149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:30]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég þakka fyrir upplýsingar um að hæstv. utanríkisráðherra sé vant við látinn og hafi lögmæt forföll. Um leið fagna ég því að hv. formaður utanríkismálanefndar skuli hins vegar hafa birst í þingsal og tekið til máls. Ég ætla að leyfa mér að vona að ummæli hennar verði ekki skilin á þann veg, sem mér þó heyrðist, að hún frábiðji sér frekari þátttöku í umræðum. Það er auðvitað afar mikilvægt að þeir sem bera ábyrgð á þessu máli séu hér til svara um þýðingarmikla þætti í málinu.

Hv. þm. Birgir Þórarinsson nefndi til að mynda fyrir skemmstu að það væri nauðsynlegt að fá skýringar á ýmsum ummælum sem komu fram hjá sérstökum álitsgjafa sem kallaður var til starfa á vegum utanríkisráðuneytisins, herra doktor prófessor Baudenbacher. Um ummæli hans er fjallað með mjög lofsamlegum hætti (Forseti hringir.) í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar og þess vegna er nauðsynlegt að formaður nefndarinnar sé þátttakandi í þessum umræðum og geri nánari grein fyrir þessu atriði og fleirum.