149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

alþjóðasamvinna og staða ungs fólks.

[15:16]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður nefnir hér margt sem er mikilvægt en ég vil kannski fyrst segja að sú kynslóð sem birtist í þessari auglýsingu er kynslóðin sem hefur alist upp við að það sé eðlilegt að geta farið hvert á land sem er, a.m.k. innan EES-samstarfsins, til þess að leita sér náms eða vinnu. Það eru réttindi sem eru ekki sjálfgefin og urðu til vegna ákveðinna ákvarðana á þeim tíma. Nú er verið að vinna skýrslu um EES-samninginn og hvernig hann hafi reynst Íslandi. Ég held að það sé líka mikilvægt að þeirri vinnu verði lokið þannig að við fáum tækifæri til að ræða hana hér á þingi.

Hvað varðar hulduauglýsingarnar hef ég ákveðið að óska eftir því að nefnd sem hefur starfað um upplýsinga- og tjáningarfrelsi og skilaði til mín frumvörpum á því sviði skoði þau mál sérstaklega ásamt því sem framkvæmdastjórar stjórnmálaflokkanna hafa verið að skoða þessi mál í sinni vinnu um heildarlöggjöf um stjórnmálaflokka. (Forseti hringir.) En þetta er auðvitað miklu víðtækara efni. Því hef ég óskað eftir því við formann nefndarinnar að sú nefnd taki sérstaklega þessi mál til skoðunar.