150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum.

41. mál
[17:58]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni fyrir hans ræðu. Þingmaðurinn talar gjarnan um ómöguleika. Þar vísar hann í 2. lið þar sem segir að færni- og heilsumat skuli gefið út eigi síðar en tíu dögum eftir að umsókn um það berst. Ómöguleiki, segir hv. þingmaður, en virðist síðan misskilja 4. liðinn. Það er ekki verið að tala um að ganga fram hjá einhverjum eða láta einn lækni ákveða færni- og heilsumat, bara alls ekki. Þar stendur skýrum stöfum:

„Læknar geti ákveðið að einstaklingur sem bersýnilega þarf að fá vistun í hjúkrunarrými þurfi ekki að undirgangast færni- og heilsumat til þess að fá dvöl á viðeigandi stofnun.“

Hér er kannski verið að reyna að ná utan um vanda. „Bersýnilega“ þýðir einfaldlega að þær aðstæður geti komið upp að það sé ekki bjóðandi fársjúkum einstaklingi að vera fastur einhvers staðar án þess að fá úrlausn sinna mála.

Annað sem stakk mig svolítið mikið er þegar hv. þingmaður talar um að það sé ósanngjarnt að taka einhvern fram yfir og annað slíkt. Venjulega er gert heildstætt mat, eins og hv. þingmaður ætti að vita, hann er öldrunarlæknir, að mér skilst. Eða þá að þetta geti verið íþyngjandi fyrir einstaklinga, það er aldrei á neinum tímapunkti sem við erum að mælast til þess að einstaklingur verði sviptur sjálfræði sínu til að troða honum í eitthvert úrræði sem hann óskar alls ekki eftir sjálfur eða er ekki í samráði við hans aðstandendur. Ég kem kannski með það í seinna andsvari, fyrst farið er að blikka svona skemmtilega á mig.