151. löggjafarþing — 108. fundur,  7. júní 2021.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[19:58]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Kæru landsmenn. Það gengur ýmislegt á hér á þessum vettvangi og oft er sagt að vika sé langur tími í pólitík. Fjögur ár eru það líka og hafa ýmsar vendingar orðið á því kjörtímabili sem lýkur nú í haust. Það er því einstaklega ánægjulegt að líta til baka og sjá uppskeru erfiðisins eftir fyrsta kjörtímabilið þar sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð leiðir ríkisstjórn. Vinstrihreyfingin – grænt framboð er afl sem byggir á fjórum grunnstoðum: Kvenfrelsi, umhverfis- og náttúruvernd, félagslegu réttlæti og alþjóðlegri friðarhyggju.

Við á vinstri vængnum höfum lengi haft það orð á okkur að vera óstjórntæk. Að við kunnum bara að vera fúl á móti. En ég tel að þetta kjörtímabil hafi sannað að Vinstrihreyfingin – grænt framboð er afl sem þorir. Það þarf kjark til að stíga inn og leiða umdeilt ríkisstjórnarsamstarf með pólitískum andstæðingum. Og það þarf kjark til að af slíku samstarfi náist eins mikill málefnalegur árangur og reynst hefur á þessu kjörtímabili. Það er ánægjulegt að tilheyra stjórnmálaafli sem lætur verkin tala og kemur stefnu sinni til framkvæmda.

Þannig búum við nú að þrepaskiptu tekjuskattskerfi sem nýtist best þeim tekjulægstu í samfélaginu. Þá hefur verið dregið úr skerðingum í almannatryggingakerfinu, dregið úr skerðingum á greiðslum til öryrkja og tekinn upp félagslegur viðbótarstuðningur við aldraða. Þá hafa barnabætur og atvinnuleysisbætur verið hækkaðar. Við erum á réttri leið og halda þarf áfram að styðja við þau tekjulægstu og þau sem styðjast við almannatryggingakerfið. Til þess er það jú, að við grípum hvert annað þegar á þarf að halda.

Með nýjustu kjarasamningunum stigum við sem samfélag svo risastórt skref með innleiðingu styttingu vinnuvikunnar. Styttingu vinnuvikunnar er ætlað að vera sannkölluð lífskjarabót, enda á hún að veita öllum meiri frítíma á fullum kjörum. Ég hlakka til að fylgjast með því á næstu árum hvernig okkur tekst til í því stóra verkefni og vona að við náum að slétta úr öllum hnökrum sem upp hafa komið í byrjun.

Þegar ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við árið 2017 var fæðingarorlofið níu mánuðir. Nú er það tólf mánuðir. Heilt ár sem nýbakaðir foreldrar hafa til að verja með börnunum sínum í frumbernsku.

Fólk hefur aukin tækifæri til að stíga sín fyrstu skref á húsnæðismarkaði, m.a. með tilkomu hlutdeildarlána. Stuðningskerfi við börn hafa verið endurskoðuð frá grunni með það að leiðarljósi að bæta hag barna sem þurfa á sértækri þjónustu að halda.

Kæru landsmenn. Réttindi trans, kynsegin og intersex fólks hafa verið tryggð. Ný jafnréttislög hafa verið samþykkt. Vernd uppljóstrara er nú lögfest og upplýsingaréttur almennings hefur verið rýmkaður til muna. Þá hafa lög um varnir gegn hagsmunaárekstrum og um skráningu raunverulegra eigenda verið samþykkt sem stuðla að auknu gagnsæi. Svo gæti ég lengi talað um aðgerðir ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur í átt að jöfnuði og réttlátara samfélagi, svo ekki sé minnst á þrotlausa vinnu hæstv. forsætisráðherra til að gera mikilvægar breytingar á stjórnarskrá okkar Íslendinga. Nú höfum við sem hér eigum sæti í þessum sal tækifæri til að stíga skrefið og gera breytingar á því mikilvæga grunnplaggi okkar sem stjórnarskráin er.

