Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 10. fundur,  29. sept. 2022.

öryggis- og varnarmál.

[11:11]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli hér í þingsal. Ég ætla að byrja á því að segja að ég tek undir með hv. þingmanni, árásarstríð Rússa í Úkraínu hefur haft hörmungar í för með sér fyrir saklaust fólk en það hefur líka haft í för með sér breytingar í öryggismálum á heimsvísu og þar erum við Íslendingar ekki undanskildir.

Ég vil byrja á því að segja það, og tel raunar að um það sé allnokkur samstaða, að þjóðaröryggisstefna sú sem var samþykkt árið 2016 hefur sannað gildi sitt á þeim árum sem liðin eru. Með samþykkt stefnunnar voru einnig samþykkt lög um þjóðaröryggisráð sem ég tel einnig að hafi sannað gildi sitt. Ég hef lagt á það mikla áherslu í ríkisstjórnartíð minni að efla starf þessa ráðs og þar hefur verið unnin mikil vinna undanfarin fjögur ár við að fylgja eftir öllum þáttum þjóðaröryggisstefnunnar. Frá því að innrás Rússa í Úkraínu hófst hefur ráðið sömuleiðis fundað þétt um þá stöðu. Nú er unnið að uppfærslu mats ráðsins í þjóðaröryggismálum í ljósi þessarar breyttu stöðu, enda hefur hún áhrif á flestalla þætti sem þjóðaröryggisstefnan tekur til.

Hv. þingmaður ræðir hér stöðu Íslands sérstaklega. Ég vil minna á það að framlög til varnarmála hafa verið aukin verulega á síðasta kjörtímabili sem snýr fyrst og fremst að því að efla viðhald á varnarmannvirkjum á Keflavíkursvæðinu. Við höfum líka verið að auka framlög til netöryggismála. Sú áhersla fellur ekki af himnum ofan heldur metum við það svo að þar sé raunveruleg hætta á ferð og því höfum við markvisst verið að auka framlögin til þeirra. Þegar horft er á fjármálaáætlun þá fara þessi framlög vaxandi og er þar tekið til ýmissa fjölþáttaógna og netöryggis, af því að það verkefni að tryggja varnir landsins snýst ekki aðeins um hefðbundna hernaðarlega ógn heldur líka um netöryggi, fjarskiptaöryggi og öryggi okkar mikilvægu innviða.

Hv. þingmaður nefnir hér hinar ógnvænlegu fréttir sem borist hafa af skemmdarverkum á gasleiðslum í Eystrasaltinu. Þessir atburðir færa ógnina mjög nærri okkur sem nú steðjar að. Við höfum fylgst grannt með þessum atburðum og verið í samskiptum við nágrannaríki okkar um aðgerðir og viðbúnað og munum bregðast við í samræmi við þau gögn sem við fáum. Ég vil nefna það sérstaklega í þessu sambandi að það er mjög mikilvægt að við treystum betur í sessi varasambönd um gervihnetti og ráðumst í endurnýjun á ratsjár- og fjarskiptakerfum. Veruleg aukning í fjárlagafrumvarpi næsta árs til að efla netöryggi er mikilvægur liður í því að treysta varnir okkar. En ég vil líka sérstaklega nefna lagningu sæstrengsins Írisar sem verður tekinn í notkun í upphafi næsta árs. Það er mjög mikilvægur áfangi í því að efla fjarskiptaöryggi Íslands við Bretland og meginland Evrópu. Þessi mál voru til umfjöllunar á vettvangi þjóðaröryggisráðs á síðasta kjörtímabili þar sem við fjölluðum um öryggi þessara tenginga.

Atburðirnir í Eystrasalti draga líka að mínu viti fram mikilvægi norræns samstarfs, sem hv. þingmaður nefnir hér, og yfirlýsing okkar forsætisráðherra Norðurlandanna undirstrikar vilja okkar til að eiga aukið samstarf á þeim vettvangi um þennan málaflokk. Við höfum einnig aukið þátttöku okkar í sameiginlegum aðgerðum á vettvangi Atlantshafsbandalagsins. Þó að við séum herlaus þjóð þá tökum við þátt í þeim verkefnum sem við teljum okkur geta leyst vel af hendi og leggjum til sérfræðiþekkingu í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar. Öll okkar þátttaka er hins vegar á borgaralegum forsendum.

Á sama tíma höfum við aukið framlög til mannúðarmála og tekið á móti flóttafólki. Við höfum sett aukna fjármuni í áætlun Atlantshafsbandalagsins í Úkraínu, þróun sérfræðiþekkingar á sviði öryggis- og varnarmála og sömuleiðis greitt kostnað vegna flutningsbúnaðar og ýmissa gagna frá bandalagsríkjum til Póllands.

Við stöndum ásamt öðrum norrænum ríkjum fyrir verkefni sem er fyrir á sviði þjálfunar í sprengjuleit og sprengjueyðingu í Úkraínu og mun Landhelgisgæsla Íslands annast það verkefni af hálfu Íslands.

Hv. þingmaður spyr um orð mín um grunnstefnu Atlantshafsbandalagsins. Ég tel að hún vitni til þess að ég lýsti því yfir réttilega að aukinn viðbúnaður Atlantshafsbandalagsins vegna innrásarinnar hefur fyrst og fremst verið í austurhluta Evrópu. Það eru ákvarðanir sem teknar hafa verið á vettvangi Atlantshafsbandalagsins af leiðtogum, en grunnstefnan er hins vegar í raun og veru grunnstefna sem er sett til lengri tíma. Þar beittum við Íslendingar okkur fyrir því að hafa fjölþættari mál undir, má segja. Við höfum t.d. beitt okkur sérstaklega fyrir því að loftslagsvá, fæðuöryggi, jafnréttismál o.fl. séu hluti af grunnstefnunni og ég vil segja að það hefur gengið með ágætum að koma þeim áherslum inn í grunnstefnuna.

Hv. þingmaður spyr hér sérstaklega um þekkingu. Ég get bara tekið undir með hv. þingmanni um að það þurfi að byggja upp þekkingu og þjálfun á öllum þeim sviðum sem varða þjóðaröryggi, hvort sem það er á vettvangi hefðbundinna varnarmála eða á öðrum vettvangi, svo sem loftslagsmálum, netöryggi, orkumálum og orkuöryggi. Þjóðaröryggisráð hefur einmitt bent á að auka þurfi sérfræðiþekkingarsvið netöryggis innan stjórnkerfisins og auka rannsóknir og greiningu. Ég kem kannski nánar inn á það í lokin en ítreka mikilvægi þess að við ræðum þessi mál hér í þingsal.