144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[17:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þó að 50 milljónir séu ekki háar fjárhæðir í heildarsamhengi hlutanna verðum við samt sem áður að spyrja okkur hvort það sé tilefni til að vera með þetta fyrirkomulag, þetta utanumhald. Meginatriðið í þessu frumvarpi er að það sé hægt að gera þetta með hagkvæmari og skilvirkari hætti sem tryggir engu að síður armslengdarsjónarmiðin. Eins og ég sagði í andsvari við hv. þm. Össur Skarphéðinsson, ef það bara syrtir fyrir augum á mönnum og menn ætla að fórna sér í að tefja hér þingstörf út af svona lítilli kerfisbreytingu, gott og vel, þá skipar bara sá sem hér stendur þrjá stjórnarmenn í stjórn Bankasýslunnar, við setjum þessa fjármuni áfram í að reka stjórnina og þrjá starfsmenn og vonandi hafa þeir nóg að gera allan daginn, alla daga ársins, við að verðmeta Landsbankann og halda utan um eignarhluti okkar í sparisjóðnum þangað til við förum í söluferlið. Þá verður sannarlega mikið að gera.