144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

störf þingsins.

[14:05]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða hér um lífskjörin og notkun hagtalna. Það er mikilvægt fyrir okkur að leita í slíka mælikvarða og nota til að greina stöðu í þeirri viðleitni okkar að hafa áhrif á þjóðfélagsmálin, taka ákvarðanir og móta stefnu enda speglast þörfin í lögbundnu hlutverki stofnana sem sinna tölfræðilegri úrvinnslu og gagnamiðlun, meðal annars í formi hagtalna.

Eins og okkur er öllum ljóst er nú uppi alvarlegri og flóknari staða á vinnumarkaði en við höfum átt að venjast um langa hríð, staða sem við ræddum meðal annars hér í sérstakri umræðu í gær. Fram að þjóðarsáttarsamningum 1990 upplifðum við áratugabaráttu við verðbólgu, víxlverkun launahækkana og verðlagshækkana. Hagtölur í dag segja okkur að hér hefur nú náðst sögulegur stöðugleiki þar sem verðbólgan hefur um langt skeið verið undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans en á því grundvallast sú kaupmáttaraukning sem náðist hér frá síðustu samningum. Þá eru mælikvarðar eins og félagsþróunarvísitala sem bendir til þess að jöfnuður sé óvíða meiri en hér á Íslandi og lífsgæðastaðallinn hár. Sömu niðurstöðu er að finna í tekjudreifingarmælikvörðum OECD.

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir allt er uppi ástand, það er órói, óánægja sem mikilvægt er að bera virðingu fyrir og greina. Við verðum til að mynda að setja þessa hluti í samhengi við fyrirliggjandi tekjustig og útgjaldamynstur ólíkra hópa. Hagtölur segja sannarlega sögu en ekki alla söguna. Kröfurnar um að lægstu laun miðist við að hægt sé að lifa af þeim eru sanngjarnar. Markmið um myndarlega hækkun lægstu launa á að geta samrýmst því markmiði að halda verðbólgunni í skefjum og verja stöðugleikann, en það er jafnframt óábyrgt að rýna ekki í hagtölur þegar kemur að stöðugleikanum.