149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[14:47]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Bara svo það sé sagt efast náttúrlega enginn um hug hv. þingmanns til Sjúkrahússins á Akureyri. Það þarf enginn hér inni heldur að efast um góðan hug minn til þeirrar sömu stofnunar. En hins vegar er það sú staðreynd að færri eru á upptökusvæðinu en kannski dugar til að standa undir háskólasjúkrahúsi, alla vega að mínu mati.

Það sem mig langar hins vegar að ræða við hv. þingmann í seinna andsvari er áherslan sem þingmaðurinn leggur á í 3. kafla í áliti sínu, um forystu til árangurs, þ.e. um ábyrgð heilbrigðisstarfsmanna. Hún veltir því upp hvort þurfi að skilgreina hana nánar. Ég get að mörgu leyti tekið undir þessa hugmynd með hv. þingmanni að það sé alla vega einnar messu virði að taka einn snúning á því máli. En ég velti fyrir mér: Er ekki eðlilegra að sá snúningur væri þá tekinn í lögum um heilbrigðisstarfsmenn, að það væri þá skoðað gaumgæfilega, annaðhvort af ráðuneytinu eða þá hreinlega af einhverjum áhugasömum þingmönnum, hvort ekki mætti hnykkja betur á og skýra betur í lögum um heilbrigðisstarfsmenn hvar ábyrgðin á að liggja, því að við höfum alveg heyrt vangaveltur um það sem stundum er kallað samhangandi ábyrgð, eða á erlendu máli „kollektíf“ ábyrgð, forseti, sé kannski ekki nægilega heppileg þegar sjúklingar reyna að sækja rétt (Forseti hringir.) sinn með tilliti til þjónustu og kannski (Forseti hringir.) þess sem gæti hafa misfarist í þjónustu.