Virðulegi forseti. Með Svandísi Svavarsdóttur við stjórnvölinn í heilbrigðiskerfinu hefur heilsugæslan verið stórefld um allt land sem fyrsti viðkomustaður allra sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda. Stór skref hafa verið stigin til að lækka kostnaðarþátttöku sjúklinga, enda á fjárhagur aldrei að vera hindrun í vegi fólks sem þarf að sækja sér heilbrigðisþjónustu. Nýr Landspítali rís við Hringbraut og stórsókn hefur orðið í geðheilbrigðismálum. Tímamót urðu vorið 2019 þegar samþykkt voru ný lög um þungunarrof sem tryggðu sjálfsákvörðunarrétt kvenna. Í fyrsta skipti í sögunni hefur verið samþykkt hér á Alþingi heilbrigðisstefna sem er leiðarljós okkar til áframhaldandi góðra verka. Þá er ótalin sú trausta forysta sem hæstv. heilbrigðisráðherra Svandís Svavarsdóttir hefur sýnt í baráttunni við heimsfaraldurinn. Nú eru tæp 64% fullorðinna bólusett. Það sér fyrir endann á þessu öllu saman. Margar voru vafaraddirnar hér fyrir ekki svo löngu. — Takk, Svandís, takk, þríeyki, og takk, þið öll sem hafi staðið ykkur svo frábærlega vel í gegnum þennan faraldur.

Hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra og varaformaður Vinstri grænna hefur friðlýst hverja náttúruperluna á fætur annarri á tímabilinu. Þannig höfum við tryggt að náttúran njóti vafans. Hæstv. ráðherra hefur jafnframt verið í forystu við mikilvæg skref í innleiðingu hringrásarhagkerfisins, meðal annars með banni við markaðssetningu einnota plasts. Þær breytingar eru ekki alltaf vinsælar, enda krefjast þær þess af okkur að við tökum okkar daglegu venjur til endurskoðunar. En þær skipta máli, auk þess sem mannskepnan býr yfir ótrúlegri aðlögunarhæfni. Þetta eru mikilvæg skref og verða von bráðar sjálfsagður hluti af lífi okkar. Auk þess hefur hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra lagt hér fram og fengið samþykkta fullfjármagnaða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum í fyrsta sinn.

Lengi vel voru Vinstri græn eini flokkurinn sem setti náttúruvernd og loftslagsmál í forgang, enda var hlegið að fjallagrasaétandi lopapeysuliðinu í Vinstri grænum á sínum tíma. Nú eru tímarnir blessunarlega aðrir og allir flokkar hafa umhverfismál á stefnuskrá sinni í einhverri mynd. Þá er það til marks um heilbrigt samfélag að svo margir hafi áhuga á hálendinu okkar eins og hefur sýnt sig við vinnslu máls um hálendisþjóðgarð. Ég hef fulla trú á því að slíkur garður verði að veruleika og verði okkur öllum til sóma.

Kæru landsmenn. Verkinu á þingi lýkur aldrei hér á þessum vettvangi enda er samfélagið lifandi og tekur sífelldum breytingum. Nú í vor þurftum við sem samfélag að horfast í augu við sjálf okkur þegar enn ein #metoo-byltingin leit dagsins ljós. Frásagnir þolenda af ofbeldi láta engan ósnortinn. Í þessum málaflokki hafa verið stigin mikilvæg skref. Við höfum gert stafrænt kynferðisofbeldi refsivert, sem er réttarbót fyrir þolendur sem hafa hingað til mætt skilningsleysi. Við höfum samþykkt og fjármagnað áætlun um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Við höfum styrkt löggjöf um mansal. Það er málaflokkur sem þarf að vera í sífelldri endurskoðun eftir því sem samfélagið breytist. Í síðustu viku voru kynntar viðamiklar aðgerðir fyrir gerendur í ofbeldismálum. Það er von mín að allar þær aðgerðir sem hrint hefur verið í framkvæmd á kjörtímabilinu skili raunverulegum árangri í þessum mikilvæga málaflokki.

Góðir landsmenn. Kjörtímabili er að ljúka. Í fyrsta sinn síðan árið 2013 hefur setið hér sama ríkisstjórn í heilt fjögurra ára kjörtímabil. Kannanir sýna að mikil ánægja er með störf Katrínar Jakobsdóttur í stóli forsætisráðherra. Raunar ber hún höfuð og herðar yfir aðra stjórnmálaleiðtoga þegar fólk er spurt hver það vilji að leiði ríkisstjórn. Í haust eru kosningar og þar bjóðum við Vinstri græn fram krafta okkar til að leiða samfélag okkar og bæta. En gott fólk, fyrst kemur sumar og óska ég þess að þið njótið öll lífsins umkringd fólkinu ykkar, hvort sem það er á ferðalagi hér innanlands eða að gæfan fylgi ykkur til ferðalaga á erlendri grundu. — Gleðilegt sumar.