144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[21:09]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fara yfir þetta mál en óttast að mér endist ekki tími til að ræða alla þætti þess sem þörf er á að rekja. Í fyrsta lagi vil ég geta þess, vegna þess að hér hefur spunnist nokkur umræða um þörf á sparnaðaraðgerðum og að af hálfu stjórnarandstöðunnar gæti óraunsæis og skorts á vilja til að spara í ríkisrekstri, að forsendan fyrir sparnaði í ríkisrekstri með niðurlagningu stofnana er að verkefnum sem stofnanir sinna sé hægt að koma fyrir með jafn góðum eða betri hætti annars staðar. Það hefur mjög oft verið hægt og við höfum stutt slík tilvik. En í þessu tilviki er í þeirri útfærslu sem hér er lögð til engin leið til að gegna því hlutverki boðlega sem Bankasýslan sinnir í dag með því að fella verkefnin til fjármálaráðuneytisins. Það er því ekki uppfyllt sú lágmarkskrafa að verkefnunum sé hægt að sinna jafn vel eða betur eftir breytinguna.

Í frumvarpinu og athugasemdum við það er eiginlega alveg ótrúlegt að lesa hvernig menn slá úr og í og nota ólík rök. Það er eiginlega ekki að finna þar heila brú í nálguninni gagnvart viðfangsefninu. Í upphafi er talað um, og rangt farið með, ástæðurnar fyrir stofnun Bankasýslunnar á sínum tíma og sagt að tilurð hennar hafi verið sú að íslenska stjórnkerfið hafi haft í nógu að snúast á þeim tíma og menn hafi viljað útvista þessu verkefni af þeirri ástæðu. Það er efnislega rangt. Það var í tillögum Mats Josefssons, sænsks sérfræðings, að sett yrði á fót helst hlutafélag sem væri í eigu ríkisins eða þá ríkisstofnun, með þeim hætti sem síðar varð ofan á, sem tryggði að stjórnmálin kæmu hvergi nærri ákvörðunum sem voru óumflýjanlegar um skuldaskipti og framtíð fyrirtækja og einstaklinga í landinu og það þyrfti að halda stjórnmálunum frá fjármálalegum ákvörðunum, vegna þess að bankar eru ekki eins og hvert annað fyrirtæki á markaði. Þegar hér getur í athugasemdum með frumvarpinu á bls. 8–9, sérstaklega á bls. 8, þegar vitnað er í önnur fyrirtæki í ríkiseigu þar sem forræði er í fjármálaráðuneytinu, eins og Isavia og Rarik o.s.frv, er alls ekki hægt að leggja fjármálafyrirtæki á markaði að jöfnu við slík fyrirtæki sem sinna tilteknum samfélagslegum verkefnum. Það er grundvallarvandamál að ríkið eigi með virkum hætti í banka en það er ekki grundvallarvandamál að ríkið eigi með virkum hætti í Rarik eða Isavia eða öðru slíku fyrirtæki. Þess vegna var það sjálfstætt markmið, af því að pólitískt eignarhald á bönkum er talið almennt skaðlegt í öllum siðuðum ríkjum, þess vegna var farin sú leið að aðskilja þetta með stofnun Bankasýslunnar. Það er gert fyrst og fremst til að tryggja armslengd frá hinu pólitíska valdi við efnislegar ákvarðanir í bönkum.

Þar fyrir utan hefur sú breyting orðið frá því að þessi lög voru sett að eignarhaldið og reglunarhlutverkið er komið í eitt og sama ráðuneytið, fjármálaráðuneytið. Þegar lögin um Bankasýsluna voru sett var reglunarhlutverkið í viðskiptaráðuneytinu en eignarhald ríkisstofnana í fjármálaráðuneytinu og meðferð eignarhluta ríkisins almennt séð. Það er algerlega fráleitt þess vegna að fella saman eignarhaldið og stjórnsýslulegt hlutverk, að undirbúa löggjöf um fjármálamarkaðinn og hafa eftirlit með framkvæmd laga á fjármálamarkaði og fella það allt í eitt og sama ráðuneytið. Af því er bitur reynsla. Viðskiptaráðuneytið gerði þetta á sínum tíma og það þótti ekki gott og ekki til fyrirmyndar. Ég hef reynslu af því. Ég sat í síðustu stjórn Búnaðarbankans áður en hann var einkavæddur, sem fulltrúi ríkisins, og það var mjög sérkennilegt að eiga við eitt og sama ráðuneytið um athugasemdir við ákvarðanir okkar í stjórninni í einstaka málum, sem var svo aftur sama ráðuneytið sem setti okkur reglur um starfsemina að öðru leyti. Þetta er mjög varhugaverð blanda og ekki til fyrirmyndar og tíðkast ekki í nokkru siðuðu ríki.

