149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:47]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Ég er ekkert viss um að stjórnarþingmenn hafi fengið kynningu á orkupakka fjögur. Stundum hefur því verið haldið fram að þingmenn séu minnstu peðin á borðinu og það séu aðrir sem taki ákvarðanir sem skipta máli. Ég vel hreinlega að trúa því ekki að þeir ágætu hv. þingmenn sem oftast sitja hér með okkur séu svo fastir í framsögn sinni að þeir geti hafa séð hvað felst í orkupakka fjögur og velji að koma ekki hér til svara við okkur sem höfum ítrekað kallað eftir upplýsingum um hvað felst í orkupakka fjögur ef hann er kominn einhverja leið inn í okkar íslenska stjórnkerfi.

Ég ítreka að ég held að við þingmenn séum oft og tíðum minnstu peðin á borðinu. Við reynum að leita eftir svörum og sannleika í því sem við viljum halda á lofti og ég held að fólk geri það almennt af heilum hug. Það breytir ekki því að það væri ósköp gott fyrir okkur að fá kynningu á orkupakka fjögur sé hann komin inn í stjórnkerfið, ég verð að vera sammála því.