144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[18:35]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ef ég á að segja alveg eins og er þá hefði ég mun frekar viljað eiga áfram ágætt samtal við hv. 2. þm. Reykv. n., Frosta Sigurjónsson, þar sem ég tel hann tvímælalaust hafa ferskustu hugmyndirnar um banka- og peningamál almennt. Vissulega er þörf á að ræða þau og gott að nýta hvert tækifæri til þess vegna þess að þau eru viðamikil og ég leyfi ég mér að fullyrða að margir skilja þau ekki það vel, bæði á meðal almennings og jafnvel á hinu háa Alþingi. Þetta er málaflokkur sem er auðvelt að gefa sér að maður skilji þegar reyndin er sú að maður skilur hann ekki alveg nógu vel. Hagfræðin er þess eðlis að það takast á peningaöfl sem eru að einhverju leyti vísindaleg en sömuleiðis hápólitísk og háð stærstu og áhrifamestu hagsmunum mannkyns, hvorki meira né minna, vil ég meina. Því er þess virði að ræða hugmyndir á borð við samfélagsbanka og því um líkt. Ég fagna því að hv. þm. Frosti Sigurjónsson sé reiðubúinn til þess og vona að sem flestir þingmenn séu til í þá mikilvægu umræðu.

Aftur á móti stöndum við líka frammi fyrir sögunni og því sem við vitum að hefur gerst. Við höfum líka ákveðna reynslu og við getum dregið ályktanir út frá því kerfi sem við búum við núna og ályktað hverjar séu líklegar afleiðingar af gjörðum okkar með hliðsjón af sögunni, þ.e. ef við gerum sama hlutinn aftur undir sömu kringumstæðum og kenning okkar um kerfið reynist rétt sem er ekkert endilega tilfellið.

Í meginatriðum snýst þetta frumvarp um að einkavæða fjármálafyrirtæki ríkisins. Það er ekkert smáatriði, það er í raun og veru upphafið að því sem leiddi af sér hrunið 2008. Þótt ég sé nú ekki gamall þá man ég mjög vel umræðuna sem fór fram á sínum tíma um það hvernig eignarhaldið ætti að vera. Upprunalega kom til tals að það yrði dreift og síðan var af einhverjum ástæðum, sem mér eru ekki enn þá ljósar, ákveðið að eignaraðild yrði þjappað þannig að til staðar yrðu stórir kjölfesufjárfestar. Þetta taldi ég á þeim tíma, þrátt fyrir að hafa ekki verið mjög gamall, vera mikil mistök og tel enn. Þess vegna gleður það mig að heyra menn tala um að heppilegast sé að hafa eignaraðild dreifða og sömuleiðis kemur það gleðilega á óvart að heyra hæstv. fjármálaráðherra taka í sama streng.

Nú vil ég varpa fram þeirri hugmynd að eignaraðild verði sem allra dreifðust þannig að ef menn vilja kaupa einhver hlutabréf þá þurfi þeir að díla við aragrúa af fólki. Ég held að það geti verið heppilegast til þess að byrja ferlið vel. Ef einhver er ósammála mér vona ég svo sannarlega að viðkomandi komi í andsvar við mig og útskýri fyrir mér hvað er rangt við það. Ég þykist alls ekki vera neinn sérfræðingur á þessu sviði en tel mig þó þekkja ýmislegt með hliðsjón af sögunni og því sem allir vita hér og auðvitað út frá þeim upplýsingum sem liggja fyrir á hinu yndislega interneti.

Það sem vefst aðallega fyrir mér í þessu máli er að mér sýnist áætlanirnar vera frekar óljósar. Mér er ekki ljóst hvernig hæstv. ráðherra hyggst fara með þetta. Með hliðsjón af því, ég verð bara að segja eins og er, að Íslendingar hafa í gegnum tíðina ekki sýnt fram á að hafa mikið fjármálavit þá finnst mér mikilvægt að við stöldrum við og ígrundum verulega hvað við ætlum að gera og á hvaða forsendum. Ég upplifi oft á hinu háa Alþingi og reyndar úti í samfélaginu almennt svolítið eins og ég sé kominn til Íslands stuttu fyrir hrun. Ég upplifi mikið til sama hugsanaganginn, upplifi að menn gefi sér sömu forsendurnar og gleymi stundum sömu forsendunum. Ein forsendan er sú að við erum agnarlítið samfélag með agnarlítinn gjaldeyri. Við erum með krónuna sem er pínulítill gjaldmiðill. Þetta þýðir að við getum einfaldlega ekki tekið hefðbundnar og jafnframt stærstu efnahagskenningar heimsins og heimfært þær yfir á Ísland. Það er margt allt öðruvísi hérna en erlendis. Þetta var reyndar eitt af því sem þvældist fyrir okkur fyrir hrun. Menn töldu þetta einhvern veginn geta útskýrt það, ásamt hinni meintu snilligáfu íslenskra fjárfesta, hvernig uppgangurinn hér gæti átt sér stað án þess að í kjölfarið yrði mikil sprenging.

