144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

viðvera forsætisráðherra í umræðu um rammaáætlun.

[15:33]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson hefur sannarlega mikið til síns máls þegar hann efast um hæfi forseta til að úrskurða í þessu efni. Sú tillaga sem á að vera hér til umræðu er með breytingartillögu sem hann hefur flutt ásamt formanni atvinnuveganefndar. Þetta heitir á útlensku máli, ég bið þig afsökunar, hæstv. forseti, „conflict of interest“ og það er ekki gott.

Ég ætlaði aðallega að ræða um það bil sem virðist komið á milli forseta þingsins og forsætisráðherra ríkisstjórnarinnar. Forsætisráðherra virðist vera með einhvers hótun við þingmenn um að það verði sumarþing. Ég held að það sé enginn þingmaður hér sem (Forseti hringir.) er ekki tilbúinn að sitja sumarþing. Við þurfum hins vegar að vita hvað við eigum að ræða á þessu sumarþingi. Ég held að forsætisráðherra verði, áður en hann talar mikið meira um sumarþing, að koma með dagskrá fyrir sumarþingið.