150. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2020.

uppbygging í Helguvík.

[15:11]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég fagna því að umræða sé um öryggis- og varnarmálin og ég hef kallað eftir því að hún verði tekin meira á þessum vettvangi, að ég tali nú ekki um meðal þjóðarinnar. Eins og við vitum hefur lítið verið gert á öryggis- og varnarsvæðinu, ekki bara á undanförnum árum heldur undanförnum áratugum. Þar er orðin mikil viðhaldsþörf. Það er ánægjulegt að í þessum töluðu orðum, ef svo má að orði komast, erum við að fara í mestu viðhaldsframkvæmdir sem við höfum séð í mjög langan tíma. Það er líka gott að það komi akkúrat á þessum tíma og þegar allt er tekið saman eru þetta u.þ.b. 12,5 milljarðar. Síðast þegar eitthvað var gert, árið 2002, var það mjög lítið.

Hv. þingmaður vísar til þess að þegar kom að þeim aukafjárlögum sem voru gerð út af innviðauppbyggingu kom ég fram með hugmyndir sem ég tel skynsamlegar. Það þarf ekki að koma neinum á óvart að ég komi fram með slíkar hugmyndir og ég vonast til þess að við munum ræða þessi mál, ekki bara það sem snýr að þessari einstöku hugmynd heldur bara almennt þegar kemur að öryggis- og varnarmálum og hvernig við getum best staðið að þeim í nútíð og framtíð. Ég held að hv. þingmaður þekki mig alveg að þegar kemur að því að ég telji eitthvað sé skynsamlegt fylgi ég því eftir og ætla ekkert að sundurgreina hvernig það er gert. Hins vegar er fullkomlega eðlilegt að menn vilji ræða það, bæði innan ríkisstjórnar og annars staðar, og síðan komast menn að einhverri niðurstöðu þegar þar að kemur. Hins vegar hefur verið ánægjulegt að sjá að loksins eru menn farnir að ræða öryggis- og varnarmál.