Ég man mjög vel eftir því fyrir hrun að menn vöruðu við hruni, að vísu ekki af þvílíkri stærðargráðu eins og ég varaði við á þeim tíma. Mér þótti þetta frekar augljóst. Það var eitthvað sturlað við samfélagið. Það var ekki rökrétt hversu rík við áttum að vera með hliðsjón af því að allir sem maður þekkti voru skuldugir upp fyrir haus en voru samt sem áður einhvern veginn rosalega ríkir. Þetta stóðst ekki. Ég hef áhyggjur af því að menn beiti of mikið hefðbundnum efnahagskenningum á Íslandi, í of miklum mæli, of hratt, of snemma, frekar en að staldra við og reyna að læra lexíu af sögu Íslands og auðvitað heimsins alls upp að því marki sem mögulegt er í þessum málum.

Eins og hv. 4. þm. Reykv. n., Össur Skarphéðinsson, kom inn á og sagði svo glæsilega frá þá þjappast hvergi vald jafn mikið saman og í bönkum. Þeir eru gríðarlegar valdastofnanir þegar allt kemur til alls. Ég held því fram að samfélagið sem við búum í, mannlegt samfélag, samanstandi í meginatriðum af ýmsum tegundum af samskiptum fólks. Við höfum samskipti með ýmsum hætti, með tungumáli, með því að gera hvert öðru greiða, með því að lofa hvert öðru einhverju, skemmta okkur með hvert öðru og rífast af og til. En það er eitt kerfi í mannlegu samfélagi sem er undirliggjandi og kemur stjórnmálum við og því hvernig við högum okkur og skipuleggjum samfélagið og almenningur skilur hvað minnst í og jafnvel stjórnmálamenn, þori ég að fullyrða, það er peningakerfið. Fólk skilur ekki eðli peninga. Meðan staðan er þannig þá vekur það mér ugg að við á hinu háa Alþingi förum með mál sem þessi, í pólitískum ágreiningi í þokkabót, án þess að það sé nægilega mikill skilningur meðal þjóðfélagsins sjálfs og jafnvel okkar til að taka upplýstar ákvarðanir til lengri tíma. Það er meðal annars af þeim ástæðum sem ég staldra svolítið við þetta frumvarp.

Eins og aðrir þingmenn sem hér hafa talað áskil ég mér fullan rétt til þess að mynda mér skoðun við meðferð þingsins á málinu. Mér finnst þetta í skásta falli ekki tímabært. Það eru stór atriði sem við stöndum frammi fyrir núna eins og staðan á vinnumarkaði, sem verður eitthvert vesen sama hvernig fer, það er augljóst mál. Það er alveg sama hvernig fer, það mun breyta einhverju. Sú staða sem við erum í núna mun breytast, það ætti að vera augljóst, og sömuleiðis gjaldeyrishöftin sem er enn ein breytan sem ég vil meina að menn skilji ekki til hlítar, svo ekki sé talað um húsnæðisbóluna og hinar og þessar bólur vegna þess að fjármagnið leitar inn á við í miklu meiri mæli en ella væri. Sú tilgáta er vissulega rökrétt að mínu mati en það er ekkert víst að hún sé samt sem áður sönn. Það sem er rökrétt er ekki endilega satt. Það er fullt af rökréttum hugmyndum sem eru ekki í samræmi við raunveruleikann. Það er eins í fjármálum og öllum öðrum vísindum og meintum vísindum.

Enn annað sem hv. 2 þm. Reykv. n. kom einnig inn á er það hvernig ríkið þénar hvað mest á því sem fyrir liggur — með sölu eða hagnaði af bönkunum? Mér þykir þetta veigameiri spurning en fólk gefur sér tíma til að hugleiða almennilega. Það sem gerist í kreppu á borð við þá sem átti sér stað 2008 er að ríkið og almenningur verða með einum eða öðrum hætti ábyrg fyrir því hvernig ákveðnir aðilar á markaðnum fara með sitt fé. Hugmyndin er í grundvallaratriðum sú að það sé einkamál hvernig maður fjárfestir og fer með fé sitt. Þegar um er að ræða hins vegar stóra banka eða mikil umsvif þá hættir það að vera einkamál manna og fer að varða allan almenning. Þetta kemur yfirleitt í ljós við hrun, er reyndar mjög skýrt í hruni en þykir heldur óljóst áður. Litið er á peningafrelsi, bankafrelsi og viðskiptafrelsi sem sama hlut og einstaklingsfrelsi. Það er hugarfar sem ég vara eindregið við vegna þess að þetta er einfaldlega ekki það sama. Það eru takmörk fyrir því hversu stór og sterkur einstaklingur verður en það eru engin takmörk fyrir því hversu stór og sterkur banki getur orðið eða fyrirtæki og því er eðlismunur þar á. Viðskiptaleg umsvif geta orðið miklu meiri en líkamlegur eða andlegur styrkur einnar manneskju og því legg ég til að munurinn á viðskiptafrelsi og einstaklingsfrelsi sé grundvallarmismunur sem við megum ekki missa sjónar af þegar við tölum um frelsi almennt.