Í athugasemdum við frumvarpið á bls. 9 er að finna almennt snakk um það að hlutverk slíkrar einingar í fjármálaráðuneytinu yrði skýrlega aðgreint frá öðrum hlutverkum ráðuneytisins sem beinast að fjármálafyrirtækjum almennt og með því móti dregið úr mögulegum hagsmunaárekstrum vegna ólíkra hlutverka, þá sé mikilvægt að skipulag verkefna innan ráðuneytisins taki mið af þessum ólíku hlutverkum og að slík aðgreining tryggi að trúnaðarupplýsingum sé ekki miðlað. Einnig verði tryggt að verkefni einstakra sérfræðinga ráðuneytisins afmarkist við annað ofangreindra hlutverka. Þetta er almennt snakk og skuldbindur ekki einu sinni ráðherrann frá einum degi til annars. Á þeim grundvelli á að fella jafnt eignarhlut í fjármálafyrirtækjum og ákvörðunarvald um meðferð hans, óbeint boðvald yfir stjórn fyrirtækisins sem situr í umboði ráðherrans og reglunarvaldið með fyrirtækjunum. Ég held að mönnum sé ekki algerlega sjálfrátt með því hversu vond sú uppstilling er. Hún er algerlega fráleit.

Ég held satt að segja að þá væri betra að fela hæstv. viðskiptaráðherra umsjónina með þessu, ef verið væri að fella þetta inn í eitthvert ráðuneyti, ef fjármálaráðuneytið fer með reglunarhlutverkið. Það er ekki heldur eins og viðskiptaráðherrann sé verkum hlaðinn eftir að náttúrupassinn dagaði uppi. En þessi umgjörð er algerlega fráleit.

Hér er verið að afnema í stuttu máli sagt alla skuldbindandi regluumgjörð um sölu banka. Við höfum af því skelfilega reynslu við síðustu bankasölu að hafa engar almennar skýrar reglur. Það stendur vissulega að Ríkisendurskoðun eigi að hafa eftirlit að sölunni eftir á. Það gerði hún líka síðast og gaf heilbrigðisvottorð, ferli sem allir vissu þá að var byggt á lygum. Tilbjóðendur í Búnaðarbanka fengu hæstu einkunn fyrir skýrleika tilboðs en tilboðsgjafarnir voru allt aðrir í annarri umferð en í fyrstu umferð. Það var útlendur fjárfestingarbanki í fyrstu umferð og það var orðinn einhver þýskur Hauck & Aufhäuser-banki sem var svo lítill að það var óhugsandi að hann gæti sjálfur fjárfest í Búnaðarbankanum, enda kom það í ljós að hann hvarf af vettvangi hratt og örugglega, enda var hann aðeins upp á punt og svindl.

Virðulegi forseti. Hvernig dettur mönnum í hug að endurtaka leikinn með þessa sögu? Engar skuldbindandi reglur. Að lesa hið almenna snakk á bls. 13 í athugasemdunum er móðgun við þingheim, virðulegi forseti, hrein móðgun við þingheim; að tryggja þar hlutlægni til dæmis um mat á tilboðum, almennt skuli eignarhlutar boðnir til sölu með opinberum hætti o.s.frv. Það er búið að prófa þetta með svona óljósri umgjörð og við vitum hver niðurstaðan var. Það er gríðarlegur ábyrgðarhluti að ætla að halda því áfram.

Í þessu frumvarpi er ekki að finna neina umgjörð, hvorki um meðferð eignarhaldsins né um sölumeðferð hluta. Það er þetta almenna snakk um sjónarmiðin og það er engin armslengd tryggð. Það er talað um að sömu embættismennirnir í fjármálaráðuneytinu eigi ekki að sinna reglunarhlutverkinu og eftirlitinu en það er ekkert sem skuldbindur ráðherrann til að haga málum á þann hátt. Þegar öllu er á botninn hvolft er það sami ráðherrann sem ákveður örlög embættismannanna, hvort sem þeir fara með eftirlitið með bankanum eða eftirlitið með fjármálamarkaðnum. Hvort er líklegra að þeir hlusti eftir andardrætti ráðherrans eða lesi það almenna snakk sem var að finna í þessu frumvarpi þegar á hólminn er komið? Auðvitað munu þeir hlusta eftir því hvaðan vindurinn blæs frá ráðherranum. Það er þess vegna sem það var sjálfstætt markmið að fjarlægja hið pólitíska vald ákvörðunarvaldinu í þeim atriðum.

