136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

kostnaður við stjórnlagaþing.

[13:57]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mjög erfitt að svara spurningum í þáskildagatíð, þ.e. hvað hefðum við gert hefðum við haft einhverjar tilteknar upplýsingar á staðnum. (Gripið fram í: … upplýsingar.) Virðulegi forseti. Þessar upplýsingar komu fram á fundi stjórnarskrárnefndar í gær og ég upplýsti hv. þingmann um það. En hv. þingmaður er hins vegar á móti stjórnlagaþingi. (Gripið fram í.) Það er það sem skiptir máli. Hv. þingmaður er á móti stjórnlagaþingi og þetta er svona haldreipi sem hv. þingmaður grípur í til að þurfa ekki koma hér hreint fram og segja að hann sé á móti stjórnlagaþingi.

Það liggur líka fyrir að hv. þingmaður var spurður að því hvað ráðgefandi mundi þing kosta og hvort hann væri með eða á móti því. Það kom ekkert svar fram um það. Hv. þingmaður nefndi líka að Alþingi væri stjórnlagaþing. Að sjálfsögðu er það rétt. Hins vegar er rétt að rifja upp og minna á að allt frá árinu 1944 hefur staðið til að hv. Alþingi endurskoðaði stjórnarskrána en það hefur ekki tekist.

Hér er lögð fram tillaga um að gera þetta á annan hátt og ég tel mikilvægt að um það fari efnisumræða hvort skynsamlegt sé að gera það. Síðan, virðulegi forseti, munu þeir sem hér sitja eftir næstu kosningar setja lög um stjórnlagaþing, verði þessi stjórnarskrárbreyting að veruleika, og þá mun það ráðast hversu mikill þessi kostnaður verður. Og það er ekkert ólíklegt að hv. þm. Birgir Ármannsson verði á þeim vettvangi og taki fullan þátt í umræðunni um hvað þetta kunni að kosta. Hann leggur þá væntanlega sitt á vogarskálarnar í þeirri umræðu og ég vænti þess að hann geri það af stakri prýði.