149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:33]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. En ástæða þess að ég spyr er að ég er þeirrar skoðunar að í nótt og liðið kvöld hafi umræðan dýpkað talsvert mikið. Hún er enn að dýpka. Ég velti því fyrir mér, eftir alla þá yfirferð sem hér hefur átt sér stað, hvort það sé ekki rétt mat hjá mér að við innleiðingu þessarar gerðar frá Evrópusambandinu, afléttingu stjórnskipulegs fyrirvara, séum við orðin nokkuð sammála um að það verði í raun og veru engin undanbrögð með það að allt sem í innleiðingunni felst muni koma til kastanna hér á Íslandi. Ástæðan fyrir því að ég spurði um þetta með sæstrenginn sérstaklega er sú að ég velti fyrir mér hvort það sé einhver leið, ekki bara fyrir Pírata heldur hvern sem er, að geta verið fylgjandi (Forseti hringir.) innleiðingunni á þennan hátt, en á sama tíma á móti hluta af henni.