Síðan er búin til umgjörð sem er svo veikburða sem hugsast getur. Ráðherrann á að ráðfæra sig við ráðgjafarnefnd. Og hverjir skipa hana? Er það háskólasamfélagið? Nei. Eru það tilnefningar sérfróðra aðila? Nei. Eru það tilnefningar frá ólíkum stjórnmálaflokkum? Nei. Eru það tilnefningar frá aðilum vinnumarkaðarins? Nei. Hann velur það sjálfur. Bent hefur verið á í umræðunni hvernig þessir stjórnarflokkar hafa farið með valdið þegar þeir hafa það, eins og í stjórn LÍN, skipa bara sína eigin flokksmenn í stjórnina.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur skipað ótölulegan fjölda starfshópa um afnám hafta þar sem eru einungis karlkyns vildarvinir hans — fyrirgefið, vildarvinir hans og forsætisráðherrans og engir aðrir. Hæstv. fjármálaráðherra hefur skipað ráðgjafarnefnd um efnahagsmál. Eigum við að ræða hverjir sitja í henni? Hæstv. fjármálaráðherra hefur valið trúnaðarmenn til starfa við framkvæmd skuldaleiðréttinga og innleiðingu rafrænna skilríkja. Hæstv. fjármálaráðherra hefur ítrekað orðið ber hér að ósannindum um tilurð þess þegar hann bar fé á Hannes Hólmstein Gissurarson og fól honum að rannsaka tilurð hrunsins og hann hefur margsinnis reynt að halda því fram, gegn betri vitund, farið með ósannindi jafnt úr þessum ræðustól sem annars staðar, að Félagsvísindastofnun hafi átt frumkvæðið að því öllu saman og það hafi verið fagleg ákvörðun fjármálaráðuneytisins að semja við Félagsvísindastofnun, þegar það liggur fyrir af hálfu Félagsvísindastofnunar að það var Hannes Hólmsteinn Gissurarson sem kom með bílinn og var búinn að landa honum frá hæstv. fjármálaráðherra. Maður spyr sig þá: Verður það Hannes Hólmsteinn Gissurarson, Árni Sigfússon og Tryggvi Þór Herbertsson sem sitja í þessari ráðgjafarnefnd? Hversu skylt getur skeggið orðið hökunni? Það er grundvallarvandi fyrir hendi í samfélaginu, alger skortur á trausti í stjórnmálum, og það liggur fyrir pólitísk stefnumótun, sem við náðum með þverpólitískri samstöðu í þinginu þegar Bankasýslan var stofnuð, að verða meira að segja við kröfum þáverandi stjórnarandstöðu, núverandi stjórnarflokka, um að auka enn á fjarlægðina frá ráðherravaldi til hinnar nýju stofnunar, auka enn á beintengingu stofnunarinnar við þingið. Hvernig dettur mönnum í hug að leysa þá umgjörð alla saman og setja enga umgjörð í staðinn, engar hömlur, búa aðeins til farveg til að ráða þessu sjálfur með vildarvinum sínum og sérvalinni ráðgjafarnefnd? Það er algerlega ótrúlegt að horfa upp á þetta.

Ég hef vikið lauslega að upptalningunni um aðrar ríkisstofnanir. Það er mjög mikilvægt að hafa í huga að það gilda efnislega allt önnur rök um eignarhald í bönkum vegna þess hvert hlutverk banka er, hvernig þeir geta ef valdi er misbeitt gagnvart þeim valið þá sem sigra í samfélaginu og þá sem tapa, hvernig við höfum áratugalanga sögu af misbeitingu pólitísks valds í höndum þessara stjórnarflokka gagnvart bönkum í ríkiseigu, hvernig þeir hafa purkunarlaust beitt valdi sínu til að velja sigurvegarana og taparana í íslensku samfélagi, hvernig þeir hafa lekið upplýsingum í vildarvini um yfirvofandi gengisfellingar og gefið þeim séns á gjaldeyrisyfirfærslum á gamla genginu. Og hér á að halda leiknum áfram, endurvekja þann algera skort á reglufestu og faglegri umgjörð sem var grunnurinn að verstu misbeitingu pólitísks valds í fjármálakerfinu á undanfarinni öld.

Að síðustu: Hér tala menn í umræðunni hættulega glaðbeittir, finnst mér, um að fyrir þessu hörmungarfrumvarpi hljóti að fara eins og náttúrupassanum vegna þess að Framsóknarflokkurinn hefur talað fyrir því að ekki eigi að selja hlutinn í Landsbankanum. Ég hef enga trú á að Framsóknarflokkurinn standi í lappirnar í þessu máli, ekki nokkra. (Gripið fram í.) Ég held að nú fáum við að sjá svona hrikalegt niðurlag eins og í matarskattinum, að í staðinn fyrir að 30% hlutur verði seldur verði 29% hlutur seldur og Framsóknarflokkurinn lýsi yfir gríðarlegum stuðningi eins og þegar matarskatturinn fór úr 12% í 11 og þá komi sigurópið mikla, að þeir hafi fengið fullan sigur fram. Þetta er stórhættulegt frumvarp. Það grefur undan góðri stjórnsýslu í landinu, (Forseti hringir.) það grefur undan fjármálasiðferði í landinu og er hæstv. fjármálaráðherra til háborinnar skammar.