144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:03]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef áhyggjur af því að hér er um að ræða óafturkræfar ákvarðanir. Ein af þeim ákvörðunum sem er verið að leggja til er að virkja við Skrokköldu sem þýðir að við erum að fara inn á hálendi, en lagt hefur verið til að við búum til einn allsherjarþjóðgarð úr miðhálendinu. Það er krafa sem ég styð persónulega og ég tel að þarna haldi stjórnvöld á gríðarlegum verðmætum í höndum sínum, til framtíðar litið eigum við ósnortin víðerni, stærstu ósnortnu víðerni Evrópu. Hingað kemur fólk sem leitar eftir þeirri einstöku upplifun að vera í ósnortnu landi. Við eigum líka margar náttúruperlur utan þessa hálendis sem eru mikilvægar. Það sem er slæmt er að ræða svona mál úr samhengi við heildarstefnumótun um atvinnuuppbyggingu þar sem við höfum horft upp á gríðarlegar breytingar á undanförnum árum. Mér finnst eins og þær séu ekki teknar með. Mér finnst eins og hv. atvinnuveganefnd taki ekki með í reikninginn að ferðaþjónustan er orðin ein stærsta útflutningsgrein Íslands og nefndin er í raun, (Forseti hringir.) hvað getum við sagt, að taka ákvarðanir sem geta haft áhrif á ferðaþjónustuna til framtíðar.