151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[16:18]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, þetta er allt dálítið undarlegt og virkar pínulítið á mann eins og verið sé að samþykkja hlutina eftir að þeir hafa í raun átt sér stað með þessum hætti. Við þekkjum þá umræðu alla að ætlan manna með nýju lögunum um opinber fjárlög var sú að fjáraukinn yrði úr sögunni nema í einhverjum öfgakenndum aðstæðum. Auðvitað hefur maður fulla samúð með því að aðstæður hafa verið mjög sérkennilegar og að sumu leyti erfiðar. En ég er alveg sammála því að það hlýtur þó að vera hægt að gera aðeins ríkari kröfur til framkvæmdarvaldsins um að þegar í upphafi — vissulega getur það verið erfitt, ég vil ekki draga úr því — sé betur gerð grein fyrir því hvernig það sem verið er að boða eigi að gerast. Ég held að það væri heppilegra í svona ástandi að þær heimildir væru veittar jafnóðum, að við værum bara með fleiri fjárauka í svona ástandi þannig að þingið gæti þá vegið og metið hvort því fé sem ætlað er í tiltekin verkefni sé vel varið. Það er hlutverk okkar að reyna eftir föngum eftirlit með því að svo sé. Það hlutverk verður fyrir borð borið að verulegu leyti með svona aðferðum, vegna þess að hvað eiga menn að gera ef menn fella fjáraukalagafrumvarpið? Hvar standa menn? Þá er þó í það minnsta fræðilegur möguleiki að það gerist.