144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[18:47]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þarf kannski að stafa þetta og segja skýrar að hæstv. fjármálaráðherra er búinn að leggja fram frumvarp sem heimilar kaupauka með ákveðnum skilyrðum. Verði það að lögum verður bönkum heimilt að greiða slíka kaupauka. Hvaða afstöðu ætlar hann þá að taka af því að hann mun fara með hlutabréfið á hluthafafundum? Það er það sem ég er að vísa til. Ég vona auðvitað eins og hv. þingmaður að mér takist að koma vitinu fyrir flokksmenn hans og er ánægjulegt að heyra stuðning hans í því efni að hemja þessa kaupaukavitleysu og koma í veg fyrir hana. Við erum að vinna að því í efnahags- og viðskiptanefnd. Vonandi náum við saman um það í nefndinni að vera ekkert að búa til kaupauka og þakka hv. þingmanni hjartanlega fyrir að veita hér liðsstyrk í þingræðu hvað það varðar. En verði frumvarp ráðherra óbreytt að lögum mun hann fá það vald í hendur að ákveða hvaða forsendur hann ætlar að leggja til grundvallar á hluthafafundum að þessu leyti og hann hefur ekki útskýrt hvernig hann mun fara með það vald.

Ég útskýrði áðan varðandi SpKef og Byr þá einföldu staðreynd að þessar stofnanir voru aldrei fullfjármagnaðar af hálfu ríkisins. Þess vegna kallaði ég þær zombie-banka. Ég gerði þá kröfu, bæði sem félagsmálaráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra, að menn flýttu sér eins og mögulegt væri með uppgjör þessara stofnana til að þær gætu veitt fyrirtækjum og fólki úrlausn eins og aðrar fjármálastofnanir. Þegar á endanum varð ljóst að ekki var hægt að semja við kröfuhafana um endurreisn þessara fyrirbæra voru þau látin gossa eins og hv. þingmaður veit. Þau fóru aldrei inn til Bankasýslunnar vegna þess að það hafði aldrei náðst samkomulag við kröfuhafa um stofnefnahagsreikninginn. Rétt eins og Glitnir og Arion banki fóru aldrei inn til Bankasýslunnar fyrr en búið var að ná samkomulagi við kröfuhafa um stofnefnahagsreikninginn. Hv. þingmaður getur reynt eins og félagar hans margir eru að gera að dorga í drullupollum og reyna að halda því fram að þar sé eitthvað misjafnt (Forseti hringir.) að finna … Það liggur allt fyrir um þessi skuldaraskipti og í greinargerð með þessu frumvarpi er að finna sérstaka staðfestingu á því að rétt var með farið að þessu leyti.