150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[20:16]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ætli sá sem vill ganga lengra sé ekki bara dæmdur til að finnast hitt metnaðarlaust, það má vera. Ég ætla svo sem ekki að vera að karpa um það. En til að svara hv. þingmanni hvað varðar kostnaðinn við barnastyrki þá þekki ég það ekki. Ég vona að við getum komist að því við nánari umræðu milli 2. og 3. umr. Eins og ég nefndi hér fyrr greiddi ég ekki atkvæði með því að málið yrði tekið úr nefnd, m.a. vegna þess að mér fannst vanta að það yrði skoðað. Vel má vera að það sé vitlaus hugmynd en þá þætti mér gott að fá rök fyrir því þó að rök hv. þingmanns geti reyndar vel verið góð og gild og ég skal bara íhuga þau.

Hvað varðar 30–40% breytinguna þá liggja þær tölur ekki fyrir. Ég reyndi að komast í þær en gat ekki fundið tölur sem ég gat treyst. Aftur á móti lít ég þannig á að þegar við gefum þennan afslátt gerum við það einungis í þeim tilfellum þar sem námsmaður hefur klárað nám með viðunandi hætti þannig að það er alltaf styrkur. Það er alltaf fjárfesting sem hefur heppnast, að mínu mati. Það sama á við um þá staðreynd að Noregi tekst að gera þetta. Þá hugsa ég með mér: Getum við ekki verið best í menntamálum, miðað við Noreg? Ég held að við getum það alveg. En aftur er það eitthvað sem ég myndi gjarnan vilja skoða betur.

Hvað varðar framfærsluna og að því sé beint til sjóðstjórnar að það sé skýr vilji meiri hluta nefndarinnar þá er ég einfaldlega ekki sannfærður, hvort sem ég tek inn í það þingreynslu mína eða ekki, um að það dugi. Ég held ekki að það dugi. Ég held að lögin verði áfram eins og þau eru efnislega. Ég held að sjóðstjórnin muni halda áfram að taka ákvarðanir um framfærslu út frá viðmiðum sem standast einfaldlega ekki. Mér finnst þurfa að vera einhver breyting, einhver leiðsögn, og tillagan mín er í 1. málslið breytingartillögunnar, þ.e. að við 2. mgr. 2. gr. bætist að framfærslukostnaður skuli aldrei vera lægri en sem nemi dæmigerðu (Forseti hringir.) neysluviðmiði samkvæmt útreikningum félagsmálaráðuneytisins. Þá er kominn lægri botn á það sem sjóðstjórnin getur síðan byggt ofan á, sem ég myndi vona að hún gerði en mér finnst þessi botn alla vega eðlilegur.