótt erindi hafi borist of seint hafa þau undantekningarlaust, ætla ég að leyfa mér að fullyrða, komist að. Það er heldur ekki furða vegna þess að afleiðingar þess að fá ekki erindi inn í fjárlaganefnd eru gríðarlega miklar fyrir einstaklinga, félagasamtök og t.d. hjálparstofnanir. Nú er það hins vegar þannig að gefið hefur verið út af formanni og varaformanni fjárlaganefndar, eftir því sem ég best veit, að fresturinn standi, 15. september. Þetta er algjörlega ný framkvæmd (Forseti hringir.) og ég ætla að leyfa mér að mótmæla henni hér og athuga hvort við getum ekki sammælst um það í fjárlaganefnd að láta mannlega þáttinn verða ofan á, að halda okkur við sömu framkvæmd og lengja þann frest (Forseti hringir.) sem hingað til hefur verið boðaður. Ég vek líka athygli á því, frú forseti, að þessi nýja framkvæmd hefur ekki verið (Forseti hringir.) samþykkt af meiri hluta fjárlaganefndar.