150. löggjafarþing — 105. fundur,  19. maí 2020.

dómstólar o.fl.

470. mál
[16:02]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Eins og fram hefur komið kemur þetta mál núna inn í þingið í þriðja sinn. Það hefur verið sent til baka vegna alvarlegra galla á því í hvert skipti sem hafa mikið til verið lagaðir þannig að það er mikið gleðiefni að allsherjar- og menntamálanefnd, sér í lagi hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, hafi staðið vaktina hvað þetta varðar. Við Píratar settum púður í að stöðva þetta mál á sínum tíma en núna er það orðið miklu betur úr garði gert.

Ég styð hæstv. fyrrverandi dómsmálaráðherra, Sigríði Á. Andersen, varðandi það að samt sem áður skipuðu dómstigin áfram þrjá. Að vísu er bara einn af þeim sem getur setið í dómnum á móti tveimur sem koma utan frá. Það er gott, en dómstólasýslan á að útfæra reglur um hvernig þessir þrír eru skipaðir úr hverju dómstigi fyrir sig. Nú er boltinn hjá dómstólasýslunni, hún þarf að útfæra þær reglur þannig að hafið sé yfir vafa að þessir þrír aðilar séu faglega valdir og á hæfnisforsendum. Ef það er gert verður þetta líklega farsælt (Forseti hringir.) en boltinn er hjá dómstólasýslunni sem verður að standa sig í því.