149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:09]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni svarið. Hluti af þeirri uppbyggingu sem fram undan er, annars vegar í tengslum við vindmyllur og hins vegar í tengslum við smávirkjanir, er flutningsnetið, flutningskerfið innan lands. Það hafa komið fram áhyggjur, m.a. af ástandi flutningslínunnar frá Dalabyggð yfir á sunnanverða Vestfirði, af kerfinu á þessum stöðum, og það er væntanlega víðar. Mér er í fersku minni frétt sem fjallaði um þetta, að núverandi flutningskerfi þoli ekki þá vindmyllugarða sem áætlaðir eru á svæðinu, Dalabyggð og þar um kring.

Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að þetta muni spila inn í uppbyggingu flutningskerfanna á þessum leiðum og það hvernig kostnaði við nauðsynlega uppbyggingu á flutningslínum verður dreift á þá sem kalla fram þessa auknu flutningsgetu og hina sem þurfa að borga fyrir hana?