151. löggjafarþing — 108. fundur,  7. júní 2021.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[20:12]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Kæru landsmenn. Upphafserindi úr ljóðinu „Endir og upphaf“ eftir pólsku skáldkonuna og Nóbelsverðlaunahafann Wislawa Szymborska, hljóðar svo, með leyfi forseta:

Að loknu hverju stríði

þarf að taka til.

Hlutir komast ekki

í samt lag af sjálfu sér.

Ljóðið í þýðingu Geirlaugs Magnússonar fjallar um stríðshörmungar. Engan veginn ætla ég að líkja saman baráttu við heimsfaraldur og eyðileggingu skot- og sprengjuárása en erindið fangar um margt tilfinningu og tímarúm atburðarásar síðustu mánaða sem hefur haft áhrif á allt okkar daglega líf, viðureign sem yfirtekur flest og rammar upphaf og þrá um að taki enda.

Kæru landsmenn. Atvinna, atvinna, atvinna, sagði formaður Framsóknarflokksins á degi stefnuræðu forsætisráðherra. Það var í október síðastliðnum í upphafi þingvetrar. Þá hafði faraldurinn geisað í nokkurn tíma. Óvissan var enn mikil og baráttan hafði snúist um varnir. Það var í algerum forgangi hjá stjórnvöldum að verja líf og heilsu. Sóttvörnum var beitt skynsamlega, bæði á einstaklingsbundinn hátt og með áður óþekktum samfélagslegum takmörkunum. Þjóðin stóð saman og stóð sig vel.

Hið efnahagslega varnarskipulag fólst í fjölmörgum leiðum til þess að verja efnahag fyrirtækja og heimila, m.a. í því að viðhalda ráðningarsambandi við launþega. Hlutabótaleiðin var samþykkt í fyrsta aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar í mars á síðasta ári. Nú í fjórða aðgerðapakkanum höfum við útfært hlutabætur í ráðningarstyrki og gangsett átakið Hefjum störf til þess að skapa a.m.k. 7.000 störf.

Allan tímann hefur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur staðið við fyrri áform um uppbyggingu. Kröftug viðbrögð og efnahagslegar aðgerðir til viðbótar kalla vissulega á hallarekstur ríkissjóðs og lántöku, en er alls ekki tapað fé heldur fjármunir sem styðja við efnahag heimila og fyrirtækja. Það dregur úr efnahagslegum samdrætti, eflir okkur og styrkir sem samfélag og leggur grunn að öflugri viðspyrnu.

Kæru landsmenn. Við Íslendingar höfum átt því láni að fagna að búa lengi við hátt atvinnustig í öllum samanburði og lítið atvinnuleysi. Vissulega oft í gegnum tíðina með fórnarskiptum verðlags á víxl við launahækkanir og kaupmáttarkjör. En öflugt atvinnulíf er og verður grundvöllur velferðar og forsenda aukinnar velsældar. Vinna, vöxtur, velferð — það er gömul saga og ný. Saga sem við í Framsókn kunnum og viljum og vinnum að.

Okkur hefur með tíð og tíma, með auknu samspili ríkisfjármála og peningamálastefnu, lærst og farnast betur að jafna sveiflur og mynda efnahagslegan stöðugleika. Auðnast að hlúa að ríkissjóði þannig að hann geti virkað og sinnt hlutverki sínu hverju sinni, í þágu okkar allra, staðið undir velferðarþjónustu, jafnað kjörin og mætt hagsveiflum. Ákallið er atvinna og við ætlum okkur að hefja störf.

Góðir landsmenn. Heilbrigðiskerfið hefur staðist mesta álagspróf sem engan óraði fyrir að hægt væri að leggja fyrir. Við erum auðvitað ekki útskrifuð í veiruhagfræði og samspil sóttvarna og efnahagsaðgerða er flókið. Okkur hefur þó með seiglu og samvinnu tekist að ná hingað og sannað og sameinast um að öll erum við almannavarnir og öll erum við ríkissjóður.

Við höfum þegar og hingað til nýtt sterka stöðu ríkissjóðs og beitt ríkisfjármálunum af alefli, með fjölbreyttum aðgerðum, gegn hagsveiflunni og til þess að verja hag heimila og fyrirtækja. Hlutir komast jú ekki í samt lag af sjálfu sér, eins og Nóbelsverðlaunaskáldið kvað. Og nú með góðum gangi bólusetninga er að birta til. Við höfum sannarlega snúið vörn í sókn. Sóknaraukningin byggir á traustum grunni, grunni auðlinda, á grunni stöðugleika, efnahagslegum og pólitískum, og á grunni þeirra samfélagslegu innviða sem við höfum náð að treysta verulega á kjörtímabilinu. En sóknarmöguleikinn nú byggir ekki síst á grunni þeirrar þrautseigju og samvinnu sem býr með þjóðinni og við höfum sýnt og staðið saman nú sem fyrr þegar verulega reynir á.

Kæru landsmenn. Við í Framsókn erum stolt af ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Við höfum nýtt kjörtímabilið vel til að byggja upp samfélagslega innviði og búum að því nú, út úr faraldrinum til öflugrar viðspyrnu. Stærsta áskorunin næstu misserin verður að skapa atvinnu, fjárfesta í fólki, skapa verðmæti og vaxa til aukinnar velsældar. Sóknin þarf að vera markviss og samstillt, græn, stafræn og félagsleg sókn. — Góðar stundir.