144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við höfum rætt hér undanfarna daga stöðuna á vinnumarkaði. Það er ekki skrýtið þó að hún sé rædd hér. Hins vegar hefur fátt komið fram um það með hvaða hætti alþingismenn hyggjast reyna að leysa þá deilu sem ríkir á vinnumarkaði. Í mínum huga er deilan tvenns konar, annars vegar er hinn almenni vinnumarkaður í slag við Samtök atvinnulífsins um hærri laun að sjálfsögðu, að hinu leyti eru það fulltrúar BHM sem óska hærri launa og eru í slag við ríkið. Samt er hér talað dag hvern um það að ráðherrar eða ríkisstjórn eigi að ganga inn í málið með einum eða öðrum hætti. Við lesum það jafnframt í dagblöðum að komið hafa tilboð frá ríkinu. Ekki vitum við í hvaða veru þau eru, með hugsanlegum skattbreytingum og hugsanlegri hækkun persónuafsláttar, eitthvað sem við þekkjum öll úr umræðunni þegar órói ríkir á vinnumarkaði. Samt stöndum við hér og hrópum hástöfum um að einstaka menn í ríkisstjórn og svo hæstv. fjármálaráðherra komi hér og geri lítið úr fólki í landinu.

Virðulegur forseti. Mér finnst þessi umræða ekki til þess fallin að við leysum eitt eða neitt. Í fyrsta lagi eru alþingismenn í raun ekki í því hlutverki að leysa vinnudeilur. Við getum komið að því, framkvæmdarvaldið eða við sjálf, og boðað frumvörp til breytinga á skattkerfinu eða hækkunar á persónuafslætti. En við stöndum ekki hér og tölum um að allt sé ómögulegt þegar við höfum fram til þessa, hvorki þingmenn í stjórn né stjórnarandstöðu, ekki komið með eitt eða neitt annað (Forseti hringir.) en að tala um að jöfnuður og réttlæti eigi að ríkja. Þau orð eru góð og gild, en þau gilda ekki í beinum samningum frá (Forseti hringir.) þingmönnum yfir til verkalýðsforustunnar.