154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

Mannréttindastofnun Íslands.

239. mál
[11:46]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið en ég get ekki verið sammála því að allar nýjar stofnanir sem stofnaðar hafa verið á Íslandi frá upphafi vega séu til óþurftar. Það er ekki söguskoðun sem ég held að gangi upp. Ég get bara nefnt nokkrar þær stofnanir sem ég hef unnið með náið og ég held að þessi söguskoðun standist ekki. Ég hef nú sjálf sameinað nokkrar stofnanir, bæði sem mennta- og menningarmálaráðherra hér fyrr á öldum og síðan sem forsætisráðherra, þar sem ég sameinaði Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið og tel að það hafi verið mjög skynsamlegt. En við verðum bara … (Gripið fram í.) — einfaldlega að taka tillit til málaflokksins hverju sinni. Í þessu máli snýst þetta um að við getum í fyrsta lagi náð mjög mikilvægum markmiðum sem við höfum sett okkur. Hv. þingmaður segir: Það eru stofnanir annars staðar en þær þurfa ekki að vera hér. Við erum samt hluti af einhverju alþjóðasamfélagi, erum aðilar að alþjóðasamningum og hvort sem okkur líkar betur eða verr hafa þeir orðið til framfara fyrir íslenskt samfélag. Ég held að sáttmálinn um réttindi fatlaðs fólks eigi tvímælalaust eftir að verða þessu samfélagi til framfara, því trúi ég einlæglega. (Forseti hringir.) Þurfi það sjálfstæða stofnun þá held ég að sú stofnun sé bara mikilvægt tæki til að ná þeim markmiðum. Ég kem aðeins betur inn á réttindagæslumanninn í síðara svari.