138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[16:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tók það fram varðandi hækkun launa og aukningu velferðarkerfisins að þetta var raunhækkun, þ.e. umfram verðlag. Þetta var raunverulega það sem fólkið fékk meira í vasann eftir að verðbólgan var dregin frá. Svo náttúrlega varð hrunið og þetta datt til baka þannig að nú þurfa menn að fara kannski sex ár aftur í tímann til að ná sömu stöðu, en langt í frá þessi átján ár, sem betur fer.

Ég er ekki að afneita stefnu Sjálfstæðisflokksins, mér finnst hún góð. Hún var góð og þegar menn tala um að ójöfnuður hafi aukist, þá var það vegna þess að það voru fleiri sem stunduðu nám og það voru fleiri erlendir verkamenn sem fylltu lægstu tekjuhópana. Ég hugsa að ef það er dregið frá verði ójöfnuðurinn ekki eins slæmur og menn hafa sagt. (Gripið fram í.)