144. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2014.

Ábyrgðasjóður launa.

105. mál
[16:36]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra innlegg hennar með þessu frumvarpi. Hér er verið að nema brott ákveðið skilyrði sem launamenn hafa þurft að uppfylla til þess að fá greitt úr Ábyrgðasjóði launa. Það vakti mig til umhugsunar um virkniúrræði fyrir atvinnulausa, sem við höfum svolítið rætt um. Hér liggur fyrir þingsályktunartillaga um eflingu virkniúrræða sem er að mörgu leyti afar góð. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Í þessu skyni er nauðsynlegt að nýttar verði lagaheimildir sem skylda atvinnuleitendur til að taka þátt í virkniúrræðum. Það verði skilyrði greiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði og framfærslu sveitarfélaga …“

Ég var að velta því fyrir mér, virðulegi forseti, hvort þetta rækist eitthvað saman. Ég veit að þetta eru ólíkir þættir, en hér er annars vegar verið að fella úr gildi skilyrði til að fólk geti fengið greitt úr Ábyrgðasjóði launa en hins vegar, í þingsályktunartillögunni, er verið að leggja til skilyrði, og ég velti fyrir mér hvort ráðherra mundi telja að það væri æskilegt að það yrði gert að lagaskyldu. Annað var það ekki.