138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

jöfnun námskostnaðar.

[15:11]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að við stöndum frammi fyrir erfiðum málum og þurfum víða að skera niður og þar ber auðvitað víða niður. Í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi er til að mynda gert ráð fyrir að framlög til jöfnunar á námskostnaði verði lækkuð um 30% frá fyrra ári eða úr 700 millj. kr. niður í 472 millj. kr., samanber fjárlagalið 02-884. Þessi niðurskurður er að sjálfsögðu þess eðlis að hann mun koma mjög hart niður á þeim sem hafa m.a. treyst á jöfnunarstyrk til að eiga möguleika á að stunda framhaldsnám fjarri heimili sínu. Ég hefði talið að hér væri um svokallaða grunnþjónustu að ræða sem við hefðum þurft að verja með einhverjum öðrum hætti en þeim að skera niður um 30%.

Þótt ekki sé á nokkurn hátt gert lítið úr þeim vanda sem íslensk ríkisfjármál eru í er samt ástæða til að velta því fyrir sér hvort við séum hér ekki komin að málaflokki sem við séum að ganga allt of nærri með þessum hætti. Við getum reiknað það út hvað þetta þýðir í raun og veru. Dvalarstyrkir sem ellegar hefðu átt að vera um 106 þús. kr. á önn lækka niður í 80 þús. kr. og akstursstyrkir lækka úr 60 þús. kr. í 45 þús. kr. Á sama tíma hafa auðvitað alls kyns aðrar hækkanir dunið á þeim heimilum og þeim börnum sem hafa sótt í þessa fjármuni til þess m.a. að fjármagna nám sitt.

Ég velti fyrir mér: Hvar eru yfirlýsingarnar um jafnrétti til náms óháð fjárhagsstöðu og búsetu? Í þessu sambandi veit ég vel að menntamálaráðuneytið á líka við þann vanda að etja að öll þau framlög sem komu sem mótvægisframlög á sínum tíma eru horfin úr ráðuneytinu, mörg hver á mjög bagalegan hátt sem kemur illa niður núna ef við finnum ekki þá peninga. Má þá til að mynda nefna háskólann á Keili á Suðurnesjum sem eitt dæmi um það. Mig langar að spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvort hún hyggist beita sér fyrir því að þessi niðurskurður verði ekki með þessum hætti.