140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:26]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa ræðu. Mörgu var velt upp sem snertir þetta mál. Þingmaðurinn fór aðeins yfir mannréttindakafla stjórnarskrárinnar en hann var lögleiddur 1995 og hefur komið nokkuð góð dómaframkvæmd á hann, ekki er hægt að segja annað. Í kjölfar þess að stjórnarskrá er breytt rísa oft álitaefni um þau atriði sem hefur verið breytt.

Ég spyr því hv. þingmann hvað henni finnist um það að mannréttindakaflanum sé umbylt í þeirri þingsályktunartillögu sem liggur fyrir. Ég spyr ekki síst vegna þess að töluverð sátt hefur ríkt um þennan hluta stjórnarskrárinnar eftir síðustu breytingu.

Í öðru lagi langar mig að spyrja hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur hvort ekki sé verið að blekkja þjóðina með því að leggja til að þessar tillögur fari í þjóðaratkvæðagreiðslu í október í ljósi þess að nú hefur verið ákveðið að skipa sex til sjö manna lögfræðiteymi til að vinna að þessu máli í sumar, en ætlunin er að sá hópur skili tillögum sínum til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fyrir þingbyrjun í haust. Verður fyrirhuguð atkvæðagreiðsla þá ekki þegar orðin úrelt? Nú verður kannski samþykkt, eða þegar málið verður afgreitt, að setja ákveðnar spurningar í þjóðaratkvæðagreiðslu í haust en þegar sú atkvæðagreiðsla fer fram verður jafnvel búið að breyta áhersluatriðum í samræmi við tillögur umrædds lögfræðihóps.