144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[18:02]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Bankasýslan var að sammæli nánast gervalls þingheims árið 2009 sameiginleg tilraun til að koma í veg fyrir að sama ástand skapaðist og í kjölfar einkavæðingar bankanna. Núna stendur aftur fyrir dyrum einkavæðing vegna þess að allt bendir til þess að við afnám gjaldeyrishafta lendi tveir stóru bankanna í eignarhaldi ríkisins. Þá stöndum við frammi fyrir þessu aftur. Hvað er þá hér að gerast? Jú, það er verið að henda burt Bankasýslunni. Hvers vegna höfum við hana ekki áfram? Hvers vegna höfum við hana ekki þann tíma sem þarf til þess að afsetja meiri hlutann af þessum eignum? Menn hafa spurt í dag: Hvers vegna settu menn sólarlagsákvæði? Svarið er: Vegna þess að menn töldu einfaldlega að þá væri búið að selja þessar eignir.

Nú er verið að setja upp kerfi sem er þannig að ráðgjafarnefnd, jafn ósjálfstæð og hv. þingmaður lýsti áðan, er skipuð af ráðherra. Ráðherrann getur sjálfur tekið að eigin frumkvæði ákvörðun um að hefja söluferlið. Hvern þarf hann að spyrja? Jú, ráðgjafana sem hann skipar sjálfur, Seðlabankann.

Frú forseti og hv. þingmaður. Skiptir það ekki líka máli í þessu að horfa til (Forseti hringir.) frumvarps um Seðlabanka þar sem á að fjölga bankastjórum um þrjá? Er ekki líka verið að (Forseti hringir.) þrengja þar að sjálfstæði? Er ekki líka verið að koma krumlu hins pólitíska valds inn í þennan feril?