145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[12:01]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að koma hér upp og ræða fundarstjórn, en ég verð að segja að ég varð ákaflega hissa þegar ég leit á mælendaskrána og áttaði mig á því að hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar stjórnarflokkanna hefðu ekki meiri áhuga en raun ber vitni á að ræða þetta risastóra mál sem búið er að skekja hér samfélagið allt og hefur orðið til þess að ráðherrar hafa sagt af sér.

Það er búið að ákveða að flýta kosningum. Ég hefði haldið að hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar stjórnarflokkanna hefðu þá verulegan áhuga á að ræða sína sýn í þessum málum, hvernig þeir sjá fyrir sér að við getum tekið á þessum málum hér á þingi, hvort þetta sé rétta leiðin eða hvort einhverjar aðrar leiðir séu betri.

Ég verð því að taka undir með þeim sem hér hafa talað og lýsa yfir undrun minni þegar svona stór mál eru undir í umræðu að við heyrum ekki meira frá stjórnarflokkunum.

Ég vonast til þess að við munum heyra frá þeim því að þetta er mál sem við ættum að geta skipst á skoðunum um og velt fyrir okkur hvernig við ætlum nákvæmlega að taka á því, á máli sem er ekki bara alvarlegt fyrir efnahagslífið, alvarlegt fyrir fjármálakerfið, heldur líka gríðarlega alvarlegt fyrir traust almennings á stjórnmálum í landinu.