144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

um fundarstjórn.

[15:19]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég tek fram að ég hef ekkert út á fundarstjórn hæstv. forseta að setja sem er með miklum ágætum. Hins vegar geri ég athugasemdir við það að menn fari í ræðustól undir þessum lið og ræði efnislega um mál, kalli eftir því að hér fari fram efnisleg umræða en hleypi málinu ekki á dagskrá, haldi þinginu í gíslingu málþófs stjórnarandstöðunnar. Þannig er einfaldlega ástandið í þinginu í dag. Hér er í gangi málþóf af hálfu stjórnarandstöðunnar sem talar sig bláa í framan um fundarstjórn forseta (Gripið fram í.) sem er með hreinum ágætum.

Ég bendi enn og aftur á ágæta tillögu formanns Samfylkingarinnar um að fara að telja hausa og finna út afstöðu stjórnarþingmanna gagnvart því máli sem er hér á dagskrá. Það verður gert með því að umræðunni um málið verði lokið í þingsalnum og við tökum málið síðan í atkvæðagreiðslu.