150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[19:29]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér finnst mér löggjafinn koma vilja sínum mjög illa á framfæri. Það þarf ekki að festa einhverja tiltekna krónutölu í lögin. Það er hægt að hafa einhver viðmið eins og t.d. þau sem bæði 1. og 2. minni hluti hafa lagt til. Þótt það sé reyndar orðað ögn mismunandi var hugmyndin sú sama, þ.e. að leggja áherslu á að þetta eigi raunverulega að duga til framfærslu.

Mér finnst skrýtið þegar Alþingi segir að lánin eigi að duga til framfærslu en vill samt ekki breyta neinu af því sem þegar er komin mjög löng reynsla á og er algerlega ljóst að dugar ekki til framfærslu. Þarna sé ég ákveðna mótsögn. Mér finnst Alþingi þurfa að taka af skarið, gera einhverja breytingu ef það á að standa við þá ósk, sem mér sýnist allir þingmenn deila sem tjá sig um þetta mál, að þau skuli duga til framfærslu. Ég skil ekki hvað það er við orðin í nefndarálitinu eða við nýja frumvarpið sem ætti að breyta því, sem þegar er komin reynsla á, að það dugar ekki til framfærslu. Það er alveg ljóst að það dugar ekki til framfærslu og ég sé ekkert benda til þess að það muni breytast á þremur árum.