Ég er maður frelsis en spurningin er ekki einfaldlega frelsi eða ekki frelsi heldur hvers eðlis frelsið er og hvenær frelsið er orðið að valdi. Ég fyrirlít vald þótt ég elski frelsi og geri mér grein fyrir heimspekilegri togstreitu þar á milli sem er þess virði að ræða. En þegar kemur að efnahagsmálum þá trúi ég ekki að þetta sé svo einfalt að fjármálamarkaðurinn sé einkamál þeirra sem taka þátt í honum. Þetta er almannahagsmunamál. Það skiptir máli hvernig er farið með fé, það skiptir almenning máli. Með hliðsjón af þeim veigamiklu mistökum sem við höfum gert í gegnum tíðina hér á landi í fjármálum, óháð því í raun hvað við tiltökum, þá finnst mér að við verðum að staldra við og íhuga næstu skref mjög vandlega og velta enn fremur fyrir okkur fleiri veigamiklum atriðum sem liggja ekki fyrir í þessu tiltekna frumvarpi eða öðrum náskyldum frumvörpum.

Ég vil sérstaklega taka fyrir þær hugmyndir sem hv. 2. þm. Reykv. n. er gjarn á að koma hér fram með um eðli peninga, eðli bankakerfisins, fjármálakerfisins o.s.frv. Ef almenningur skilur þetta ekki og jafnvel þingmenn skilja þetta ekki þá getum við ekki tekið rökréttar upplýstar ákvarðanir. Ég tel það mjög alvarlegt vandamál og að hollt sé fyrir okkur að ræða það hér, ekki í þeim gír að við þykjumst vita þetta allt fyrir fram heldur þvert á móti í þeim gír að við séum að ræða saman, eins og maður hélt einhvern tíma að ætti að gera á Alþingi í meira mæli en gert er, og reyna að horfa fram á við í þessum málum með auðmýkt því að okkur er ekki ljóst hvernig herjað verður á efnahagskerfið í framtíðinni.

Nú er ansi lítill tími eftir. Þá langar mig að nefna eitt sem mér þykir þess virði að íhuga í mjög víðu samhengi. Það eru hraðar breytingar, í eðli sínu. Ef ég skil þessa kapítalísku bankakenningu rétt þá er hugmyndin sú að bankaframleiðsla, eins og hv. þm. Frosti Sigurjónsson mundi kalla það, þ.e. lánveitingar og fjárfestingar sem er lánað fyrir, sé þannig að fjármagnið sjálft verði til meira eða minna í hlutfalli við verðmætasköpun í samfélaginu — með öðrum orðum, í fjárfestingarskilningi, að peningamagn í umferð afmarkist af eftirspurn, eftirspurnin eftir fjármagni afmarkist af raunhæfum væntingum fjárfesta til framtíðarinnar, raunhæfum væntingum, vil ég undirstrika.

Nú er svo komið að við búum í heimi sem breytist ofboðslega hratt. Ég ímynda mér að hann hafi aldrei verið jafn ófyrirsjáanlegur og akkúrat núna. Þess vegna liggur meira á en nokkru sinni fyrr að við förum varlega hvað svo sem við gerum og að við reynum ekki að láta eins og kenningar sögunnar séu sjálfkrafa góðar og gildar vegna þess að þær hafi virkað fyrir 100 eða 200 árum, ekki að þær hafi endilega gert það þegar allt kemur til alls. Við verðum að vara okkur sérstaklega núna vegna þess að við vitum ekki hvert raunverulegt verðmæti næstu tæknibyltingar verður. Við vitum ekki hvaða verðmæti aukast í samfélaginu við að drónar urðu til, þrívíddarprentarar eða internetið. Þetta þýðir að við erum veikari fyrir sveiflum en ella, sveiflurnar verða stærri en ella og þess vegna er mikilvægara núna en fyrr að fara varlega.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.