144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:20]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa óánægju með þessa niðurstöðu hæstv. forseta. Það segir skýrt í lögunum sem hér um ræðir að verkefnisstjórn fari með faglegt mat. Það hefur ekkert faglegt mat farið fram af hálfu verkefnisstjórnar á því hvort Hagavatnsvirkjun geti fallið í nýtingarflokk. Af þeirri ástæðu er jafn fráleitt að ganga fram með þeim hætti sem stjórnarmeirihlutinn leggur til eins og ef virkjun Gullfoss hefði verið bætt við í meðförum nefndarinnar.

Hér er líka um það að ræða að verið er að margfalda að umfangi þá þingsályktunartillögu sem lögð var fram í upphafi og hún er orðin óþekkjanleg. Hún var í upphafi um einn virkjunarkost í samræmi við viðurkennt verklag en er nú farin að snúast um allt aðra og stærri hluti. Það er þess vegna óumflýjanlegt, virðulegi forseti, að umræðunni verði frestað og okkur gefist ráðrúm til þess að afla annars lögfræðiálits og að málið verði ekki frekar tekið til afgreiðslu (Forseti hringir.) á meðan slíkt álit liggur ekki fyrir.