151. löggjafarþing — 108. fundur,  7. júní 2021.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[20:06]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Kæra þjóð. Þegar Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði í viðtali í vor að Íslandi væri að miklu leyti stjórnað af hagsmunahópum og það væri meiri háttar mál að lenda upp á kant við þá, voru mörkuð ákveðin tímamót. Með orðum sínum rauf seðlabankastjóri æpandi þögn æðstu ráðamanna þjóðarinnar um yfirgengilega ósvífni ákveðinna hagsmunahópa. Loksins hafði háttsettur embættismaður kjark til að segja það sem almenningur veit mætavel; að á Íslandi eru stórir og valdamiklir hagsmunahópar sem svífast einskis, sem reka fólk fyrir að gagnrýna þá og ofsækja þau sem veita þeim aðhald.

Þagnarmúrinn var rofinn og okkur gafst tækifæri til að ræða af alvöru um hvernig samfélag við viljum vera. Viljum við vera samfélag meðvirkni, afkomuótta og samtryggingar? Eða viljum við vera samfélag sem stendur á sínu og með sínum? En leiðtogar ríkisstjórnarinnar höfðu engan áhuga á því samtali. Þannig snerust fyrstu viðbrögð forsætisráðherra ekki um það sem seðlabankastjóri sagði heldur um það sem blaðamaðurinn tók viðtalið hefði átt að gera, sem var að krefja Ásgeir um dæmi, eins og hann þekkti bara engin dæmi.

Í viðtalinu gagnrýndi Ásgeir einnig kæru Samherja gegn starfsmönnum Seðlabankans og sagði, með leyfi forseta:

„Ég óttast það að mörgu leyti, í svona eftirlitsstofnun eins og Seðlabankinn er, að við lendum í því að við verðum hundelt persónulega eins og farið var á eftir þessu starfsfólki.“

Aftur var opnað á mikilvægt samtal. Þykir okkur sem samfélagi eðlilegt að opinberir starfsmenn í mikilvægum eftirlitsstofnunum eigi á hættu að verða kærðir persónulega af þeim sem eftirlitið beinist að? Leiðtogar ríkisstjórnarinnar höfðu heldur ekki áhuga á þessu samtali. Þegar fjármálaráðherra var inntur eftir viðbrögðum sagði hann að embættismenn með mikil völd yrðu auðvitað að vita það að væri þeim misbeitt gæti það haft afleiðingar.

Þá vitum við það. Fjármálaráðherra, sem aldrei hefur sætt afleiðingum fyrir að misbeita valdi sínu, sama hversu gróflega hann gerir það, vill að starfsfólk eftirlitsstofnana óttist afleiðingar eftirlitsstarfa sinna, rétt eins og fjölmiðlamenn eiga að óttast afleiðingar afhjúpana sinna, eða eins og skáld og fræðimenn eiga óttast afleiðingar gagnrýni sinnar, og jafnvel ráðherrar sem hagsmunahóparnir hafa ekki í vasanum eiga að óttast afleiðingar orða sinna í þessum ræðustól. Á meðan horfum við upp á hagsmunaaðila sem svífast einskis, sem reka skæruliðadeildir sem njósna um og rægja fólk sem þeim mislíkar, sem beita sér í kosningum og prófkjörum og plotta um að hræða fólk til hlýðni. Er þetta það samfélag sem við viljum, samfélag meðvirkni, afkomuótta og samtryggingar, samfélag þar sem verra er að benda á brotin en að fremja þau?

Kæra þjóð. Þessi gerendameðvirkni og þöggunartaktík sem birtist okkur er um margt lík þeirri sömu meðvirkni og konur hafa nú sagt stríð á hendur. Við sjáum sömu viðbrögðin og þegar góðu strákarnir brjóta á okkur. Þeir hafa jú gert svo margt gott. Ekki eyðileggja framtíð þeirra, ekki hafa hátt og alls ekki nefna nein nöfn. Meðvirkni með ofríki hagsmunahópanna er af þessum sama meiði, hún er kerfislæg og við sigrumst á henni með sömu verkfærunum; með samtakamætti, með því að hafa hátt og með því að hætta að púkka upp á fólk og flokka sem viðhalda henni.

Fram undan eru kosningar. Þögnin hefur verið rofin og markmið Pírata eru skýr. Við viljum að embætti skattrannsóknarstjóra verði tekið upp úr skúffunni sem fráfarandi ríkisstjórn stakk því ofan í. Við viljum að eftirlitsstofnanir hafi bolmagn til að sinna skyldum sínum í þágu almennings og að starfsmenn þeirra njóti verndar gegn persónulegum ofsóknum hagsmunahópa. Við viljum tryggja fjölmiðlafrelsi með betri réttarvernd blaðamanna og með mótvægisaðgerðum gegn afskiptum sérhagsmunaafla af ritstjórnarstefnu fjölmiðla. Við viljum allan afla á markað, alvöruhömlur á eignarhald fiskveiðikvóta og alvörugjald fyrir nýtingarrétt á öllum sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar. Og við viljum lögfestingu nýju stjórnarskrárinnar sem setur valdhöfum mörk og endurheimtir fiskinn úr sjónum úr klóm sægreifanna sem hafa fengið að vaða hér yfir allt á skítugum skónum allt of lengi, eða eins og Hallgrímur Helgason lýsti stöðunni:

„Við höfum ræktað þessa skúrka og leyft þeim að ráða hér öllu. Nú launa þeir okkur með því að sýna heiminum að íslensk spilling er besta spilling í heimi, hrein og tær eins og vatnið okkar og loftið. Svo tær að hún sést ekki á mynd nema Seljan tali undir.“

Kæra þjóð. Við skulum hætta að rækta þessa skúrka, hætta að leyfa þeim að ráða hér öllu. Það gerum við með því að kjósa flokka sem eru ekki meðvirkir þegar skúrkarnir brjóta af sér og láta ekki undan öllum þeirra kröfum, flokka sem setja þeim stólinn fyrir dyrnar, sem leiða ekki varðhunda hagsmunahópanna til valda þvert ofan í fögur fyrirheit um annað, flokka sem láta hagsmuni almennings sannarlega ganga fyrir hagsmunum örfárra auðmanna og stórfyrirtækja, flokka eins og Pírata.